Mynd: Fyrrum flugskýlið og núverandi kvikmyndaverið Atlantic Studios verður aðal tónleikastaðurinn.
All Tomorrows Parties tónlistarhátíðin verður haldin í fyrsta skipti á Íslandi helgina 28.-29. júní næstkomandi á varnarliðssvæðinu í Keflavík. Á mánudag var tilkynnt að Nick Cave and the Bad Seeds yrðu stærsta atriði hátíðarinnar en aðrir í erlendu deildinni eru meðal annars Deerhoof, The Notwist, Thee Oh Sees og The Fall. All Tomorrows Parties er óvenjuleg tónlistarhátíð að ýmsu leiti en hún hefur alltaf lagt áherslu á sjálfstæða og óháða tónlistarmenn. Venjan er að velja virtan tónlistarmann eða hljómsveit sem aðalnúmer hennar sem gegnir einnig því hlutverki að velja aðra tónlistarmenn til að spila. Hér á landi var dagskráin þetta árið þó valin af stjórnendum hátíðarinnar auk aðstandenda hér á landi, en á næsta ári er áætlað að fá tónlistarmann sem dagskrárstjóra eins og á aðalhátíðinni í Englandi.
Vannýttar byggingar
Tómas Young sem ber hitann og þungann af framkvæmd hátíðarinnar hér á landi segir að hugmyndin hafi kviknað árið 2011. Þá hefðu hann og aðrir innfæddir tónlistarbransamenn af Suðurnesjum verið boðaðir til fundar um hvernig nýta mætti byggingarnar á varnarliðssvæðinu í eitthvað tónlistartengt. Hann hafi strax komið auga á möguleika Atlantic Studios, gamals flugskýlis, sem undanfarið hafði verið nýtt sem kvikmyndatökuver og þess vegna með fullkomnum hljómburði. Tómas sagði í samtali við Straum að hugmyndin hafi fyrst verið að halda hátíð í anda ATP í febrúar 2012, og hafði m.a. í hyggju að fá MGMT til að spila en samningar hafi ekki náðst á endanum. „Þá datt mér í hug, fyrst hátíðin átti á annað borð að vera í anda ATP, því ekki að hafa samband við hátíðina sjálfa til að spyrja út í samstarf.“ Þeir tóku vel í hugmyndina og komu hingað til lands í ágúst í fyrra til að skoða aðstæður og heilluðust af flugskýlinu, offíseraklúbbnum og bíóinu. Þá fór öll skipulagning á blússandi siglingu og stuttu fyrir áramót var búið að tryggja Nick Cave & The Bad Seeds á hátíðina og fljótlega eftir það voru tímasetningar og fleiri sveitir bókaðar.
Tónleikar í fullri lengd
Eitt af því sem aðgreinir ATP frá öðrum festivölum er að flestar hljómsveitirnar spila tónleika „Í fullri lengd“, það er um og yfir klukkutíma prógramm og Nick Cave & The Bad Seeds munu spila í heilar 90-120 mínútur, þar á meðal smelli frá öllum ferlinum. Auk þess er dagskránni raðað þannig að með einbeittum vilja og kraftmiklum gangi ættu áhugasamir að komast yfir að sjá allar hljómsveitir hátíðarinnar. Tónleikar verða á tveimur sviðum, Atlantic Studios, sem tekur um 4000 manns, og hinum svokallaða offíseraklúbbi sem er stórglæsilegur gamaldags ballstaður en örstutt labb er þar á milli. Tónleikar hefjast milli 6 og 7 bæði kvöldin og standa yfir til um 2 eftir miðnætti. Hægt er að kaupa gistirými fyrir um 200 manns á hátíðarsvæðinu en fyrir drykkfellda Reykvíkinga er þó vert að vekja athygli á því að flugrútan gengur frá Keflavík alla nóttina. Þannig að skortur á gistingu, bíl eða edrúmennsku ætti ekki stöðva neinn í tónlistarveislunni.
Tónlist, bíó og takkaskór
Hátíðin mjög aðdáendavæn og leitast við að afmál skil á milli aðdáenda og tónlistarmanna, ekkert VIP svæði er fyrir tónlistarmenn sem fylgjast með tónleikum öðrum en sínum eigin meðal almennra hátíðargesta. Fyrir utan tónleika er einnig margs konar dægradvöl í kringum hátíðina og þar ber helst að nefna kvikmyndasýningar í hinu stórglæsilega Andrews Theater. Þær hefjast fyrr um daginn og áætlað er að hljómsveitir hátíðarinnar velji myndirnar á föstudeginum en leikstjórinn Jim Jarmuch sjái um kvikmyndaval á laugardeginum. Þá verður popppunkts keppni í boði Dr Gunna og einnig stendur til að halda fótboltamót þar sem hljómsveitir keppa hvor við aðra og aðdáendur sína. Nánari upplýsingar um hátíðina og miðfyrirkomulag má finna á vefsíðu hennar.