Opnunarveisla Reykjavík Music Mess

Tónlistarhátíðin Reykjavík Music Mess hefst föstudaginn 24. maí næstkomandi. Hátíðin er haldin á KEX Hostel og Volta og koma 17 hljómsveitir fram á hátíðinni. Þrjár hljómsveitir koma frá Ástralíu og Skotlandi og svo 14 frá Íslandi. Dagskrá og upplýsingar um hátíðina er að finna á www.reykjavikmusicmess.com og facebook síðunni  www.facebook.com/rvkmusicmess.
Hátíðin hefst þó með opnunarveislu á KEX Hostel fimmtudaginn 23. maí kl. 20. Þar mun opna myndlistarsýning samhliða hátíðinni en hátíðarhaldarar fengu hóp listamanna til að endurvinna sjónrænt kynningarefni þeirra hljómsveita sem koma fram. Eins mun hin frábæra og stuðvæna Boogie Trouble leika fyrir nokkur lög. Hægt verður að ná í armbönd og kaupa miða á hátíðina og svo munu Thule og Reyka bjóða upp á léttar veitingar.
Samstarfsaðilar hátíðarinnar eru KEX Hostel, Thule, Reyka, Reykjavíkurborg, Íslandsstofa, Reykjavík Grapevine, Clash Magazine og Volta. Miðasala á hátíðina er enn í fullum gangi á www.midi.is.

Nýtt myndband með Retro Stefson

Það er skammt stórra högga á milli hjá gleðidanssveitinni Retro Stefson sem í dag frumsýndi glænýtt myndband við lagið Qween sem gerði allt vitlaust á vinsældalistum landsins á síðasta ári. Einungis mánuður er síðan síðasta myndband sveitarinnar leit dagsins ljós en þar klæddu þrír hljómsveitarmeðlimir sig upp í dragi. Í nýja myndbandinu sem er tekið upp við rætur Esjunnar er söngvarinn Unnsteinn Manuel í veiðimannaham og skýtur hvítan ref með riffli. Refurinn umbreytist við það í skjannahvíta fegurðardís og óvænt atburðarás tekur við. Myndbandinu er leikstýrt af Reyni Lyngdal og hægt er að horfa á það hér fyrir neðan.

Lay Low með tónleika heima í stofu

Næsta laugardag þann 4. maí mun tónlistarkonan Lay Low bjóða uppá litla sóló tónleika frá stofunni heima hjá sér. Síminn mun hjálpa til við að stream-a tónleikunum beint þannig að fólk geti verið með yfir internetið. Tónleikarnir byrja klukkan 21 og eru ókeypis. Ef fólk er með eitthvað sérstakt Lay Low óskalag má setja það í komment á facebook síðu Lay Low
eða nota #laylowlive á twitter eða instagram. Slóðinn á tónleikana  er http://www.siminn.is/laylowlive/

mynd: Pu The Owl

Loft Hostel nýr tónleikastaður í miðbænum

Í gærkvöldi opnaði formlega nýr tónleikastaður í miðbænum. Um er að ræða hostel að nafninu Loft sem staðsett er á efstu hæð á Bankastræti 7. Á opnunarkvöldinu komu fram hljómsveitirnar Boogie Trouble, Prins Póló og Fm Belfast og var stemmingin í salnum rafmögnuð. Boogie Trouble hófu tónleikana rétt um hálf tíu og sönnuðu það að diskóið lifir enn góðu lífi. Prinsinn tók við af þeim og sá um að hver einasta hræða í salnum væri á hreyfingu og Fm Belfast slógu svo botninn í frábært kvöld með einstökum tónleikum þar sem þau spiluðu nokkur ný lög í bland við gömul.

Loft Hostel líkt og Volta sem opnaði í febrúar henta vel fyrir minni og millistóra tónleika en þannig aðstöðu hefur sárvantað síðustu misseri í Reykjavík. Straum.is tekur þessum stöðum fagnandi.

Fleiri hljómsveitir á Reykjavík Music Mess

Tónlistarhátíðin Reykjavík Music Mess verður haldin 24. til 26.  maí á tónleikastaðnum Volta og Kex Hostel. Miðasala er hafin á midi.is og eru miðar á tilboði til 16. apríl eða meðan birgðir endast.

Fleiri hljómsveitir hafa bæst í hóp þeirra sem munu koma fram á hátíðinni. Monotown, Stafrænn Hákon, Boogie Trouble, Loji og Tonik munu allar spila. Hljómsveitin PVT frá Ástralíu er meðal þeirra sem koma fram, en þeir eru á mála hjá breska útgáfufélaginu Warp. Þrjár íslenskar hljómsveitir hafa bæst sömuleiðis í hópinn en þær eru SykurJust Another Snake Cult og Good Moon Deer. Alls hafa 10 hljómsveitir staðfest komu sína en um 15 hljómsveitir munu koma fram á Reykjavík Music Mess. Nánari upplýsingar og hlekkir á hljómsveitirnar má finna á heimasíðu hátíðarinnar.

Listi hinna staðfestu:

BLOODGROUP

DZ DEATHRAYS (AUS)

GOOD MOON DEER

JUST ANOTHER SNAKE CULT

MAMMÚT

MUCK

OYAMA

PVT (AUS)

SYKUR

WITHERED HAND (UK)

Útidúr senda frá sér Detour

Indípoppsveitin Útidúr gefur út sína aðra plötu, Detour, næstkomandi mánudag en í vikunni var gripurinn settur í forspilun á Gogoyoko. Platan er nokkur viðbrigði frá þeirra fyrstu plötu sem innhélt að mestu leiti akústískt kammerpopp en á Detour róa þau á öllu rafrænni og stuðsæknari mið. Platan var tekin upp á síðustu tveimur árum í hinum ýmsu stofum, svefnherbergjum og kjöllurum af Kára Einarssyni, bassaleikara sveitarinnar. Sveitin skrifaði nýverið undir samning við þýskt útgáfufyrirtæki sem mun dreifa Detour og This Mess We’ve Made, fyrstu plötu Útidúrs, þar í landi. Í sumar mun sveitin svo leggja land undir fót með heljarinnar tónleikaferð um Þýskaland. Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á lögin Maelstrom og Vultures af plötunni Detour.

Prins Póló bjóða upp á Bragðarefi

Gleðigengið í Prins Póló setti nýtt lag í spilun á tónlistarveitunni Gogoyoko í dag. Lagið ber heitið Bragðarefirnir og vísar væntanlega til hinnar vinsælu nammiísblöndu, en Prinsinn er þekktur fyrir tíðar tilvísanir í matvæli í textum sínum. Lagið er nokurs konar lágstemmdur stuðsmellur og textinn er afar hnyttinn og súrrealískur. Ekkert annað band á Íslandi í dag kemst upp með línur eins og þessa: “Við keyrum flotta bíla og notum endaþarmsstíla, innflutta frá kína massadrullufína.”