Primavera Sound – Eldhaf af gleði

Fyrr í sumar sótti ritstjórn Straums heim tónlistarhátíð á Spáni. Á henni var rituð dagbók, en vegna anna og tæknilegra annmarka birtist hún ekki fyrr en nú. Hún fer hér á eftir og við vonum að þið fyrirgefið tafir og annan suddaskap. Lesist á eigin ábyrgð.

Primavera Sound hátíðin í Barcelona er einstök í sinni röð. Ég hef rennt yfir dagskrár helstu tónlistarhátíða Evrópu síðustu ár og nánast undantekningarlaust er Primavera með sterkasta lænöppið. Hún hefur líka þann kost að vera borgarhátíð fyrir þá sem höndla illa marga sturtulausa daga í röð og tjaldsvæði sem lítur út eins og endalok siðmenningarinnar (hóst, Hróarskelda, hóst). Þriðji kosturinn er sá að Barcelona er bæði fáránlega svöl (í töfflegri merkingu) og heit (í veðurfarslegri merkingu) borg sem hefur upp á ýmisleg að bjóða fyrir utan hátíðina.

Þangað var ég kominn í fríðu föruneyti þriggja öðlingsdrengja tveimur dögum fyrir hátíð á sviplaust íbúðahótel. Dagarnir tveir fyrir festival voru vel nýttir, m.a. í góðan mat, enn betri kokteila, tekknóklúbba, mikið labb og strandarhangs þar sem ég náði að lenda í stingandi faðmlagi við grimma marglyttu í flæðarmálinu. Fyrsta dagurinn á hátíðinni var í rólegri kantinum og við vorum mættir um níuleitið á hátíðarsvæðið að sjá sænsku hljómsveitina Goat. Þau voru öll klædd í litríka kufla með afrískar grímur og spila blöndu af afróbít og sækadelik rokki. Þetta var tilkomumikið sjónarspil og söngkonurnar tvær stigu spriklandi regndans af miklum móð sem var árangurslaus (sem betur fer, það rigndi ekkert á hátíðinni) en tilkomumikill.

Næstir á stóra sviðið voru gömlu britpoppararnir í Suede. Ég er enginn fanboy, þekki bara allra stærstu slagara, en skemmti mér samt stórvel – ekki síst yfir villtum töktum söngvarans Bret Andersons sem 20 árum yngri frontmaður hefði geta verið stoltur af. Önnur dagskrá miðvikudagsins var á klúbbum niðrí miðbæ borgarinnar þangað sem við fórum sérstaklega til að sjá kanadísku rafsöngkonuna Jessy Lanza. Hún var klædd í diskókjól og kom fram ásamt kvenásláttarleikara með raftrommur og lék á eigin rödd með hlaðborð af effektapedölum við mikinn fögnuð áhorfenda. Eftir Jessy var haldið heim – þó með stuttu stoppi á næturklúbbi – og öll batterí sett í hleðslu fyrir komandi átök.

Fimmtudagur

Fimmtudagurinn var tekinn snemma og hersingin leigubílaði yfir á hátíðarsvæðið um eftirmiðdaginn til að sjá norska geimdiskógeggjarann Todd Terje. Þegar hér er komið við sögu vil ég reyna að lýsa hátíðarsvæðinu. Það er staðsett í nokkurs konar listigarði (þó með malbikuðum stígum) í útjaðri Barcelona sem er akkúrat passlega stór. Barcelona er líka svona borg þar sem öll mannvirki eru mikilfengleg, meira að segja skrifstofubyggingar, vöruskemmur og verksmiðjur eru arkíttektúrísk stórvirki sem gætu verið túristagildrur í „venjulegum“ borgum. Á svæðinu sjálfu eru sex misstór svið og einn „strandklúbbur“ og það tekur í mesta lagi 20 mínútur að labba milli þeirra sviða sem lengst eru frá hvort öðru. Það hjálpar líka að þú labbar bara á malbiki en ekki grasi sem gerir alla yfirferð hraðari og markvissari.

