Airwaves yfirheyrslan – Ívar Nolo

Hljómsveitin Nolo spilaði fyrst á Iceland Airwaves árið 2009 þá sem tvíeyki. Nú hafa þeir félagar bætt við sig þriðja meðlimnum sem spilar á trommur. Við kölluðum Ívar Björnsson hljómborðsleikara hljómsveitarinnar til yfirheyrslu og spurðum hann út í reynslu hans af Iceland Airwaves.

 

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?


Fyrsta Airwaves hátíðin sem ég fór á var einmitt árið 2009 þegar Nolo var rétt að byrja. Við höfðum aldrei farið áður á hátíðina sem gestir og það eftirminnilegasta var sennilega að spila fyrir fullu húsi í brjálaðri stemningu, sem ný hljómsveit vorum við ekki vanir því.
Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves? 

Ég hef aðeins spilað á Airwaves með Nolo. Fyrsta Upplifunin var frábær og aðrar hljómsveitir eins og Sudden Weather Change hjálpuðu okkur að aðlagast nýjum aðstæðum. Það var gaman að kynnast svona mörgum hljómsveitum á stuttum tíma og maður lærði heilmikið eins og t.d. að hlaupa á milli tónleika og vera á 100% tempói yfir daginn að róta. Nolo hefur spilað frá því árið 2009 og er þetta fimmta hátíðin í röð sem við spilum á árið 2013.

 

 

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?

Ég myndi segja fyrstu tónleikarnir okkar Nolo á Airwaves. Að spila fyrir fullu húsi (þá Grand Rokk) var bara sturlun og að heyra fólk syngja með lögunum okkar var eitthvað sem við vorum ekki vanir. Annars er líka gaman að segja frá því þegar við spiluðum í Listasafninu í fyrra en þá var einmitt hápunktur stormsins mikla í gangi. Þakið ætlaði að rifna af húsinu bókstaflega. Vindurinn var gríðarlegur og ekki mátti miklu muna að þakið myndi fjúka í sjóinn (sem hafði gerst víst áður…)

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?


Þeir eru nokkrir, Dirty Projectors í fyrra voru frábær og magnað að sjá hversu góð þau eru live. Neon Indian voru einnig mjög flottir ásamt Beach House sem maður heillast mikið af.

 

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

Það eru fleiri erlendar sveitir og ferðamenn að bætast inn á hátíðina ár eftir ár sem er bara gott. En Airwaves reynir alltaf að fá til sín efnilegar hljómsveitir sem eru við það að „meika það“ og það held ég að hafi ekkert breyst í gegnum síðustu ár. Ég myndi segja að þróunin hafi verið góð þessi 5 ár sem ég hef tekið þátt í.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Það var mjög gaman að spila í salnum Kaldalón í Hörpunni árið 2011. Svo er Listasafnið einnig frábær staður til þess að spila á en við vorum einmitt þar í fyrra og endurtökum leikinn nú í ár.


Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

Engum, nema það þegar The Rapture komu hingað og spiluðu á Airwaves (2002) en maður var þá alltof ungur.
Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

Að hafa gaman, ekki stressa sig of mikið, spila hæfilega oft (þá með Off Venue) og kynnast hljómsveitum því maður lærir alltaf eitthvað á því.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

Við höfum alltaf verið að taka svona 3-4 gigg í gegnum árin en núna gæti metið verið slegið þar sem með öllu töldu þá gætu tónleikar okkar verið um 5-6 talsins.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár? Erlent/innlent?

Erlent er það Omar Souleyman og Kraftwerk en innlent er það sennilega FM Belfast, Loji, M-Band, Grísalappalísa, Oyama og Prins Póló.

 


Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

Þessi hátíð er gríðarlega mikilvæg fyrir íslensku tónlistarsenuna. Hún gefur nýjum hljómsveitum og tónlistarmönnum tækifæri til þess að sanna sig og fá athygli erlendis. Þetta er algjör stökkpallur fyrir hljómsveitir hér á landi, maður veit aldrei hver er að horfa á tónleikana.

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit?

 Nolo hefur fengið einhverja erlenda umfjöllun og fyrirspurnir en engin stórtíðindi.

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin?

Ég get eiginlega ekki gert upp á milli hátíða. Kannski að hátíðin í ár verði sú uppáhalds?

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?

Ég er að spila með Nolo og við komum fram á Harlem kl 23:20 á miðvikudeginum og svo í Listasafninu kl 20:00 á laugardeginum. En Off Venue erum við staðfestir á Dillon, Bar 11, Reykjavík Backpackers og Kex Hostel.

 

Eitthvað sem þú villt koma á framfæri að lokum?

Ást og frið

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *