Tónleikar vikunnar 27. febrúar – 2. mars

Miðvikudagur 26. febrúar

Sin Fang og Hudson Wayne koma fram á Harlem Bar. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það kostar 1500 kr í reiðufé inn.

Fimmtudagur 27. febrúar

Hljómsveitin “Skuggamyndir frá Býsans”  heldur tónleika í Mengi á Óðinsgötu 2. Efnisskráin er samsett af þjóðlegri tónlist frá Búlgaríu, Tyrklandi, Makedóníu og Grikklandi. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

Brilliantinus, Gunnar Jónsson Collider, EINAR INDRA  og russians.girls (live) koma fram á Heiladans 32 á Bravó. Heiladansinn byrjar kl. 21 en DJ Dorrit sér um að koma fólkinu í gírinn.

Hljómsveitin Kiss the Coyote heldur tónleika Loft Hostel. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er frítt  inn.

Emmsjé Gauti heldur frumsýningarparty fyrir nýtt myndband á Prikinu. Partýið er frá 8-10 en eftir það taka YOUNG ONES við spilurunum.

Tónleikur heldur sína 7. tónleikaröð á Stúdentakjallaranum. Eftirfarandi listamenn munu koma fram: Tinna Katrín, Stefán Atli, Unnur Sara, Silja Rós, Tré og Slowsteps. Það er ókeypis inn og byrja tónleikarnir klukkan 21:00

Loji kemur fram á Hlemmur Square. Loji er hljómsveit sem spilar indí skotið pop. Hljómsveitin samanstendur af Grími Erni Grímssyni, Jóni Þorsteinssyni og Loji Höskuldsson. Loji er búin að gefa út tvær plötur Skyndiskissur og Samansafn en sú síðarnefnda kom út í októbermánuði 2013. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og það er ókeypis inn.

Föstudagur 28. febrúar 

 

Kristín Þóra heldur tónleika í Mengi. Kristín spinnur víólu- og hljóðvef um eigin lagasmíðar og fær til liðs við sig góða gesti. Kristín er víóluleikari með meiru og hefur starfað með fjölda hljómsveita og listamanna undanfarin ár. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Laugardagur 1. mars

Blacklisted, kimona, Grísalappalísa, Klikk, Kælan Mikla og Ofvitarnir koma fram í Hellingum í TÞM. Tónleikarnir eru fyrir alla aldurshópa og hefjast klukkan 18:00. Það kostar 1000 krónur inn.

Low Roar blæs til tónleika í Mengi. Sveitin er stofnuð af Ryan Karazija sem fluttist til Íslands frá San Francisco. Tónleikarnir í Mengi marka þá fyrstu í tónleikaferð Low Roar til kynningar á nýrri breiðskífu þar sem sveitin spilar t.a.m. 9 sinnum í Póllandi næstu 9 daga eftir tónleikana í Mengi.Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Sunnudagur 2. mars

KÍTÓN kynnir TÓNAR OG FLÆÐI í opnum rýmum Hörpu frá kl. 13.00 – 17.00. Fram koma í hornum Hörpu tónlistarkonur úr öllum áttum. Ókeypis aðgangur!

MUNNHARPAN

13.00 – 13.20 – Kristjana Arngrímsdóttir

14.00 – 14.20 – Brother Grass

15.00 – 15.20 – Rósa Guðrún Sveinsdóttir

16.00 – 16.20 – Magnetosphere

 

YOKO – HORNIÐ

13.20 – 13.40 – Adda

14.20 – 14.40 – Guðrún Árný

15.20 – 15.40 – Mamiko Dís,

16.20 – 16.40 – Nína Margrét Grímsdóttir,

 

NORÐURBRYGGJA

13.40 – 14.00 – Íris

14.40 – 15.00 – Bláskjár

15.40 – 16.00 – Brynhildur Oddsdóttir

16.40 – 17.00 – Una Stef

Straumur 24. febrúar 2014

Í Straumi í kvöld kíkjum við væntanlegar plötur frá The War On Drugs og Real Estate. Auk þess sem við skoðum nýtt efni frá Waters, Com Truise, Skakkamange  og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld á slaginu 23:00 á X-inu 977.

