Nýtt lag með Beck

Hinn fjölhæfi tónlistarmaður Beck Hansen gaf út lagið Blue Moon í dag, en það er hið fyrsta til að heyrast af væntanlegri breiðskífu, Morning Phase, sem kemur út síðar á árinu. Lagið er ljúfsár ballaða sem minnir nokkuð á plötu Beck frá 2002, Sea Change. Heil sex ár eru liðin frá síðustu hljóðversplötu Beck, Modern Guilt, sem hann vann í samstarfi við upptökustjórann Dangermouse árið 2008. Hlustið á lagið hér fyrir neðan.

Tónleikahelgin 16. – 18. janúar

Fimmtudagur 16. janúar

Snorri Helgason kemur einn fram í menningarhúsinu Mengi að Óðinsgötu 2 vopnaður alls kyns gíturum og banjó & mun spila gamla þjóðlaga- & sálartónlist eftir aðra ásamt nóg af nýrri, frumsaminni tónlist. Aðgangseyrir er 2000 krónur og hefjast tónleikarnir klukkan 21:00.

Good Moon Deer spila á tónleikum á Harlem ásamt dj flugvél og geimskip og Just Another Snake Cult. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og kostar 1000 kr inn.

Metalböndin Aeterna, Narthrall og Wistaria koma fram á Gamla Gauknum. Frítt inn.

 

Föstudagur 17. janúar

Arnljótur Sigurðsson úr Ojba Rasta heldur útgáfutónleika á nýrri plötu sinni, Línur í menningarhúsinu Mengi. Aðgangseyrir er 2000 krónur og hefjast tónleikarnir klukkan 21:00.

Skúli mennski blæs til sóknar 2014 og heldur sína fyrstu tónleika á árinu á Café Rosenberg. Tónleikarnir hefjast því sem næst á slaginu 22:00 og það kostar 1500 krónur inn.

Á Gamla Gauknum munu Cell7, Amaba Dama, Les Ballet Barkan, Rvk Soundsystem, Kött Grá Pje og Ribbaldarnir sjóða saman heljarinnar tónlistarveislu til að fagna nýju ári. Húsið opnar kl.21 og tónleikarnir hefjast kl.22. Aðgangseyrir er 1000 kr

 

 

Laugardagur 18. Januar

dj. flugvél og geimskip kemur fram í Mengi.  Aðgangseyrir er 2000 krónur og hefjast tónleikarnir klukkan 21:00.

 

Kurt Vile og Swans á ATP

Sex erlendum hljómsveitum hefur nú verið bætt við dagskrá All Tomorrow’s Parties hátíðarinnar sem fer fram á Ásbrú 10.-12. júlí næstkomandi: Kurt Vile & The Violators, Swans, Fuck Buttons, The Haxan Cloak, Forest Swords og Eaux. Kurt Vile var áður í hljómsveitinn War on Drugs en síðasta sólóskífa hans, Walking on a Pretty Daze, hefur hlotið afbragðsdóma gagnrýnanda og var fimmta besta plata ársins að mati straum.is. Hin sögufræga stórsveit Swans átti að koma til Íslands á þarsíðustu Airwaves hátíð en þurfti frá að hverfa vegna fellibylsins Sandy, og þess vegna ánægjulegt að hana reki loksins á strandir landsins.

Kurt Vile & The Violators og Swans verða á meðal þeirra sem koma fram fimmtudaginn 10. júlí. Fuck Buttons og The Haxan Cloak koma fram föstudaginn 11. júlí ásamt Portishead sem tilkynnt var að kæmi fram á hátíðinni í síðustu viku. Forest Swords og Eaux munu spila á lokadegi hátíðarinnar laugardaginn 12. júlí ásamt Interpol sem einnig var tilkynnt í síðustu viku.

Áður var einnig búið að tilkynna hljómsveitirnar Mammút, For a Minor Reflection, Samaris, Sóley og Low Roar á hátíðina. Fleiri hljómsveitir sem fram koma á hátíðinni verða kynntar á næstu vikum en hægt er að lesa umfjöllun straum.is um síðustu All Tomorrow’s Parties hátíð hér. Hlustið á tóndæmi með sveitunum hér fyrir neðan.



Straumur 13. janúar 2014

Í Straumi í kvöld heyrum við nýtt efni frá Broken Bells, Saint Pepsi, A Sunny Day In Glasgow, Sun Kil Moon, Jenny Lewis, Eternal Summers og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra á slaginu 23:00 á X-inu 977!

