Spennumælir: It’s Album Time með Todd Terje

Norsarinn Todd Terje hefur í yfir áratug verið einn af fánaberum hinnar svokölluðu geimdiskó-senu ásamt samlöndum sínum Lindstrom og Prins Thomas. Sá geiri keyrir mikið á samruna diskótónlistar og bernskuára raftónlistarinnar, retrófútúrisma með áherslu á  rómantíska framtíðarsýn 7. og 8. áratugarins á tækniframfarir og geimferðir. Hugsið um kokteilboð í skýjaborginni úr Empire Strikes Back, diskótek í Deep Space Nine geimstöðinni, grafíkina á Moon Safari plötunni og búningahönnun og leikmynd Barbarellu.

 

Hann hefur getið sér gott orð fyrir ep-plötur og smáskífur á borð við Eurodans, Ragysh, Here come the Arps og nú síðast Inspector Norse sem tröllreið öllum dansgólfum sem fætur á festi sumarið 2012. Þá liggja eftir hann tugir ef ekki á annað hundrað endurhljóðblandanir, bæði af gömlum diskósmellum og nýrri listamönnum. En þrátt fyrir langan feril hefur hann aldrei áður reynt við breiðskífuformið fyrr en nú, á plötu sem ber hinn sjálfsmeðvitaða og galsafulla titil It’s Album Time … with Todd Terje.

Ástæðan fyrir þessum langa biðtíma er augljóslega ekki skortur á efni heldur að hann vildi vanda til verka og árangurinn er auðheyrður. Þetta er ekki samansafn af smáskífum heldur breiðskífa með stóru B- og R-i og áherslu á breidd. Hún hefur upphaf, miðju, endi og útpældar brýr og uppbyggingar þar á milli. Á plötunni er Terje er með annan fótinn á ströndinni en hinn út í geimi. En svo er hann líka með fullt af aukafótum sem hlaupa um dansgólf, kokteilboð, kvikmyndir, karnívöl og bara hvert sem þeim og Terje sýnist. Hann er tónlistarmaður með húmor fyrir sjálfum sér – en hann tekur húmorinn alvarlega og af barnslegri einlægni frekar en útjaskaðri kaldhæðni.

 

Upphafs- og titillagið er eins og tónlistin áður en tjaldið fellur og sýningin byrjar, upptaktur sem er ætlað að skapa eftirvæntingu. Leisure Suit Preben er fágaður lounge-djass með kosmískum undirtónum og Alfonso Muskedunder er 70’s spæjarafönk af bestu sort sem hljómar eins og eitthvað úr smiðju argentínska kvikmyndatónskáldsins Lalo Schifrin. Delorean Dynamite flýgur með þig upp fyrir gufuhvolfið og í fullkomnum heimi væri Strandbar þematónlist Ibiza frekar en David Guetta.

Terje sannar á plötunni að hann er algjört sándséní og hljóðheimurinn er hreint út sagt virtúósó. Þar dansa sembalar samba við sílófóna og bongótrommur bjóða léttfönkuðum gíturum upp í villtan vals. Í honum má líka finna píanó, strengi og örugglega tugi fermetra af effektarekkum sem líma alla þessa mismunandi parta saman. En hryggjarstykkið er samt hljóðgervlarnir sem eru undirliggjandi og alltumlykjandi og Todd Terje er yfirburðarmaður í þeirri deild. Hljómurinn stundum bjartur og tær eins og lækir í vorleysingum eða ægidjúpur bassi úr botni Kyrrahafsins. Synþarnir  hljóma sitt á hvað eins og geimskip í flugtaki, ölduniður eða geislabyssur, allt eftir því hvaða andrúmslofti lagið kallar eftir. Sólóið í Preben goes to Acapulco á eftir að framkalla bros út að eyrnasneplum og glott upp að hársverði hjá öllum með púls sem á það hlýða.

