Airwaves yfirheyrslan – Siggi í UMTBS

Siggi úr Ultra Mega Technobandinu Stefáni situr fyrir svörum í Airwaves yfirheyrslu dagsins. Siggi hefur verið tíður gestur á Airwaves hátíðum liðinna ára og oft vakið athygli fyrir sviðsframkomu í æstari kantinum.

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

Hef aldrei mætt sem gestur. Aðeins sem listamaður.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?


Fyrsta skiptið sem UMTBS spilaði á Airwaves var á miðvikudegi Airwaves árið 2006 á Pravda. Pravda var þá notaður sem fjölmiðlafulltrúaaðsetur og fáir tónleikar fóru þar fram (fyrir utan atriði í kringum tilraunakennda plötusnúða). Við spiluðum á sama tíma og We are scientists – band síns tíma. Gerðu ábreiðu af Hoppípolla með Sigur Rós og allir misstu andlitið. Því vorum við í vondum málum. Við fórum í útvarpsviðtal hjá Steina eitthvaðnafnson umboðsmaður í dag fyrir einhverjar hljómsveitir (Steinþór Helgi Arnsteinsson umboðmaður Hjaltalín) sem spurði hvort einhver ætlaði að mæta á okkur og hvort við værum nógu gamlir til þess að vera svona seint úti. Það mættu allir á okkur Steini. Enginn á We are scientists. Og ég var úti til miðnættis.

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?


Endalaust mörgum. Stanslaust frá árinu 2006 fyrir utan 2011.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?


Ég sá Gavin Portland eitt árið. Þeir voru magnaðir. Einnig sé ég ekki eftir að hafa tékkað á Samaris á miðvikudeginum í fyrra. Núna þarf ég aldrei að sjá Portishead. Ég nenni aldrei í Hafnarhúsið, of mikil röð. Allaveganna ekki eftir að listamannapassinn gaf manni ekki forgang fremst.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?


Árið 2008 á Nasa með UMTBS. Þeir voru allt í lagi. Og á Hressó sama ár, þeir tónleikar voru hræðilegir.

 

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?


Listamannapassarnir gefa manni ekki lengur forgang fremst. Allt í góðu að selja fleiri miða og pakka staðina. Endilega selja á dýrari verði. Þetta verður að standa undir sér. En hleypa listamönnunum fremst eins og i den.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?


Núna? Það var Nasa. Hlakka til að sjá hvað kemur þangað í staðinn. Brillíant ákvörðun. En núna? Gamli Gaukurinn tekur náttúrulega við af Nasa og hljómar langbest af stöðunum niður í miðbæ, plús að hann rúmar sem flesta. En ég býst við að Harpan sé fín viðbót. Í fyrra pantaði ég mér hanastél á Airwaves og gekk í Hörpunni. Það héldu allir að ég væri svaka merkilegur. Það var gaman. Svo ég segi Harpan og Gaukurinn (ég get ekki svarað fyrir off venue, hef ekki kynnt mér það nógu vel). Ég gleymdi næstum því að spila sjálfur fyrir nokkrum árum. Það hefði verið pínu svekkjandi.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?


Þið getið mætt á hvaða tónleika sem þið viljið. Ekki bara kvöldið sem þið eruð að spila á. Og það er rosalega stór tónlistarhátíð í gangi út um allan miðbæ og víðar í Reykjavík. Ég hafði ekki hugmynd um það þegar ég spilaði fyrst á hátíðinni. Og ef þið haldið að listamannapassinn veiti ykkur forgang í tónleikaröðum þá nei…því miður.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár?


AlunaGeorge. Punktur. Er algjör fíkill í AlunaGeorge. Body Music sem er nýlega komin út er svakalega flott plata. Veit að mínir strákar vilja að ég segi Kraftwerk…en AlunaGeorge. Fyrirgefðu Arnþór, ég er bara meira spenntari fyrir AlunaGeorge. Hlustaðir þú á plötuna? Hún var brillíant.

 

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?


Gífurlega mikla

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit?


Engin áhrif. Við höfum alltaf verið allt of seint á dagskránni til þess að einhver hagsmunaaðili innan tónlistariðnaðarins mæti. En það er alltaf mjög gaman að spila! Við erum í Hörpunni í ár snemma, þannig að við þurfum ekki jafn mikið kaffi til þess að halda okkur vakandi og seinustu ár. Það er mjög jákvætt (nema fyrir kaffifyrirtækin þarna úti eins og Nestlé…þótt ég drekki aldrei Nestlé).