1) After The Disco – Broken Bells
2) Mr. Wonderful – Saint Pepsi
3) Come Alive (ft. Toro Y Moi) – Chromeo
4) In Love With Useless (The Timeless Geometry In The Tradition Of Passing) A Sunny Day in Glasgow
5) Gouge – Eternal Summers
6) Obstacle Eyes – Morgan Delt
7) Leaves Like Glass – Woods
8) Ben’s My friend – Sun Kil Moon
9) Hot Tonight – Tokyo Police Club
10) Probably Nu It – Tree
11) Completely Not Me – Jenny Lewis
12) King Brute (ft. Shanghai Den) – FaltyDL
13) Samira – (ft. Fred Avril & Shadi Khries) – Acid Arab
14) Pulsing (ft. Nina K) – Tomas Barfod
15) No Time – Jay Reatard

 

Tónleikahelgin 8.-11. janúar

Miðvikudagur 8. janúar

Hljómsveitirnar Oyama, Halleluwah og Hljómsveitt munu troða upp á nýja skemmtistaðnum Paloma sem er fyrir ofan Dubliners í Naustinni 1-3. Oyama hyggjast spila nýtt efni á tónleikunum en sveitin vinnur nú að sinni fyrstu breiðskífu. Halleluwah er verkefni Sölva Blöndal sem áður var í Quarashi en honum til halds og trausts er söngkonan Rakel Mjöll. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er frítt inn.

 

Á Gamla Gauknum stíga sveitirnar Skerðing og While My City Burns á stokk. Aðgangur er ókeypis og leikar hefjast klukkan 21:00.

Fimmtudagur 9. janúar

Michael Anderson, betur þekktur undir listamansnafninu DREKKA, kemur fram á tónleikum á Dillon. DREKKA spilar draumkennda industrial tónlist sem mætti líkja við hljómsveitir á borð við Coil og The Shadow Ring. Á næstunni kemur út plata frá honum á DAIS útgáfunni (Iceage, Psychic TV, Cold Cave) sem tekin var upp á Íslandi. Honum til halds og trausts verða tónlistarmaðurinn Þórir Georg, Kælan Mikla og Börn. Tónleikarnir hefjast 22:00 og aðgangur er ókeypis.

 

Það verður þungarokksveisla á Gamla Gauknum þar sem Blood Feud, Darknote og Wistaria munu þeyta flösu. Tónleikarnir hefjast upp úr 21:00 og ókeypis er inn.

Föstudagur 10. janúar

Reggístórsveitin Ojba Rast kemur fram á Gamla Gauknum en önnur breiðskífa sveitarinnar, Friður, kom út í vetur og hefur fengið feikna góðar viðtökur. Dyrnar opna 21:00, tónleikarnir byrja 22:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur.

 

Stuð- og gleðisveitin Babies kemur fram á hip hop staðnum Prikinu. Aðgangseyrir er ekki til staðar og fjörið hefst klukkan 22:00.

 

Tónskáldahópurinn S.L.Á.T.U.R. fagnar nýju ári með tónleikum í Mengi við Óðinsgötu 2. Þar verður flutt glæný tónlist fyrir klarinettur sem hafa verið undirbúnar sérstaklega, breyttar og endurhannaðar til að kalla fram nýjan hljóðblæ, nýjar stillingar og framlengja möguleika hljóðfærisins. Fjórir klarínettuleikarar munu flytja tónlistina en tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Það verður metalveisla á Dillon og hljómsveitirnar Darknote og Jötunmóð koma fram. Aðgangseyrir er enginn og málmurinn byrjar að óma á slaginu 22:00.

Laugardagur 11. janúar

Skóglápsrokkararnir í Oyama verða aftur á ferðinni á laugardagskvöldinu, að þessu sinni í Gym & Tonik salnum á Kex Hostel. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

 

Það verður bluegrass hátíð á Gamla Gauknum en þar kemur fram hljómsveitin Illgresi ásamt Hjalta Þorkelssyni (var í sveitinni Múgsefjun) og öðrum góðum gestum. Hljómleikarnir hefjast klukkan 22:00.

 

Hljómsveitirnar Fivebellies og Dýrðin stíga á stokk á Dillon. Lætin hefjast 22:00 og aðgangseyrir er ókeypis.

 

 

 

Straumur 6. janúar 2014

Í fyrsta Straumi ársins verður nýjasta plata Stephen Malkmus & The Jicks tekin fyrir, við heyrum einnig nýtt efni frá Danny Brown, Sbtrkt, Tokyo Police Club og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra á X-inu 977 klukkan 23:00 í kvöld.