Um miðbik plötunnar róar hann hana niður með hægasta tempóinu og eina sungna laginu, Johnny and Mary, sem Bryan Ferry ljær rödd sína og aldraðan elegans. Það líður þó ekki á löngu áður en hann keyrir allt í gang aftur og Swing Star Pt. 1 og 2 eru crescendó-ið yfir í lokahluta verksins. Oh Joy er sjö mínútna lúxusútsýnisferð um fjarlægar vetrarbrautir og innan þess má finna kjarnað þykkni af Giorgio Moroder, Vangelis, Jean Michel Jarre og Yellow Magic Orchestra. Lotningarfullur virðingarvottur við synþameistara fortíðarinnar og það lag á plötunni sem er mest í anda I Feel Space, flagggeimskips senunnar sem Lindstrom lagði úr höfn með fyrir ríflega tíu árum síðan.

Rúsínan í háfleygum pylsuendanum er svo Inspector Norse sem með sínu hoppandi skoppandi sci-fi diskói gæti fengið hreyfihamlaðan mann til að rísa upp úr hjólastólnum og valhoppa í takt. Það sem einkennir plötuna er tilgerðarlaus og óbeisluð gleði ásamt óskammfeilnum tilvísunum í ótöff tónlistarstefnur sem eru miklu meira hylling en hæðni. Platan er heilsteypt og aðgengileg og á erindi til aragrúa fleiri en venjulegra raftónlistarhausa. Þetta tónlistarár þarf að vera virkilega gott ef að þetta telst ekki með því allra besta sem gerðist á því við lok þess. Todd Terje hefur með þessum fljúgandi diski tekið forystuna í geimkapphlaupinu.

It’s Album Time with Todd Terje: 21 Volt af 24 mögulegum.

Davíð Roach Gunnarsson

Lag og plata frá Jack White

Jack White tilkynnti í dag að von væri á nýrri breiðskífu frá kappanum sem mun heita Lazaretto en hans fyrsta sólóskífa, Blunderbuss, kom út árið 2012. Við sama tilefni afhjúpaði hann eitt laga plötunnar, High Ball Stepper, sem er þó ekki fyrsta smáskífan, en það er án söngs. Platan kemur út þann 9. júní næstkomandi en von er á fyrstu smáskífunni síðar í apríl. Þrátt fyrir að vera ósungið sver lagið sig í ætt við það besta sem hefur komið frá honum og White Stripes, töffaraleg og djúpblúsuð sveifla með miklum gítarfimleikum þar sem bjögunin er keyrð í botn. Þá eru einhvers konar indíánaóp í því líka sem minna talsvert á vestrameistarann Ennio Morricone. Hlustið á lagið hér fyrir neðan.

Hlustaðu á nýja GusGus lagið

Rétt í þessu var nýjasta smáskífa GusGus að detta á internetið. Lagið heitir Crossfade en það hefur heyrst á tónleikum með sveitinni undanfarið rúmt ár. Lagið er ljúfsár og taktfastur óður til danstónlistar og DJ-menningar, hlaðinn nostalgíu og fögnuði. Það verður á breiðskífu með sveitinni sem er væntanleg síðar á árinu. Síðasta plata GusGus, Arabian Horse, kom út árið 2011 og hlaut einróma lof gagnrýnenda, grúskara og meginþorra almennings. Hlustið á lagið hér fyrir neðan.

Hlustið á Bryan Ferry með Todd Terje

Norski geimdiskóboltinn Todd Terje gerði nýverið lagið Johnny And Mary aðgengilegt,  en í því nýtur hann aðstoðar flauelsbarkans og fyrrum Roxy Music söngvarans Bryan Ferry. Lagið er ábreiða af lagi enska söngvarans Robert Palmer og verður á væntanlegri breiðskífu Todd Terje, It’s Album Time, sem kemur út 8. apríl. Terje hefur þó áður unnið með Bryan Ferry en hann hefur endurhljóðblandað lögin Love is the Drug, Don’t Stop the Dance og Alphaville með Roxy Music. Hlustið á lagið hér fyrir neðan ásamt Delorean Dynamite sem einnig verður á plötunni. Þá látum við endurhljóðblöndun Todd Terje af Love is the Drug fylgja í kaupbæti.