En téður norsari, Todd Terje, var einmitt að spila á strandklúbbnum en versta var að það var engin leið að komast inn í hann þar sem hann var stappfullur. Það kom þó ekki að mikilli sök þar sem tónlistin ómaði út fyrir klúbbinn og tilvalið tana sig í sólinni með kokteil að spjalla og njóta. Á eftir Terje tók ritstjórn straums strategíska ákvörðun um að mæta hálftíma snemma á Car Seat Headrest til að komast alveg fremst, en hann á að mínu mati á langbestu indírokk plötu ársins hingað til, sem kom út um mánuði fyrir tónleikana. Hann á grípandi lög og margir í fremstu röð kunnu textana hans utan að en hann er líklega feiminn og aðhyllist svona shoegaze/Singapore Sling sviðsframkomu: í staðinn fyrir að horfa á áhorfendur finnur hann sér punkt fyrir ofan sjónlínuna og starir út í tómið meðan hann spilar. Það jók samt bara á níhílíska töffarasjarmann en maður sá hann missti grímuna stundum á milli laga og brosti einlægt. Hann var að spila á sínum stærstu tónleikum fram að þessu og það var eins og hann væri fyrst að fatta: „Vó sjitt er ég orðinn svona vinsæll? Ég gæti kannski bara lifað af þessu.“

Úr því nýjasta nýja fórum við svo á gömlu (útbrunnu?) kempurnar í Air sem hafa ekki látið til sína taka í mörg ár. Þeir stóðu samt fyllilega fyrir sínu og svuntuþeysuðu áhorfendur út í hafsauga. Þeir hafa elst aðeins í andlitunum en búa enn yfir fágaða fransmannasjarmanum og klæddust hvítum samfestingum og keyrðu í gegnum sína ótalmörgu slagara. Þeir enduðu á La Femme D’argent og suddalegur bassaleikur Nicholas Godin kafaði dýpra en mínar myrkustu botnvonir.

Næst á dagskrá var keisari síkadelíu nútímans, Kevin Parker, einnig þekktur sem Tame Impala. Eftir stutt intró lét hann engan tíma fara til spillis og dýfði sér beint í Let It Happen. Tilfinningunni að vera með sínum bestu vinum í byrjun þess lags þegar gleðimettað hamingjuþykkni byrjar að fossast út í æðakerfið á sama tíma og confettisprengjum er hleypt af á sviðinu verður ekki lýst frekar hér – En hún var svo sannarlega til staðar og lifði út tónleika Tame Impala sem voru vægast sagt magnþrungnir.

Þetta var kvöld var skammt stórra högga á milli því næst á dagskrá var upprisa LCD Soundsystem, sem hafði hætt með pompi og prakt fimm árum áður. James Murphy hefur greinilega engu gleymt og söng af áþreifanlegri ástríðu milli þess sem hann lamdi kúabjölluna an afláts eins og enginn væri morgundagurinn. Bandið var síðan selspiksfeitt, bæði fönkí og mekanískt, villt og agað. Þegar þau tóku Dance Your Self Clean undir lokin ætlaði allt að ærast og eftir þessa tónleika get ég vottað að það er ekki hægt að deyja úr of stórum skammti af kúabjöllu.

Neon Indian var næstur á dagskrá og 80’s sósað synþapoppið kom fiðringi í kroppinn og söngvarinn lék á alls oddi og dansaði eins og ungur diet Micheal Jackson, hvítklæddur frá toppi til táar. Þvínæst lá leiðin á Hudson Mohawke til að trappa sig niður áður en haldið var heim á leið til að safna orku fyrir næstu daga.

Föstudagur

Vaninn er sá að eftir því sem lengra dregur á hátíðina er maður lengur og lengur að koma sér út úr húsi og það átti við þessa hátíð líka. Smá þreyta farin að segja til sín en við vorum samt mættir klukkan 8 að sjá kvennapóstpönkhljómsveitina (þetta er allt of langt orð) Savages. Þær voru þrusuþéttar og spiluðu drungalegt síðpönk í anda Joy Division og Siouxsie and the Banshies. Beirut er í miklu uppáhaldi hjá mér á plötu og Zach Condor er afburða tónlistarmaður en tónleikarnir þeirra á stóra sviðinu voru daufir á einhvern hátt sem ég kann ekki alveg að útskýra. Það var allt rétt gert en vantaði einhvern neista.

Dinasour Jr. hins vegar voru ekki fullkomnir en í ljósum logum af innlifun og óreiðu. Ég þekki lítið til þeirra en þeir eru mjög virtir í vissum kreðsum, annar þeirra leit út eins og gandálfur og galdrarnir á gítarinn voru í hans anda. Eftir risaeðluna var það Radiohead og þó að Creep sé komið á sama stall og Stál og Hnífur í mínum huga fékk ég engu að síður gæsahúð þegar ég fylgdist með tugþúsundum syngja það í kór svo langt sem augað eygði.