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin?


Í fyrra. Ég man best eftir henni. Sá líka Apparat í Hörpunni. Það var einstaklega skemmtilegt.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?


Kostar aukalega inn á Kraftwerk? Náði ég því rétt? Pínu svekkjandi. Ef einhver býður mér á Kraftwerk mæti ég. Annars sé ég bara hitt bandið. Eða ekki. Kannski eitthvað annað band. Kraftwerk eða AlunaGeorge? Alltaf AlunaGeorge. Það kostar líka ekkert aukalega inn á AlunaGeorge. [Því skal komið á framfæri hér að ekkert aukalega kostar inn á Kraftwerk tónleikana sem loka hátíðinni, hins vegar er takmarkað magn miða sem verður útdeilt eftir „Fyrstur kemur – fyrstur fær“ reglu klukkan 16:00 föstudaginn 1. nóvember  í Hörpu. Því miður fyrir Sigga munu listamannapassar ekki heldur veita forgang í þá röð.]

 

Listasafnið eða Harpa?


Harpa. Engar raðir.

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?


UMTBS. Í Hörpunni klukkan 8 á föstudagskvöldinu. Einnig lokum við hátíðinni á Harlem. Held ég sé líka að spila í glugganum í Cintamani á föstudeginum (með Ultra þá). Gæti spilað meira. Tók vikuna frá.

 

Eitthvað sem þú villt koma á framfæri að lokum?


Mér finnst dálítið súrt að listamannapassinn hleypi manni ekki fremst lengur. Núna þarf maður að þykjast vera franskur pistlahöfundur sem týndi passanum sínum til þess að komast fremst. Dálítið leiðinlegt. Hef misst af nokkrum tónleikum sem ég ætlaði að sjá þegar fréttapassatrikkið virkaði ekki. Annars ekki neitt. Skemmtilegt fólk sem er alltaf að bóka mann á þessa hátíð. Vill allt fyrir mann gera og er ávallt einstaklega spennt fyrir fá mann. Hef búið í miðbænum í nokkur ár og finn alltaf fyrir breytingu á andrúmsloftinu þegar hátíðin fer fram. Það bönkuðu einu sinni þrír útlendingar upp hjá mér á sama deginum á Airwaves og spurðu hvort þeir væru mættir á Kex Hostel. Ég sagði vitanlega já og spilaði fyrir þá á píanóið. Þeir komust fljótt að því að íbúðin mín væri ekki Kex Hostel. Eins og ég segi. Jákvæðni. Og já. Breyta listamannapassanum og hleypa mér fremst. Takk.

Mynd: Leó Stefánsson

Airwaves yfirheyrslan – Gunnar í Grísalappalísu

Sá sem situr fyrir svörum í Airwaves yfirheyrslu dagsins er söng- og öskurspíran Gunnar Ragnarsson. Hann var eitt sinn í ungstirnisbandinu Jakobínurínu en þenur nú raddböndin með sveitinni Grísalappalísu, sem hefur vakið mikla athygli á þessu ári fyrir sínu fyrstu breiðskífu og kraftmikla tónleika.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

 

Það var árið 2004 og ég var 15 ára gamall. Móðir mín hafði talað við umsjónarmenn hátíðarinnar til þess að fulltryggja að ég kæmist á hátíðina þar sem ég væri nú góður drengur sem elskaði tónlist og væri ekki til vandræða. Ég fór ásamt Sigurði vini mínum sem var einu ári yngri og það var ekkert vesen fyrir okkur að komast inn á staðina og upplifunin var frábær fyrir okkur, vernduðu úthverfisdrengina. Mér eru eftirminnilegastir tónleikar The Shins á Gauknum en ég var mikill aðdáandi þeirra á þessum tíma enda algjört indípeð í pólóbol á þessu skeiði.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?