Neutral Milk Hotel spila í Hörpu

Hin goðsagnakennda bandaríska indísveit Neutral Milk Hotel er væntanleg til landsins í sumar og mun leika á tónleikum í Silfurbergssal Hörpu þann 20. ágúst. Hljómsveitin er frægust fyrir plötuna In an Aeroplane over the Sea sem kom út árið 1998 en stuttu eftir úgáfu hennar lagðist hún í langan dvala og er fyrst núna að koma saman aftur. Miðasala á tónleikana hefst 5. apríl á harpa.is en upphitun verður tilkynnt þegar nær dregur. Hlustið á upphafslag In an Aeroplane over the Sea hér fyrir neðan.

Rafmagnsstóllinn: Úlfur í Oyama

Á dögunum áskotnaðist ritstjórn Straums forláta stóll úr yfirgefnu fangelsi í Texas. Þetta gerðarlega húsgagn væri synd á láta liggja ónotað og þess vegna kynnum við til leiks nýjan lið á síðunni; Rafmagnsstólinn! Í hverri viku fáum við tónlistarmann til að setjast í stólinn, bindum hann niður og hleypum á hann 2400 volta straumi þannig hann grillist vel og vandlega. Í fyrstu leiðir þetta til þvag- og saurmissis en að lokum endar raflostið með því að listamennirnir segja okkur frá sínum dýpstu órum og leyndarmálum, sem við munum svo birta samviskusamlega hér á síðunni.

Að þessu sinni var það Úlfur Alexander Einarsson sem þenur raddböndin með rokksveitinni Oyama sem settist í rafmagnsstólinn, en hann hefur verið önnum kafinn undanfarnar vikur við upptökur á fyrstu breiðskífu Oyama sem er væntanleg næsta haust. Milli ofaskenndra kippa náði hann að hreyta út úr sér eftirfarandi svörum:

 

Hvað er það besta við að vera tónlistarmaður?
Gellur.

 

En versta?
Gellur.

 

Hvaða tónlistarmann/hljómsveit myndirðu mest vilja hita upp fyrir?
Neutral Milk Hotel.

 

Hvað er besta tónlist sem þú hefur uppgötvað á árinu?
Skúli Sverris.

 

Hvað er uppáhalds kvikmyndatónskáldið þitt?
Ég hef ekki hlustað mikið á kvikmyndatónlist, en ég þyrfti eiginlega að gera meira af því. Það er svo mikið af áhugaverðu dóti sem verður til þegar verið er að semja tónlist sem á að passa við bíómynd, aðrar áherslur í gangi. En ég elska Ennio Morricone.

 

Hvað er uppáhalds tímabilið þitt í tónlistarsögunni?
80’s nýbylgja. Mikið af uppáhalds hljómsveitum mínum og áhrifavöldum uppáhalds hljómsveita minna urðu til á þessu tímabili.

 

Hvað er 5 mest spiluðu lögin og í iTunes-inu þinu?
Sjitt, tölvan mín var að koma úr viðgerð og allt svona dót er horfið. En ég ætla að giska á að Sheila með Atlas Sound hafi verið mest spilaða lagið í iTunes hjá mér.

 

En plötur?
Ég ætla að giska á Bitches is Lord með Adrian Orange og síðan Microcastle og Halcyon Digest með Deerhunter hafi verið einhverstaðar á toppnum.

 

Hvað eru bestu tónleikar sem þú hefur séð nýlega?
Nick Cave á ATP seinasta sumar. Það voru mest intense tónleikar sem að ég hef séð.

 

Uppáhalds plötuumslag?
Deceit með This Heat er í miklu uppáhaldi.

 

Þekkirðu Jakob Frímann?
Nei. En ég var á fundi um daginn þar sem hann var líka og hann var í frakka.

 

Hvaða tónlistarmönnum lífs eða liðnum værirðu helst til í að taka
jam-session með?
Dave Longstreth. Hann er ruglaður. Eða Boredoms, það væri örugglega geðveikt.

