Hálfsársuppgjör Straums

 

Adam Green & Binki Shapiro – Adam Green & Binki Shapiro 

Anti-folk söngvarinn Adam Green og Binki Shapiro úr Little Joy gáfu út þessa einlægu samnefndu plötu í byrjun ársins. Platan minnir margt á samstarf þeirra Lee Hazlewood og Nancy Sinatra á sjöunda áratugnum. Tregafullar raddir þeirra  Green og Shapiro smell passa saman og platan rennur ljúflega í gegn líkt þytur í laufi.

 

Tomorrow’s Harvest – Boards Of Canada

Eins og elding úr heiðbláum himni dúkkaði upp dularfull vínilplata merkt Boards of Canada í plötubúð í New York í maí. Á plötunni var ekkert nema vélræn rödd sem las upp talnarunu en hún setti af stað atburðarás sem á endanum leiddi í ljós fyrstu plötu BoC í 7 ár. Þegar Tomorrow’s Harvest kom loksins út olli hún engum vonbrigðum og hljómur hennar sór sig í ætt við fyrri verk sveitarinnar. Yfir verkinu hvílir ákveðinn heimsendadrungi en þó glittir í ægifegurð inni á milli. Heyra má bjagaðar og hálffalskar synthalínur, gnauðandi eyðimerkurvinda og strengi sem eru svo snjáðir að þeir hljóma eins og upptaka úr margra áratuga gömlu fischer price segulbandstæki. Gæti verið draugurinn í vélinni eða bergmál siðmenningar sem nýlega hefur verið eytt. Raftónlist sem smýgur inn í undirmeðvitundina og marar þar eins og kjarnorkukafbátur.

 

Lysandre – Christopher Owens

Þegar Christopher Owens tilkynnti um endarlok Girls á twitter síðu sinni síðasta sumar fór hrollur um marga aðdáendur þessarar einstöku sveitar sem skildi eftir sig tvær frábærar plötur – Album (2009) og Father, Son, Holy Ghost (2011). Í upphafi þessa árs var ljóst að þessar áhyggjur voru óþarfar þar sem Owens sendi frá sér plötu sem mætti segja að væri beint framhald af því sem hann gerði með fyrrum hljómsveit sinni. Lög á plötunni höfðu meira að segja sum heyrst á tónleikum Girls. Lysandre er heilsteypt þema plata um stúlku sem Owens varð ástfanginn af á tónleikaferð með Girls.

 

 

Hanging Garden – Classixx

Bandaríska DJ dúóið Classixx vakti fyrst athygli á sér með frábærum endurhljóðblöndunum á lögum með hljómsveitum á borð við Phoenix, Major Lazer og Yacht. Fyrsta smáskífa þeirra I’ll Get You kom út árið 2009 og frá því hafa margir beðið spenntir eftir fyrstu plötu þeirra sem kom loks út í lok maí. Hanging Garden er björt plata full af gæða rafpoppi sem á svo sannarlega heima á dansgólfinu á heitum sumarkvöldum.

 

 

 

Random Access Memories – Daft Punk

Meðan Boards of Canada héldu sig við það sem þeir kunna best þá umbreyttust Daft Punk liðar enn einu sinni við skiptar skoðanir aðdáenda. Random Access Memories er þeirra lífrænasta plata til þessa, 75 mínútna ferlíki af diskói, progrokki, fullorðinspoppi og vélrænum trega. Á henni var leitast við að endurskapa hljóðverðsstemmningu 8. áratugarins og tölvum og stafrænni tækni hent út í veður og vind. Þrátt fyrir að það hefði verið hægt að skera hana aðeins niður er ekki annað hægt en að dást að handverkinu og metnaðinum. Fyrir utan að gefa okkur sumarsmellinn Get Lucky, eru ótalmörg fantafín lög á plötunni eins og Doin’ it Right, Loose Yourself to Dance og Giorgio By Moroder.

 

 

 

Settle – Disclosure

Bræðra dúóið Disclosure gáfu út sína fyrstu plötu Settle þann 3. júní. Þrátt fyrir ungan aldur sýna þeir Guy (fæddur 1991) og Howard (fæddur 1994) Lawrence ótrúlegan þroska í lagasmíðum á plötunni sem er ein heilsteyptasta dansplata sem komið hefur frá Bretlandi í langan tíma.

 

 

 

Lesser Evil – Doldrums

Eftir frábæra tónleika Airick Woodhead (Doldrums) á Iceland Airwaves síðasta haust var ljóst að fyrsta plata hans innihéldi eitthvað bitastætt. Woodhead sveik ekki neinn með með Lesser Evil sem er tilraunakennd dansplata sem leiðir hlustendur í gegnum ferðalag um hugarheim Woodhead sem oft á tíðum er ansi dökkur.

 

 

 

 

We Are The 21st Century Ambassadors of Peace and Magic – Foxygen

Foxygen eru tveir rétt rúmlega tvítugir strákar frá kaliforníu sem á þessari frábæru breiðskífu fara á hundavaði yfir margt af því besta í rokktónlist frá seinni hluta 7. áratugarins og fyrri hluta þess 8. Söngvarinn Sam France stælir Mick Jagger, Lou Reed og Bob Dylan jöfnum höndum en samt aldrei á ófrumlegan eða eftirhermulegan hátt. San Fransisco er eins og týnd Kinks ballaða og On Blue Mountain bræðir saman Suspicous Minds með Elvis og groddaralegustu hliðar Rolling Stones. Ótrúlega áheyrileg plata sett saman af fádæma hugmyndaauðgi og smekkvísi.

 

 

 

Immunity – Jon Hopkins

Immunity stígur jafnvægisdans á milli draumkennds tekknós og seiðandi ambíents listlega vel og hljómurinn er silkimjúkur draumaheimur þar sem gott er að dvelja í góðum heyrnatólum.

 

 

 

Yeezus – Kanye West

Að upphefja sjálfan sig hefur alltaf verið stór hluti af hipp hoppi en Kanye West hefur þó á undanförnum árum sett nýjan mælikvarða á mikilmennskubrjálæði sem jaðrar við að vera sjálfstætt listform. Yeezuz er tónlistarlega og textalega hans dekksta og harðasta verk og hann tekst á við kynþáttahatur á frumlegan og djarfan hátt í lögum eins og New Slaves og Black Skinhead.

 

 

 

 

Walkin On A Pretty Daze – Kurt Vile

Síðasta plata Vile Smoke Ring for My Halo var efsta platan á lista Straums yfir bestu plötur ársins 2011. Á Walkin On A Pretty Daze heldur Vile áfram uppteknum hætti þó hún sé ögn epískari á köflum.

 

 

 

 

Cold Spring Fault Less Youth – Mont Kimbie

Lástemmd en þó kraftmikil og dansvæn plata og stórt skref fram á við fyrir breska dúettinn. Sérstaklega er gaman að heyra samstarf þeirra við hinn hæfileikaríka söngvara King Krule í tveimur lögum þar sem ólíkir stílar listamannanna smella eins og flís við rass.

 

 

 

M B V – My Bloody Valentine

Írska shoegaze hljómsveitin My Bloody Valentine gaf út sína þriðju plötu, þá fyrstu frá því að platan Loveless kom út árið 1991, 2. febrúar. Platan mbv er níu laga og er vel biðarinnar virði. Söngvari sveitarinnar Kevin Shields skýrði frá því á síðasta ári að hann hefði hafið gerð plötunnar á tíunda áratugnum og sögusagnir segja að hann hafi hent gríðarlega miklu efni við gerð hennar.

