Japandroids viðtal

Kanadíska hljómsveitin Japandroids spilar á tónleikum á Gamla Gauknum miðvikudaginn 22. ágúst. Hljómsveitina skipa þeir Brian King gítar/söngur og David Prowse trommur/söngur. Hljómsveitin sendi frá sér sína fyrstu plötu – Post Nothing  snemma árs 2009 og platan Celebration Rock fylgdi á eftir fyrr í sumar. Báðar hafa þær fengið einróma lof gagnrýnenda auk þess sem tónleikar sveitarinnar þykja einstök upplifun. Við hringdum í Brian og spurðum hann út í tónleikaferðalög, nýju plötuna og hverju íslendingar mega eiga von á tónleikum sveitarinnar hér á landi. Hlustið á það hér fyrir neðan:

Viðtal við Brian King:

      1. Japandroids viðtal

Hljómsveitin Sudden Weather Change mun hita upp fyrir Japandroids en þeir gáfu nýverið út sína aðra breiðskífu, Sculpture.  Það verður því boðið upp á tónleikaveislu á Gamla Gauknum þann 22. ágúst næstkomandi. Miðasala fer fram  hér: http://midi.is/tonleikar/1/7053/

Í næstu viku munum við gefa tvo miða á tónleikana í gegnum facebook síðu Straums, einföld spurning verður lögð fram og sá sem fyrstur er að svara henni mun vinna þessa tvo miða. Þar að auki verða tveir miðar gefnir í útvarpsþætti Straums á X-inu 977 næsta mánudagskvöld milli tíu og tólf. Fyrir neðan má svo sjá fyrsta myndbandið sem hljómsveitin sendir frá sér, er það við lagið House That Heaven Built og var gefið út í gær. Í myndbandinu er fylgst með hljómsveitinni  á tónleikaferðalagi í eina viku, þar sem þeir spila, fara í partí og gera alls kyns vitleysu.

Paper Beat Scissors á Faktorý

Kanadíska einsmannshljómsveitin Paper Beat Scissors heldur tónleika á Faktorý á fimmtudagskvöld. Um er að ræða verkefni tónlistarmannsins Tim Crabtree, sem er Englendingur að uppruna, en hefur verið búsettur í Halifax í Kanada frá árinu 2008. Tónlistinn einkennist af einstakri rödd hans í bland við gítarplokk, blásturshljóðfæri og dáleiðandi lúppur.

Fyrsta plata Paper Beat Scissors, sem er samnefnd, kom út í vor. Við gerð plötunnar naut hann liðsinnis fjölda lykilmanna í kanadísku tónlistarsenunni. Platan er hljóðblönduð af Jeremy Gara úr Arcade Fire og spilar m.a. Sebastian Chow úr Islands á henni.

Tim hitar stuttlega upp á Hemma og Valda miðvikudagskvöldið 15. ágúst, en heldur svo tónleika ásamt Snorra Helgasyni og Boogie Trouble á Faktorý fimmtudagskvöldið 16. ágúst. Miðaverð á tónleikana er 1000 krónur og hefjast þeir klukkan 21:00.

Fyrir neðan má sjá Paper Beat Scissors flytja lag sitt „Rest Your Bones“ undir berum himni, og hér er hægt að hlusta á plötu hans í heild sinni.

Lagalisti Vikunnar – Straumur 214

1. hluti

      1. 1. hluti

2. hluti

      2. 2. hluti

3. hluti

      3. 3. hluti

4. hluti

      4. Straumur 214 #4

1) Blue Meanies – Opossom
2) Chained (Monument remix) – The xx
3) You’re The One (Deadboy remix) – Charli XCX
4) SUCCUBI – Azealia Banks
5) Chemical Legs – Com Truise
6) Graveyard (TRUST remix) – Feist
7) Getaway Tonight – Opossom
8) Girl – Opossom
9) Electric Hawaii – Opossom
10) Why Why – Opossom
11) Cola Elixir – Opossom
12) Outer Space – Opossom
13) Cold Nites – How To Dress Well
14) Cali In A Cup – Woods
15) Size Meets The Sounds – Woods
16) On When You Get Love And Let Go When You Give It – Stars
17) Backlines – Stars
18) The Base – Paul Banks
19) A Form Of Change – Simian Mobile Disco
20) Earthforms – Matthew Dear
21) Rá-ákö-st – Lindström
22) Sleeping In My Car – Moon King
23) BC – Cold Showers
24) So Destroyed – Prince Rama
25) Elizabeth’s Theme – Dirty Beaches
26) Sweet Talk – Jessie Ware