 

Ef þú mættir velja einn rappara til að vinna með, hver væri það?
Kanye West. Hann er svo intense og svo ótrúlega steiktur og klár á sama tíma.

 

Ef þú gætir unnið með hvaða upptökustjóra sem er, hver myndi það vera?
Rick Rubin.

 

Hvaða plata fer á á rúntinum?
Roughness and Toghness með Graveslime.

 

Hvað var síðasta tónlist sem þú keyptir?
MBV með My Bloody Valentine.

 

Hvað er neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í á tónleikum?
Einu sinni spilaði tveggja manna pönkbandið mitt Fist Fokkers á tónleikum á Grand Rokk með einhverjum hljómsveitum sem við þekktum ekkert. Á þeim tónleikum klappaði enginn á milli laga hjá okkur. Það var magnað.

 

Hvað lætur þú á fóninn í fyrirpartínu á laugardagskvöldi?
Fantómas.

 

Enn í eftirpartínu?
The Weeknd.

 

Uppáhalds borgin þín?
Ég hef aldrei tengt neitt sérstaklega við einhverja borg áður, en ég fór til Amsterdam um daginn og mér fannst það sjúklega næs borg.

 

Nú voruð þið í Oyama að taka upp ykkar fyrstu breiðskífu. Hvaða 5 orð lýsa
ferlinu best?
Svefn. Óvissa. Hiti. Einbeitning. Ánægja.

 

Nú vinnur hljómsveitin þín innan tónlistarstefnu sem kennd er við skógláp, gangið þið almennt í flottum skóm og skiptir það máli við sköpunina?
Við erum öll vel skóuð, annars hef ég ekki mikla skóðun á þessu máli.

Tónleikahelgin 19.-22. mars

 

Miðvikudagur 19. mars

 

Jordan Dykstra, Blewharp og Grímur koma fram á Gauk á Stöng. Jordan Dykstra er bandarískur fiðluleikari sem hefur unnið með listamönnum á borð við Dirty Projectors, Gus Van Sant og Atlas Sound. Blewharp er söngvaskáld frá Bandaríkjunum sem býr í Frakklandi sem blandar saman djassi og þjóðlagatónlist. Grímur hefur svo látið að sér kveða í akústísku senunni á Íslandi undanfarið. Húsið opnar 21:00 og tónleikarnir hefjast klukkutíma síðar en það er ókeypis inn.

 

Latínsextett Tómasar R. Og Ojba Rasta halda tónleika í Kaldalónssal Hörpu. Latínsveit kontrabassaleikarans Tómasar R. Einarssonar leikur efnisskrá á lögum á nýjum geisladiski Tómasar, Bassanótt, sem kom út s.l. haust. Ojba Rasta hafa verið að gera það gott undanfarið ár með líflegu reggíi með íslenskum textum. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og miðaverð er 3000 krónur, en 2000 fyrir nema og eldri borgara og miðasala er á midi.is og harpa.is.

 

Fimmtudagur 20. mars

 

Hin nýstofnaða sveit Highlands sem inniheldur Loga Pedro Stefánsson bassaleikara Retro Stefson og söngkonuna Karin Sveinsdóttur spilar á Funkþáttarkvöldi á Boston. Tónleikarnir hefjast 22:00 og aðgangur er ókeypis.

 

Steindór Grétar Kristinsson leikur á tónleikum í Mengi. Steindór Grétar er raftónskáld og meðlimur raftónlistabandsins Einóma (Touching Bass, Vertical Form, LMALC, Shipwreck). Tónleikar Steindórs verða í samstarfi við listakonuna Lilju Birgisdóttur og sviðs- og búningahönnuðinn Eleni Podara þar sem lifandi raftónlist blandast rödd og sjónrænum þáttum sem eru lauslega byggðir á verkunum Vertical on Flow eftir Steindór og Vessel orchestra eftir Lilju. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Morðingjarnir, Strigaskór nr. 42, For a Minor Reflection og Smári Tarfur koma fram á styrktartónleikum fyrir Kristin Arinbjörn Guðmundsson á Gauk á Stöng. Aðgangseyrir er 1000 krónur og tónleikarnir hefjast 22:00.