 

Það var árið 2005 með hljómsveitinni Jakobínurínu á Grandrokki. Eins og eflaust margir muna varð eiginlega allt vitlaust og þetta kvöld hafði mikil áhrif á næstu ár í lífi okkar. Við fengum svaka athygli og frábæra dóma fyrir sjóvið m.a. frá David Fricke, Rolling Stone skríbenti og fréttaflutningur var í þá átt að við höfðum nánast „unnið“ Airwaves það árið. Við vorum algjör smábörn og atburðarrásin frá því að vera á Shins árið áður og fíla sig sem einhverskonar stjörnu árið eftir var nokkuð lygileg. Ég man óljóst eftir tónleikunum sjálfum nema að stemmningin var alveg frábær, áhorfendur voru allir sem einn með bros á vör og einfaldlega furðu slegnir yfir að sjá okkur smápollana hoppa og skoppa um sviðið. Ég held að spilagleðin hjá okkur á þessum tíma hafa verið svakalega smitandi – enda var þetta ótrúlega skemmtilegt fyrir okkur. Eftir tónleikana vildu allir tala við okkur og hrósa okkur í hástért, manni fannst þetta vera stærra kvöld en Músíktilraunir sem við höfðum unnið um vorið.

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?

 

2005, 2006, 2007 með Jako og nú er Grísalappalísa mætt í ár.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

 

!!! (2007), fannst mér alveg frábært. Við vinirnir tættum í okkur Louden Up Now á sínum tíma en höfðum eiginlega gleymt þeim og vorum svo allt í einu mættir á þetta frábæra djamm hjá þeim nokkrum árum seinni. Frábært live band.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?

 

Jakobínarína 2005 á Grandrokki sem ég lýsti áðan en svo voru tónleikarnir árið eftir á Listasafninu alveg jafn eftirminnilegir, sennilega bestu tónleikarnir okkar. Airwaves verðlaunuðu okkur fyrir frammistöðuna árið áður og gáfu okkur frábært slott á milli Apparat Organ Quartet og Go! Team. Við vorum mjög þéttir eftir stíf tónleikaferðalög og það elskuðu okkur allir í salnum og manni fannst maður vera algjör töffari eftir þetta sjóv. Eftir þessa tónleika spiluðum við sjaldan á Íslandi og mér fannst fólk svolítið missa áhugann á okkur, sem var algjörlega skiljanlegt þar sem við vorum ennþá að spila sama efni og vorum aldrei heima og líka með slatta af gelgjustælum. En Airwaves 2005 og 2006 voru algjörir hápunktur hjá þessari blessuðu hljómsveit.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

 

Ég hef nú reyndar ekkert farið síðan ég spilaði síðast. Vinir mínir kvarta frekar mikið yfir röðunum og það sé kannski of margir miðar seldir. Sömuleiðis að gæðin á erlendu músíköntunum hafi farið dvínandi, en lænöppið í ár er nú sennilega með því besta frá upphafi svo það á ekki lengur við.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

 

Grandrokk/Faktorý, út af tilfinningalegum ástæðum.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

 

Spiluðu Graveslime einhvern tímann á Airwaves? Og jú, öllum tónleikum Megasar & Senuþjófana.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

 

Æfa vel, vera metnaðarfullur og fyrst og fremst að njóta þess að spila.

 

Hverju ertu spenntust/spenntastur fyrir á hátíðinni í ár?
Kraftwerk og off-venue tónleikum Veirumanna. Annars er ég spenntastur fyrir því að komast í Airwaves gír með Grísalappalísu.

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

 

$ böns af monnís mah’r! Stökkpallur og allt það, bla bla. Fyrst og fremst gott partí samt – og ástæða fyrir alla að vera í sínu besta formi.

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit/hljómsveitir?

 

Airwaves 2005 hafði þau áhrif að Jakobínarína fékk fína og dannaða breska umboðsmenn, spiluðu á South by Southwest vorið eftir, og gaf út 7″ hjá Rough Trade. Þetta voru svona bein áhrif af því. Svo signuðu Parlophone okkur seinna meir.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

 

Tveimur, þetta er búið að breytast síðan ég var síðast í geiminu.

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin?

 

2013, þetta verður rafmagnað!

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

 

Krafwerk er algjört uppáhald. Sá þá 2004 í Kaplakrika – með flottari tónleikum sem ég hef farið á.

Listasafnið eða Harpa?

 

Listasafnið, hef aldrei farið á Airwaves í Hörpunni.

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?

 

Með Grísalappalísu, við opnum hátíðína í Listasafninu kl 20 á miðvikudaginn. Svo erum við í 12 tónum á fimmtudeginum, 17.30/18.15 – man ekki. Svo erum við á Gamla Gauknum, kl 21.40 á föstudeginum og fögnum við þynnkunni kl 12.30 í Hörpunni á off-venue tónleikum fyrir utan 12 tóna verzlunina þar. Svo er aldrei að vita nema við komum ykkur á óvart á förnum vegi þegar þið búist alls ekki við því.

