Væntanleg plata Animal Collective á netinu

Bandaríska hljómsveitin Animal Collective frumflutti væntanlega plötu sína Centipede Hz í net útvarpsþætti sínum Animal Collective Radio í gærkvöldi. Hægt er að streyma plötunni á síðu þáttarins radio.myanimalhome.net. Platan kemur út þann 3. september næstkomandi og er níunda plata hljómsveitarinnar.

Deerhunter + Black Lips = Ghetto Cross

Bradford Cox úr hljómsveitunum Deerhunter og Atlas Sound og Cole Alexander úr Black Lips leiða saman hesta sína að nýju í verkefni sem hófst í janúar árið 2008  og kallast Ghetto Cross. Félagarnir gáfu í dag út lagið Still og að þeirra sögn er heil plata tilbúin. Hlustið á og sækið  Still hér fyrir neðan.

      1. Ghetto_Cross_-_Still

mp3: 

      2. Ghetto_Cross_-_Still

 

 

Way Out West 2012

Way Out West er þriggja daga tónleikahátíð sem er haldin í Gautaborg í Svíþjóð, í ágústmánuði á ári hverju. Hátíðin, sem var fyrst haldin árið 2007, er þekkt fyrir að vera með fjölbreytt úrval af tónlist,  þó aðal fókusinn sé á rokk, elektró og hip hop. Á daginn fer hátíðin fram á þremur sviðum í almenningsgarði í miðborg Gautaborgar sem nefnist Slottsskogen en eftir miðnætti taka við klúbbar í miðbænum. Hátíðinni mætti lýsa sem blöndu af Hróaskeldu og Iceland Airwaves. Tæplega 30 þúsund manns sækja hana á ári hverju. Hátíðin stendur yfir frá fimmtudegi til laugardags.

 

 

Fimmtudagur 9. ágúst

Fyrsti listamaðurinn sem ég sá á Way Out West í ár var Thurston Moore söngvari Sonic Youth. Thurston, sem spilaði ásamt trommara, bassaleikara og fiðluleikara á minnsta sviði hátíðarinnar – Linné, framleiddi hágæða gítarsurg og var hápunktur tónleikanna þegar hann stóð á gítarnum og vaggaði sér fram og til baka til að ná sem mestu feedbakki.Eftir tónleika Moore kom ég við á stærsta sviðinu þar sem heimamennirnir í Deportees spiluðu á vel sóttum tónleikum. Eins góð og mér þykir þeirra síðasta plata  þá heilluðu þeir mig ekki í þetta skiptið. Strax á eftir þeim var röðin kominn að hip hop hljómsveitinni De La Soul sem spiluðu á næst  stærsta sviðinu sem nefnist Azalea. Þetta voru vægast sagt verstu tónleikar hátíðarinnar. Eftir að hafa spilað 45 sekúndur úr smelli sínum All Good hófu hljómsveitarmeðlimir að keppast um hvorum megin við sviðið væri meira klappað og reyndu að leiða áhorfendur í eitthvað klappstríð sín á milli. Þetta var gífurlega vandræðalegt og ég sá ekkert annað í stöðunni nema að yfirgefa þessar útbrunnu goðsagnir.  Florence And The Machine stóðu fyrir sínu og áttu þrusu gott sett á stærsta sviðinu sem nefnist Flamingo. Á tónleikunum hitti ég sænsku systurnar í First Aid Kit sem voru spenntar fyrir að spila á sama sviði daginn eftir.  Það kom svo í hlut bandaríska rokk dúósins The Black Keys að loka deginum í Slottsskogen. Þeir stóðu fyrir sínu og gott betur en það og hafa fyllt vel upp í það skarð sem The White Stripes skildu eftir þegar þau hættu í fyrra.

 

Það sem kom mér mest á óvart við þennan fyrsta dag í Slottsskogen var hversu erfitt það reyndist að neyta áfengis á hátíðinni. Það er með öllu óheimilt að koma með áfengi inn á svæðið og öll neysla á tónleikum er bönnuð. Til þess að neyta áfengis þarf maður að fara í sértök tjöld á svæðinu sem selja það og þarf maður að drekka á staðnum. Maturinn á svæðinu þótti mér góður en hefði mátt vera fjölbreyttari, en í ár var grænmetisþema. Þrátt fyrir það var allt flæðandi í kjöti á  blaðamannsvæðinu.

