Í dag fimmtudaginn 8. desember er tilkynnt um tilefningar til Kraumsverðlaunanna í ár með birtingu Kraumlistans 2016.
Kraumsverðlaunin, árleg plötuverðlaun tónlistarsjóðsins Kraums sem starfræktur er á vegum Auroru velgerðarsjóðs, verða afhent í níunda sinn í ár. Venju samkvæmt þá birtir Kraumur úrvalslista verðlaunanna, Kraumslistann, nú í byrjun desember yfir þau verk sem þykja hafa skarað framúr í íslenskri tónlist á árinu. Kraumsverðlaunin sjálf verða svo afhent síðar í mánuðinum.
Kraumslistanum og Kraumsverðlaununum er ætlað að kynna og styðja við útgáfustarfsemi íslenskra tónlistarmanna og hljómsveita með því að verðlauna og vekja sérstaka athygli á því sem er nýtt og spennandi – og þeim verkum sem þykja skara fram úr í gæðum, metnaði og frumleika. Verðlaunin eru ekki bundinn ákveðinni tónlistarstefnu og þeim fylgja engir undirflokkar.
Allar íslenskar plötur sem komið hafa út á árinu eiga möguleika á að komast á Kraumslistann og hreppa þar með Kraumsverðlaunin. Bæði plötur sem eru gefnar út á geisladisk og vínyl, sem og útgáfur á netinu. Útgáfustarfsemi á netinu hefur færst mikið í vöxt síðustu ár og er stór hluti þeirra verka sem íslenskir listamenn og hljómsveitir hafa gefið út það sem af eru ári aðeins fáanleg með þeim hætti. Stór hluti verka Kraumslistans eru þó einnig fáanleg á geisladisk og/eða vinyl , eða í formi morgunkornspakka eins og plata GKR – og vill dómnefnd Kraumverðlaunanna minna á að íslensk tónlist er fyrirtaks jólagjöf.
Það er von aðstandenda Kraumsverðlaunanna að Kraumslistinn og verðlaunin sjálf veki athygli á þeirri grósku og fjölbreytni sem einkennir íslenskt tónlistarlíf og plötuútgáfu. Alls voru 176 hljómplötur til hlustunar og umfjöllunar hjá dómnefnd og því ljóst að mikið er að gerast í útgáfustarsemi íslenskra tónlistarmanna og hljómsveita. Kraumslistinn 2016 iðar af fjölbreytni þar sem má finna verk af ýmsum toga, en hip hop og rapp tónlist er óvenju áberandi á listanum í ár með verkum Alvia Islandia, Aron Can, Cyber is Crab og Reykjavíkurdætra.
Kraumslistinn 2016, úrvalslisti Kraumsverðlaunanna, er eftirfarandi:
· Alvia Islandia – Bubblegum Bitch
· Amiina – Fantomas
· Andi – Andi
· Aron Can – Þekkir stráginn
· Arve Henriksen, Hilmar Jensson, Skúli Sverrisson – Saumur
· asdfhg – Kliður
· Bára Gísla – Brimslóð
· CYBER is CRAP – EP
· EVA808 – Psycho Sushi
· GKR – GKR
· Glerakur – Can’t You Wait
· Gyða Valtýsdóttir – Epicycle
· Indriði – Makril
· Kef LAVÍK – Vesæl í kuldanum
· Kuldaboli – Vafasamur lífstíll
· Kælan mikla – Kælan mikla
· Naðra – Allir vegir til glötunar
· Pascal Pinon – Sundur
· Páll Ívan frá Eiðum – This is my shit
· Reykjavíkurdætur – RVK DTR
· Samaris – Black Lights
· Sigrún Jónsdóttir – Hringsjá
· Snorri Helgason – Vittu til
· Suð – Meira Suð
· Tófa – Teeth Richards
—————————————————————————-
DÓMNEFND
Kraumslistinn og Kraumsverðlaunin eru valin af fjórtán manna dómnefnd sem skipað er fólki sem hefur margvíslega reynslu af því að fjalla um, spila og vinna með íslenska tónlist í fjölmiðlum og á öðrum vettvangi. Dómnefndina í ár skipa; Árni Matthíasson (formaður), Andrea Jónsdóttir, Anna Ásthildur Thorsteinsson, Alexandra Kjeld, Arnar Eggert Thoroddsen, Benedikt Reynisson, Berglind Sunna Stefánsdóttir, Heiða Eiríksdóttir, Helga Þórey Jónsdóttir, Hildur Maral Hamíðsdóttir, Jóhann Ágúst Jóhannsson, Tanya Pollock, Trausti Júlíusson og Óli Dóri.
Dómnefndin hefur hlustað á og tekið til umfjöllunar 176 hljómplötur og útgáfur íslenskra listamanna og hljómsveita sem komu út á árinu við val sitt á Kraumslistanum 2016. Nefndin vinnur nú að því að velja sex hljómplötur sem hljóta munu Kraumsverðlaunin 2016.
—————————————————————————-
UM KRAUMSVERÐLAUNIN
Kraumsverðlaunin hafa verið afhent árlega frá árinu 2008 og hafa alls 39 íslenskar hljómsveitir og listamenn hlotið þau fyrir verk sín. Má þar nefna; Ásgeir, Mammút, Anna Þorvaldsdóttir, Hjaltalín, Retro Stefson, Hildur Guðnadóttir, Daníel Bjarnason, Cell 7, Sóley, Lay Low, ADHD, Ojba Rasta, FM Belfast, Hugi Guðmundsson, Agent Fresco, Samaris, Moses Hightower, Grísalappalísa, Helgi Hrafn Jónsson, Anna Guðný Guðmundsdóttir, Gunnar Andreas Kristinsson, Sin Fang, Ísafold kammersveit og Ólöf Arnalds. Í fyrra hlutu Teitur Magnússon (27), Misþyrming (Söngvar elds og óreiðu), Mr. Silla (Mr. Silla), asdfhg (Steingervingur), Tonik Ensamble (Snapshots) og Dj Flugvél og geimskip (Nótt á hafsbotni) verðlaunin.
Kraumsverðlaununum og úrvalslista þeirra, Kraumslistanum, er ætlað að kynna og styðja við plötuútgáfu íslenskra listamanna og hljómsveita með því að verðlauna og vekja sérstaka athygli á því sem er nýtt og spennandi – og þeim verkum sem þykja skara fram úr í gæðum, metnaði og frumleika. Allar íslenskar plötur sem koma út á hvert eiga möguleika á að komast á Kraumslistann og hreppa Kraumsverðlaunin. Bæði plötur sem eru gefnar út á geisladisk og/eða vínyl, sem og útgáfur á netinu.
Kraumsverðlaunin snúast ekki um eina ákveðna verðlaunaplötu heldur að beina kastljósinu að Kraumslistanum í heild og síðan að velja og verðlauna sérstaklega sex hljómplötur sem hljóta Kraumsverðlaunin. Tímasetning tilnefninga og úthlutunar Kraumsverðlaunanna er miðuð við jólagjafaflóðið, þegar tónistarlistamenn reiða sig hvað mest á plötusölu og ætla má að sóknarfæri séu fyrir íslenska tónlist að rata í fleiri jólapakka enda er tónlist góð og sígild jólagjöf.