 

 

 

 

 

Run the Jewels – Run the Jewels

Eftir frábæra sólóskífu El-P á síðasta ári og ekki síðri plötu Killer Mike sem sá fyrrnefndi pródúseraði var samstarfsverkefni þeirra, Run The Jewels, rökrétt framhald. Það gefur fyrri skífum ekkert eftir í harðsoðnum töktum og platínuhörðum rímum. Taktarnir hjá El-P hafa sjaldan verið betri, eru hráir og vélrænir en á sama tíma fönkí og lifandi, fullir af sírenum, sci-fi syntum og allra handa óhljóðum. Rapportið milli rapparanna tveggja er síðan sérdeilis skemmtilegt þar sem þeir toppa hvorn annan í orðaleikjum og töffaraskap.

 

 

 

 

 

Flowers – Sin Fang

Sindri Már Sigfússon er einn afkastamesti tónlistarmaður landsins um þessar mundir en gæðastandarinn á efninu er þó alltaf jafn hár. Hann er stöðugt að þróast sem lagasmiður og Young Boys og What’s wrong with your eyes eru með allra bestu lögum ársins. Platan er tekin upp af Alex Somers sem galdrar fram ævintýralega hljóm þar sem fyllt er upp í hverja einustu glufu með áhugaverðum hljóðum án þess þó að verða nokkurn tímann ofhlaðinn.

 

 

 

Torres – Torres

Hin 22 ára Mackenzie Scott frá Nashville í Tennessee gengur undir listamannsnafninu Torres. Torres sendi frá sér sjálftitlaða plötu í janúar sem er uppfull af trega, sorg og sannfæringu. Ein af heiðarlegri plötum þessa árs.

 

 

 

Modern Vampire Of The City – Vampire Weekend

Þriðja plata Vampire Weekend er þrátt fyrir asnalegan titil alveg hreint frábært verk og gefur þeim fyrri lítið eftir. Þeir vinna í fyrsta skiptið með utanaðkomandi upptökustjóra sem skilar sér aukinni tilraunamennsku og skrefum út fyrir sinn hefðbundna hljóðramma, auk þess sem lagasmíðar eru sterkar og grípandi. Ef það væri eitthvað sumar á Íslandi í ár væri þetta hin fullkomna sumarplata.

 

 

Curiosity – Wampire

Portland bandið Wampire hefur verið starfandi frá árinu 2007 og gaf loks út sína fyrstu plötu í júní. Á Curiosity blandar bandið saman áhrifum frá sýrurokki, 70s poppi og new wave á skemmtilegan máta.

 

 

Cerulean Salt – Waxahatchee

Hin 24 ára gamla Katie Crutchfield sendi frá sér aðra plötuna undir nafninu Waxahatchee á innan við ári núna í mars. Á Cerulean Salt er að finna pönkaða þjóðlagatónlist flutta með ótrúlegri tilfinningu og heiðarleika sem skín í gegn í hverju einasta lagi.

 

Wondrous Bughouse – Youth Lagoon

Svefnherbergis pródúserinn Trevor Powers átti eina af betri plötum árins 2011 með The year of hibernation. Á þessari annari plötu Powers undir nafni Youth Lagoon er hann kominn út úr svefnherberginu inn í hljóðver og útkoman er stærri hljóðheimur án þess að gefa eftir í lagasmíðum.

 

Straumur 28. janúar 2013

Í Straumi í kvöld skoðum við nýtt efni með Ducktails, The Knife, The Ruby Suns, Torres og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld frá 23:00 á X-inu 977!

1. hluti:

      1. 236 1

2. hluti:

      2. 236 2

3. hluti:

      3. 236 3

 

1) Defiant Order – Birdy Nam Nam
2) Full Of Fire – The Knife
3) Anomaly – Doldrums
4) Higher Res (ft. Jai Paul and Little Dragon) – Big Boi
5) Gun Shy (Lindstrøm remix) – Grizzly Bear
6) Dramatikk – The Ruby Suns
7) Pretty Boy – Young Galaxy
8) One Way Trigger – The Strokes
9) Timothy Shy – Ducktails
10) Max Can’t Surf – FIDLAR
11) Wooly Mammoth – Local Natives
12) November Baby – Torres
13) When Winter’s Over – Torres
14) Numbers And Names – Ólöf Arnalds
15) Grievances – Daniel Johnston