Animal Collective voru í sínum allra súrasta fasa, settöppið þeirra var eins og ef Kraftwerk samanstæði af fjórum afrískum töfralæknum. Þetta var allt saman mjög trippy og áhugavert á köflum en fór of oft út í rúnk. Það mikilvægasta við tónleika er samt að enda vel og þeir kunnu það, tóku sólskinsveðraða smellinn Florida og komu öllum í gott skap. Af þeim skokkuðum við til að ná Black Devil Disco Club og það var svitans og áreynslunnar fullkomlega virði. Þessi aldraði Frakki sem gaf út sín helstu verk seint á 8. áratugnum var í banastuði og músíkin – sem væri hægt að kalla draugahouse eða drungatekknó – dunaði í frábæru hljóðkerfinu og skyldi ístaðið í eyranu mínu eftir í lamasessi af unaði.

Það kom mér á óvart hvað letur íslenska rafdúettsins Kiasmos var stórt á plakatinu fyrir Primavera en það var ekki að ástæðulausu: Þeir spiluðu klukkan hálf 2 á einu af stærsta sviðinu og tugir þúsunda dönsuðu í algleymi við nýklassíska tekknóið þeirra. Stemningin var í efri kantinum og margir virtust þekkja helstu slagarana þeirra og uppbyggingarnar í lögunum. Avalanches héldu svo gott mót með diskó- og fönkuppbyggðu dj-setti er líða tók á aðfaranótt laugardagsins og síðan var haldið heim á leið.

Laugardagur

 

Fyrsta mál á dagskrá var aldraði strandstrákurinn Brian Wilson. Röddin hans er komin af léttasta skeiði en hann var fallegt að sjá hann við hljómborðið. Hljómsveitin var í fremsta flokki og gömlu slagararnir voru raddaðir af innlifun sem var augljóslega ekki bara fyrir peningana. Næst á dagskrá í allt öðrum sálmum þá var það Rapparinn Pusha T  sem drap mig með töffaraskap í tonnatali og attitúdi á áður óþekktum skala. Hann heitir það sem hann heitir og það vita þeir sem vilja vita.

Við náðum restinni af PJ Harvey sem stóð fyrir ýmsu og Sigur Rós rokkuðu stóra sviðið á sínum fyrstu tónleikum í langan tíma, og þeim fyrstu eftir að þeir urðu tríó. Þeir tóku nýtt lag og líka nokkur af Ágætis byrjun sem hafa ekki heyrst lengi. Svo var sjónræna hliðin var til mikillar fyrirmyndar með frábærum ljósum og myndböndum. Næst var förinni heitið á bandarísku harðkjarna hryllingsrappsveitina H09909. Það var líklega harðasta sjitt helgarinnar, pönkuð hryllingsmyndabít og hakkað rapp, mosh pit, stage dive og allra handa djöfulgangur. Þú varst hvergi öruggur með bjórinn þinn því mosh pittinn ferðaðist á hraða ljóssins og gat komið aftan að þér hvaðan og hvenær sem var.

Eftir H09909S fórum við á næsta svið þar sem Roosewelt voru í rafrænu fönk- og diskóstuði. Þeir tóku mjög flott cover af stórum 80’s slagara en í svipinn man ég ómögulega hvaða lag það var og skriftin í nótbúkkinu mínu frá þessum tímapunkti er gjörsamlega óskiljanleg. Þá var haldið á DJ sett í strandklúbbnum þar sem síðustu lögin voru Please Stay (royksopp rímixið) og Smalltown Boy með Bronski Beat og þar var dansað þar til tilfinningar í andliti og útlimum glötuðust.

Að fara á tónlistarhátíð með vinum sínum í útlöndum er góð skemmtun. Vægast sagt. Það er nánast engin betri til. Barcelona er góð borg. Með þeim allra bestu sem ég hef heimsótt. Ef félagsskapur, hljómsveitaskipan og veður er jafn þétt skipað og í þessari ferð er nánast ekkert í veröldinni meiri gleði. Primavera Sound var allt það sem ég óskaði mér og hún og átti líka ýmislegt óvænt í pokahorninu. Ef þið hafið færi á að fara: DO IT.

