Straumur 9. febrúar 2015 – Sónar þáttur

Straumur í kvöld verður tileinkaður Sónar Reykjavík sem hefst í Hörpu á fimmtudaginn og stendur til laugardags. Óli Dóri fer yfir það helsta á hátíðinni í þættinum sem byrjar á slaginu 23:00 á X-inu 977.

Straumur Sónar Þáttar 9. febrúar 2015 by Straumur on Mixcloud

1) Everybody Knows – SBTRKT
2) Preben Goes To Acapulco (Prins Thomas remix) – Todd Terje
3) Scruff Box – Randomer
4) Sleep Sounds – Jamie xx
5) Slide Off – Súrefni
6) Bipp – Sophie
7) Snow In Newark – Ryan Hemsworth
8) Expanding – Páll Ívan frá Eiðum
9) Imprints – Tonik Ensemble
10) Yoshi City – Yung Lean
11) Cian’t Hear it – Elliphant
12) Aus – Nina Kraviz
13) Aaron – Paul Kalkbrenner
14) Swingin’ Party – Kindness

Dagskrá Sónar tilbúin

Í dag var full dagskrá Sónar hátíðarinnar kynnt en á henni koma meðal annars fram Todd Terje, Skrillex, TV On The Radio, SBTRKT og Jamie xx. Hátíðin fer fram í Hörpu 12. til 14. febrúar næstkomandi. Þetta er í þriðja skipti sem hátíðin er haldin á Íslandi en umfjöllun Straums um hátíð síðasta árs má finna hér og hægt er að nálgast miða hér.

TV On The Radio á Sónar í Reykjavík

New York hljómsveitin TV On The Radio mun koma fram á Sónar Reykjavík í febrúar á næsta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá hátíðinni frá því  í morgun. Hljómsveitin vakti mikla lukku þegar hún spilaði á Iceland Airwaves árið 2003 og er frábær viðbót við glæsilega dagskrá hátíðarinnar en sveitin gefur út sína fimmtu plötu Seeds þann 18. nóvember.


Breski raftónlistarmaður Kindness  mun einnig spila á hátíðinni, auk Elliphant og hins einstaka Sophie sem spilar raftónlist sem hefur verið kennd við PC Music. Hinn áhrifamikli plötusnúður Daniel Miller sem stofnaði Mute útgáfuna spilar líka á Sónar auk hins breska Randomer.

Íslensku tónlistarmennirnir DJ Margeir, Ghostigital, Fufanu, DJ Yamaho, Sin Fang, Exos, Gervisykur og Sean Danke voru einnig tilkynntir í morgun.

Sónar Reykjavik fer fram dagana 12, 13 og 14. febrúar 2015 í Hörpu.

 

 

 

 

Todd Terje og Skrillex á Sónar

Nú rétt í þessu var tilkynnt um fyrstu listamennina sem hafa verið bókaðir á næstu Sónar hátíð. Það eru norski geimdiskó-gúrúinn Todd Terje, EDM tryllirinn Skrillex og þýska tekknó-goðsögnin Paul Kalkbrenner, sem átti að spila á síðustu Sónar hátíð en forfallaðist. Næsta Sónar hátíð verður haldin Í Hörpu 12.-14. febrúar en hér má lesa umfjöllun Straums um síðustu hátíð.

Trentemøller og Diplo á Sónar

Rétt í þessu var tilkynnt að danska raftónlistarmanninum Trentemøller og hinum bandaríska Diplo hafi verið bætt við dagskrá Sónar hátíðarinnar sem fram fer í febrúar. Trentemøller er sannkallaður íslandsvinur en hann kom fram á hátíðinni í fyrra sem plötusnúður og lék fyrir pakkfullum Norðurljósasal. Í þetta skipti kemur hann hins vegar fram með live hljómsveit en hann sendi frá sér fyrr á árinu hina frábæru breiðskífu Lost. Diplo er forsprakki Major Lazer hópsins sem er eitt aðalnúmer hátíðarinnar í ár en hann mun einnig koma fram sem plötusnúður í bílakjallara Hörpunnar.