 

 

 

Beliefs spila á Harlem í kvöld

Kanadíska skóglápssveitin Beliefs kemur fram á Harlem í kvöld en tónleikarnir eru fyrsta stoppið á löngum Evróputúr sem er framundan hjá bandinu. Mikið suð hefur verið í kringum sveitina á þessu ári á miðlum eins og Pitchfork, Stereogum, NME og Guardian. Beliefs sækir stíft í arf sveita á borð við My Bloody Valentine og áhugamenn um ómstríða gítarveggi, effektapedala og loftkenndar raddir ættu ekki að láta sig vanta. Um upphitun sjá Re-Pete og The Wolf Machine en tónleikarnir hefjast klukkan 22:00. Aðgangseyrir er 1000 krónur og gestum er bent á að koma með reiðufé því ekki verður posi á staðnum, þrátt fyrir að hraðbanka sé auðvitað að finna í næsta nágrenni við Harlem. Hlustið á lagið Gallows Bird hér fyrir neðan og horfið á myndband við lagið Lilly.

Tónleikar Helgarinnar

Helgin byrjar að venju snemma á straum.is og hér verður farið yfir það markverðasta í tónlistarflutningi á höfuðborgarsvæðinu fram yfir helgi.

Miðvikudagur 18. september

Snorri Helgason og hljómsveit gáfu út sína þriðju plötu, Autumn Skies, 13. september síðast liðinn og að því tilefni mun sveitin blása til útgáfutónleika í Fríkirkjunni. Sveitin mun leika tónlist af nýju plötunni í bland við efni af tveimur eldri plötum sveitarinnar, I’m Gonna Put My Name On Your Door (2009) og Winter Sun (2011). Áður en Snorri Helgason stígur á stokk munu tónlistarmennirnir Skúli Sverrisson og Óskar Guðjónsson flytja nokkur lög af plötunni The Box Tree (2012) sem hlaut m.a. verðlaun fyrir hljómplötu ársins í flokki djass og blús á Íslensku tónlistarverðlaununum í vor. Dyr Fríkirkjunnar opna klukkan 19:30 en tónleikarnir hefjast stundvíslega hálftíma síðar, aðgangseyrir er 2500 krónur. Eftirpartý eftir tónleikana verður haldið á Harlem þar sem Múm, Hjaltalín, FM Belfast og Sin Fang verða með DJ sett, en þangað er ókeypis inn.

Rafpopparinn Kristján Hrannar sem áður var í þjóðlagasveitinni 1860 heldur útgáfutónleika fyrir plötu sína Anno 2013 sem kom út fyrir skemmstu. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 í þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu og aðgangseyrir er 2500 krónur. Einar Lövdahl sem einnig gaf út sína fyrstu plötu nýlega sé um upphitun.

Allt er þegar þrennt er, en trommarinn Ásgeir Óskarsson fagnar einnig útgáfu á plötu sinni, Fljúgðu með mér, í Kaldalónssal Hörpu. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og aðgangseyrir er 3500 krónur.

Fimmtudagur 19. september

Kanadíska skóglápssveitin Beliefs kemur fram á Harlem en tónleikarnir eru fyrsta stoppið í löngum Evróputúr sem er framundan hjá bandinu. Mikið suð hefur verið í kringum sveitina á miðlum eins og Pitchfork, Steregum, NME og Guardian og áhugamenn um marglaga gítarveggi og effektapedala ættu ekki að láta sig vanta. Um upphitun sjá Re-Pete og The Wolf Machine en tónleikarnir hefjast klukkan 22:00. Aðgangseyrir er 1000 krónur og gestum er bent á að koma með reiðufé því ekki verður posi á staðnum, þrátt fyrir að hraðbanka sé auðvitað að finna í næsta nágrenni við Harlem.

Hljómsveitin 1860 gaf nýverið út sína aðra hljóðversplötu, Artificial Daylight, og halda í tilefni af útgáfu hennar tónleika í Iðnó. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 22:00 og aðgangseyrir er 2500 krónur.

Föstudagur 20. september

Kanadíska rokksveitin The Stanfield heldur tónleika á KEX Hostel. Hljómsveitin er á leið í tónleikaferð til Evrópu og ákváðu að skella í eina órafmagnaða tónleika í stuttu stoppi þeirra á Íslandi. Tónleikarnir hefjast kl. 20:30 og ókeypis er á tónleikana.

Skoski tónlistarmaðurinn Ste Mccabe kemur fram á Dillon. Hann spilar electro pönk í anda Rapeman og Big Black en um upphitun sjá Re-Pete & The Wolf Machine. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangur er ókeypis.

Miðnæturtónleika Hide Your Kids á Gauknum. Það er frítt inn og húsið opnar klukkan 24:00. Hide your kids stígur á svið klukkan 00:30

Laugardagur 21. september

Við leggjum ekki í vana okkar að auglýsa kvikmyndasýningar í þessum lið en þó verður ekki hjá því komast að vekja athygli á því að heimildamyndin Shut Up And Play The Hits, verður sýnd í Bíó Paradís klukkan 20:00. Myndin fjallar um lokatónleika sveitarinnar LCD Soundsystem sem voru haldnir í Madison Square Garden í New York fyrir tveimur árum síðan. Tónleikaatriði myndarinnar eru mögnuð og nokkrir bjórar yfir sýningunni eru tilvalin byrjun á laugardagskvöldi. Miðaverð er einungis 700 krónur en evrópskri dansmenningu verður fagnað eftir sýninguna þar sem DJ Yamaho og DJ Housekell munu halda uppi evrópskri klúbbastemningu fram á rauða nótt.

Sænska postmetalhljómsveitin Cult of Luna stígur á stokk á Gamla Gauknum. Hljómsveitin hefur verið starfrækt síðan 1998 og er oft nefnd í sömu andrá og Neurosis og Isis en nýjasta plata þeirra, Vertikal, hefur hlotið nær einróma lof erlendra miðla. Um upphitun sjá ein fremsta hljómsveit íslensku þungarokkssenunnar, Momentum ásamt Wackenhetjunum í Gone Postal og dauðarokkurunum í Angist. Húsið opnar kl. 22:00 og miðinn kostar 2500 kr í forsölu.

Daft Punk á Diskóteki

Skiptar skoðanir voru um ágæti Random Access Memories, nýjustu plötu Daft Punk, sem kom út í vor eftir mikla flugeldasýningu af auglýsingum og hæpi. Get Lucky varð þó stærsti smellur sumarsins en nú hefur fyrsta myndbandið af plötunni litið dagsins ljós, við lagið Loose Yourself To Dance. Það er að mati ritstjórn þessa vefs eitt sterkasta lag plötunnar og eins og í Get Lucky njóta vélmennin þar góðs af gítarleik Nile Rodgers og falsettusöng Pharrel Williams. Í myndbandinu er vísað grimmt í glamúrarfleið diskóteka eins og Studio 54 frá ofanverðum 8. áratugnum. Horfið á myndbandið hér fyrir neðan.

Nýtt lag með Chromeo

Dúnmjúki dansfönkdúettinn Chromeo var að senda frá sér fyrsta lagið af væntanlegri breiðskífu, White Woman, sem ekki er kominn endanlegur útgáfudagur á. Í laginu Over Your Shoulder er ekki að greina mikla stefnubreytingu hjá strákunum, þeir sækja eins og oft áður í léttfönkað fullorðinspopp frá níunda áratugnum. Síðasta plata dúettsins, Business Casual, kom út árið 2010. Hlustið á lagið hér fyrir neðan og horfið á auglýsingarstiklu fyrir breiðskífuna.

Smáskífa og myndband frá Arcade Fire

Nýjastu smáskífu Arcade Fire sem kemur út á mánudaginn hefur nú verið lekið á alnetið. Lagið heitir Reflektor og er pródúserað af James Murphy úr LCD Soundsystem og talið er að sjálfur David Bowie syngi bakraddirnar. Það er tæpar átta mínútur að lengd og talsvert rafrænna og dansvænna en megnið af eldra efni sveitarinnar. Breiðskífa sem ber sama titil og smáskífan kemur út 29. október og er beðið með mikilli eftirvæntingu en síðasta plata sveitarinnar, Suburbs, kom út fyrir þremur árum síðan. Hlustið á lagið hér fyrir neðan. Uppfært: Nú hefur verið frumsýnt myndband við lagið á síðunni https://www.justareflektor.com/

Arcade Fire - Reflektor 
      1. Reflektor

Tónleikar helgarinnar

Fyrsta helgi haustsins heilsar okkur með helling af tónleikum og hér verður farið yfir það helsta sem er á boðstólum.

Fimmtudagur 5. september

Rafpopphljómsveitin Sykur kemur fram á Live-kvöldi Funkþáttarins á Boston. Aukahljóðkerfi verður sett upp á staðnum fyrir tónleikana og bjórinn verður á sérstöku Funkþáttartilboði. Aðgangur er ókeypis og tónleikarnir hefjast á slaginu 23:00.

Hljómsveitin múm gefur út plötuna Smilewound föstudaginn 6. september og ætlar af því tilefni að bjóða til hlustunarhófs í GYM & TONIC sal KEX Hostels. Hófið hefst klukkan 20:00 og boðið verður upp á léttar veitingar, hljómplatan leikin í heild sinni, sérstakt forsölutilboð verður á plötunni og nýtt tónlistarmyndband frumsýnt.

Sontag Shogun frá Bandaríkjunum koma fram ásamt Japam á Bravó. Sontag Shogun er tríó frá Brooklyn sem spilar sveimkennda tónlist fyrir píanó og rafhljóð, en hún sækir í nútímaklassík, spunatónlist og ambient í sköpun sinni. Japam er tónlistarverkefni Sigga Odds sem er betur þekktur fyrir grafíska hönnun en hefur þó verið í harðkjarnasveitunum Mínus og Snafu. Í Japam er áherslan þó meira á hljóðgervladrifið popp. Tónleikarnir byrja stundvíslega 22:15 og aðgangseyrir er enginn.

Pink Street Boys og Ofvitarnir blása til rokkveislu á Dillon sem hefst 22:00 og ókeypis er inn.

Benny Crespo’s Gang, Pétur Ben og Vök stíga á stokk á Gamla Gauknum. Dyrnar opnast 21:00, tónleikarnir hefjast 22:00 og 1000 krónur veita aðgang að gleðinni.

Plötsnúðagengið í RVK Soundsystem misstu nýlega höfuðstöðvar sínar á Hemma og Valda og Faktorý en hafa nú fært sig yfir á Dollý. Þeir munu spila reggae, dub og dancehall og skífusnúningurinn hefst klukkan 22:00 og stendur yfir til lokunar og ókeypis er inn.

Föstudagur 6. september

Á undiröldu tónleikaseríu Hörpunnar koma fram Pink Street Boys og Knife Fights. Pink Street Boys var stofnuð á grunni sækadelik sveitarinnar Dandelion Seeds og spila að eigin sögn rokktónlist á sterum, syngja frá hjartanu og spila nógu andskoti hátt. Knife Fights er tríó sem inniheldur meðlimi úr Gang Related og Morðingjunum og eru undir miklum áhrifum frá indítónlist níunda og tíunda áratugarins. Tónleikarnir eru í Kaldalónssal Hörpunnar og hefjast 17:30 en aðgangur er ókeypis.

Nýsálarsveitin Moses Hightower spilar á nýnematónleikum Bláa Kortsins í Stúdentakjallaranum. Gamanið hefst 22:30 og það er fríkeypis inn.

Útvarpsstöðin X-ið stendur fyrir Jack Live kvöldi á Gamla Gauknum en þar koma fram Vintage Caravan, Jan Mayen og Kaleo. Tónleikarnir byrja klukkan 23:00 og það kostar 800 krónur inn.

Jón Þór og Knife Fights leika fyrir dansi og slammi á Bar 11 og munu hefja leik 22:00 en algjörlega ókeypis er inn.

Laugardagur 7. september

Rokktríóið kimono gaf nýverið út stuttskífuna Aquarium sem inniheldur tæplega 20 mínútna langt lag samnefnt plötunni. Í plötubúðinni Luvky Records á laugardeginum munu Kimono leika þetta framsækna lag á klukkutímafresti meðan búðin er opin, fyrsti flutningurinn hefst klukkan 11:00 og sá síðasti klukkan 17:00.