 

Þjóðlagaskotna rokksveitin Bellstop spilar á Hlemmur Square Hostelinu. Tónleikarnir hefjast 20:00 og það er ókeypis inn.

 

Pungsig og Black Desert Sun koma fram á Dillon og stíga á svið 22:00 og það er ókeypis inn.

 

Föstudagur 21. mars

 

Margrét Hrafnsdóttir söngkona og Þórarinn Sigurbergsson gítarleikari koma fram á tónleikum í Mengi. Þau munu leika m.a. lög eftir Petr Eben og John Dowland en lögin á efnisskránni spanna yfir 400 ár og margbreytileikinn eftir því, frá heitum ástarljóðum til dökkrar og drungalegrar dauðaþrár. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Laugardagur 22. mars

 

Good Moon Deer koma fram í Mengi. Good Moon Deer er tónlistarsjálf grafíska hönnuðarins Guðmundar Inga Úlfarssonar sem hófst með smávægilegu svefnherbergisgutli en í samkrulli með vininum og trommaranum Ívari Pétri Kjartanssyni (FM Belfast, Benni Hemm Hemm & Miri) hefur það tekið á sig áþreifanlegri mynd. Tónlistinni hefur verið lýst sem djass fyrir stafræna öld en á tónleikum Good Moon Deer má búast við framúrstefnulegum og geðklofnum smölunarbútum í bland við þunga trommutaktar og margvíslega, lifandi sjónræna skreytingar.

 

Rafsveitin Samaris sem mikið suð hefur verið í kringum kemur fram á tónleikum á Dillon en þeir hefjast 22:00 og aðgangseyrir er 500 krónur.

 

Frost, Different Turns og Morgan Kane koma fram á rokktónleikum á Gauk á Stöng. Aðgangseyrir er 1500 krónur og leikar hefjast 22:00.

Ný smáskífa með tUnE-yArDs

Fyrsta smáskífan af þriðju breiðskífu tUnE-yArDs hefur nú litið dagsins ljós og kallast lagið Water Fountain. Það er söngkonan Merrill Garbus sem fer fyrir verkefninu en hún tilkynnti öllum að óvörum fyrir tveimur vikum að breiðskífan Nikki Nack myndi koma út þann 6. maí næstkomandi. Í fréttamyndinni má sjá umslag plötunnar og hlustið á Water Fountain hér fyrir neðan.

Rafmagnsstóllinn: Þórður Grímsson

Á dögunum áskotnaðist ritstjórn Straums forláta stóll úr yfirgefnu fangelsi í Texas. Þetta gerðarlega húsgagn væri synd á láta liggja ónotað og þess vegna kynnum við til leiks nýjan lið á síðunni; Rafmagnsstólinn! Í hverri viku fáum við tónlistarmann til að setjast í stólinn, bindum hann niður og hleypum á hann 2400 volta straumi þannig hann grillist vel og vandlega. Í fyrstu leiðir þetta til þvag- og saurmissis en að lokum endar raflostið með því að listamennirnir segja okkur frá sínum dýpstu órum og leyndarmálum, sem við munum svo birta samviskusamlega hér á síðunni.

 

Þórður Grímsson, liðsmaður hljómsveitarinnar Two Step Horror, hlaut þann heiður að fá fyrstur að setjast í Rafmagnsstólinn, en hann stendur einmitt fyrir tónleikum í kvöld á Cafe Ray Liotta ásamt Vebeth hópnum. Þetta er það sem kom upp úr honum.

 

Hvað er það besta við að vera tónlistarmaður?
Það er held ég bara almennt gott að vera skapandi og búa til sinn eigin heim og loka sig af þar.

 

En versta?
Hlusta á skoðanir annarra sem eru á einhverri allt annarri bylgjulengd.

