Hlustið á Afterlife með Arcade Fire

Arcade Fire frumfluttu í útvarpsþætti fyrr í dag lagið Afterlife. Það er annað lagið sem heyrist af Reflektor, fjórðu breiðskífu sveitarinnar, sem kemur út 28. október. Lagið er eins og fyrsta smáskífan og titillag plötunnar elektrónískara og undir meiri áhrifum frá danstónlist en fyrra efni sveitarinnar. Hlustið á lagið hér fyrir neðan.

Uppfært kl. 23:00: Nú hefur full útgáfa lagsins ásamt myndbandi verið gefin út af hljómsveitinni sjálfri.

Airwaves Yfirheyrslan – Ási í Muck

Ási Þórðarson sem lemur húðir með groddarokksveitinni Muck var kallaður til yfirheyrslu í þetta skiptið og sagði okkur allt um reynslu sína af Airwaves.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?
Ég held að það hafi verið Airwaves 2008. Ég man samt ekkert mikið eftir henni annað en það var geggjað að sjá Crystal Castles.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?
Mín fyrsta upplifun  var á Airwaves 2010 þegar ég spilaði með Markúsi & The Diversion Sessions á stað sem hét Risið þá en ég held að heiti Glaumbar í dag. Timber Timbre voru á undan okkur og ég man hvað mér fannst það absúrd dót. Það var samt ekkert mikið af fólki þarna. Allir rosa pen og slakir. Gott gigg samt. Fyrsta skiptið sem Muck spilaði var á Airwaves 2011. Spiluðum á Amsterdam á sama kvöldi og Liturgy minnir mig. Það var fokkings brjálað dæmi.

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?
Síðan 2010 svo þetta er 3 hátíðin sem ég spila á.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

Ætli það séu ekki Timber Timbre tónleikarnir. Þeir voru ótrúlegir. Mér fannst Iceage líka frekar nettir.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?

Eitt eftirminnilegasta kvöldið var miðvikudagskvöld á Airwaves 2011. Þá byrjaði ég á að spila með Markúsi & The Diversion Sessions í Kaldalóni í Hörpu. Við vorum með 11 manna band, brass og allan pakkann og áttum geðveikt gigg fyrir fullum sal. Svo eftir það þá hljóp ég spretthlaup með trommudótið mitt yfir á gamla Bakkus á Tryggvagötu og spilaði alveg rosa gigg með Muck. Fólk var að brjóta glös og slamma eins og brjálæðingar. Gott kvöld!

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?
Mér finnst þetta alltaf verða betra og betra. Viðmótið við listamenn, úrvalið af hljómsveitum o.s.frv. Airwaves er fyrirmyndartónlistarhátíð.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?
Sakna Faktorý. Held að það verði alltaf uppáhalds staðurinn til að spila á.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af?
Sé eftir að hafa ekki farið á Hauschka í fríkirkjunni. Bömmerrrrr.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?
Borða vel, reyna að sofa eitthvað, ekki vera í fýlu þó giggið sé lélegt. Reyna að njóta hátíðarinnar til hins ýtrasta.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár?
Í ár er ég spenntastur fyrir Savages og Metz.

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?
Þessi hátíð er náttúrulega ótrúlega mikilvæg fyrir íslenskt tónlistarlíf. Þessi hátíð tengir hljómsveitir við erlenda áhorfendur og bransafólk að utan. Þetta er alvöru hátíð með fagmannlegri umgjörð og ég held að það sé ótrúlega hollt fyrir hljómsveitir að komast í tæri við það.

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit/hljómsveitir?
Við höfum fengið dálítið hype og fólk er spennt að sjá okkur. Við höfum kynnst fólki sem hefur hjálpað okkur að fá umfjöllun ytra og það er bara snilld!

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?
Ætli það séu ekki svona 9.

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin?
Allar. Það er svo gaman að spila.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?
Kraftwerk þegar ég er úti að hlaupa. Yo La Tengo annars alltaf.

 

Listasafnið eða Harpa?
Listasafnið fyrir nostalgíugildið.

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?
Er að spila með hljómsveitinni Muck og það er hægt að sjá okkur á eftirfarandi stöðum:
Bar 11 – Miðvikudaginn 30 okt (Off venue)
Lucky Records – Fimmtudaginn 31. okt (off Venue)
Harpa – Norðurljós Fimmtudaginn 31. okt (Airwaves)
Harpa – Kolabrautin – Föstudaginn 1. okt (Off venue)
Kexp Session – Kex Hostel – Laugardaginn 2. Okt ( Off venue)
Gamli Gaukurinn – Laugardaginn 2. okt (Airwaves)

 

Eitthvað sem þú villt koma á framfæri að lokum?
Hey bara meira rokk og minna hótel skiluru. Tékkið á snillingunum í Captain Fufanu á Airwaves því þeir lofa að vera með eitthvað kreisí sett.

Ingibjörg í Boogie Trouble

Hin frámunalega fönkí Ingibjörg Elsa Turchi sem slær bassa með Boogie Trouble, Babies og Bjór var spurð spjörunum úr um Airwaves í yfirheyrslu dagsins.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

Það var árið 2011, en það ár var ég ekki í neinum hljómsveitum sem spiluðu. Hafði samt spilað frá 2007.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?
Það var með hljómsveitinni Rökkurró árið 2007 í Iðnó.  Ég man eiginlega ekkert eftir tónleikunum en það hlýtur bara að hafa verið gaman. Kannski pínu stress.

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?
Í ár mun ég spila á minni sjöttu hátíð.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálf?

Ætli það sé ekki á Airwaves 2012 með Boogie Trouble. Við vorum með tvenna tónleika á sjálfri hátíðinni og þeir fyrri voru í Kaldalóni, sem er sitjandi salur, klukkan 19 á föstudegi. Á tónleikum með Boogie þá er það lenska að allir hafi reimað á sig dansskóna og höfðum við oftast spilað eftir miðnætti en þarna sátum við dálítið eins og fyrir dómnefnd. En svo í miðju setti stóð sem betur fer einhver upp og byrjaði að dansa sem endaði með því að næstum allir stóðu upp og dönsuðu í sætunum sínum sem var gaman og þó nokkur léttir.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?
Einfaldlega stækkað og svo er off-venue prógrammið orðið jafn viðamikið og hátíðin sjálf, sem er ágætt fyrir þá sem ná ekki að kaupa miða. Það gefur líka fleiri hljómsveitum tækifæri á að spila.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?
Mér finnst Iðnó alltaf mjög notalegur, þegar það er þannig tónlist sem við á. Í raun er ég hrifnust af þeim stöðum þar sem nándin við hljómsveitina er sem mest og því er ég ekki hrifinn af of stórum sviðum í alltof miklu fjölmenni. Inn í spilar líka að ég er lágvaxin og þarf oft að hafa mikið við til að sjá sem best.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af?
Ekki neinum sem ég man eftir í fljótu bragði, það hefur örugglega bara leitt til þess að ég hef farið á einhverja aðra í staðinn, kannski einhverja hljómsveit sem ég þekkti ekkert.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?
Að taka þessu með ró og hafa gaman af.

 

Hverju ertu spenntust fyrir á hátíðinni í ár?
Ég er alltaf mjög spennt fyrir íslenskum böndum og svo langar mig að ná miða á Kraftwerk. En ég hef ekki skoðað line-upið mikið.

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit/hljómsveitir?

Aðallega erlend fjölmiðlaumfjöllun. Einnig hafa KEXP-vídjóin gert góða hluti fyrir bönd sem ég hef spilað með.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

Árið 2012 spilaði ég samtals 13 sinnum, með tveimur böndum, að off-venueum og KEXP vídjóum meðtöldum.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?
Kraftwerk.

 

Listasafnið eða Harpa?
Listasafnið.

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?
Með Boogie Trouble verð ég on-venue á laugardeginum kl. 21.20. Svo verðum við 5 sinnum off-venue. Einnig mun ég spila tvisvar off-venue með Babies og einu sinni með rapphljómsveitinni Bjór.