Þá hefur í íslensku deildinni verið bætt við FM Belfast, Tonik, Cell 7 og Gluteus Maximus auk þess sem Högni Egilsson úr Hjaltalín og Gus Gus mun heimsfrumflytja sóló verkefni sitt, HE. Aðrir flytjendur á hátíðinni eru meðal annars Bonobo, James Holden, Paul Kalkenbrenner og Jon Hopkins sem gaf út eina bestu plötu ársins, Immunity, og stóð sig feikna vel á nýyfirstaðinni Airwaves hátíð. Miðasala á hátíðina er í fullum gangi en hægt er að kaupa miða hér og skoða dagskrána hér. Enn á eftir að tilkynna um fleiri listamenn sem koma munu fram. Hlustið á tóndæmi hér fyrir neðan.


James Holden og Bonobo á Sónar

Mynd: Squarepusher á síðustu Sónar hátíð.

Í morgun var tilkynnt um fleiri listamenn sem hefur verið bætt við dagskrá Sónar hátíðarinnar í Reykjavík. Þar ber þar hæst breska pródúsantinn og plötusnúðinn James Holden, raftónlistarmanninn Bonobo frá sama landi, þýska plötusnúðinn Paul Kalkbrenner og Starwalker, samstarfsverkefni Barða Jóhannssonar og J.B. Duncel úr Air. James Holden hefur vakið mikla athygli bæði fyrir eigin tónlist og einstakar endurhljóðblandanir og varð geimdiskó endurgerð hans af The Sky is Pink að miklum danssmelli, hér heima og erlendis, fyrir um 10 árum. Þá hefur hans nýjasta plata, The Inheritors, hlotið frábærar viðtökur þar sem hann blandar súrkálsrokki, sveimhljóðum og kosmískum áhrifum saman í dáleiðandi tekknósúpu.

Bonobo hefur í yfir áratug verið á mála hjá hinni virtu Ninja Tune útgáfu og gefið út frábærar plötur af flóknu og útpældu trip hoppi og ber af óragrúa tónlistarmanna í sama geira. Paul Kalkbrenner er goðsögn í þýskri klúbbamenningu og lag hans Sky and Sand úr kvikmyndinni Berlin Calling varð stórsmellur á öllum helstu klúbbum Evrópu. Starwalker er nýstofnuð hljómsveit Barða Jóhannssonar úr Bang Gang og J.B. Duncel úr hinni frönsku Air en þeir gáfu út sitt fyrsta lag og myndband fyrir skemmstu og er stuttskífa á leiðinni. Sónar-hátíðin fer fram í Hörpu 13.-15. febrúar næstkomandi en fyrir skemstu var tilkynnt að Major Lazer yrðir aðalnúmerið á hátíðinni en lista yfir staðfesta listamenn má finna hér. Fyrsta Sónar hátíðin í Reykjavík var haldin í febrúar á þessu ári og umfjöllun straum.is um hana má lesa hér. Hlustið á fleiri tóndæmi hér fyrir neðan.



Major Lazer á Sónar í Reykjavík

Nú hafa fyrstu listamennirnir sem munu spila á næstu Sónar hátíð í Reykjavík verið tilkynntir og þar ber hæst Major Lazor hópinn sem leiddur er af Diplo. Lagið Get Free var feikivinsælt á síðasta ári og að mati þessarar síðu annað besta lag ársins, og platan Free The Universe sem kom út í byrjun þessa árs var reggískotinn partýbræðingur af bestu sort. Þá mun Daphni koma fram á hátíðinni, en það er hliðarverkefni Daniel Snaith sem er best þekktur sem Caribou, en hann sótti Ísland heim undir því nafni árið 2011 og hélt stórbrotna tónleika á Nasa. Þá hefur þýski plötusnúðurinn Kölsch verið bókaður og íslensku sveitirnar Hjaltalín, Sykur og Sometime hafa verið staðfestar. Sónar hátíðin fer fram í Hörpu dagana 13. til 15. febrúar næstkomandi en hún var fyrst haldin hér á landi í febrúar á þessu ári en umfjöllun straum.is um hátíðina má nálgast hér. Miðasala á hátíðina fer fram á midi.is og hægt er að hlusta á Major Lazer og Daphni hér fyrir neðan.