Fela Kuti – Sá sem ber dauðann í skjóðu sinni

Fela Kuti lést úr eyðni fyrir fimmtán árum síðan en arfleifð hans svífur þó enn yfir vötnum margra tónlistarmanna nútímans. Hann var upphafsmaður afróbítsins og ævistarf hans í tónlist er fjársjóðskista fyrir grúskara og grúvhunda. Hann var líka pólitískur andófsmaður sem varð fyrir áhrifum af Malcolms X og var rödd hinna kúguðu í heimaríki sínu, Nígeríu.

 

Fela Ransome Kuti fæddist 15. október 1938 í Abeokuta, litlum bæ í Nígeríu um 100 km norðan við höfuðborgina Lagos. Hann var næstyngstur af fimm systkinum í miðstéttarfjölskyldu. Faðir hans var fyrsti formaður kennarasambands Nígeríu en móðir hans kvenréttindakona og pólitískur baráttumaður sem hafði tekið þátt í baráttunni gegn nýlendustjórninni. Fela langaði til að vera tónlistarmaður frá barnsaldri og um tvítugt  fluttist hann búferlum til London og skráði sig í Trinity College of Music. Þar dvaldist hann næstu fjögur ár og lærði á píanó auk þess að leggja stund á nám í tónsmíðum. Hann stofnaði sína fyrstu hljómsveit Koola Lobitos og byrjaði að spila á hinum ýmsu klúbbum borgarinnar sérstaka blöndu af djassi og vestur-afrískri „High Life“ tónlist. Þar kynntist hann einnig fyrstu konu sinni sem hann eignaðist þrjú börn með, þar á meðal soninn Femi Kuti sem hefur haldið tónlistararfleifð föður síns við.

 

Fæðing afróbítsins

 

Árið 1963 snýr Fela aftur til Lagos og stuttu síður endurvekur hann Koola Lobitos og spilar með þeim á klúbbum víða í Lagos við heldur litlar vinsældir. Undir lok sjöunda áratugarins fær hann hins vegar trommarann Tony Allen til liðs við sig sem átti eftir að hafa mikil áhrif á  afróbít-tónlistina sem átti eftir að hasla sér völl. Annað sem breytti lífi og þar með tónlist Fela Kuti var ferð hans til Bandaríkjanna 1969. Fela og Koola Lobitos hörkuðu í nokkra mánuði í klúbbasenunni í Los Angeles og á meðan á þeirri dvöl stóð kynntist Fela ýmsum sem börðust fyrir mannréttindum blökkumanna og tengdust Black Panther-hreyfingunni. Þar á meðal var Sandra Isidore sem varð ástkona hans og eins konar menningarlegur lærifaðir. Hún kynnti hann fyrir kenningum Malcolm X og Elridge Cleaver en sjálfsævisaga Malcolm X hafði mikil áhrif á hann og varð til þess að hann fór að kanna betur afríska sjálfsímynd sína bæði persónulega og í gegnum tónlistina.

 

Fela og hljómsveitin hans lentu í útistöðum við útlendingaeftirlitið í Bandaríkjunum og neyddust til að yfirgefa landið en áður náðu þeir að fara í hljóðver og taka upp efni sem síðar var gefið út sem 69 Los Angeles Sessions. Hljómur sveitarinnar var breyttur og þarna var að fæðast það sem Fela sjálfur kallaði Afrobít, tónlistarstefna sem blandar djassi og fönki saman við hefðbundna afríska tónlist með flóknum samofnum ryþma og söngstíl þar sem aðalsöngvari og bakraddir kallast á.

 

Kalkútta lýðveldið  

 

Þegar Fela kom aftur til Lagos var hann breyttur maður. Til þess að undirstrika það lagði hann niður millinafn sitt, Ransome, sem hann sagði vera þrælanafn en tók í staðinn upp nafnið Anikulapo sem þýðir: Sá sem ber dauðann í skjóðu sinni.
Hann breytti nafninu á hljómsveit sinni í Africa 70 og settist að ásamt hljómsveit, fjölskyldu, dönsurum og hinum og þessum áhangendum í stóru húsi, eins konar kommúnu, þar sem hann var einnig með upptökuaðstöðu. Þar stofnaði hann sitt eigið ríki, Kalkútta lýðveldið, og sagði sig úr lögum við nígeríska ríkið en þar bjuggu um 100 manns þegar mest lét.