Tónleikar vikunnar

Það er af nægu að taka í tónlistarlífi höfuðborgarsvæðisins þessa vikuna og hér verður farið yfir það helsta.

 

Miðvikudagur 16. október

Reggístórsveitin Ojba Rasta fagnar útgáfu annarrar plötu sinnar með hlustunarteiti á Harlem. Teitin hefst klukkan 21:00 og aðgangur er ókeypis, sem og veigar fyrir þá sem mæta snemma.

Skelkur í bringu, Godchilla og Kælan Mikla stíga á stokk á Gamla Gauknum á tónleikum sem bera yfirskriftina „Punk is not Dead“ eða „Ræflarokkið er ekki látið“ eins og það gæti útlagst á ástkæra ylhýra. Þau skilaboð er vert að minna á reglulega en ókeypis er inn á tónleikana sem hefjast klukkan 21:00

Fimmtudagur 17. október

Systrasveitin Bleached frá Los Angeles heldur tónleika á  Harlem. Tónleikarnir hefjast kl. 22 og um upphitun  sér íslenska harðkjarnasveitin Muck. Bleached er ein heitasta jaðarsveit Los Angeles í dag og er skipuð systrunum Jennifer og Jessie Clavin. Þær gáfu nýverið út sína fyrstu breiðskífu, Ride Your Heart, sem hefur fengið einkar góða dóma hjá helstu tónlistarmiðlum, meðal annars 4/5 í Mojo. Tónleikar þeirra eru þeir fyrstu í langri tónleikaferð þeirra um alla Evrópu en miðasala er á midi.is og í verslunum Brim, Laugavegi og Kringlunni, miðaverð er 2000 krónur.

Harðkjarnatónleikar verða á Gamla Gauknum en þar koma fram Klikk, Trust the Lies, Mercy Buckets og Icarus. Aðgangseyrir er 1000 krónur og kjarninn byrjar að harðna klukkan 21:00.

Rafpoppsveitin Vök sem sigraði músíktilraunir fyrr á árinu fagnar útgáfu EP-plötunnar Tensions á Kex Hostel. Húsið opnar 20:30, tónleikarnir hefjast hálftíma síðar og miðaverð er 1500 krónur.

Föstudagur 18. október

Amaba Dama, Retrobot og Tuttugu efna til tónleikahalds á Gamla Gauknum. Aðgangseyrir er 1000 krónur og gleðin hefst upp úr 22:00.

Pönkhljómsveitin Slugs sem er leidd af Sindra Eldon fagnar útgáfu sinnar annarrar plötu, Þorgeirsbola, á Bar 11. Þetta verða fyrstu tónleikar sveitarinnar í 3 ár en Skelkur í Bringu koma einnig fram. Tónleikarnir hefjast klukkan 11 og kostar 500 kr inn.

Maya Postepski, trommuleikari kanadísku indie-elektró hljómsveitarinnar Austra, þeytir skífum á Harlem. Austra hefur átt mikilli velgengni að fagna beggja vegna Atlantshafs og var hljómsveitin meðal annars tilnefnd til Polaris verðlaunanna 2011 og komu fram á Iceland Airwaves sama ár. Postepski hefur leikinn á miðnætti í hliðarsal Harlem og aðgangur er ókeypis.

Laugardagur 19. október

Útgáfutónleikar Flugvélar og Geimskips verða á Kex Hostel. Sveitin gaf nýverið út plötuna Glamúr í Geimnum en á tónleikunum verða einnig í boði, kraftaverk, furðuleg kvikmynd, töfrar og ljósadýrð eins og fram kemur í tilkynningu frá sveitinni. Ævintýrið hefst 21:00 og það kostar 1000 krónur að taka þátt í því.

Airwaves Yfirheyrslan – Þorbjörg í Retro

Mynd: Oliver James L’eroe.

Í yfirheyrsluherberginu þennan föstudag situr Þorbjörg Roach Gunnarsdóttir, hljómborðsleikari Retro Stefson. Hún hefur spilað á Airwaves síðan á barnsaldri og við þjörmuðum að henni og fengum hana til að segja okkur allt sem hún veit um hátíðina.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?


Það var á Ariwaves 2006 og við spiluðum þá á Grand Rokk. Vorum svo lítil að það átti varla að hleypa okkur inn á staðinn þegar við mættum í sándtékk. Eftirminnilegast voru tónleikarnir sjálfir, var búin að vera mega spennt og hlakka til svo lengi. Ég man svo hvað ég var hissa þegar ég sá röðina fyrir utan þegar við vorum að fara að byrja. Stemmningin var rosa góð á tónleikunum og allt gekk vel. Svo er meira að segja til mega krúttlegt myndband af okkur frá þessum tónleikum, og viðtal þar sem allir eru rosa litlir og feimnir og sumir ekki einu sinni komnir í mútur. Tónleikarnir á Gauknum með Datarock og Whitest Boy Alive á eftir voru líka mjög eftirminnilegir og fáránlega góðir og skemmtilegir tónleikar. Whitest Boy Alive enduðu að mig minnir á Show Me Love með Robin S, sem var frekar gott!

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?
Þetta verður í áttunda skiptið núna í ár.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

Vá, það eru svo margir. Datarock og Whitest boy alive eins og ég nefndi áðan. Svo voru líka Chromeo tónleikarnir á Gauknum 2007 klikkaðir. Trentemøller (sem ég elskaði ó svo mikið) árið 2008 í Listasafninu. Og Metronomy 2009 í Listasafninu.. Ég gæti haldið lengi áfram.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálf?


Þeir voru  á Nasa árið 2008 minnir mig. Við vorum nýbúin að gefa út fyrstu plötuna okkar og dálítið hype í gangi. Ég man bara hvað ég var glöð og stressuð í bland þegar ég sá hvað það var troðfullt á Nasa og geðveik stemmning. Tónleikarnir gengu svo fáránlega vel og allir mega glaðir.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?
Nasa. Punktur. Annars finnst mér Iðnó komast næst Nasa í útliti á salnum sjálfum og það myndast alltaf góð stemmning þar. Mér finnst það dáldið kósý og finnst að Iðnó ætti að vera notað meira undir tónleika og fleiri skemmtanir.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af?
Ég var heví fúl að hafa misst af Robyn og líka Moderat árið 2010. Við vorum að spila á einhverju menntaskólaballi á sama tíma og Moderat áttu að vera svo ég fór ekkert. Síðan hafði dagskránni seinkað þannig að ég hefði alveg náð að sjá hluta af tónleikunum. Frekar fúlt. Svo var ég líka mjög leið að hafa misst af Tune-Yards árið 2011.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?
Hmm bara ekki vera of stressaðir og reyna of mikið þó að það sé eitthvað mikilvægt fólk á hátíðinni og svoleiðis. Hafa frekar bara gaman og skemmtilegt að hafa tónleikana kannski pínku öðruvísi en venjulega.

 

Hverju ertu spenntust fyrir á hátíðinni í ár?
Er mjög spennt fyrir að sjá þrívíddarsjó-ið hjá Kraftwerk. Hef aldrei séð þá live heldur. Svo er ég líka spennt fyrir MØ, Jon Hopkins, Omar Souleyman og AlunaGeorge (sem ég næ reyndar ekki að sjá því við erum að spila á sama tíma).

 

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?


Rosalega mikla bara. Þetta vekur svo ótrúlega mikla athygli á landinu og því sem er að gerast hér í tónlistarlífinu. Svo er hátíðin líka bara mikilvæg fyrir okkur sjálf, íslenskt tónlistarfólk og -áhugamenn, einskonar árshátíðin okkar og eitthvað til að hlakka til.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?


Hmm ég er ekki alveg viss. Örugglega svona 7 eða 8 sinnum. Vorum eitt árið að spila þrisvar sinnum á official dagskránni og svipað oft off venue. Held þetta hafi verið 2008.

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin?