Straumur 24. febrúar 2014 by Straumur on Mixcloud

1) Got To My Head – Waters
2) Under the Pressure – The War On Drugs
3) An Ocean In Between the Waves – The War On Drugs
4) Lost In the Dreams – The War On Drugs
5) Wave 1 – Com Truise
6) Spectre – Tycho
7) Pffff – Big Spider’s Back
8) Good Mistake – Mr Little Jeans
9) Free From Love – Skakkamange
10) Had to Hear – Real Estate
11) Crime – Real Estate
12) Navigator – Real Estate
13) Lonely Richard – Amen Dunes
14) Naturally – Sean Nicholas Savage

Fyrstu listamennirnir tilkynntir á Aldrei fór ég Suður

Ellefta Aldrei fór ég suður hátíðin fer fram á Ísafirði dagana 18. og 19. apríl næstkomandi. Umstillingarnefnd hátíðarinnar tilkynnti fyrr í dag fyrstu listamennina sem koma fram í ár. Þeir eru:

★ MAUS
★ Retro Stefson
★ Cell 7
★ Mammút
★ Grísalappalísa
★ Tilbury
★ DJ flugvél og geimskip

Tónleikahelgin 20.-22. febrúar

Fimmtudagur 20. febrúar

Á Harlem fer fram Nordisk 2014 sem er samnorræn tónleikaferð um Danmörku, Færeyjar og Ísland. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur en eftirfarandi hljómsveitir koma fram:

Good Moon Deer
Íslenski rafdúettinn Good Moon Deer er skipaður Guðmundi Inga Úlfarssyni á hljóðgervla og Ívari Pétri Kjartansyni á trommur. Good Moon Deer leikur sjónræna og óhefðbundna raftónlist sem daðrar jafnt við Jazz og Teknó.

Byrta
Færeyski dúettinn Byrta er skipaður söngkonunni Guðrið Hansdóttir og Janusi Rasmussen, söngvara Bloodgroup en þau leika kraftmikið og dansvænt rafpopp.

Sea Change
Norska söngkonan Sea Change er undir sterkum áhrifum frá nýbylgjutónlist 9. áratugarins. Hún styðst við hljóðgervla, raddgervla og lykkjur og skapar sérstæða popptónlist sem hefur notið töluverða vinsælda um alla Evrópu.

Sekuioa
Dönsk raftónlistarsveit frá Kaupmannahöfn. Hljómsveitin spilar dansvæna raftónlist með lífrænum snertiflötum.

Rúnar Þórisson verður með útgáfutónleika í Iðnó en hann sendi frá sér sinn þriðja sólódisk, Sérhver vá, þann 15. nóvember síðast liðinn. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:30 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

Föstudagur 21. febrúar

Á tónleikaröðinni Undiröldinni í Hörpu koma fram Russian Girls og Kælan Mikla. Russian.girls er hugarfóstur Guðlaugs Halldórs Einarssonar og eins konar hliðarverkefni hans við hljómsveitina Captain Fufanu. Um er að ræða mun esóterískara efni en Fufanu og er útkoman áhugaverð blanda af raftónlist, Lounge og Ballöðum. Kælan mikla er melankólíkst ljóðapönk og samanstendur af þeim Sólveigu Matthildi Kristjánsdóttur, Margréti Rósa Dóru- Harrysdóttur og Laufeyju Soffíu Þórsdóttur. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 17:30 í Kaldalónssal Hörpu og aðgangur er ókeypis.

Noise-tónlistarhópurinn FALK blæs til tónleika í Mengi á Óðinsgötu 2 en fram koma listamennirnir Auxpan, KRAKKKBOT og AMFJ. Auxpan hefur starfað við raftónlist frá því fyrir síðustu aldamót og hefur komið víða við og verið til fyrirmyndar. Baldur Björnsson (KRAKKKBOT) hefur verið starfandi frá lokum síðustu aldar og hefur komið víða fram á tónleikum og tónlistarhátíðum bæði hérlendis og erlendis. Fyrsta breiðskífa KRAKKKBOTs er væntanleg innan skamms hjá FALK útgáfunni og fleiri útgáfur eru í deiglunni. AMFJ spilar næstum dansvæna óhljóðatónlist þar sem hversdagsleg umhverfishljóð hafa verið teygð og skæld og blönduð inní hljóðgervladrifinn og ágengan hljóðvegg. Hann tekst á ljóðrænan og fallegan hátt á við vandamál hins vinnandi manns í magnþrungnum samruna orða og tónlistar sem engan lætur ósnortinn. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

Sveitirnar Audio Nation og Postartica koma fram á Dillon. Leikar hefjast 22:00 og aðgangseyrir er enginn.

Laugardagur 22. febrúar

Þórir Georg og Knife Fights sameina krafta sína og efna til rokk-veislu á Dillon rock. Ballið byrjar um 22:00 og það er frítt inn.

Lokakvöld Sónar

Mynd: A. Albert

Lokakvöld Sónar-hátíðarinnar fyrir mig hófst með tónleikum Low Roar í flóanum. Hljómsveitin sem leidd er af Ryan var á sinni fyrstu plötu á ljúfsárum akústískum nótum hefur nú aukið við hljóðheiminn og er komin út í talsvert rafrænni pælingar og er það vel. Sveitin kom fram í viðhafnarútgáfu en auk Loga Guðmundssonar sem sér um trommur og hljómborð nutu þeir liðsinnis Mike úr Tung og Leifs Bjarnasonar á synþa. Því miður voru fáir mættir svona snemma því tónleikarnir voru hreint afbragð og sérstaklega var flutningur lokalagsins tilkomumikill. Þvínæst hljóp ég upp í Norðurljósasal þar sem ég náði síðasta lagi með Highlands, en bílskúrs og hússkotin popptónlistin þeirra lofar mjög góðu.

 

Reif í bergið

 

Þá var röðin komin að Mind in Motion, íslenskri rafsveit sem var starfandi á rave-tímabilinu í byrjun 10. áratugarins, en hafði komið saman aftur í tilefni Sónar eftir hvatningu á facebook. Þeir léku hreint og tært óldskúl hardcore, með hröðuðum raddsömplum og öllum pakkanum, og köstuðu meira að segja glowsticks út í salinn. Þá voru aðdáendur þeirra fremst við sviðið með dómaraflautur og það mátti sjá miðaldra reivara með bros á vör út um allan sal.

 

Fm Belfast voru í feikna stuði í Silfurbergi en löngu nóturnar hans Árna Vil komu öllum í mikið stuð, ekki síst í nýlegri lögum eins og Faster Than You. Þá sá ég Sykur í flóanum en þau nýttu tækifærið einnig í að koma með nýtt efni og sérstaklega hljómaði lagið Strange Loops, frábærlega sungið af Agnesi söngkonu, eins og verðandi slagari. Það geislaði af þeim á sviðinu og hljómurinn var hreint út sagt óaðfinnanlegur.

 

Fínir penslar og breiðir bassar

 

Ég gat hreinlega ekki ákveðið mig hvort ég færi á Trentemöller eða Major Lazer svo ég rölti bara á milli og tók inn sitt lítið af hvoru. Bæði atriði voru frábær en á mjög svo ólíkan hátt. Trentemöller var með hljómsveit með sér af mjög færum músíköntum og bauð upp á drungalegt tekknó með útpældum uppbyggingum og alls konar hljóðrænum smáatriðum.

 

Major Lazer hópurinn keyrði hins vegar allt í botn og sló áhorfendur í hausinn með tónlistarlegu ígildi sleggju, samsettri úr dancehall, dub step og hip hoppi. Það voru engin fíngerð blæbrigði í tónlistinni en bassinn var blastaður og sjóið í fyrirrúmi, með dönsurum, konfettí-sprengjum og öllum pakkanum. Á ákveðnum tímapunkti steig svo forsprakkinn Diplo inn í risastóra glæra plastkúlu og rúllaði í henni yfir áhorfendaskarann sem öskraði af ástríðu.

 

Á sama tíma að ári

 

Þegar ég fór aftur inn í Norðurljósasalinn hafði Trentemoller heldur betur gefið í í lokalaginu en þá var gítarleikarinn kominn út í villtan feedback kafla í anda Sonic Youth. Ég hélt svo út í nóttina þrunginn af bassa og með suð í eyrunum sem entist langt fram á kvöld.

 

Hátíðin í ár var feikilega vel heppnuð í nánast alla staði, hljóð og myndskreytingar voru í heimsklassa, tímasetningar stóðust og framkvæmd og hegðun hátíðargesta var til fyrirmyndar. Það er þess vegna mikið gleðiefni að þegar sé búið að tilkynna að hátíðin verði haldin aftur að ári. Umfjöllun straums um fyrri kvöld hátíðarinnar má lesa hér og hér.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Straumur 17. febrúar 2014

Í Straumi í kvöld kíkjum við væntanlegar plötur frá St. Vincent og Metronomy. Auk þess sem við heyrum nýtt efni frá Little Dragon, Tourist, Todd Osborn og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld á slaginu 23:00 á X-inu 977.