 

Freðnir og framsýnir hugsuðir

 

Nígerísku blöðin birtu myndir frá þessu litla fyrirmyndarríki þar sem Fela spilaði á saxafón útí garði á nærbuxunum, berbrjósta konur löbbuðu um og táningar blésu kannabisreyk út í loftið. Þá stofnaði hann klúbb sem var kallaður Helgidómurinn (The Shrine) þar sem hann og félagar í Afrika 70 hófu að spila reglulega auk þess að taka upp efni og gefa út. Eins og nafnið gaf til kynna var Helgidómurinn ekki aðeins klúbbur, heldur eins konar samkomustaður fyrir framsýna afríska hugsuði þar sem áherslan var ekki á ættbálka eða þjóðerni heldur samafrískar hugsjónir og samstöðu. Þar voru haldnir stórir tónleikar undir beru lofti sem stóðu oft yfir í marga klukkutíma og við sviðið voru fánar allra afrískra þjóða. Hljómsveit hans var mjög fjölmenn og innihélt nokkra blásara og ásláttarleikara, auk tveggja gítarleikara, bassaleikara og trommuleikara. Þá eru ótaldar fjöldi bakraddasöngkvenna og herskari dansara sem stormuðu um sviðið.

 

En það var ekki bara lífstíll hans sem var byltingakenndur heldur varð tónlistin stöðugt kraftmeiri og textarnir róttækari. Hann varð fljótt vinsæll í Nígeríu og varð nokkurs konar hetja fátæks almúgans. Hann bar litla virðingu fyrir yfirvöldum og í lögum sínum talaði hann aldrei undir rós; þar var að finna beinar árásir á spillingu, kúgun stjórnvalda, arðrán erlendra stórfyrirtækja á alþýðu landsins og menningarlega heimsvaldastefnu Vesturlanda. Síðan Nígería fékk sjálfstæði frá Bretlandi 1960 hafði pólitískt ástand í landinu verið mjög óstöðugt, ekki síst vegna baráttu stærstu þjóðflokkana um völd í landinu. Árið 1966 framdi herinn valdarán og næstu 15 ár einkenndust af miklum óstöðugleika, stöðugri barátta hershöfðingja um völd yfir landsstjórninni og gekk á með valdaránum og morðum á þjóðhöfðingjum.

 

Ofsóttur af stjórnvöldum

      1. Fela Kuti - Expensive Shit
      2. Fela Kuti - Expensive Shit

Fela Kuti gagnrýndi stjórnvöld óspart í textum sínum. Sú gagnrýni ásamt því hversu mikla óvirðingu hann sýndi með stofnun fríríkis síns, þar sem menn reyktu gras fyrir opnum tjöldum, gerði það að verkum að stjórnvöld litu á hann sem ógn. Árið 1974 var hann orðinn súperstjarna í heimalandi sínu og nágrannaríkjum og var á leiðinni í tónleikaferð til Kamerún þegar hann var handtekinn fyrir að hafa fíkniefni í fórum sínum. Hann gerði sér lítið fyrir og gleypti jónuna sem var eina sönnunargagnið í málinu. Hann var handtekinn engu að síðu og ætlunin að láta hann skila sönnunargögnunum út um óæðri endann. En Fela, sem mátti dúsa nóttina í fangelsi, tókst að skipta á saur við samfanga sinn og slapp vegna skorts á sönnunargögnum. Þessa lygilegu sögu átti hann síðan eftir að rekja í laginu Expensive Shit sem kom út ári síðar.

 

Gaf út sjö plötur á ári

      3. 02 Lady
      4. 02 Lady

Á blómaskeiði sínu frá 1970 til 1977 gaf Fela Kuti út tæplega 30 plötur og þegar mest var gaf hann út sjö plötur á ári. Á Gentleman frá 1973 fjallar hann um nýlenduhugarfar sem hann telur of ríkjandi í heimalandi sínu og gerir grín að samlöndum sínum sem ganga um í jakkafötum með bindi og taldi það ekki við hæfi í hitanum í Afríku. Á Lady gagnrýnir hann afrískar konur fyrir að aðhyllast vestrænan femínisma sem honum finnst ekki samræmast afrískum hefðum. Lögin hans spanna frá 10 mínútum og upp í klukkutíma, sem kom í veg fyrir útvarpsspilun og að hann næði vinsældum í hinum vestræna heimi en tónlistarmenn á borð við James Brown, Ginger Baker, Stevie Wonder, Paul Mcartney og Curtis Mayfield voru miklir aðdáendur og flykktust til Nígeríu til að drekka í sig tónlistina.