Ég held bara 2006. Þá var þetta allt svo nýtt og spennandi. Mig langaði svo að fara 2005 því bræður mínir voru að fara og fullt af skemmtilegum hljómsveitum eins og Architecture in Helsinki og Annie og fleiri. En ég var náttúrulega bara 15 ára og frekar fúl að fá ekki að fara. Þess vegna var ég svo þakklát og glöð að komast 2006. Var búin að kynna mér allt rosa vel og mætti snemma á alla tónleika, náði að sjá eiginlega allt sem mig langaði til. Búin að fá lánuð skilríki hjá vinkonu stóra bróður míns og leggja kennitöluna og stjörnumerki á minnið og svona.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?


Kraftwerk klárlega.

 

Listasafnið eða Harpa?


Mér finnst meiri Airwaves stemmning í Listasafninu og ég er búin að sækja marga frábæra tónleika þar á Airwaves, en Harpan er líka mjög næs þegar það er vont veður t.d. Myndast líka minni raðir og það eru rosa flott ljós og gott hljóð þar.

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?


Við í Retro erum að spila í Norðurljósum í Hörpu á miðvikudeginum kl. 23:20 og í Listasafninu á föstudeginum á miðnætti. Svo verðum við líka á off venue dagskránni, erum í Jör á fimmtudeginum kl. 17, á föstudeginum á Hotel Marina kl. 19:00 og svo í Bláa lóns partíinu á laugardeginum kl. 14:00.

Off-Venue dagskrá Airwaves kynnt

Off-Venue dagskráin á Iceland Airwaves hefur nú verið gerð opinber og hefur hún aldrei verið viðameiri. Yfir 600 tónleikar eru í boði á tæplega 50 tónleikastöðum svo þeir sem ekki náðu í miða á hátíðina sjálfa ættu ekki að örvænta, heldur reyna að upplifa Airwaves stemmninguna off-venue, alveg ókeypis. Þar má meðal annars finna stórgóða erlenda flytjendur eins og Mac DeMarco, sem þessi vefsíða mælir sérstaklega með, en dagskrána má nálgast hér.

Mynd: Alexander Matukhno.

James Murphy Rímixar Bowie

James Murphy, fyrrum forsprakki LCD Soundsystem, hefur nú endurhljóðblandað Love is Lost, lag aldraða kamelljónsins Davið Bowie. Lagið er af endurkomuplötu Bowie, The Next Day, sem kom út í febrúar á þessu ári og endurhljóðblöndunina verður að finna á viðhafnarútgáfu plötunnar sem kemur út 5. nóvember. Þeir kumpánar unnu síðast saman að gerð lagsins Reflektor með Arcade Fire með afar góðum árangri. Í meðförum Murphy verður Love is Lost að tíu mínútna melankólískum diskósmelli sem heldur blúsuðu píanói upprunalegu útgáfunnar en bætir við ofsafengnum klapptakti og speisuðuem hljóðgervlum ásamt fleiru. Hlustið á lagið hér fyrir neðan.

Major Lazer á Sónar í Reykjavík

Nú hafa fyrstu listamennirnir sem munu spila á næstu Sónar hátíð í Reykjavík verið tilkynntir og þar ber hæst Major Lazor hópinn sem leiddur er af Diplo. Lagið Get Free var feikivinsælt á síðasta ári og að mati þessarar síðu annað besta lag ársins, og platan Free The Universe sem kom út í byrjun þessa árs var reggískotinn partýbræðingur af bestu sort. Þá mun Daphni koma fram á hátíðinni, en það er hliðarverkefni Daniel Snaith sem er best þekktur sem Caribou, en hann sótti Ísland heim undir því nafni árið 2011 og hélt stórbrotna tónleika á Nasa. Þá hefur þýski plötusnúðurinn Kölsch verið bókaður og íslensku sveitirnar Hjaltalín, Sykur og Sometime hafa verið staðfestar. Sónar hátíðin fer fram í Hörpu dagana 13. til 15. febrúar næstkomandi en hún var fyrst haldin hér á landi í febrúar á þessu ári en umfjöllun straum.is um hátíðina má nálgast hér. Miðasala á hátíðina fer fram á midi.is og hægt er að hlusta á Major Lazer og Daphni hér fyrir neðan.