Annar í Airwaves

Mynd: Iona Sjöfn

Ég hóf annað kvöld Airwaves á Kex Hostel þar sem tvær Hip Hop sveitir frá Seattle lögðu saman krafta sína. Shabazz Palaces er verkefni Ishmael Butler, sem var forsprakki rappsveitarinnar Digable Planets í byrjun tíunda áratugarins og hefur lengi verið í uppáhaldi hjá undirrituðum. Í Shabazz Palaces rær hann þó á tilraunakenndari mið með bassaþungum og draugalegum hljóðheimi og afar pólitískum textum. Hann kom fram ásamt trommara og kvennarappsveitinni Theesatifaction. Tónleikarnir voru um margt góðir en aðstæður á Kex Hostel eru þó ekki til fyrirmyndar, ekkert svið er til staðar svo það er nánast ómögulegt að sjá hljómsveitina.

Hressilegt powerpopp

Eftir að hafa sett batteríin í hleðslu með bjórsötri í heimahúsi hélt ég niður í Hafnarhúsið að sjá bandarísku indísveitina Phantogram. Þau voru einungis þrjú á sviðinu en hljóðheimurinn var í engu samræmi við fjöldann. Hljómsveitin spilar nokkurs konar maximalískt powerpopp með hip hop áhrifum og þau náðu upp mjög góðri stemmningu í pökkuðu listasafninu. Eftir að þau höfðu lokið sér af rölti ég yfir á Amsterdam og fylgdist með Gang Related sem voru í rokna rokkstuði. Hljóðið var frábært og letilegt slakker-rokkið var flutt af strákslegri gleði sem skein af hverju riffi.

Upplýstar trommur

Þvínæst rölti ég yfir götuna á Þýska barinn og náði þremur lögum með rapparanum Gísla Pálma. Það er hægt að nota mörg orð um Gísla Pálma en hefðbundið er ekki eitt af þeim. Mér finnst eins og hann sé ekki alvöru persóna heldur karakter úr bíómynd eftir Todd Solondz eða Harmony Korine. Það er alltaf upplifun að sjá hann á sviði og hann rappaði af guðs náð og áhorfendur hreinlega átu stemmninguna úr lófa hans. Þá var haldið aftur í Hafnarhúsið til að sjá hæpaðasta band kvöldsins, Purity Ring. Þau voru tvö á sviðinu, söngkona og græjukall, og fluttu framsækið tölvupopp af miklu öryggi. Sérstaklega skemmtilegt voru einhvers konar lampatrommur, sem að hljómuðu eins og stáltrommur og lýstust upp þegar barið var á þær. Tónleikarnir voru frambærilegir en stóðu kannski ekki alveg undir hæpinu og stemmningin var líflegri hjá Phantogram.

Skipulögð óreiða

Eftir að Purity Ring höfðu lokið sér af fór ég ásamt góðum hópi íslendinga og Kanadabúa yfir á Iðnó til að sjá listamanninn Doldrums frá Montreal. Tónlistin sem hann framreiddi var alveg dásamlega skipulögð óreiða. Hann kom fram ásamt trommuleikara og græjugellu en sjálfur sá hann um söng og óheyrilegt magn af tólum og tækjum, þar á meðal plötuspilara. Söngröddin hans var kraftmikil og afskaplega kvenleg og hann dansaði um sviðið og djöflaðist í græjum milli þess sem hann söng af innlifun og sveiflaði hljóðnemanum í allar áttir. Frábær lokapunktur á öðrum í Airwaves og hressasta atriðið hingað til.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Áhugavert á Airwaves – Seinni hluti

Django Django

Skoska hljómsveitin Django Django er tilnefnd til hinna virtu Mercury verðlauna í ár fyrir sína fyrstu plötu sem er samnefnd hljómsveitinni. Þar er á ferðinni ein af bestu plötu ársins þar sem sækadelía, þjóðlagatónlist og synþapopp mætast í afar bragðmikilli súpu. Django Django spila í Silfurbergssal Hörpu á miðnætti á laugardaginn.