Sónar aftur í Reykjavík á næsta ári

Í dag staðfestu aðstandendur Sónar-Hátíðarinnar að hún verði haldin í annað sinn í Reykjavík á næsta ári. Hátíðin mun fara fram í Hörpunni dagana 13. til 15. febrúar og verður bætt við tveimur auka sviðum á gangi tónlistarhússins auk þess sem sérstakir tónleikar verða haldnir í Eldborgarsalnum. Ekkert hefur enn verið gefið upp um listamenn sem munu koma fram. Fyrsta Sónar-hátíðin í Reykjavík var haldin í febrúar á þessu ári en umfjöllun Straum.is um hana er hægt að kynna sér hér.

Straumur fer í Sónar – Seinni hluti

Ég datt inn í nokkuð tóma Hörpu um sjöleitið til þess að sjá Samaris og það var ljóst að ýmsir voru eftir sig eftir föstudagskvöldið. Nokkur töf varð á tónleikunum en ég náði fyrstu tveimur lögunum sem voru hreint afbragð, dökkt döbstep, og klarinettleikur og söngur stelpnanna til mikillar fyrirmyndar. Þvínæst lá leiðin í Norðurljósasalinn til að sjá goðsögnina Ryuichi Sakamoto sem lék á píanó og Alva Noto sem sá um rafleik. Þetta var lágstemmd og mínímalísk nýklassík með sérlega smekklegum myndböndum varpað á skjá, gott og rólegt veganesti fyrir æsinginn sem var væntanlegur seinna um kvöldið.

Táldregin tilraunadýr

James Blake var líklega stærsta númer helgarinnar og Silfurbergsalurinn var fljótur að fyllast þegar upphaf tónleika hans nálgaðist. Hann kom fram ásamt tveimur meðreiðarsveinum sem spiluðu á trommur, gítar og raftól en sjálfur sá hann um söng og hljóðgervlaleik. Blake er ákaflega smáfríður og strákslegur og kurteis sviðsframkoman bræddi eflaust tugi hjarta á svæðinu. Hann baðst afsökunar á því að nota áhorfendur sem tilraunadýr fyrir ný lög en það var algjör óþarfi því flest hljómuðu þau vel, sum byrjuðu rólega en umbreyttust síðan í kröftuga danssmelli. Hann flutti samt einnig sína helstu slagara og kliður fór um salinn þegar upphafstónarnir úr Limit to your Love og Wilhelm Scream tóku að hljóma. Hann endaði tónleikana á Retrograde, fyrstu smáskífunni af væntanlegri plötu, sem hafði komið út einungis viku áður og salurinn starði agndofa.

Lyftingar og LED-hjálmar

Þvínæst spiluðu Gluteus Maximus, dúett Stephans Stephanssonar og Dj Margeirs, sem hljómar dálítið eins og dekkra hliðarsjálf Gus Gus. Þeir komu þó ekki fram einir heldur höfðu heilt tvíkynja kraftlyftingarlið með sér á sviðinu sem lyftu lóðum í takt við munúðarfulla tónlistina. Næst á dagskrá í Silfurbergi var goðsögnin Tom Jenkinson, Squarpusher, sem var einn helsti fánaberi Warp útgáfunnar á 10. áratugnum. Það var nokkuð langt síðan ég hafði hlustað á meistarann sem tók aðallega efni af sinni nýjustu plötu, en það kom ekki að sök, ég var dáleiddur frá fyrsta takti. Hann var á bakvið græjupúlt með LED skjá framan á, risastór skjár var á bak við hann og á höfðinu bar hann hjálm í ætt við Daft Punk sem einnig hafði LED skjá framan á sér sem náði niður fyrir augu. Hvernig hann sá út um þetta apparat veit ég ekki en hitt var ljóst, það sem áhofendur sáu var show á heimsmælikvarða.