 

Hvaða tónlistarmann/hljómsveit myndirðu mest vilja hita upp fyrir?
Veit ekki með upphitun, en það væri gaman að gera eitthvað með Sonic Boom eða semja verk með Angelo Badalamenti til dæmis.

 

Hvað er besta tónlist sem þú hefur uppgötvað á árinu?
Ég enduruppgötvaði The Telescopes sem við erum að spila með á Berlin Psych Fest í Apríl. Annars er ég að fíla Russian.Girls mjög vel, það var góð uppgötvun þessa árs.

 

Hvað er uppáhalds kvikmyndatónskáldið þitt?
Krzysztof Komeda samdi mikið af frábærri tónlist fyrir kvikmyndir, t.a.m. Cul-de-sac, Rosemary’s Baby og Knife in the Water. Ég hef líka verið að hlusta á studio plötur og session sem hann var að fást við og það er allt saman alveg frábært.

 

Hvað er uppáhalds tímabilið þitt í tónlistarsögunni?
Sjöundi áratugurinn af óteljandi ástæðum, en ég get nefnt nokkrar.
1. Skynvillutónlist á borð við July, Soft Machine, Pink Floyd, The Move, United States of America, Kaleidoscope, Red Krayola og óteljandi öðrum.
2. Fatastíllinn var góður.
3. Plötukoverin fengu áður óþekkt púður.
4. Síðasta tímabilið fyrir hnignunina.
5. Psych var ekki orðið sell out.

 

Hvað er 5 mest spiluðu lögin og í iTunes-inu þinu?
Souvlaki Space Station – Slowdive (17)
Baby (Donnie & Joe Emerson cover) – Ariel Pink (14)
Mètché Dershé – Mulatu Astatke (13)
Jubilee Street – Nick Cave (12)
Head Over Heels – Tears for Fears (11)

 

En plötur?
Ég hugsa að Oscar Peterson og Mulatu Astatke sé frekar standard „go-to“ dinner músík, það er amk. tilefnið við að setja plötu á fóninn heima.

 

Hvað eru bestu tónleikar sem þú hefur séð nýlega?
Pink Street Boys á undiröldutónleikum í Hörpu, Dirty Beaches í Hörpu og Nick Cave á All Tomorrow’s Parties.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?
Ég veit ekki, fer frekar sjalda á tónleika. Harpa kannski.

 

Uppáhalds plötuumslag?
Já Vebeth safnplötu umslagið er killer, en ég er bara ekki alveg búinn með það.

 

Þekkirðu Jakob Frímann?
Já, Anna kærastan mín þekkir hann. Hann mætti á myndlistasýninguna mína í sumar, ég hitti hann þá.

 

Hvaða tónlistarmönnum lífs eða liðnum værirðu helst til í að taka jam-session með?

Það hefði verið áhugavert að gera eitthvað með Syd Barret, ég hef alltaf verið mjög hrifinn af hans tónlist.

 

Uppáhalds plötubúð í heiminum?
Ég keypti fullt af góðum plötum í Rock and Roll Heaven í Orlando, en ætli að sé ekki mest PC að segja Lucky’s, frábær búð.

 

Ef þú mættir velja einn rappara til að vinna með, hver væri það?
Snoop.

 

Ef þú gætir unnið með hvaða upptökustjóra sem er, hver myndi það vera?
Phil Spector.

 

Hvaða plata fer á á rúntinum?
FM Rondo.

 

Hvað var síðasta tónlist sem þú keyptir?
Ég eyddi rosa miklum pening í Pro Tools 11, annars er þetta genuinely erfið spurning.

 

Hvað er neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í á tónleikum?
Gleymt hvað kemur næst í sólói eða muldrað texta sem ég man ekki. Annars var það mjög neyðarlegt þegar ég sleit streng og kunni ekki að setja í nýjan á nýja gítarnum mínum og Baldvin þurfti að gera það fyrir mig á miðjum tónleikum.

 

Hvað lætur þú á fóninn í fyrirpartínu á laugardagskvöldi?
Clinic.