Óli Dóri

Myndband frá CRYPTOCHROME

Íslenska rafsveitin Cryptochrome gaf út myndband við lagið Crazy Little You fyrr í dag. Myndbandið er hluti af verkefni sem hljómsveitin setti sér sem felst í að gefa út eitt myndband á mánuði á árinu 2016. Lögin verða svo öll á plötu sem nefnist MORE HUMAN sem kemur út seinna á þessu ár. Anni Ólafsdóttir og Sunneva Ása Weisshappel gerðu myndbandið

Tónleikahelgin 3.-5. desember

Fimmtudagur 3. desember

 

Tónlistarmaðurinn Helgi Valur kemur fram á Hlemmur Square. Hann byrjar að spila klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

 

Tónlistarmennirnir Marteinn, Ultraorthodox og Vrong koma fram í tónleikaröðinni night of the 808 á Húrra. Tónleikarnir byrja klukkan 20:00 og það kostar 1000 krónur inn.

 

Föstudagur 4. Desember

 

Austfirsku sveitirnar Laser Life og Miri stíga á stokk á Dillon. Tónleikarnir byrja 22:00 og aðgangur er fríkeypis.

 

Arnljótur Sigurðsson fagnar útgáfu sinnar þriðju breiðskífu, Úð, með tónelikum í Mengi. Hann hefur leik 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Laugardagur 5. Desember

 

Straumur og í samstarfi við Reykjavík Records sýna heimildamyndina Jingle Bell Rocks í Bíó Paradís en þar er heimur “öðruvísi” jólalaga skoðaður. Talað er við plötusafnara sem safna þannig tónlist og hina ýmsu áhugamenn jólatónlistar, m.a. The Flaming Lips, Run DMC og John Waters. Leikstjóri myndarinnar Mitchell Kezin verður viðstaddur og tekur við spurningum úr sal eftir myndina og Reykjavík Records Shop mun selja alls kyns jólaplötur fyrir og eftir sýningu hennar. Myndin er sýnd klukkan 20:00 og miðaverð er 1400.

 

Elín Ey kemur fram á Bravó meðan Harpa Björns stendur fyrir markaði á myndlistarverkum. Tónleikarnir byrja 18:00 og aðgangur ókeypis.

 

Ólöf Arnalds kemur fram í Mengi. Aðgangseyrir er 2000 krónur og byrjar 21:00.

Úrvalslisti Kraums 2015

Öldungaráð Kraums hefur tilnefnt 21 plötur á Úrvalslista Kraums en þann 11. desember næstkomandi verður tilkynnt hvaða 5-6 plötur af þessum tuttugu koma til með að skipa Kraumslistann 2015. Markmið Kraumslistans er að kynna og styðja við plötuútgáfu íslenskra hljómsveita og listamanna með sérstöku tilliti til þeirra sem yngri eru. Viðurkenna og vekja sérstaka athygli á þeim verkum sem skara fram úr í gæðum, metnaði og frumleika.

Úrvalslisti Kraum­sverðlaun­anna er val­in af fimmtán manna dóm­nefnd, svo­kölluðu öld­ung­ar­ráði. Ráðið skipa Árni Matth­ías­son (formaður), Al­ex­andra Kj­eld, Arn­dís Björk Ásgeirs­dótt­ir, Arn­ar Eggert Thorodd­sen, Andrea Jóns­dótt­ir, Bene­dikt Reyn­is­son, Elísa­bet Indra Ragn­ars­dótt­ir, Heiða Ei­ríks­dótt­ir, Helga Þórey Jóns­dótt­ir, Hild­ur Maral Hamíðsdótt­ir, Jó­hann Ágúst Jó­hanns­son, María Lilja Þrast­ar­dótt­ir, Matth­ías Már Magnús­son, Óli Dóri og Trausti Júlí­us­son.

Ráðið fór yfir á þriðja hundrað hljóm­platna sem komið hafa út á ár­inu, en þar af voru 170 ra­f­ræn­ar út­gáf­ur. Stærri dóm­nefnd hef­ur nú hafið störf og sér um að velja 6 plöt­ur af Kraum­slist­an­um sem hljóta munu Kraum­sverðlaun­in.

 

Úrvalslisti Kraums 2015 – Listinn er birtur í stafrófsröð

as­dfgh – Stein­gerv­ing­ur
Dj flug­vél og geim­skip – Nótt á hafs­botni
Dul­vit­und – Lífs­ins þungu spor
Fuf­anu – Few More Days To Go
Gísli Pálmi – Gísli Pálmi
Gunn­ar Jóns­son Colli­der – Apes­hedder
Jón Ólafs­son & Fut­ur­egrap­her – Eitt
Krist­ín Anna Val­týs­dótt­ir – Howl
Lord Pusswhip – … is Wack
Misþyrm­ing – Söngv­ar elds og óreiðu
Mr Silla – Mr Silla
Muck – Your Joyous Fut­ure
Myrra Rós – One Among­st Ot­h­ers
Nordic Af­fect – Clockwork­ing
Ozy – Dist­ant Present
Presi­dent Bongo – Serengeti
Sól­ey – Ask The Deep
Teit­ur Magnús­son – 27
Tonik En­semble – Snaps­hots
TSS – Me­an­ing­less Songs
Vag­ina­boys – Icelandick

Iceland Airwaves dagskrá Straums

 

Sautjánda Iceland Airwaves hátíðin hefst á morgun og eins og undanfarin ár verður Straumur með víðtæka umfjöllun um hátíðina í útvarpinu og á vefnum, bæði fyrir og meðan á henni stendur. Í ár eins og í fyrra verður Straumur einnig beinn þátttakandi í hátíðinni sjálfri og stendur fyrir bæði off- og on venue dagskrá. Föstudagskvöldið á Nasa koma í okkar nafni fram sveitir eins og Vaginaboys, Braids, Fufanu og H09909 og alla daga frá miðvikudegi til sunnudags verður Off-Venue dagskrá í Bíó Paradís, yfirleitt frá hádegisbili fram að kvöldmatarleiti. Hér að neðan má sjá dagskrána á Nasa og Bíó Paradís og fylgist svo með á Straum.is fyrir daglega umfjöllun um hátíðina meðan á henni stendur.

 

Nasa, föstudagskvöldið 6. nóvember:

 

8:00 PM

VAGINABOYS

9:00 PM

PRESIDENT BONGO – SERENGETI

10:00 PM

BRAIDS (CA)

11:00 PM

FUFANU

12:00 AM

BATIDA (PT)

1:20 AM

HO99O9 (US)

2:20 AM

INTR0BEATZ

 

Off-venue dagskrá Straums í Bíó Paradís:

 

Miðvikudagur 4. nóv

 

12:00: Morning Bear (US)

13:00: One Week Wonder

14:00: Rythmatik

15:00: Wesen

16:00: Just Another Snake Cult

16:30: Næsarinn presents: Mild Fantasy Violence – a fine arts extravaganza (Opnun á listasýningu)

17:00: O f f l o v e (US)

18:00: Miri

 

 

Fimmtudagur 5. nóv

 

13:00 Laser Life

14:00 Gunnar Jónsson Collider

15:00 Sekuoia (DK)

16:00 Tonik Ensemble

17:00 MSTRO

18:00 GKR

 

 

Föstudagur 6. nóv

 

12:00: Sveinn Guðmundsson

13:00: Skelkur í Bringu

14:00: Hey Lover (US)

15:00: Máni Orrason

16:00: Antimony

16:30: Næsarinn presents: Mild Fantasy Violence – a fine arts extravaganza (Opnun á listasýningu)

17:00: Sykur

18:00: Agent Fresco

 

 

Laugardagur 7. nóv

 

14:00: Helgi Valur

15.00: Sumar Stelpur

16:00 Jón Þór

17:00: Bárujárn

18:00 Oyama

 

sunnudagur 8. nóv

 

15:00 The Anatomy of Frank (US)

16:00 Sturle Dagsland (NO)

Hudson Mohawke og Squarepusher á Sónar

Nú rétt í þessu var tilkynnt um fyrstu listamennina sem hafa verið bókaðir á næstu Sónar hátíð. Hudson Mohawke og Squarepusher báðir koma til með að spila. Næsta hátíð verður haldin Í Hörpu 18.-20. febrúar og sjá má listann hér að neðan:

Hudson Mohawke

Squarepusher

Holly Herndon

Oneothrix Point Never

Rodhad

Recondite

Úlfur Úlfur

Sturla Atlas

AV AV AV

The Black Madonna

Apparat Organ Quartet

Gangly

Skeng

Vaginaboys

Check out the first 14 artists announced for Sónar Reykjavik 2016. 3 days5 stages70 artists and bands+ the northern lights

Posted by Sonar Reykjavík on Thursday, October 15, 2015

Nýtt myndband frá Just Another Snake Cult

Íslenska hljómsveitin Just Another Snake Cult var að senda frá sér myndband við lagið You Live You Die. Þórir Bogason söngvari og lagahöfundur hljómsveitarinnar gerði myndbandið sem tekið var upp í æfingarhúsnæðinu Reglu hins öfuga pýramída í febrúar. Helga Jóns, Jón Bragi Pálsson, Bjarki Sól, Stína Jóhannesdóttir, Sveinbjörn Thorarensen, Pontus Djarv, Lucy Hill, Pálmi Freyr Hauksson, Hjalti Freyr Ragnarsson, Indriði Arnar Ingólfsson og Andrea Kristinsdóttir koma fram í myndbandinu.

Straumur 14. september 2015

Í straumi í kvöld verður farið yfir nýtt efni frá listamönnum á borð við Hinds, Louis The Child, Chromatics, Beirut, Empress Of og The Japanese House. Straumur með Óla Dóra á slaginu 23:00 í kvöld á X-inu 977.

Straumur 14. september 2015 by Straumur on Mixcloud

1) Garden – Hinds
2) Let It Happen (Soulwax remix) – Tame Impala
3) It’s Strange (ft. K.Flay) – Louis The Child
4) Clean – The Japanese House
5) Shadow – Chromatics
6) Moonrise Kingdom – Angxl Hxze
7) August Holland – Beirut
8) To Get By – Empress Of
9) Need Myself – Empress Of
10) Everything’s Gonna Be Fine – Warrax
11) Dot Net – Battles
12) I Can Change (LCD Soundsystem cover) – Ezra Furman
13) Androgynous ( The Replacements cover) – Ezra Furman
14) Covered In Shade – Helen
15) Right Outside – Helen
16) Rotten Human – Youth Lagoon

Straumur 31. ágúst 2015

Í Straumi í kvöld verður fjallað um nýtt efni frá Small Black, Percussions, Protomartyr, Dreamcrusher, Toro y Moi, Tropic Of Cancer og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld á slaginu 23:00 á X-inu 977.

Straumur 31. ágúst 2015 by Straumur on Mixcloud

1) No One Wants It To Happen To You – Small Black
2) Digital Arpeggios – Percussions
3) Tilted (Paradis remix) – Christine and the Queens
4) Soul Traveling – ASO
5) Dope Cloud – Protomartyr
6) Orah – John Roberts
7) Intro – Sumar Stelpur
8) Girlfriend for the Summer – Sumar Stelpur
9) West Coast – FIDLAR
10) Adore – Dreamcrusher
11) Power Of Now – Toro y Moi
12) bytheneck – Toro y Moi
13) You’re So Cool – Nicole Dollanganger
14) I Woke Up And The Storm Was Over – Tropic Of Cancer

 

Secret Solstice – Evrópsk útihátíð í hjarta Reykjavíkur

Mynd: Óli Dóri

Secret Solstice hátíðin var haldin í annað skipti síðustu helgi og tókst í flesta staði feikivel upp. Þegar ég mætti á föstudagskvöldinu var ástralska sveitin Flight Facilities að hlaupa í gegnum grípandi rafpopp-sett og mannhafið hoppaði og skoppaði í fullkominni harmóníu. Það var strax ljóst að hér var eitthvað einstakt í gangi, andinn á hátíðinni var ólíkur öðru sem ég hef upplifað á Íslandi. Veðrið lék við alla sína fingur og hamslaus gleði og hedónismi lá í loftinu og fólkinu.

 

Ég hélt leið minni áfram á Gimli sviðið þar sem Hermigervill sveiflaði rauða hárinu sínu í takt við hnausþykkt tekknóið sem hann framleiddi. Retro Stefson komu beint í kjölfar hans og héldu áhorfendum uppteknum með mikið af nýju efni en enduðu á vel þekktum slögurum sem komu krádinu á mikla hreyfingu.