Nú var röðin komin að Stay Out West, sem er fyrir þá tónleikagesti sem vilja halda áfram eftir að tónleikunum í Slottsskogen lýkur. Fyrirkomulagið er á þann hátt að tónleikar eru haldnir í tólf klúbbum sem eru dreifðir um miðbæ Gautaborgar. Þetta er svona svipað og ef Iceland Airwaves væri haldið í Kópavogi, Skeifunni og í miðbæ Reykjavíkur. Allir þessir klúbbar eru frekar litlir og þess vegna þarf maður að vera snar í snúningum til þess að komast inn á þá. Ólíkt Iceland Airwaves getur maður ekki kíkt á tónleika í næsta nágrenni ef húsið er fullt. Fyrsta kvöldið stefndi ég á að sjá Purity Ring á stað sem var næstur Slottsskogen. Þegar þanngað var komið beið mín röð sem minnti á það allra versta í sögu Iceland Airwaves og þó ég hefði blaðamannapassa var mér ekki veittur aðgangur. Það var því ekkert annað í stöðunni en að taka sporvagn á næstu tónleika sem tók um hálftíma. Ég fór á stað í miðbænum sem hýsti Alt J, Bob Mould og Cloud Nothings. Þar var einnig röð og komst ég inn þegar Alt J áttu þrjú lög eftir. Hljómsveitin flutti þau af stakri prýði. Næstur á svið á eftir þeim var Bob Mould sem var áður söngvari hinnar goðsagnakenndu indie hljómsveitar Hüsker Dü frá Minnesota í Bandaríkjunum. Tónleikar Mould voru kraftmiklir og spilaði hann lög frá sólóferlinum í bland við lög með Hüsker Dü og Sugar,sem er band sem Mould stofnaði á tíunda áratugnum. Það ætlaði allt um koll að keyra þegar hann endaði settið með Hüsker Dü slagaranum Celebrated Summer af plötunni New Day Rising. Cloud Nothings lauk svo kvöldinu með frábærum tónleikum sem innihéldu aðallega lög af nýjustu plötu þeirra – Attack On Memory sem kom út fyrr á þessu ári. Eftir þetta kvöld komst ég ekki aftur á tónleika á Stay Out West.

 

Föstudagur 10. ágúst

Philadelphiu rokkarnir í The War On Drugs hófu leikinn á föstudeginum í Slottsskogen. Hljómsveitin, sem áður innhélt sjálfan Kurt Vile, gáfu út hina frábæru breiðskífu – Slave Ambient í fyrra. Tónleikar þeirra á hátíðinni voru frábærir og voru þeir einir af fáum listamönnum sem voru klappaðir upp í ár. Strax á eftir þeim kom svo St. Vincent, öðru nafni Annie Erin Clark sem eitt sinn var í Polyphonic Spree og hljómsveit Sufjan Stevens. Hún átti ekki síðri tónleika og sannaði það hún er ekki aðeins frábær sönkona heldur gítarleikari af guðs náð. Systurnar í First Aid Kit spiluð svo á stóra sviðinu og þeyttu flösu milli þess sem þær spiluðu lög af hinni einstöku plötu The Lion’s Roar, sem kom út í byrjun ársins í bland við árbreiður frá listamönnum líkt og Fleet Foxes og Fever Ray.


Söngkonan Feist kom svo á eftir þeim og merkti sviðið með borða sem á stóð Free Pussy Riot. Feist átti mjög góða tónleika og spilaði efni af öllum fjórum plötum sínum. Næst á dagskrá voru svo tónleikar Best Coast, sem ég ákvað að fara á vegna þess að mér þykir mikið til fyrstu plötu þeirra koma en það sama get ég ekki sagt um þá nýjustu. Sem betur fer voru flest lögin sem þau tóku á tónleikunum af fyrri plötunni.Eftir að Best Coast lauk sér af dreif ég mig fremst fyrir framan stóra sviðið til að sjá mögulega næstsíðustu tónleika sem hljómsveitin Blur munu spila á.

 

Hljómsveitin átti, þegar þarna var komið við sögu, aðeins eftir að spila á viðburði sem tengdur var lokaathöfn Ólympíuleikana á sunnudeginum í Bretlandi. Blur áttu í engum erfiðleikum að koma fólki í stuð og hófu tónleikana á smellinum Girls and Boys af plötunni Parklife frá árinu 1994. Hljómsveitin spilaði flest sín frægustu lög og einnig tvö þau nýjustu  – Puritan og Under The Westway við mikinn fögnuð viðstaddra. Ég hef séð Blur þrisvar áður – í Laugardalshöll árið 1996 og 1997 og á Hróaskeldu 2003, en aldrei hef ég séð þá í eins góðu formi og nú. Þeir enduðu tónleikana á þremur af mínum uppáhalds Blur lögum End of a Century, For Tomorrow og The Universal.