 

Uppvakningar ráðast til atlögu

      5. Fela Kuti - Zombie
      6. Fela Kuti - Zombie

Árið 1977 gefur Fela út plötuna Zombie sem varð hans vinsælasta og áhrifamesta plata. Titillagið, sem byggist á óstöðvandi grúvi, er harkaleg ádeila á hermenn landsins,  „heilalausa uppvakninga” sem hafi enga sjálfstæða hugsun og geri ekkert án skipana yfirmanna sinna. Lagið kom af stað vakningu meðal kúgaðra íbúa landsins sem leiddi til óeirða og mótmæla gegn hermönnum á götum úti þegar fólk hermdi eftir uppvakningum er það sá til hermanna.

 

Stuttu seinna gerðu 1.000 hermenn árás á Kalkútta kommúnuna eftir að hafa lent í útistöðum við strák úr gengi Fela. Þeir umkringdu húsið og réðust svo inn og gengu í skrokk á íbúunum, nauðguðu konum og köstuðu móður Fela út um glugga á annarri hæð. Hljóðfæri, upptökur og filmur voru eyðilagðar og að lokum kveikt í húsinu. Fela var barinn þangað til hann missti meðvitund og fangelsaður í stuttan tíma. Þegar hann var laus úr fangelsi fór hann í mál við ríkið en  „óháð“ rannsókn leiddi í ljós að það hefði verið óþekktur hermaður sem stóð fyrir aðförinni að húsi Fela. Um þetta gerði hann lagið Unknown Soldier.

 

Móðir hans lést nokkrum mánuðum síðar af meiðslum sem hún hlaut í árásinni og Fela fór með líkkistuna og skildi hana eftir við herstöðvar Olusegun Ọbasanjọ sem var hæstráðandi í landinu. Hann gerði um þetta lagið Coffin for Head of State þar sem hann réðst harkalega á Ọbasanjọ. Það sama gerði hann í laginu ITT International Thief Thief, sem er gagnrýni á arðrán vestrænna fyrirtækja á Afríkubúum og spillta menn eins og Ọbasanjọ sem láta það viðgangast. Í laginu kallar hann Ọbasanjọ og forstjóra ITT þjófa. Textar hans verða æ harðari, hann gagnrýnir spillingu og ofsóknir stjórnvalda og ræðst harkalega að nafngreindum mönnum.

 

Svarti forsetinn

 

Eftir árásina á húsið fór Fela í sjálfskipaða útlegð til Ghana í ár og þegar hann kom til baka nákvæmlega einu ári eftir atburðina þá giftist hann 27 konum, flestar voru dansarar hans og bakraddasöngkonur, í einni athöfn. Sama ár er hann rekinn frá Ghana eftir að óeirðir brjótast út þegar hann spilar lag sitt Zombie á tónleikum í höfuðborginni Accra. Hann verður æ pólitískari og fer að tala um sjálfan sig sem The Black President og hyggst bjóða sig fram til forseta þegar lýðveldið er endurvakið 1979 (til 1983) en framboði hans var hafnað af „tæknilegum“ ástæðum.

 

Hann lét það þó ekki stoppa sig og stofnaði nýtt band, Egypt 80 og hélt áfram að gefa út plötur og fór í tónleikaferðir til Evrópu. Hann var líka farinn að kafa dýpra í Yoruba trúna og fékk til liðs við sig andlegan leiðtoga, Professor Hindu. Þessi andatrú varð stór partur af tónleikahaldi hans en Fela og hljómsveitin komu fram með einhvers konar hvítt duft sem átti að hjálpa þeim að ná sambandi við andana. Professor Hindu tók einnig þátt í sjóinu þar sem hann kyrjaði, særði fram anda, skar sjálfan sig og hræddi líftóruna úr áhorfendum í Evrópu. Þegar að Fela var á leiðinni á tónleikaferðalag til Bandaríkjanna í september 1984 var hann handtekinn á flugvellinum og sakaður um gjaldeyrissmygl. Hann er dæmdur í tíu ára fangelsi en sleppt eftir 20 mánuði er ný stjórn hafði tekið við og Amnesty International barist fyrir lausn hans.