Shabazz Palaces

Shabazz Palaces er skipuð bandaríska rapparanum Ishmael Butler og tónlistarmanninum Tendai ‘Baba’ Maraire. Ishmael þessi kallaði sig einu sinni Butterfly og var helsta sprautan á bak við hina dáðu og djössuðu hip hop sveit Digable Planets í upphafi tíunda áratugarins. Hann er ennþá að rappa en að þessu sinni er tónlistin tilraunakenndari og textarnir pólitískari. Fyrsta breiðskífa þeirra, Black Up, var gefin út af Sub Pop útgáfunni í fyrra og hlaut frábæra dóma gagnrýnenda. Shabazz Palaces koma fram á Þýska Barnum á miðnætti á fimmtudagskvöldinu.

Just Another Snake Cult

Lo-Fi skrýtipoppsveitin Just Another Snake Cult er einstaklingsverkefni Þóris Heydal en hann gaf út hina frábæru og fjölbreyttu plötu Dionysian Season árið 2010. Fyrr þessu ári gerðist hann svo li-fo að hann gaf út ep plötu í formi kasettu, Birds carried your song through the night, sem hefur að geyma draumkennt hljóðgerflapopp. Just Another Snake Cult koma fram klukkan 20:00 á Gamla Gauknum á föstudaginn.

 

Apparat Organ Quartet 

Orgelkvartettinn er fyrir löngu orðinn að stofnun í íslensku tónlistarlífi með tveimur plötum af rafrokkaðri orgeltónlist, meitlaðri sviðsframkomu og útpældri fagurfræði. Þeir spila þó ekki oft á tónleikum svo Airwaves er kærkomið tækifæri til að berja þessa snyrtilegu organista augum. Apparat stíga á stokk klukkan 22:10 í Silfurbergi á föstudagskvöldið.

Doldrums

Montrealbúinn Airick Woodhead hefur vakið mikla athygli undanfarið fyrir tónlist sem hann gefur út undir nafninu Doldrums. Kaótískt og brotakennt hávaðapopp hans ætti að vera ferskur andblær á Airwaves hátíðinni í ár en hann kemur fram klukkan 00:20 á fimmtudagskvöldinu í Iðnó.

Phantogram

Bandarísk indí-sveit sem hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir hugmyndaríkt popp og stóran hljóðheim. Stíga á svið í Listasafni Reykjavíkur klukkan 21:00 á fimmtudagskvöldið.

Hjálmar og Jimi Tenor

Reggísveitina Hjálma þarf ekki að kynna þar sem hún hefur verið með vinsælustu sveitum landsins undanfarin ár. Að undanförnu hafa þeir þó verið að vinna að plötu með finnska raftónlistarséníinu Jimi Tenor sem hefur spilað ótal sinnum á Íslandi, síðast í ágúst, og m.a. unnið með Gus Gus. Það eina sem hefur heyrst af samstarfinu er lagið fyrir neðan og verður spennandi að heyra meira. Hjálmarnir og tenórinn stíga á svíð á miðnætti í Silfurbergi á föstudagskvöldinu.

Theesatisfaction

Hip hop sveit frá Seattle skipuð rapparanum Stasiu “Stas” Iron og söngkonunni Catherine “Cat” Harris-White. Þær voru uppgvötaðar eftir að hafa verið gestir á Black Up plötu Shabazz Palaces og fyrsta breiðskífa þeirra var gefin út af Sub Pop útgáfunni á þessu ári. Þær koma fram á undan Shabazz Palaces klukkan 23:00 á Þýska barnum á fimmtudagskvöldið.

Ojba Rasta

Þessi mannmarga reggísveit hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir sína fyrstu breiðskífu sem kom út fyrir skemmstu og hafa fylgt henni eftir með miklu tónleikahaldi. Ojba Rasta spila klukkan 21:40 í Silfurbergi í kvöld.

 

Davíð Roach Gunnarsson