Reif í heilann

Það er erfitt að lýsa tónlistinni en hún hefur verið flokkuð í geira sem er kallaður Intellegent Dance Music (gæti útleggst heiladans á íslensku). Þessi nafngift hefur farið í taugarnar á mér, hún hljómar hrokafull og tilgerðarleg en þarna skyldi ég loks hvað átt er við. Tónlistin var oft of flókin fyrir líkamann til að dansa við en í framheilanum voru taugafrumur í trylltum dansi. Jenkinson er ryðmískur meistari og á það til að brjóta hvern takt niður í frumeindir sínar og endurraða síðan eins og legókubbum með frjálsri aðferð. Þetta var allt saman ótrúlega villt, galið og kaótískt en á sama tíma hárnákvæmt. Grafíkin á öllum þremur skjáum fylgdi síðan tónlistinni ótrúlega vel eftir og ég gapti opinmynntur í þann eina og hálfa klukkutíma sem hann spilaði. Eftir að hann var klappaður upp fór hann frá græjunum á borðinu og tók upp bassa við gríðarleg fagnaðarlæti áhorfenda. Síðasti hluti tónleikanna var spunakennd stigmagnandi sturlun sem ég vonaði að myndi aldrei enda. Eitt myndband segir líklega meira en þau tæplega 300 orð sem ég hef skrifað um herlegheitin og sem betur fer var einhver að nafni Páll Guðjónson sem festi hluta af þessu á filmu, þó það jafnist engan veginn á við að hafa verið viðstaddur.

Mugison á Mirstrument

Eftir að hafa náð andanum eftir Squarepusher hljóp ég yfir í Norðuljósasalinn og náði síðustu lögunum með Mugison sem kom fram ásamt bandi og spilaði á heimasmíðaðan hljóðgervil sem hann kallar Mirstrument. Hann endaði á þekktustu lögunum af Mugimama…, I Want You og Murr Murr sem var gaman að heyra en ég hafði þó vonast til að hann myndi taka eylítið róttækari snúning á lögum sínum en boðið var upp á. Eftir þetta fór ég niður í bílakjallarann og dansaði við Pechanga Boys inn í nóttina.

Hátíðin var í flestalla staði stórvel heppnuð og verður vonandi að árlegum viðburði í Reykjavík þar sem nánast ekkert annað er um að vera í tónlistarlífi borgarinnar á þessum tíma. Hápunkturinn fyrir mig var Squarepusher en Diamond Version á föstudagskvöldinu var ekki langt á eftir og voru uppgötvun helgarinnar.

Davíð Roach Gunnarsson

Sónarskoðun – Fyrri hluti

Sónar hátíðin er mikill hvalreki fyrir tónlistarunnendur og fyrra kvöld hátíðarinnar var mögnuð upplifun og sannkölluð flugeldasýning fyrir skilningarvitin. Fyrsta atriðið sem ég sá dagskránni var plötusnúðatvíeykið Thugfucker í Silfurbergi sem samanstendur af hinum íslenska Hólmari og Greg frá New York. Þeir dúndruðu drungalegu tekknói í mannskapinn og stjórnuðu dansinum eins og brúðumeistarar með útpældum uppbyggingum og vel tímasettum taktsprengingum.

