Seinni hálfleikur Iceland Airwaves

Mynd: Alexander Matukhno 

Á föstudagskvldinu lá leiðin fyrst í Listasafn Reykjavíkur að sjá pródúsantinn Mura Masa sem hefur gert það gott og unnið með listamönnum eins og rapparanum A$ap Rocky. Hann bauð upp á hresst nýpopp með mikið af trópikal stáltrommuhljóðum og léttum droppum. Helvíti gott partý en varð nokkuð einhæft og leiðigjarnt eftir nokkur lög. Við héldum næst yfir á bandaríska tónlistarmanninn Joe Tyler á Húrra. Hann hélt uppi góðum dampi með léttfönkuðu grúvum og frábæru gítarsándi.

 

Eftir það hlupum við upp í Gamla Bíó að sjá öldnu skosku indíhetjurnar í Arab Strap. Þeir spiluðu klassískt indrírokk af gamla skólanum við mikinn fögnuð áhorfenda í nokkur lög, en við fórum fljótlega til að sjá hina bresku Nilüfer Yanya á Hard Rock. Ég hafði ekki komið áður á Hard Rock og var nokkuð skeptískur á venue-ið en það var prýðisgott, hátt til lofts og frábært sánd.

 

Keðjureykjandi engill

 

Ég hafði hafði aldrei heyrt áður í Nilüfer Yanya en heyrt góða hluti úr mörgum áttum og hún stóð fyllilega undir því lofi. Tónlistin eins konar sálarmarínerað indípopp með snefil af djassi og hip hoppi. En þvílík rödd! Eins og engill sem hefur keðjureykt um aldabil, en hefur samt fullkomna stjórn á röddinni, maður heyrði bergmál af arfleið söngkvenna eins og Ninu Simone og Amy Winehouse. Lögin voru flott með óvæntum vinstri beygjum, kaflaskiptum og grípandi viðlögum. Hljómsveitin hennar var svo fáránlega þétt og fyrir utan hefðbundnu rokkhljóðfærin voru synþa- og saxafónleikarar sem gáfu lögunum extra krydd. Algjörlega frábærir tónleikar og þeir bestu á hátíðinni hingað til, þetta er það sem Airwaves gengur út á; að uppgötva eitthvað frábært sem maður hefur aldrei heyrt í áður.

 

Þvínæst héldum við á Húrra til að sjá Sykur sem eru fullkomið atriði til að fara á svið klukkan 1 eftir miðnætti á föstudagskvöldi. Dúndrandi rafpoppið hélt öllum salnum hoppandi og Agnes söngkona er með raddbönd aldarinnar. Þvínæst fóru rappararnir JóiPé og Króli á svið og lokuðu kvöldinu með ungæðislegum glæsibrag.

 

Óflokkanlegt rokk

 

Á laugardeginum reif ég mig á fætur og út úr húsi til að sjá Balagan á Off-venue dagskrá Straums í Bíó Paradís um eftirmiðdaginn. Það voru gítar, trommur og bassi, tveir Ísraelar og einn Íslendingur, sem spiluðu rokk sem erfitt er að flokka. Geypilega þéttir og áhrif frá pönki, krautrokki og indíi, þar sem allir meðlimir lögðu hönd á plóg í söngnum. Ég sá smávegis af Pink Street Boys sem misþyrmdu hljóðhimnum eins og þeim einum er lagið, en hélt svo á Krakk og Spagettí sem spiluðu sína eina tónleika hátíðarinnar Off-venue á Bar Ananas. Artýrappið þeirra rann ljúft niður með svellköldum einstökum og svo var haldið aftur í Bíó Paradís að sjá Indriða.

 

Indriði hefur haldið manninn í Berlín undanfarið og komið sér upp backing bandi þar, sem í voru meðlimir Balagan auk Heklu, helsta þeramínleikara Íslands. Hópurinn framreddi fjölbreytt indípopp með alls konar áhrifum og áhugaverðum útúrdúrum við góðar undirtektir áhorfenda í Bíó Paradís. Ég náði svo í skottið á trip/hip hop hljómsveitinni Cryptocrome á Hverfisbarnum. Ég hafði aldrei séð þau áður en þetta var eftirtektarverð frammistaða, taktarnir voru bæði fönkí og industrial og minntu mig nokkuð á framleiðslu El-P, og kemistrían milli kven- og karlarapparans var mjög dýnamísk.

 

Finnskt tekknó og hugvíkkandi draumapopp

 

Þá fór ég að sjá rökkurpoppbandið aYia sem komu fram hettuklædd á Húrra og buðu upp á drungaleg og hljóðheim með tilraunakenndum blæ. Breski rapparinn Daniel OG sem spilaði næst var mjög óspennandi og generic en ég vildi halda mig á Húrra því ég hafði heyrt mjög góða hluti um Finnann Tontario sem var næstur. Og hann var ósegjanlega frábær, það verður að segjast eins og er. Hann er ekki mikið eldri en tvítugur en bauð upp á tilraunakennt tekknó með biluðum uppbyggingum og taktsprengingum á heimsmælikvarða.