1) Prince Johnny – St. Vincent
2) Regret – St. Vincent
3) Severed Crossed Fingers – St. Vincent
4) Klapp Klapp – Little Dragon
5) Michigan Dream – Todd Osborn
6) 5thep – Todd Osborn
7) Birhday Song – Frankie Cosmos
8) Monstrous – Metronomy
9) The Upsetter – Metronomy
10) Boy Racers – Metronomy
11) Reservoir – Metronomy
12) Tetrahydrofolic Acid – Fujiya & Miyagi
13) I Can’t Keep Up (ft. Will Heard) – Tourist
14) Drunk In Love (Beyoncé cover) – The Weeknd

Annar í Sónar

Mynd: A. Albert

Föstudagskvöldið mitt hófst í Norðurljósasalnum þar sem Starwalker, hljómsveit Barða Bang Gang og J.B. Dunckel úr Air, lék á sínum fyrstu tónleikum. Þau voru þó greinilega þaulæfð því engan byrjendabrag var að heyra á flutningnum. Þetta er feikilega vandað og stílhreint rafpopp og Duncel fór á kostum í villtu synþasólói í lokalaginu.

GP með make-up

Næst á dagskrá var furðufyrirbærið Gísli Pálmi sem lék á alls oddi í Sónarflóanum. Hann var með svaðalega augnmálningu og að sjálfsögðu ber að ofan og hoppaði og skoppaði um allt sviðið auk þess að klifra upp á hátalara og rappa úr sér lungun. Taktarnir voru framreiddir af tveimur mönnum með klúta sem huldu andlit sín, en þeir eru mjög flottir, einhvers konar mínímalískur fútúrismi.

Eftir að hafa fengið ráðlagðan kvöldskammt af GP hélt ég í Silfurberg þar sem Bonobo hafði komið sér fyrir á sviðinu ásamt hljómsveit. Þau léku áheyrilegt trip hop með exótískum áhrifum frá hinum ýmsu heimsálfum auk þess að njóta aðstoðar söngkonu í nokkrum lögum. Ég hoppaði svo aðeins niður til að sjá hina eitilhörðu rapppíu Cell7 og sá ekki eftir því. Fyrsta sólóplatan hennar var með betri íslensku plötum síðasta árs og lögin af henni skiluðu sér vel á sviðið en hún naut aðstoðar meðlima Moses Hightower við flutninginn.

Dökkt og bjart tekknó

Þá var röðin komin að Jon Hopkins en hann nýtti hljóðkerfi Silfurbergs til hins ýtrasta, keyrði allt í botn svo þú fannst fyrir drungalegu tekknóinu með öllum líkamanum en ekki bara eyrunum. Klúbbastemmningin var allsráðandi og Hopkins stjórnaði dansandi skaranum eins og her af strengjabrúðum. Ég hljóp síðan yfir í Norðurljósasalinn til að sjá restina af Kölch sem bauð líka upp tekknó, en þó nokkuð bjartara og poppaðra en Hopkins. En ekki síður skemmtilegt og ég hélt dansandi út í nóttina með bassatrommu í hverju hjartslagi.

Kvöldið var vel heppnað og hátíðin almennt farið mjög vel fram hingað til. Í kvöld eru það svo Major Lazer, James Holden og Trentemoller sem ég hlakka hvað mest til að sjá. Lesið um það á morgun en hér er hægt að lesa umfjöllun um fyrsta kvöld hátíðarinnar.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Sónar fer vel af stað

Önnur útgáfa Reykjavíkurútibús Sónar hátíðarinnar hófst í gær og það er vonandi að hún festi sig í sessi sem árlegur viðburður.

 

Sax í Tonik

 

Það var gleðilegt að vel var mætt rétt upp úr 8 þegar fyrstu atriði kvöldsin voru að hefjast og það fyrsta á minni dagskrá var íslenski tónlistarmaðurinn Tonik. Hann spilaði frábært sett en með honum á sviðinu var Hörður úr M-Band sem söng og græjaðist auk selló- og saxafónleikara. Hljómurinn var dökkt og seyðandi tekknó og sálarfullur söngur Harðar var löðrandi í tilfinningu. Þrátt fyrir að hlaða raddbreytandi effektum á sönginn var mennskan undir niðri óyggjandi. Sellóið og saxafónninn voru síðan notuð á mjög óhefðbundinn hátt, oft ekki til að spila laglínur, heldur meira eins og hljóðgervlar sem byggðu ofan á hljóðheiminn. Allt í allt til mikillar fyrirmyndar og góður upptaktur að hátíðinni.