 


Laugardagur 11. ágúst

A$AP Rocky hóf síðasta dag hátíðarinnar með krafti og fékk áhorfendur fljótlega á sitt band. Fjórða hvert lag á tónleikunum var óður til hugtaksins SWAG, þar sem hann og félagi hans endurtóku hugtakið í sífellu við kröftugan takt. Eftir tónleika A$AP heyrði ég þær hræðilegu fréttir að tónleikum Frank Ocean á hátíðinni hefði verið aflýst. Þetta voru verstu tíðindi helgarinnar, því ég hlakkaði mikið til að sjá Ocean og ekkert sérstakt kom í stað hans. Ég hlýddi stuttlega á Mogwai áður en ég hélt á tónleika  sænsku hljómsveitarinnar Miike Snow, sem sýndu að þeir eru sterkt tónleikaband með tvær frábærar plötur í fartaskinu. Hápunktur tónleikanna var þegar að Lykke Li kom fram með þeim í laginu Get Out Of The Black Box. Næstir á dagskrá voru sjálfir Kraftwerk sem ég hafði séð í Kaplakrika árið 2004. Munurinn á þessum tónleikum og þeim voru að í þetta skipti var myndbandið sem var fyrir aftan þá í 3D og flest allir tónleikagestir skörtu slíkum gleraugum sem dreift var um svæðið um daginn. Kraftwerk sviku engan með einstökum tónleikum þó maður velti oft fyrir sér hvað nákvæmlega þessir fjórir herramenn gera á sviðinu, þeir hefðu alveg eins getað verið að leggja kapal í tölvunum, þeir hreyfðust ekki allan tímann.


Eftir Kraftwerk var röðin komin að síðasta atriði Way Out West í ár – Odd Future Wolf Gang Kill Them All, sem ég hafði séð árið áður á Hróaskeldu. Gengið átti fína tónleika og enduðu þessa frábæru helgi á skemmtilegan hátt.

Það sem stóð upp úr að mínu mati í ár var St. Vincent, Blur og A$AP Rocky. Vonbrigði helgarinnar voru raðirnar og staðsetninginn á Stay Out West og aflýsing Frank Ocean. Þrátt fyrir það er Way Out West ein af skemmtilegri hátíðum sem ég hef farið á og ég get auðveldlega mælt með henni fyrir alla tónlistaráhugamenn sem vilja upplifa þá stemmingu sem einkennir stórar tónlistarhátíðir og kosti þess að vera staðsettur í miðborg stórborgar.

Óli Dóri

35 ár frá því að Elvis Presley lést

Í dag eru 35 ár síðan að Elvis Aron Presley, einn sá áhrifamesti ef ekki áhrifamesti tónlistarmaður 20. aldar, lést. Þó að Presley hafi ekki fundið upp rokkið, innleiddi hann það í bandaríska menningu þaðan sem það barst um allan heim. Á sama tíma var í fyrsta skipti að verða til sérstök menning unglinga og áhrif rokksins og Elvis verða seint ofmetin í því samhengi. Presley fæddist 8. janúar 1935 í Tupelo, Mississippifylki í Bandaríkjunum. Hann lést á heimili sínu Graceland í Memphis, Tennessefylki, 16. ágúst 1977, 42 ára að aldri. Síðan hefur meira verið fjallað um hann heldur en nokkurn tímann meðan hann var á lífi. Sú mynd sem fjölmiðlar sýndu af Presley meðan hann lifði er gerólík þeirri ímynd sem fjölmiðlar hafa búið til eftir dauða hans. Ímynd Presley hefur verið afbökuð ósmekklega á síðustu áratugum.  Fyrir neðan má hlusta á útvarpsþátt sem ég gerði um Elvis Presley í heimafylki hans Tennessee í Bandaríkjunum árið 2009.

Leitin af Elvis 1

      1. 1 hluti

Leitin af Elvis 2

      2. 2 hluti

Óli Dóri 

 

 

Japandroids viðtal

Kanadíska hljómsveitin Japandroids spilar á tónleikum á Gamla Gauknum miðvikudaginn 22. ágúst. Hljómsveitina skipa þeir Brian King gítar/söngur og David Prowse trommur/söngur. Hljómsveitin sendi frá sér sína fyrstu plötu – Post Nothing  snemma árs 2009 og platan Celebration Rock fylgdi á eftir fyrr í sumar. Báðar hafa þær fengið einróma lof gagnrýnenda auk þess sem tónleikar sveitarinnar þykja einstök upplifun. Við hringdum í Brian og spurðum hann út í tónleikaferðalög, nýju plötuna og hverju íslendingar mega eiga von á tónleikum sveitarinnar hér á landi. Hlustið á það hér fyrir neðan:

Viðtal við Brian King:

      1. Japandroids viðtal

Hljómsveitin Sudden Weather Change mun hita upp fyrir Japandroids en þeir gáfu nýverið út sína aðra breiðskífu, Sculpture.  Það verður því boðið upp á tónleikaveislu á Gamla Gauknum þann 22. ágúst næstkomandi. Miðasala fer fram  hér: http://midi.is/tonleikar/1/7053/

Í næstu viku munum við gefa tvo miða á tónleikana í gegnum facebook síðu Straums, einföld spurning verður lögð fram og sá sem fyrstur er að svara henni mun vinna þessa tvo miða. Þar að auki verða tveir miðar gefnir í útvarpsþætti Straums á X-inu 977 næsta mánudagskvöld milli tíu og tólf. Fyrir neðan má svo sjá fyrsta myndbandið sem hljómsveitin sendir frá sér, er það við lagið House That Heaven Built og var gefið út í gær. Í myndbandinu er fylgst með hljómsveitinni  á tónleikaferðalagi í eina viku, þar sem þeir spila, fara í partí og gera alls kyns vitleysu.

Paper Beat Scissors á Faktorý

Kanadíska einsmannshljómsveitin Paper Beat Scissors heldur tónleika á Faktorý á fimmtudagskvöld. Um er að ræða verkefni tónlistarmannsins Tim Crabtree, sem er Englendingur að uppruna, en hefur verið búsettur í Halifax í Kanada frá árinu 2008. Tónlistinn einkennist af einstakri rödd hans í bland við gítarplokk, blásturshljóðfæri og dáleiðandi lúppur.

Fyrsta plata Paper Beat Scissors, sem er samnefnd, kom út í vor. Við gerð plötunnar naut hann liðsinnis fjölda lykilmanna í kanadísku tónlistarsenunni. Platan er hljóðblönduð af Jeremy Gara úr Arcade Fire og spilar m.a. Sebastian Chow úr Islands á henni.

Tim hitar stuttlega upp á Hemma og Valda miðvikudagskvöldið 15. ágúst, en heldur svo tónleika ásamt Snorra Helgasyni og Boogie Trouble á Faktorý fimmtudagskvöldið 16. ágúst. Miðaverð á tónleikana er 1000 krónur og hefjast þeir klukkan 21:00.

Fyrir neðan má sjá Paper Beat Scissors flytja lag sitt „Rest Your Bones“ undir berum himni, og hér er hægt að hlusta á plötu hans í heild sinni.

Lagalisti Vikunnar – Straumur 214

1. hluti

      1. 1. hluti

2. hluti

      2. 2. hluti

3. hluti

      3. 3. hluti

4. hluti

      4. Straumur 214 #4

1) Blue Meanies – Opossom
2) Chained (Monument remix) – The xx
3) You’re The One (Deadboy remix) – Charli XCX
4) SUCCUBI – Azealia Banks
5) Chemical Legs – Com Truise
6) Graveyard (TRUST remix) – Feist
7) Getaway Tonight – Opossom
8) Girl – Opossom
9) Electric Hawaii – Opossom
10) Why Why – Opossom
11) Cola Elixir – Opossom
12) Outer Space – Opossom
13) Cold Nites – How To Dress Well
14) Cali In A Cup – Woods
15) Size Meets The Sounds – Woods
16) On When You Get Love And Let Go When You Give It – Stars
17) Backlines – Stars
18) The Base – Paul Banks
19) A Form Of Change – Simian Mobile Disco
20) Earthforms – Matthew Dear
21) Rá-ákö-st – Lindström
22) Sleeping In My Car – Moon King
23) BC – Cold Showers
24) So Destroyed – Prince Rama
25) Elizabeth’s Theme – Dirty Beaches
26) Sweet Talk – Jessie Ware