Tónleikahelgin 20.-22. febrúar

Fimmtudagur 20. febrúar

Á Harlem fer fram Nordisk 2014 sem er samnorræn tónleikaferð um Danmörku, Færeyjar og Ísland. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur en eftirfarandi hljómsveitir koma fram:

Good Moon Deer
Íslenski rafdúettinn Good Moon Deer er skipaður Guðmundi Inga Úlfarssyni á hljóðgervla og Ívari Pétri Kjartansyni á trommur. Good Moon Deer leikur sjónræna og óhefðbundna raftónlist sem daðrar jafnt við Jazz og Teknó.

Byrta
Færeyski dúettinn Byrta er skipaður söngkonunni Guðrið Hansdóttir og Janusi Rasmussen, söngvara Bloodgroup en þau leika kraftmikið og dansvænt rafpopp.

Sea Change
Norska söngkonan Sea Change er undir sterkum áhrifum frá nýbylgjutónlist 9. áratugarins. Hún styðst við hljóðgervla, raddgervla og lykkjur og skapar sérstæða popptónlist sem hefur notið töluverða vinsælda um alla Evrópu.

Sekuioa
Dönsk raftónlistarsveit frá Kaupmannahöfn. Hljómsveitin spilar dansvæna raftónlist með lífrænum snertiflötum.

Rúnar Þórisson verður með útgáfutónleika í Iðnó en hann sendi frá sér sinn þriðja sólódisk, Sérhver vá, þann 15. nóvember síðast liðinn. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:30 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

Föstudagur 21. febrúar

Á tónleikaröðinni Undiröldinni í Hörpu koma fram Russian Girls og Kælan Mikla. Russian.girls er hugarfóstur Guðlaugs Halldórs Einarssonar og eins konar hliðarverkefni hans við hljómsveitina Captain Fufanu. Um er að ræða mun esóterískara efni en Fufanu og er útkoman áhugaverð blanda af raftónlist, Lounge og Ballöðum. Kælan mikla er melankólíkst ljóðapönk og samanstendur af þeim Sólveigu Matthildi Kristjánsdóttur, Margréti Rósa Dóru- Harrysdóttur og Laufeyju Soffíu Þórsdóttur. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 17:30 í Kaldalónssal Hörpu og aðgangur er ókeypis.

Noise-tónlistarhópurinn FALK blæs til tónleika í Mengi á Óðinsgötu 2 en fram koma listamennirnir Auxpan, KRAKKKBOT og AMFJ. Auxpan hefur starfað við raftónlist frá því fyrir síðustu aldamót og hefur komið víða við og verið til fyrirmyndar. Baldur Björnsson (KRAKKKBOT) hefur verið starfandi frá lokum síðustu aldar og hefur komið víða fram á tónleikum og tónlistarhátíðum bæði hérlendis og erlendis. Fyrsta breiðskífa KRAKKKBOTs er væntanleg innan skamms hjá FALK útgáfunni og fleiri útgáfur eru í deiglunni. AMFJ spilar næstum dansvæna óhljóðatónlist þar sem hversdagsleg umhverfishljóð hafa verið teygð og skæld og blönduð inní hljóðgervladrifinn og ágengan hljóðvegg. Hann tekst á ljóðrænan og fallegan hátt á við vandamál hins vinnandi manns í magnþrungnum samruna orða og tónlistar sem engan lætur ósnortinn. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

Sveitirnar Audio Nation og Postartica koma fram á Dillon. Leikar hefjast 22:00 og aðgangseyrir er enginn.

Laugardagur 22. febrúar

Þórir Georg og Knife Fights sameina krafta sína og efna til rokk-veislu á Dillon rock. Ballið byrjar um 22:00 og það er frítt inn.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *