Sóley Stefánsdóttir byrjaði feril sinn í hljómsveitinni Seabear og spilaði í fyrsta skiptið á Iceland Airwaves með henni árið 2008. Fyrsta útgáfa Sóley Theater Island EP kom út árið 2010 og platan We Sink fylgdi í kjölfarið árið 2011. Frá útgáfu hennar hefur Sóley vakið mikla athygli utan landsteinana og ferðast með tónlist sína vítt og breitt um heiminn. Sóley situr fyrir svörum í Airwaves yfirheyrslu dagsins.
Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?
Áður en ég varð tvítug þá þræddi ég OFF venjú tónleika airwaves og mér eru minnistæðastir tónleikar Hot Chip í 12 tónum árið 2005, mér fannst þeir algjör snilld og fyrsta platan þeirra er líka tryllt!
Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?
Það var í Listasafni Reykjavíkur árið 2008 með hljómsveitinni Seabear. Það var geðveikt gaman, við vorum reyndar nýkomin af frekar brjáluðu 5 vikna tónleikaferðalagi (þar sem Ísland hrundi á meðan!) en það var mjög gaman að loka þeim túr með skemmtilegum tónleikum í Listasafninu, fullt af fólki og brjáluð stemning (allavega í minningunni)!
Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?
Ég hef spilað síðan 2008, 5 hátíðum.
Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?
Bara ef ég hugsa til ársins í fyrra þá voru Dirty Projectors svo fáránlega góð læv að ég bara stóð og gapti…
Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálf?
Mér fannst mjög gaman í fyrsta skipti sem ég spilaði sóló dótið mitt en það var í Kaldalóni árið 2011, alveg stappfullur salur og ég að spila músíkina mína í fyrsta skipti á íslandi. mjög gaman!
Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?
Mér finnst Iðnó alltaf rosa sjarmerandi staður.
Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?
Beach House árið 2011, ég var að spila á sama tíma með Sin Fang.
Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?
Uhh hafa gaman!
Hverju ertu spenntust fyrir á hátíðinni í ár? Erlent/innlent?
Ég er mjög spennt að sjá múm og sænsku tónlistarkonuna Anna Von Hauswolf, Yo La tengo og Krafwerk ef ég fæ miða. Líka Omar souleyman bara afþví hann heitir næstum því sóley, djók. En ég er ekki alveg búin að kíkja nógu vel á þetta…
Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?
Þetta er náttúrulega fyrst og fremst árshátíð fyrir tónlistarsenuna á Íslandi. Og svo eru nú alltaf eitthvað bisness fólk í salnum og ég vinn til dæmis núna með rosa fínum bókara sem mætti á tónleika með mér í fyrra.
Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit/hljómsveitir?
Bara allt þetta örugglega. Ég hef verið svo heppin að ég er búin að vera að túra síðan fyrsta platan mín kom út árið 2011 og það er kannski svoldið erfitt að segja hvað kemur beint í gegnum Iceland Airwaves en ég held að þetta tengist allt. Fólk kemur og sér tónleika, segir fleira fólki frá eða bransa fólk sem hefur samband eftir hátíðina…
Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin? Af hverju?
Þær hafa allar sinn sjarma og góðu minningar…
Kraftwerk eða Yo La Tengo?
uhhh, þetta er svolítið eins og að spyrja mig hvort mér finnist súkkulaði eða sushi betra. bæði betra!
Listasafnið eða Harpa?
Fer algjörlega eftir tónlistinni, partýið í Listasafninu og allskonar í Hörpu.
Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?
Í ár er ég bara að spila með sjálfri mér (sóley) og það verður bara hægt að fylgjast með á facebook: www.facebook.com/soleysoleysoley
Mynd: Sebastien Dehesdin