 

Enn í eftirpartínu?
Einhver ný demo, ég verð sérlega ein- og sjálfhverfur þegar ég er kominn yfir áfengisþolmörk mín.

 

Uppáhalds borgin þín?
Berlin.

 

Þið eruð að fara að gefa út ykkar þriðju plötu, Nyctophilia, hvaða fimm orð myndu lýsa henni best?
Downtempo – draumkennt – trommuheilarokk – Reverb – Tremolo.

 

Þið eruð hluti af hóp eða hreyfingu sem kallast Vebeth, segðu okkur frá gildum og markmiðum hennar.
Vebeth fæddist í Reykjavík árið 2009 og samanstendur af fólki úr hinum ýmsu listrænu greinum sem deila svipaðri fagurfræði, tónlistarsmekk og listrænni sýn. Ætlun okkar var að gera meðlimum hópsins kleift að koma tónlist sinni og myndlist á framfæri og gefa tónlistina út án aðkomu þriðja aðila. Meðal meðlima Vebeth eru tónlistarmenn, myndlistarmenn, vídeólistamenn, textagerðarmenn, ljósmyndarar og hönnuðir sem gerir okkur kleift að vinna í margvíslegum miðlum og þar með skapa sjálfbæra útgáfu á eigin efni.

 

Við hverju má fólk búast við á tónleikunum ykkar í kvöld?
Rock’n’roll

Vebeth ýta úr vör tónleikaröð

Fyrstu tónleikar í tónleikaröðinni „Kvöldstund með Vebeth“ verða haldnir föstudaginn 14. mars á Café Ray Liotta á Hverfisgötu. Vebeth er hreyfing tónlistar- og myndlistafólks sem aðhyllist svipaða fagurfræði og hafa m.a gefið út plötur undir merkjum hópsins. Á þessum fyrstu tónleikum koma fram hljómsveitirnar Russian.girls, Pink Street Boys og Two Step Horror en þær tvær fyrrnefndu hafa nýverið gengið til liðs við Vebeth. Tónleikarnir eru opnir öllum sem náð hafa áfengiskaupaaldri og aðgangseyrir er algjörlega ókeypis.

 

Fyrsta atriði á svið er Russian.girls, verkefni Guðlaugs Halldórs Einarssonar úr Captain Fufanu, sem spilar tilraunakennda og rafskotna skynvillutónlist. Þá munu Pink Street Boys spila hávaðarokk undir áhrifum sjöunda og áttunda áratugarins. Hljómsveitin Two Step Horror  endar svo kvöldið en hljómsveitin var stofnuð af Þórði Grímssyni og Önnu Margrét Björnsson fyrir um fimm árum síðan. Nýlega bættust þrír meðlimir við hljómsveitina, þeir Hafsteinn Michael Guðmundsson, Kolbeinn Soffíuson og Baldvin Dungal, en sveitin mun spila á tónlistarhátíðinni Berlin Psych Fest sem á sér stað í apríl þar sem þau munu meðal annars hita upp fyrir bresku „cult“ sveitina The Telescopes. Two Step Horror gefa út sína þriðju breiðskífu nú í vor en hún nefnist Nyctophlia.

 

Kjallarinn á Ray Liotta opnar klukkan 21:00 og klukkutíma síðar hefur Russian.Girls leik, Pink Street Boys fara á svið 23:00 og Two Step Horror slá svo botninn í dagskránna á miðnætti. Þá mun Straumur (Óli Dóri) sjá um skífuþeytingar á milli atriða og einnig að tónleikunum loknum inn í nóttina. Þetta verður einungis fyrsta kvöldið af mörgum en aðrir tónlistarmenn sem tilheyra Vebeth hópnum eru Singapore Sling, Dream Central Station, Rafsteinn, The Go-Go Darkness, The Third Sound, The Blanket of Death, The Dead Skeletons, The Meek ( US), DJ-Musician, Hank & Tank og Evil Madness.

Hér má svo hlusta á tóndæmi með sveitunum.

)
)