 

 Innvortis stuð – Hel frestað

 

Mitt innra stuð var hægt en örugglega að byggjast upp og þegar ég labbaði yfir á Gus Gus gerðist eitthvað og ég varð einn með tónlistinni, fólkinu og samvitundinni. Biggi Veira og Daníel Ágúst voru að taka mitt uppáhalds Gus Gus lag, David, þegar ég dýfði mér í mannhafið og dansaði í áttina að sviðinu. Fljótlega gekk Högni í lið með honum og samsöngur þeirra í Crossfade og Deep In Love var með endemum munúðarfullur.

 

Þá var leiðinni heitið á gömlu bresku kempurnar í Nightmares on Wax. Plöturnar þeirra Carbout Soul og Smokers Delight voru á repeat hjá mér á ákveðnu tímabili lífs míns og ég var ansi spenntur að sjá hvað þeir höfðu upp á að bjóða. Þeir voru með blöndu af DJ og lifandi hljóðfærum og röppuðu yfir mörg sín frægustu lög með góðum árangri. Eftir það kíkti ég aðeins inn í Hel en stoppaði stutt til að spara mig fyrir restina af helginni. En það leit vel út og ég hugsaði I’ll be back þegar ég fór.

 

Dagur 2 – GP > Busta Rhymes

 

Gísli Pálmi er fenamón. Ég veit aldrei hvað mér finnst raunverulega um hann og hvað mér á að finnast um hann eða hvort að aðrir fíli hann af einlægni eða kaldhæðni. Fyrir mér er það hluti af aðdráttaraflinu. En akkúrat þarna þegar djúpsjávarbassinn nuddaði á mér innyflin og GP spígsporaði um sviðið eins og hani á kódeini með sjálfsálitið skrúfað í botn gat ég ekki annað en tekið minn táknræna hatt ofan í lotningu. Myndskreytingar á bak við hann eiga síðan skilið einhvers konar hönnunarverðlaun glæpamanna.

 

Þá var röðin komin að leiðinlegasta leikriti hátíðarinnar; Beðið eftir Busta. Leynigesturinn lét bíða eftir sér í þrjú korter meðan að Tiny og GP skiptust á að setja á Biggie lög úr símunum sínum og öskra með því, frekar vandræðalegt allt saman. Þegar Busta sjálfur mætti tók ekki mikið betra við, athyglisbresturinn var ótæmandi í endalausum medlys eða syrpum. Það er einfaldlega glæpur gegn hip hoppi að spila bara 45 sekúndur af Woo Hah og fara svo í annað. Þá var hann alltaf að hætta í miðju lagi og búast við að áhorfendur gætu þulið restina af textanum úr lagi sem kom út um, eða eftir, megnið af þeim fæddist. Ég sá Busta Rhymes fyrir um fjórum árum og þá var hann í rokna stuði en það verður bara að segjast eins og er; þetta var hundlélegt.

 

 Hercules í helvíti

 

Hercules & Love Affair voru hins vegar þrusu þéttir, hommahouse eins og það gerist allra best. Einn í dragi og restin eins og miklu meira hip og nútímalegri útgáfa af Village People. Söngvararnir báðir fáránlega góðir og dúnmjúkt diskóið ómaði meðan dannsinn dunaði fyrir framan sviðið. Foreign Beggars fluttu dubstep og grime skotið hip hop en breiður var vegurinn sem lá inn í Hel.

10348364_1620402171510969_4756834002203072884_n

Mynd: Sig Vicious

Þarna var ég loksins tilbúinn í djúpu laugina sem að Hel (skautahöllin) var þessa helgi. Niðadimmt myrkur fyrir utan neon geislabaug sem sveif yfir sviðinu fyrir ofan plötusnúðinn. Hrátt, rökkurt, industrial og ofursvalt. Þar sem takturinn fleytir þér burt frá raunveruleikanum og hver bassatromma ber þig lengra og lengra inn í leiðsluástand. Hvert einasta slag eins og sameiginlegur hjartsláttur þúsunda dansandi sála. Engin skil milli líkama og anda og allir jafnir fyrir myrkrinu og taktinum. Þar sem enginn er dæmdur og nautnin er taumlaus. Ég rankaði við mér klukkan 4 þegar ljósin voru kveikt og tími til að fara heim en óskaði þess að vera í Berlín þar sem transinn heldur áfram fram á næsta dag. Þetta var ansi nálægt því.

