Kraumsverðlaunin, árleg plötuverðlaun Kraums tónlistarsjóðs, voru afhent í ellefta sinn í dag. Líkt og undanfarin ár voru sex plötur sem þykja hafa skarað framúr í íslenskri plötuútgáfu á árinu verðlaunaðar.
Kraumsverðlaununum og Kraumslistanum, 21 platna úrvalslista verðlaunanna sem þeim fylgja, er ætlað að kynna og styðja við plötuútgáfu íslenskra hljómsveita og listamanna með því að verðlauna og vekja sérstaka athygli á því sem er nýtt og spennandi – og þeim verkum sem þykja skara fram úr í gæðum, metnaði og frumleika. Verðlaunin eru ekki bundinn neinni ákveðinni tónlistarstefnu og þeim fylgja engir undirflokkar.
Kraumsverðlaunin snúast ekki um eina ákveðna verðlaunaplötu heldur að verðlauna þær sex hljómplötur sem hljóta verðlaunin – og jafnframt að beina kastljósinu að Kraumslistanum í heild sinni. Kraumslistinn er 21 platna úrvalslisti verðlaunanna sem birtur er í byrjun desember. Dómnefnd Kraumsverðlaunanna velur síðan og verðlaunar sérstaklega sex hljómplötur af þeim lista er hljóta sjálf Kraumsverðlaunin.
Kraumsverðlaunin 2018 hljóta
- Auður – Afsakanir
- Bagdad Brothers – Jæja
- Elli Grill – Pottþétt Elli Grill
- GDRN – Hvað ef
- Kælan Mikla – Nótt eftir Nótt
- Roht – Iðnsamfélagið og framtíð þess
DÓMNEFND
Kraumslistinn og Kraumsverðlaunin eru valin af tólf manna dómnefnd sem skipuð er fólki sem hefur margvíslega reynslu af því að fjalla um, spila og vinna með íslenska tónlist í fjölmiðlum og á öðrum vettvangi. Dómnefndina í ár skipa; Árni Matthíasson (formaður), Andrea Jónsdóttir, Anna Ásthildur Thorsteinsson, Alexandra Kjeld, Arnar Eggert Thoroddsen, Benedikt Reynisson, Birna María Másdóttir, Helga Þórey Jónsdóttir, Jóhann Ágúst Jóhannsson, Sandra Barilli, Trausti Júlíusson og Óli Dóri.