Staða Mugisons er einstök í íslensku tónlistarlífi. Eftir hina tilraunakenndu Lonely Mountain sló hann rækilega í gegn með Mugimama is this Monkeymusic sem er að mínu mati ein besta plata íslenskrar tónlistarsögu. Hann færði sig út í groddalegt 70’s rokk á Moogie Boogie og varð síðan tengdasonur allrar þjóðarinnar með hinni ljúfsáru Hagl él þar sem hann söng á íslensku. En síðan eru liðin fimm ár og þessi nýja plata kom nánast eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Þrátt fyrir að það væri ómögulegt að vera illa við Hagl él, hafði ég lengi saknað gamla Mugison sem var meira wildcard. Á plötum eins og Mugimama…. gekk tilraunakennd raftónlist í anda Warp útgáfunnar hönd í hönd við vískímettaðan blús og kassagítarballöður um ástina.
Þessi nýja plata er að einhverju leyti afturhvarf í rætur Mugison. Íslenskan og sveitarómantíkin er farin og í staðinn er kominn meiri tilraunagleði í hljóminn og fjölbreytni í lagasmíðum. Í fyrsta laginu syngur hann „I’m working/On Something/Don’t know where/Im going og maður ímyndar sér að hann sé að syngja um sköpunarferli plötunnar sjálfrar. Eitt nýtt sem einkennir þessa plötu eru smekklegar brass-útsetningar sem eru í burðarhlutverki á plötunni.
Ýlfrandi ástríða
Til dæmis í Please, öðru lagi plötunnar, þar sem koma saman vinnukonugrip, trommuheilatakur, skokkandi brass-sveifla og Mugison sjálfur flexar sataníska takta í raddbeytingu á köflum. Svo strax í næsta lagi er dettur hann í hugljúfa ástarballöðu sem minnir rosa mikið á Mugimama, en þó ekkert eitt sérstakt lag af henni.
Tipzy King er yndisfallegt lag um að vera fullur af áfengi og nostalgíu og svo á hæla þess kemur auðvitað Hung Over, um að hann ætli aldrei að drekka aftur. Wolf er með þungri brass-sveiflu og Mugison hreinlega ýlfrar eins og varúlfur í átt að tunglinu í viðlaginu.
Það er mjög margt í þessari plötu þó hún telji aðeins um 30 mínútur. Hún er rokkuð, róleg, drukkin, þunn og stútfull af tilfinningum. Hún er líklega ekki alveg allra, eins og Hagl él var, en það er beittar broddur, hressari gredda og meiri leikgleði á henni en flestum íslenskum plötum sem hafa komið út í ár. Platan heitir því kókakólalega nafni Enjoy sem er skemmtilega bókstaflegt, því guð veit ég naut hennar í ystu æsar og það eiga þúsundir annarra eftir að gera líka. Velkominn aftur Mugison.
Davíð Roach Gunnarsson