Tónleikar helgarinnar

Hér verður veitt heildarinnsýn inn í allt það markverðasta í tónleikahaldi á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Njótið á eigin ábyrgð og gangið greiðlega um gleðinnar dyr.

 

Fimmtudagur 3. október

Hljómsveitin Grísalappalísa mun stíga á stokk í verslunarkjarnanum Mjóddinni í Mjóddinni. Tónleikarnir eru hugsaðir sem menningarinnslag Grísalappalísu til Breiðholtsins en þeir hefjast klukkan 18:00 og aðgangur að þeim er ókeypis.

 

Fönkkvöld verður haldið á Gauk á Stöng en þar verður á boðstólum sálarfull angist frá Fox Train Safari, skaðræðisfönk frá helvíti í boði Óreglu og groovy goodness frá krökkunum í Babies, sem loka kvöldinu. Aðgangseyrir er 1000 krónur og tónleikarnir hefjast klukkan 22:00.

Föstudagur 4. október

Á undiröldunni, tónleikaröð Hörpu og 12 tóna, koma fram noise- og raffrumkvöðlarnir í Stilliuppsteypu og einyrkinn Rafsteinn. Aðgangur að tónleikunum er að venju ókeypis og þeir hefjast klukkan 17:30.

 

Plötusnúðatvíeykið It Is Magic kemur fram í hliðarsal Harlem en þeim til halds og traust verða strákarnir í Nolo. Fyrstu skífunni verður þeytt á slaginu 22:01 og dansinn mun duna eins lengi og lög um vínveitingar leyfa, eða til 04:30.

 

Kvikmyndin Days of Gray verður frumsýnd á RIFF kvikmyndahátíðinni í Gamla bíói á Ingólfsstræti. Myndin er þögul en hljómsveitin Hjaltalín samdi tónlist við hana og mun í þetta eina skipti flytja tónlistina live við myndina. Kvikmyndatónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og miðaverð er 2900 kr. en passahöfum á RIFF býðst miðinn á 2400.

Laugardagur 5. október

Á þessum degi eru 50 ár síðan Hljómar komu fram á sínu fyrsta balli og í tilefni þess er blásið til stórtónleika til heiðurs sveitarinnar í Eldborgarsal Hörpu. Tónlistarstjóri er Eyþór Gunnarsson en um söng sjá Stefán Hilmarsson, Valdimar Guðmundsson, Unnsteinn Manuel og Ágústa Eva Erlendsdóttir. Sérstakir gestir verða hinir upprunalegu Hljómar; Engilbert Jensen, Gunnar Þórðarson, Erlingur Björnsson ásamt syni Rúnars Júl, Júlíus Frey Guðmundssyni. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og miðaverð er frá 4990 til 10990 eftir sætum.

 

Jackass-æringinn Bam Margera býður í brúðkaupsveislu og tónleika til styrktar hjólabrettamenningu í Reykjavík. Veislan verður haldin í Hafnarhúsinu og fram koma Endless Dark, Kaleo, Emmsjé Gauti, SÍSÍ EY og Fuckface Unstoppable. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 3500 krónur.

Hlustið á fyrsta lag Starwalker

Hljómsveitinn Starwalker hefur nú gefið út sitt fyrsta lag sem nefnist Bad Weather. Starwalker er dúett Barða Jóhannssonar sem oft er kenndur við Bang Gang og J.B. Dunckel sem er best þekktur sem annar helmingur frönsku hljómsveitarinnar Air. Báðir eru þekktir sándpervertar og er hljómur lagsins eftir því, hnausþykkur synthabassi og retró orgel blandast píanó, kassagítar og strengjum og loftkennd rödd Barða svífur svo yfir öllu saman. Hlustið á lagið hér fyrir neðan en myndband við það er væntanlegt síðar í vikunni.