San Francisco hljómsveitin Deerhoof sendi frá lagið The Trouble With Candyhands í gær. Lagið, sem er undir talsverðum suðrænum áhrifum, verður að finna á plötunni Breakup Song sem kemur út þann 4. september næstkomandi. Hljómsveitin spilaði á Iceland Airwaves árið 2007 og hér fyrir neðan er hægt að hlusta á viðtal sem við áttum við hljómsveitarmeðliminn Greg Saunier frá þeim tíma, auk nýja lagsins The Trouble With Candyhands.
Á hverju sumri velta tónlistaráhugmenn því fyrir sér hvaða lag eigi eftir að einkenna þennan árstíma þetta árið. Þessari spurningu er alls ekki auðsvarað og svarið er auðvitað persónubundið fyrir hvern og einn. Það eru þó ákveðin atriði sem nota má til að skilgreina gott sumarlag og hvað það þarf á að halda til að teljast eitt slíkt. Það þarf auðvitað að minna á eitthvað sem tengist sumrinu og einkennast af ákveðnu kæruleysi í bland við frelsi.
Lagið Hvernig á að særa vini sína sem hljómsveitin múm gaf fyrst út í sumar er eitt af þeim lögum sem hreinlega hrópa „sumar“.
Stemmingin í laginu fangar íslenskt sumar á einstakan máta og það svífur yfir mann líkt og dreymandi sumargolan. Lagið er á safnplötunni Early Birds, safni laga sem urðu til undir lok tuttugustu aldar áður en fyrsta breiðskífa sveitarinnar, Yesterday Was Dramatic – Today is OK, leit dagsins ljós.
Ef eitthvað í titli lags minnir á sumarið kemst lagið nær því að geta kallast sumarlag. Bandaríska tónlistarmanninum Advanced Base hefur augljóslega orðið hugsað til sumarsins þegar hann samdi lagið Summer music sem er á plötu hans A Shut-In’s Prayer sem kom út í vor.
Margir hafa tilnefnt lagið The House That Heaven Built, af annarri plötu kanadísku rokkhljómsveitarinnar Japandroids, lag sumarsins. Það ætti að koma fáum á óvart, lagið hefur flest til brunns að bera til að hljóta þann titil. Það er epískt með öflugt viðlag og fær mann til að gleyma stað og stund og njóta augnabliksins. Hljómsveitin spilar á tónleikum í Reykjavík í lok sumars og því fá Íslendingar tækifæri til að syngja með þeim áður en sumarið er á enda.
Sumarlög geta líka haft þann eiginleika að vera tímalaus og minna jafnvel á liðin sumur. Hljómsveitin Woods sendi frá sér hið fallega lag Cali in A Cup í sumar og þó lagið sé nýtt er eitthvað við það sem lætur mann ferðast aftur í tímann.
Lag Frank Ocean Sweet Life hefur svipaðan eiginleika og lag Woods. Þó að það sé ögn nútímalegra, gæti það vel verið týndur sumarsmellur úr smiðju Stevies Wonders. Lagið er á fyrstu plötu Ocean sem hefur fengið einróma lof gagnrýnenda frá því hún kom út í þessum mánuði.
Öll þessi lög eiga skilið að fá tilnefningu til þessa merka titils en það er þó eitt lag sem stendur upp úr og hefur allt það sem áður hefur verið nefnt og eitthvað meira sem erfitt er að útskýra, til að teljast lag sumarsins 2012.
Lagið er Get Free með Major Lazer og söngkonunni Amber Coffman úr Dirty Projectors. Það er fyrsta smáskífan af væntanlegri breiðskífu Major Lazer sem kemur út seinna á þessu ári. Lagið sömdu Major Lazer, Coffman og David Longstreth, félagi hennar úr Dirty Projectors sem einnig spilar á gítar í laginu. Þegar ég heyrði lagið fyrst er hljómsveitin sendi það frá sér nokkrum dögum fyrir síðasta vetrardag kvaddi ég veturinn með sól í hjarta því ég vissi að sumarið var komið.
