Mynd: Matthew Eisman
Á fjórða degi í djammi og Airwaves er maður orðinn pínu lúinn en ég náða samt að rífa mig upp úr rúminu og hjóla niður í off-venu dagskrá Straums í Bíó Paradís þar sem rafgeggjarinn Skuggasveinn var að ljúka sér af. Hann var umkringdur hinum ýmsu hljómborðum og svuntuþeysurum og lék ljúfsárar og hádramatískar melódíur.
Þá sá ég tilraunapoppbandið Asonat á sama stað sem eiga eina bestu íslensku plötu ársins en ég hef aldrei séð live áður. Það er skipað tveimur græjugaurum og einni söngkona og leika seiðandi trip hop í anda þess besta á 10. áratugnum. Sumt hljómaði í áttina að sveitum eins og Thievery Corporation og Morcheepa og raddbeiting söngkonunnar var á köflum ansi Bjarkar-leg.
Ég hjólaði þvínæst yfir á Kex Hostel þar sem ég náði í skottið á hinum írsku Girl Band. Þeir léku fast og hratt rokk með afar hörðum kjarna. Þá sá ég bandaríska tónlistarmanna Ezra Furman á áttundu hæð hótelbars sem ég man ekki hvað heitir. Ég sá ekki mikið af honum en hann hljómaði svo vel að ég sá hann aftur síðar um kvöldið á opinberu dagskránni.
Eróbískur dansgjörningur
Þá var komið að stærsta nafni hátíðarinnar fyrir mig persónulega, ég hef hlustað á Knife í 10 ár og var loksins að sjá þau live á sínum síðustu tónleikum. Ég hafði lesið mér til um túrinn og vissi að þetta yrði skrýtið, en hafði ekki gert mér í hugarlund hversu skrýtið. Þetta hófst með konu sem kynnti tónleikana sem var eins og blanda af Dale Carnegie ræðumanni og eróbikkþjálfara. Síðan hófst sjóið og leikarar voru um 20 manns í skrýtnum búningum en þetta var meira eins og nútímadansverk og gjörningur en tónleikar. Maður var aldrei viss um hver væri að syngja, hver væri að spila hvaða hljóð (ef einhver gerði það á annað borð) eða hverjir meðlimir hljómsveitarinnar voru. Þetta var mjög sérstakt og á köflum fannst mér þetta tilgerðarlegt rúnk en stundum heillandi. Atriðið við Full On Fire var til dæmis mjög tilkomumikið og svo tóku þau flottar útgáfur af gömlu slögurunum Pass This On og We Share Our Mothers Health.
Ezra og kærastarnir
Eftir Knife náði ég svo nokkrum lögum með Caribou í Listasafninu sem renndi í gegnum bestu lögin af sinni nýjustu plötu af fádæma krafti og öryggi. Hann er einn besti aktívi raftónlistarmaður í heiminum þessi misserin, en ég varð hins vegar svo heillaður af Ezra Furman fyrr um daginn að ég vildi sjá hann á almennilegu venue-i. Ég hélt þess vegna yfir í Iðnó og sá ekki eftir því. Ezra Furman var með bandinu sínu sem hann kallaði The Boyfriends sem voru afar hressir. Hann sjálfur var klæddur í rauðan kjól og með prinsessukórónu og gítar um hálsinn. Tónlistin sem hann leikur er frumlega blanda af poppi, rokki og pönki þar sem saxafónn leikur stóra rullu. Hann var ótrúlega karismatískur á sviðinu og með fáránlega flotta rödd, hráa, rifna og pönkaða.
Á þessum tímapunkti fór þreyta í löppum að segja til sín en ég harkaði af mér og fór á Hermigervil í Gamla Bíói. Hann lék ný lög í bland við ábreiður og kom upp þéttri dansstemmningu í flottum salnum. Þá fór ég heim á sofnaði á sófa. Airwaves hátíðin í ár hefur verið mjög skemmtileg en topparnir fyrir mig hafa verið Ezra Furman, Unknown Mortal Orchestra og Roosevelt. Gamla Bíó er frábært nýtt venue eftir að stólarnir voru teknir út, vonandi verður það áfram nýtt í popptónleika því það gæti orðið nýja Nasa. Ég þakka fyrir mig en í kvöld eru það War on Drugs og Flaming Lips.
Davíð Roach Gunnarsson