Kraftwerk á krakki

Þvínæst rölti ég yfir í Norðurljósasalinn og til að sjá Diomond Version sem ég hafði aldrei heyrt um áður en smekkvís kunningi hafði mælt með þeim. Sá vissi greinilega hvað hann söng því þetta var ein magnþrungnasta tónleikaupplifun sem ég hef orðið vitni að undanfarin misseri. Tveir menn á bakvið tölvur og græjur en fyrir framan þá var nokkurs konar hávaðalínurit og fyrir aftan þá tveir skjáir með alls konar grafík, svona pixlaðir skjáir með áferð eins og ljósaskilti í Vegas. Þetta var í stuttu máli sagt eins og Kraftwerk á krakki. Tónlistin var grjóthart iðnaðarsalt, rifið bassasánd, taktar úr pumpandi pistónum bílvéla og færibanda. Allt saman kalt, hrátt og steinsteypt. Sjónræna hliðin var svo dýrindis djöflasýra og allt virkaði þetta eins og stórskotahríð á skilningarvitin.

Kampavín og sígarettur

Modeselektor voru það band sem ég var spenntastur fyrir þetta kvöldið og voru stórgóðir en bliknuðu þó eylítið í samanburði við Diamond Version. Tónleikarnir voru þó skemmtilegir og fjölbreyttir og snertu á dubstep, tekknói, hip hop og almennri gleðitónlist. Á milli laga töluðu þeir með effekti á röddinni sem lét þá hljóma eins og íkorna og á ákveðnum tímapunkti tilkynntu þeir að nú myndu þeir taka sígarettulagið. Og kveiktu sér í. Ég fylgdi þeirra fordæmi. Þvínæst opnuðu þeir kampavínsflösku og sprautuðu yfir salinn eins og þeir hefðu sigrað í formúlu 1. Þetta var stórgóð skemmtun og tilraunakenndum myndböndum var einnnig varpað á skjá til að auka upplifunina.

Nýtt efni frá Gus Gus

Gus Gus byrjuðu tónleika sína á nýju lagi sem var sérdeilis æðislegt. Hljómaði eins og fyrsta smáskífa af væntanlegri plötu og viðlagið sungið af Högna var löðrandi í grípandi danstónlistarnostalgíu; „Do you remember the days, when we started to crossfade.“ Tónleikarnir voru heilt yfir frábær skemmtun en ég hef þó séð þau betri, fjarvera Urðar var nokkuð truflandi, en rödd hennar var spiluð af bandi í einstaka viðlagi. Högni og Daníel Ágúst stóðu sig þó með glæsibrag og fleiri ný lög ómuðu sem lofa góðu fyrir komandi plötu.

Ógrynni af Ást

Þá hljóp ég yfir í norðurljósasalinn og náði þremur lögum með Retro Stefson sem rokkuðu salinn í ragnarök. Það var ekki þurr flík í húsinu og Unnsteinn hafði salinn í hendi sér og lét fólk hoppa, skoppa og dansa asnalega milli þess sem hann kynnti hljómsveitina. Trentemoller var síðasta atriði á dagskrá og settið hans sveik engan. Dunandi og pumpandi tekknó sem var aðgengilegt en samt framsækið og helling af hnefum á lofti í salnum. Þegar hérna var komið við sögu var ölvun orðin umtalsverð og þegar hann spilaði I feel Love með Donnu Summer missti ég stjórn á öllum hömlum og hoppaði um og veifaði höndunum í algleymisdansi.

Eftir það sagði skylduræknin til sín og kíkti á dj-settið hjá James Blake í bílakjallaranum. Það var ekki alveg jafn mikið rave og ég hafði ímyndað mér, einungis smátt svæði hafði verið afmarkað í kjallaranum, en tónlistin var þó nokkuð góð. Dubstep, Dancehall og reggískotin danstónlist voru hans helstu vopn og krúnudjásnið var frábært remix af Drop it like it’s hot með Snoop Dogg. Hér gæti ég sagst hafa farið heim til að fylla á rafhlöðurnar fyrir síðara kvöldið, en það væri lygi. Allt í allt var fyrra kvöld Sónarsins frábærlega vel heppnað og sannkölluð árshátíð fyrir augu og eyru.

Davíð Roach Gunnarsson