Bandaríska hljómsveitin Dum Dum Girls sendi í dag frá sér lagið Lord Knows af væntanlegri EP plötu sem nefnist End Of Days. Platan kemur út 25. september á vegum Sup Pop útgáfunnar. Hægt er að hlusta á lagið hér fyrir neðan.
Tónlistarhátíðin Innipúkinn fagnar tíu ára afmæli sínu – og fer fram í ellefta skipti í miðborg Reykjavíkur um Verslunarmannahelgina. Innipúkinn 2012 teygir sig yfir þrjá daga og fer fram föstudags-, laugardags- og sunnudgskvöld dagana 3. – 5. ágúst. Hátíðin fer í ár fram í hinu sögufræga húsnæði Iðnó. Hægt er að nálgast miða á hátíðina á midi.is. Verð fyrir alla dagana er 5500 kr en 3000 fyrir hvert kvöld. Hér fyrir ofan er hægt að hlusta á viðtal við þá Björn Kristjánsson (Borko) og Svavar Pétur Eysteinsson (Prins Póló) skipuleggendur og stofnendur hátíðarinnar.
Elektró hljómsveitin Bear Mountain, frá Vancouver í Kanada, gefur út sína fyrstu plötu – XO þann 7. ágúst. Bear Mountain byrjaði sem sólóverkefni tónlistarmannsins Ian Bevis, sem fljótlega eftir útgáfu sinnar fyrstu ep plötu fékk vin sinn Kyle Statham til liðs við sig. Fyrsta smáskífan af XO heitir Two Step og er ótrúlega grípandi elektró lag með hressilegum sömplum. Hlustið á það hér fyrir neðan.
Animal Collective frumfluttu fyrstu smáskífuna af væntanlegri plötu í útvarpsþætti sínum í gærkvöldi. Lagið heitir Today’s Supernatural og verður á plötunni Centipede Hz sem kemur út þann 3. september á vegum Domino records. Hlustið á lagið hér fyrir neðan.
Bandaríska tilrauna rokkhljómsveitin Animal Collective mun setja á stað útvarpsstöð á netinu klukkan 1 eftir miðnætti á íslenskum tíma. Hægt verður að hlusta stöðina á vefslóðinni www.radio.myanimalhome.net. Tilgangurinn með útvarpsstöðinni er að kynna væntanlega plötu sveitarinnar – Centipede Hz, sem kemur út þann 3. september næstkomandi. Hljómsveitarmeðlimurinn Panda Bear mun stjórna útsendingu ásamt góðum gestum líkt og Black Dice og Haunted Graffiti. Hljómsveitin sendi frá sér myndband í dag þar sem tilkynnt var um þetta.
Ástralska elektró dúóið Flight Facilties sendi á dögunum frá sér endurhljóðblöndun af laginu The Wave, með sænsku hljómsveitinni Miike Snow af plötu þeirra Happy To You sem kom út fyrr á þessu ári. Flight Facilties nálgast 50 þúsund aðdáendur á facebook og sendu því lagið frá sér í tilefni af því. Hlustið á þessa frábæru endurhljóðblöndun hér fyrir neðan.
Hljómsveitin Tilbury sendi í gær frá sér sitt annað myndband af sinni fyrstu plötu Exorcise sem kom út í vor. Myndbandið við lagið Drama sýnir andsetna garðveislu og er kvikmyndað í einu skoti. Því er leikstýrt af Helga Jóhannssyni og framleitt af Atla Viðari Þorsteinssyni. Tilbury mun spila á tíu ára afmæli Innipúkans, sem fram fer um Verslunarmannahelgina. Hljómsveitin fer á svið klukkan 2:00 á laugardagskvöldinu í Iðnó. Hægt er að horfa á myndbandið hér fyrir neðan.