Nýjustu plötu múm streymt

Hljómsveitin múm gerði rétt í þessu sína sjöttu breiðskífu aðgengilega til streymis í gegnum tónlistarvefritið Pitchfork. Plötunnar, sem ber nafnið Smilewound, hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu en hún markar endurkomu Gyðu Valtýsdóttur, söngkonu og sellóleikara, sem hætti í sveitinni fyrir meira en áratug síðan. Síðasta hljóðversplata sveitarinnar kom út árið 2009 en í fyrra kom út safnplatan Early Birds með óútgefnu og sjaldgæfu efni frá bandinu. Hlustið á streymið af plötunni á hér.

Tónleikar helgarinnar

Straum.is heldur áfram að leiðbeina lesendum um helstu tónlistarviðburði helganna. Þessi helgi er sérstök fyrir þær sakir að á laugardeginum er menningarnótt sem er langstærsti tónleikadagur ársins.

Föstudagur 23. ágúst

Melodica hátíðin sem helguð er órafmagnaðri tónlist fer fram á Rósenberg í kvöld. Þar koma fram Lucy Hall, Bernhard Eder, Myrra Rós, Gariboff, Honig og leynisgestur sem ekki verður ljóstrað upp um hér. Dagskráin hefst klukkan 21:00.

Tónleikarnir Nýjar Víddir Orgelsins fara fram í Hallgrímskirkju. Nokkrir fremstu ungu raftónlistarmenn Íslands framkalla nýjan hljómheim m.a. með endurgerðum tölvubúnaði Klaisorgelsins. Þar verða flutt ný verk eftir Inga Garðar Erlendsson, Arnljót, Pál Ivan Frá Eiðum, Gudmund Stein Gunnarsson, Aki Asgeirsson og Jesper Pedersen. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2500 krónur.

Laugardagur 24. ágúst menningarnótt

Ef við ættum að útlista öll þau tónlistaratriði sem fara fram á þessum viðburðaríka degi yrði þessi grein á við doktorsritgerð að lengd þannig að hér á eftir fara þau tónlistaratriði sem að við mælum sérstaklega með.

Í Silfurbergsal í Hörpu koma fram Vök, Grísalappalísa og Muck, en tónleikarnir standa frá 16:00 til 18:00.

Á Loft Hostel í Bankastræti koma fram Einar Lövdahl, Solar, Helga Ragnarsdóttir, Babies og Húsband Loft Hostel, Gold Funk and Geysir. Gleðin hefst klukkan 16:00.

Í garðinum við Ingólfsstræti 21a spila Útidúr, Samaris og Helgi Valur. Þá verður einnig boðið upp á kaffi og vöfflur. Helgi Valur stígur á stokk 14:10, Samaris, 14:40 og Útidúr klukkan 15:30.

Á Kex Hostel verða tónleikar frá 18:00 til 21:00. Fram koma í þessari röð; Borko, Retro Stefson og Megas & Uxa

Í æfingarhúsnæðinu Járnbraut á Hólmaslóð 2 út á Granda verður eftirfarandi tónlistardagskrá í boði:
14:30 – Dj Flugvél og Geimskip
15:00 – ROKKMARAÞON – Hlaupið verður hring um Grandasvæðið. Leðurjakki og strigaskór skilyrði!
16:00 – Gaupan
16:30 – Kristín Ómarsdóttir les upp úr nýrri bók
17:00 – Babies
18:00 – Gunnar Gunnsteinsson
19:00 – Pétur Ben + Brautin
20:00 – Jóhann Kristinsson
21:00 – Útidúr
22:00 – Grísalappalísa

Á Kalda barnum á klapparstíg verða tónleikar og dj-ar að spila í portinu;
19:30 – DjDeLaRosa
20:45 – Sísý Ey
21:20 – Sometime DJ
22:00 – Pedro Pilatus

Festisvall er árlegur listviðburður sem að þessu sinni er haldinn í Artima gallery Skúlagötu. Ótal myndlistarmenn sýna verk sín en einnig koma fram tónlistarmennirnir Björn Halldór Helgason, Dj Alex Jean, Futuregrapher, Georg Kári Hilmarsson, Good Moon Deer, LXC [DE], Tanya & Marlon, Tonik og Urban Lumber.

Hústónlistarútgáfan Lagaffe Tales blæs til allsherjar húsveislu með rjómanum af íslenskum plötusnúðum í Hjartagarðinum frá 14:00 til 23:00.

Ísfirðingurinn Skúli Mennski flytur frumsamda tónlist við upplýsingamiðstöðina Around Iceland, Laugavegi 18b. Kjörorð Skúla eru frelsi, virðing og góð skemmtun.