Straumur 6. janúar 2014 by Straumur on Mixcloud

1) Planetary Motion – Stephen Malkmus & The Jicks
2) Houston Hades – Stephen Malkmus & The Jicks
3) Shibboleth – Stephen Malkmus & The Jicks
4) Chartjunk – Stephen Malkmus & The Jicks
5) My Molly – Sky Ferreira & Ariel Pink
6) Step (Remix) [ft. Danny Brown, Heems, and Despot] – Vampire Weekend
7) r u n a w a y – Sbtrkt
8) Argentina (Parts I, II, III) – Tokyo Police Club
9) Red Eyes – The War On Drugs
10) Birth In Reverse – St. Vincent
11) Digital Witness – St. Vincent
12) Faith – I Break Horses
13) Berceuse – I Break Horses
14) Weigh True Words – I Break Horses
15) Windstorm – School Of Seven Bells


Portishead og Interpol á ATP

Portishead og Interpol verða stærstu hljómsveitirnar á ATP-hátíðinni á Ásbrú  dagana 10.-12. júlí en hvorug hljómsveitin hefur komið fram áður á Íslandi. Portishead verður stærsta nafnið föstudaginn 11. júlí og Interpol stærsta nafnið laugardaginn 12. júlí. Hljómsveitirnar Mammút, For a minor Reflection, Samaris, Sóley og Low Roar verða einnig á meðal þeirra hljómsveita og tónlistarmanna sem koma fram á hátíðinni. Á næstu vikum verður tilkynntur fjöldinn allur af erlendum og íslenskum hljómsveitum til viðbótar.  Áætlað er að tónlistardagskrá hátíðarinnar standi frá 19:00-02:00 alla hátíðardagana og munu í heildina um 25 hljómsveitir koma fram.

Miðasala fer fram á midi.is, í verslunum Brim og atpfestival.com. Þriggja daga hátíðarpassar kosta 18.500 kr. og dagspassar kosta 12.900 kr. Einnig er hægt að kaupa hátíðarpassa og dagspassa með rútuferðum frá BSÍ. Nánari upplýsingar á midi.is.

ATP verður haldin á Ásbrú, fyrrum varnarliðssvæðinu, sem á sér sögu sem rekur aftur til ársins 1941 en bandaríski herinn yfirgaf svæðið árið 2006. Svæðið er staðsett í fimm mínútna aksturfjarlægð frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Reykjanesbæ, um korter frá Bláa Lóninu og hálftíma frá höfuðborgarsvæðinu. Á hátíðarsvæðinu verða tvö svið sem bæði eru innandyra, auk annars konar skipulagðrar dagskrár sem felur meðal annars í sér kvikmyndasýningar, Popppunkt, fótboltamót þar sem hljómsveitir etja kappi við gesti hátíðarinnar o.fl.

Tónleikahelgin 2.-4. janúar

Fyrsta helgi nýja ársins fer rólega af stað en þó eru nokkrir tónleikar sem vert er að drífa sig út úr húsi fyrir.

Fimmtudagur 2. janúar

Á Gamla Gauknum koma fram Leiksvið Fáránleikans, Casio Fatso og Gímaldin Magister. Það er frítt inn og hurðin opnar klukkan 21:00.

Föstudagur 3. janúar

Pascal Pinion koma fram á hinum nýopnaða stað Mengi á Óðinsgötu 2. Systurnar spila lágstemmt jaðarpopp þar sem ýmis hljóðfæri koma við sögu, lítil og stór hljómborð, gítarar, fótbassar og trommupedalar. Aðgangseyrir er 2000 krónur og tónleikarnir hefjast klukkan 21:00.

Blásið verður til allsherjar rokkveisla á Gamla Gauknum. Íslensku rokksveitirnar Coral og Telepathetics ætla að rísa upp frá dauðum þessa einu kvöldstund og rokka kofann eins og árið sé 2004. Pönkhundarnir í Morðingjunum koma einnig fram. Aðgangseyrir er 500 krónur og tónleikarnir hefjast uppúr tíu en aðstandendur lofa sveittasta giggi ársins 2014.

Laugardagur 4. janúar

Þjóðlagapoppsveitin The Evening Guests kemur fram ásamt öðrum gestum á Gamla Gauknum. Það er ókeypis inn og dyrnar opnast 21:00.

Ólöf Arnalds heldur fyrstu tónleika sína á árinu á afmælisdegi sínum 4. janúar. Gleðin verður haldin á Mengi við Óðinsgötu 2.