 

Minna er stundum of lítið

 

Ryuichi Sakamoto er stórmerkilegur tónlistarmaður en hann var meðlimur í japönsku sveitinni Yellow Magic Orchestra sem voru frumkvöðlar í raftónlist seint á 8. áratugnum og eru í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum. Þá hefur hann unnið mikið við kvikmyndatónlist og fékk meðal annars óskarsverðlaun í þeim flokki fyrir stórmyndina The Last Emperor. Það sem hann bauð upp á í Silfurbergi ásamt samstarfsmanni sínum Taylor Deupree var hins vegar einhvers konar öfgafull naumhyggja. Einni píanónótu haldið í hálfa mínútu í bland við rafhljóð sem voru svo fíngerð að þau voru nánast ógreinanleg.

 

Ég skil hugmyndina á bak við mínímalisma og get alveg notið hans en þetta var fullmikið af því góða, eins og æfing í engu, eða pínku ponsu meira heldur en þögn. Það lágstemmt að þú heyrðir nánast í fólki anda, svo ekki sé talað um stöðuga bassatrommuna sem drundi í gegnum gólfið frá neðri hæðinni. Þegar ákveðnum punkti er náð hættir minna að verða meira og heldur bara áfram að minnka. Risastór salurinn vann reyndar ekki með þeim og þetta hefði án efa virkað betur í Kaldalóni, en var í það minnsta full daufur kaffibolli fyrir minn smekk.

 

Hús og Högni

 

Eftir Sakamoto þurfti ég nauðsynlega að koma hreyfingu á blóðrásina og fékk hana í nokkrum lögum með Introbeats á Flóasvæðinu. Intro hefur um árabil verið einn fremsti hip hop taktsmiður landsins en er í seinni tíð farinn að færa sig yfir í hústónlistina. Hann var í feikna stuði og pumpaði út bassatrommu á hverju slagi í bland við fönkí bassalínur og bjartar melódíur og loksins var fólk farið að dansa af einhverri alvöru.

 

Þvínæst fylgdist ég með Högna úr GusGus og Hjaltalín frumflytja einstaklingsverkefni sitt, sem hann nefnir HE. Þetta voru metnaðarfull tónverk og dramatíkin keyrð í botn með slatta af strengjum, kórum og framsæknum rafpælingum. Stundum var tónlistin eins og GusGus í helmingi hægara tempói og stundum fór hún út í tilraunakennda raftakta í anda Autechre og Aphex Twin.
Tónlistin var fyrir utan söng Högna mestmegnis spiluð af bandi en magnaðar myndskreytingar bættu það upp. Það var skærum ljósgeisla beint á Högna og myndum af eldgosum, sólmyrkvum og afrískum sléttum var varpað á vegginn og sjónræna hliðin öll hin mikilfenglegasta. Í lokalaginu fékk hann svo heilan karlakór til að syngja með sér en það verður gaman að fylgjast með þessu verkefni í framtíðinni.

 

Klippt og skorið

 

Það var röð inn í Kaldalón en ég náði þó lokasprettinum með Good Moon Deer þar sem forsprakki hennar, Guðmundur Ingi Úlfarsson, klippti, límdi, bjagaði og beygði hljóðbúta af öllum stærðum og gerðum við villtan trommuleik Ívars Péturs. Það kom flott grafík úr skjávarpanum og lagið Again and Again var sérstaklega tilkomumikið, ég hefði viljað ná meira af þeim.

 

Þvínæst sá ég Danann Eloq í Silfurbergi sem var andstæðan við Sakamoto, skrúfaði allt í botn og engar fínhreyfingar í blæbrigðum eða framsetningu. Hann blastaði maximalískt dub step með hip hop áhrifum, og hljóðkerfið í Silfurbergi er svo gott að stundum var eins og bassinn ætti í samræðum við innyflin í þér. Þetta var alveg skemmtilegt en samt ekki sérlega merkileg tónlist, og þónokkur ostakeimur af henni.

 

Upplifun og Elegans

 

GusGus lokuðu svo kvöldinu með skynfæraupplifun á heimsmælikvarða eins og þeirra er von og vísa. Þeir léku mikið af nýju efni sem hljómaði mjög vel og ég er orðinn ansi spenntur fyrir plötunni sem er væntanleg. Högni og Daníel Ágúst sveimuðu elegant um sviðið og samsöngurinn í Crossfade, sem hlýtur að verða smáskífan af plötunni, var ægifagur og tær meðan Silfurbergið nötraði undan taktfastri bassatrommunni og dunandi dansi.

Heilt yfir var fyrsta kvöld Sónar vel heppnað og í kvöld hlakka ég til að sjá gúmmúlaði eins og Bonobo og Jon Hopkins. Fylgist með á straum.is næstu daga því við munum halda áfram með daglegar fréttir af Sónar.

 

Davíð Roach Gunnarsson