 

Dagur þrjú – Allt á einu sviði

 

Ég fórnaði „Eru ekki allir sexy“ Helga fyrir reggípartýi í Laugardalslaug þar sem RVK Soundsystem léku fyrir sundi. Mætti svo eiturferskur á gamla sálarhundinn Charles Bradley klukkan fjögur sem voru með betri tónleikum hátíðarinnar. Hann er um sjötugt og röddin og svipurinn eru alltaf eins og hann sé að bresta í grát af ástríðu. Sálartónlist af gamla skólanum um ást, guð og kærleika með pottþéttasta bandi helgarinnar. Hann sjálfur lék á alls oddi í dansi og kastaði míkarafónstadífinum til og frá um sviðið og skipti meirað segja einu sinni um föt.

 

Wailers voru einfaldir en skilvirkir og koveruðu alla helstu slagara Marley heitins af rokna öryggi og ástin var alls staðar og djass-sígarettur mynduðu hamingjuský í himninum. Ég færði mig aðeins frá og dáðist að Mo úr öruggri fjarlægt meðan ég slakaði á og sparkaði í Hackey Sack með vinum mínum. En var mættur galvaskur fremst aftur fyrir listaverkið sem FKA Twigs er. Ég nota orðið gyðja eða díva ekki frjálslega en kemst ekki hjá því hér. Í lillafjólubláum samfesting sveif hún um sviðið með engilfagra rödd og hreyfingar á við sjö íslenska dansflokka samanlagt. Frámunalega framsæknir taktar framreiddir á fágætan hátt. Trip Hip í annarri vídd og tívolí fyrir augun. Keysaraynja raftónlistar nútímans er fædd og nafn hennar er FKA Twigs.

IMG_8854

Mynd: Óli Dóri

Ruckusinn mættur

 

Eina sem var eftir var þá Wu Tang og væntingar höfðu verið trappaðar duglega niður eftir hip hop vonbrigði gærdagsins og ótal spurningamerki um hversu margir klíkumeðlimir myndu mæta. Ég spottaði Ghostface, Raekwon og GZA sem ollu mér alls ekki vonbrigðum. Hvort þeir þrír sem eftir stóðu voru U-God, Cappadonna, Masta Killa eða random hype-menn varðar mig ekkert um en hersingin stóð svo sannarlega fyrir sínu á sviðinu. Þeir keyrðu í gegnum mörg af bestu lögunum á 36 Chambers og GZA var frábær í nokkrum lögum af Liquid Swords, einni af mínum uppáhalds hip hop plötum. Kannski var það afleiðing af effektívri væntingarstjórnun en ég skemmti mér stórvel yfir klíkunni.

 

Þá var það bara að mjólka síðustu dropana úr Hel á yfirdrætti tímans. Ég er ekki frá því að það hafi verið smá tekknó í blóðinu frá því kvöldið áður því það byrjuðu ósjálfráðir kippir í líkamanum um leið og ég steig inn í myrkrið. Ég óskaði þess heitast að helgin myndi aldrei enda í þann mund sem að síðasta bassatromman sló sitt slag og ljós raunveruleikans og vikunnar kviknuðu. Ég vil enda þetta á nokkrum handahófskenndum hugleiðingum um hátíðina í engri sérstakri röð:

 

Þegar sólin byrjar að skína á reggítónleikana: Hamingjan ríkir þar hömlulaus.

 

Að varðveita innra barnið í sér með því að fara í fallturninn. Útsýnið úr honum yfir laugardalinn þegar sólin tindrar hæst á lofti. Þetta tvennt verður ekki metið til fjár.

 

Mér hefur aldrei liði jafn mikið í útlöndum á Íslandi og á þessari hátíð. Þó það séu ekki jafn mikið af stórum nöfnum í gangi þá var andinn og væbið ekki ósvipað hátíðum eins og Hróarskeldu og Primavera.

 

Það var aragrúi djass-sígarettna reyktar út um allt án þess að neinn skipti sér af. Kúdos á lögregluna fyrir að sjá í gegnum fingur sér með það.

 

Það er mikill kraftur í þessari kynslóð. Hún er einu aldursbili fyrir neðan mig og ég þykist ekki skilja hana. En hún smitaði mig af óbeislaðri orku og geipilegu frjálslyndi.

 

Breiður er vegurinn sem liggur í Hel.

 

Davíð Roach Gunnarsson