 

Ég var svo mjög spenntur fyrir hinni bresku Kelly Lee Owens sem á eina bestu plötu ársins og tók við keflinu á Húrra. Hún fór á algjörum kostum í hugvíkkandi draumapoppi sem tikkaði í öll réttu boxin. Algjörlega fenamónískt show og einir allra bestu tónleikar hátíðarinnar. Þá var það bara GusGus í Listasafninu og diskódansað út í nóttina. Frábærri Airwaves hátíð var lokið en hápunktarnir í ár voru sálarmaríneraða indípopp Nilüfer Yanya, hugvíkkandi poppdraumur Kelly Lee Owens og framsækna nýklassíska tekknóið hjá Tontario.

Davíð Roach Gunnarsson

Fyrstu tvö kvöld Airwaves

Mynd: Rúnar Sigurður Sigurjónsson

Fyrsta kvöldið fór rólega af stað í erlendu deildinni enn var hins vegar þéttpakkað af því besta og nýjasta í íslensku Hip hop-i. Ég hóf leikinn á off-venue dagskrá Straums í Bíó paradís á kuldalegu ljóðanýbylgjunni sem Kælan mikla hefur verið að fullkomna á undanförnum árum. Þvínæst sá ég Good Moon Deer á sama stað sem bauð upp á nokkuð tilraunakenndan bræðing þar sem flóknar taktpælingar og æst óhljóð mynduðu órofa heild sem var í senn erfið og áhugaverð.

 

Ég sat áfram í Bíóinu og sá rapparna Hrannar og Smjörva skopp út um allt af ungæðislegum krafti og rappa eins og lífið lægi við. Þótt það sé um mjög auðgugan garð að gresja í rappsenunni um þessar mundir þessir strákar með þeim allra efnilegustu. En GKR er nú orðinn einn allra besti rappari landsins og hann kom, sá og rokkaði stappfullt bíóið með eiturhressu rítalínrappi sínu.

 

 Tyggjókúlu- og hryllingsrapp

 

Áfram hélt rappið og í Hafnarhúsinu var Alvia Ilandia að keyra fólk í gang með tyggjókúlurappi þar sem Hello Kitty fagurfræðin var í algleymingi. Cyber voru næstar á svið og hrekkjavakan var greinilega ekki farin úr blóðinu þeirra því átta manns í goth-búningum báru líkkistu á svið sem þær Cyber-stelpur risu svo upp úr framreiddu fjölbreytt og skemmtilegt sett ofan í mannskapinn.

 

Fever Dream hélt Hressó funheitum með steravöxnu attitúdi og rappi af fítonskrafti. Svo hélt hún líka uppi kósí fjölskyldustemmningu og fékk bróðir sinn upp á svið til að rappa með sér. Halldór Eldjárn spilar rómantíska en framsækna raftónlist með hjálp róbóta á Húrra sem minnti um margt á sveitir eins og Royksopp. Svo hélt rappið áfram í Listasafninu þar sem helstu vonarstjörnur landsins eins og Birnir og Jói Pé x Króli og Joey Christ rokkuðu þakið af Hafnarhúsinu þangað til lög um vínveitingastaði stoppuðu keyrsluna.

 

 Heill skröttum

 

Fimmtudagskvöldið hófst með látum og djöfulgangi á Bar Ananas. Skrattar eru sagðir hakkaðasta banda landsins og standa undir því. Öskur, sálarmyrkur og úrkynjuð partýstemmning. Að púlla svoleiðis klukkan fimm um eftirmiðdag er ekki á færi allra, en greinilega þeirra. Hail Satan. Þá sá ég Tonik í Bíó Paradís sem kom fram með Jón Þór á gítar og spilaði aðallega nýtt efni sem hljómaði dúndurvel. Djúpsjávartekknó með lævísum melódíum sem hentar jafnt til heimahlustunar og í sveittum tekknókjöllurum. Þá ætlaði ég aftur á Bar Ananas að sjá Fufanu en komst ekki inn vegna mannmergðar, en það kom ekki að sök þar sem kuldarokkið hljómaði mjög vel fyrir utan og rokkstælarnir sáust vel inn um gluggann.

 

Hatari eru eitt besta life-band landsins um þessar mundir og sviku engan í Gamla Bíói þetta kvöld. Þeir voru í búningum sem voru mitt á milli nasisma og S&M, voru með flotta dansara, og heimsósómarausið blastaðist úr hljóðkerfinu meðan dansinn dunaði. Grísalappalísa hafa síðan engu gleymt þrátt fyrir þeir hafi ekki verið mikið aktívir undanfarið og fóru rokkhamförum á sviðinu og Tumi saxafónleikari átti stjörnuleik. Ég lokaði svo kvöldinu með tónleikum aYia í Bíó Paradís sem framreiddu rökkvað og tilraunakennt trip hop í myrkum bíósalnum sem hentaði þeim ákaflega vel.

Davíð Roach Gunnarsson

Straumur 30. október 2017

Í Straumi í kvöld verður fjallað um nýtt efni með Fever Ray, Yaeji, Lou Rebecca og fleiri listamönnum. Seinni hluti þáttarins verður svo helgaður Iceland Airwaves sem hefst í þessari viku.  Straumur með Óla Dóra í kvöld klukkan 23:00 á X-inu 977.

1) Plunge – Fever Ray
2) A Part Of Us – Fever Ray
3) An Itch – Fever Ray
4) Raingurl – Yaeji
5) Opinionated – New Luna
6) Tonight – Lou Rebecca
7) Evolution – Kelly Lee Owens
8) Keep Walking – Kelly Lee Owens
9) Firefly – Mura Masa
10) The First Big Weekend – Arab Strap
11) Honey – Torres
12) Baby Luv – Nilüfer Yanya

MURA MASA á Iceland Airwaves 2017

Hinn magnaði plötusnúður og pródúser MURA MASA mun koma fram á Iceland Airwaves í nóvember. Hann hefur á sínum stutta ferli unnið með nokkrum af stærstu listamönnum nútímans en þar má nefna A$AP Rocky, Charlie XCX, Desiigner og fleirum. Mura Masa kom nýverið fram á Coachella tónlistarhátíðinni þar sem hann sló í gegn og var að margra mati með eitt flottasta atriði hátíðarinnar.

Ný plata er væntanleg á næstunni þar sem hann fær m.a. til liðs við sig Damon Albarn, Christine & The Queens, Nao, A$AP Rocky ofl. Mura Masa kemur fram bæði í Reykjavík og Akureyri.

hér má sjá smell hans með A$AP Rocky – Lovesick

Iceland Airwaves tónlistarhátíðin verður haldin í 19. skipti dagana 1. – 5. nóvember nk. Miðasala er hafin á tix.is.

Fleiri listamenn tilkynntir á Iceland Airwaves 2017

Skipuleggjendur Iceland Airwaves tilkynntu í dag fleiri listamenn sem koma fram á hátíðinni. Hér má sjá myndbandið með tilkynningunni.

Listamennirnir sem bætast við eru:
 
Between Mountains
Gunnar Jónsson Collider
Stefflon Don (UK)
Halldór Eldjárn
Exos
Gróa
Aldous Harding (NZ)
Jo Goes Hunting (NL)
Káryyn (US/SY)
Kontinuum
Korter í Flog
Ama Lou (UK)
Mahalia (UK)
Kælan Mikla
Ljósvaki
Milkywhale
Omotrack
Phlegm
Pink Street Boys
ГШ/Glintshake (RU)
Sycamore Tree
Guðrún Ýr

Iceland Airwaves tónlistarhátíðin verður haldin í 19. skipti dagana 1. – 5. nóvember nk. Miðasala er hafin á tix.is

AKUREYRI
Eins og tilkynnt hefur verið mun hátíðin einnig vera haldin á Akureyri þar sem boðið verður upp á dagskrá í tvo daga og verða því enn fleiri möguleikar í boði fyrir hátíðargesti.

Eftirfarandi möguleikar eru í boði á Iceland Airwaves 2017:
Í boði verður að kaupa þrjár gerðir af miðum:

1) Almennur miði, gildir á alla viðburði hátíðarinnar,earlybird 17.900 kr, fullt verð 21.900 kr.
2) Akureyrarmiði, gildir á alla viðburði hátíðarinnar á Akureyri, 8.900 kr.
3) Akureyri + viðbót, gildir á alla viðburði hátíðarinnar á Akureyri og í Reykjavík dagana 4. og 5. nóvember, 14.900 kr.

Af þeim listamönnum sem tilkynntir voru í dag sem einnig koma fram á Akureyri eru Ásgeir, Benjamin Clementine (UK), Emiliana Torrini and the Colorist (IS/BE), Arab Strap (SCO), Emmsjé Gauti, GKR og Xylouris White (GR/AU).

Ásgeir mun halda sérstaka tónleika í Eldborg í Hörpu þar sem miðaafhending verður fyrir armbandshafa eftir “fyrstur kemur, fyrstur fær” reglunni. Það stefnir í stórt ár hjá Ásgeiri og mikil eftirvænting hefur verið eftir nýju efni en gaf hann út fyrsta lagið af væntanlegri plötu á dögunum. Hlusta má á það hér.

Fleet Foxes og Billy Bragg á Airwaves

Nú rétt í þessu var tilkynnt um fyrstu nöfn þeirra hljómsveita og listamanna sem hafa verið staðfestir á næstu Iceland Airwaves hátíð og þar eru stærstu nöfnin bandaríska folkpoppsveitin Fleet Foxes og breska söngvaskáldið Billy Bragg. Fleet Foxes munu spila á tveimur tónleikum í eldborgarsal Hörpu, þar sem selt verður inn á þá fyrri en þeir seinni aðgengilegir armbandshöfum svo lengi sem húsrúm leyfir. Hér eru þau nöfn sem tilkynnt voru í dag:

aYia

Billy Bragg (UK)

Childhood (UK)

Cyber

Fleet Foxes (US)

Hildur

Hórmónar

Alexander Jarl

JFDR

KÁ-AKÁ

Lido Pimienta (CF)

Lonely Parade (CA)

Mammút

Shame (UK)

Sturla Atlas

Tófa