 

Dauðinn skríður upp úr skjóðunni

 

Eftir að hann losnaði úr fangelsi hélt hann áfram að gefa út plötur með Egypt 80 og túra um Evrópu og Bandaríkin og árið 1986 kom hann fram á tónleikum til styrktar Amnesty International á Giants leikavanginum í New Jersey ásamt Bono, Santana og fleirum. En í byrjun tíunda áratugarins fór að líða lengra á milli platna og að lokum hætti hann alfarið að gefa út. Þetta má líklega rekja til veikinda hans en hann þjáðist af alnæmi þó að hann neitaði að viðurkenna það eða leita læknisaðstoðar vegna þess. 2. ágúst 1997 komst dauðinn upp úr skjóðu Fela og hafði sigur á honum. Meira en milljón manns syrgðu þegar hann var borinn til grafar í Lagos. Fela Kuti var tónlistarmaður, byltingarsinni og frumkvöðull. Hann var talsmaður hinna undirokuðu, fátæku og kúguðu í heimalandi sínu og arfleið hans og íkonísk staða í Nígeríu á sér aðeins fordæmi í arfleið Bob Marley á Jamaíka.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Heimildarmynd um Sudden Weather Change

Á næsta fimmtudag klukkan 22:00 verður frumsýnd í Bíó Paradís heimildarmynd um íslensku hljómsveitina Sudden Weather Change.  Myndin ber nafnið Ljóðræn Heimildarmynd og er eftir söngvara og gítarleikara sveitarinnar Loga Höskuldsson, sem fylgdist með árángri hljómsveitarinnar eftir að hún vann Björtustu Vonina á Íslensku Tónlistarverðlaununum árið 2009. Myndin  inniheldur m.a. innskot frá stuttum evróputúr, upptökum á nýju efni ásamt því að hljómsveitarmeðlimir bregða gjarnir á leik í nokkrum atriðum hennar. Aðgangur að viðburðinn er ókeypis. Eftir sýningu myndarinnar mun hljómsveitin OYAMA troða upp í bíósalnum. Kvöldið er fimmta kvöldið í röð fastakvölda á fimmtudögum í Bíó Paradís, þar sem boðið verður upp á fjölbreytt úrval tóna og takta, fyrir bíó- og tónleikaþyrsta gesti. Horfið á stiklu úr myndinni hér fyrir neðan.

Matthew Dear – Beams

Þann 27. ágúst gefur bandaríski raftónlistarmaðurinn Matthew Dear út sína fimmtu plötu – Beams. Platan fylgir á eftir hinni frábæru Black City sem kom út árið 2010.  Dear hefur látið hafa eftir sér að hann sé margbrotin persóna og að útkoman á plötunni sé eftir því og hann blandi saman hinum ýmsu stefnum á  Beams. Hlustið á lögin Earthforms og Overtime af plötunni hér fyrir neðan.

 

      1. 02 Earthforms

mp3 

      2. Earthforms

      3. 06 Overtime

mp3 

      4. Overtime

Nicolas Jaar remixar Cat Power

Hinn ungi og hæfileikaríki tónlistarmaður Nicolas Jaar tók að sér að endurhljóðblanda nýjustu smáskífu Cat Power – Cherokee. Cherokee verður að finna á plötunni Sun sem er fyrsta plata Cat Power með eigin efni í sex ár.  Hægt er að hlusta á endurhljóðblöndu Jaar hér fyrir neðan.

      1. Cherokee (Nicolas Jaar Remix)

mp3 

      2. Cherokee (Nicolas Jaar Remix)

 

Nýtt frá Woods

Freak Folk hljómsveitin Woods sendir frá sér plötuna Bend Beyond þann 18. september. Hljómsveitin gaf nýlega út fyrstu smáskífuna af plötunni – Cali in a Cup, sem var eitt af sumarlögum Straums í ár. Lagið Size Meets the Sounds kom á SoundCloud í dag. Lagið er í svipuðum gæðum og Cali in a Cup og því við miklu að búast þegar sjöunda plata Woods lendir í plötubúðir. Hlustið á Size Meets the Sounds hér fyrir neðan.