Daft Punk rímixa sjálfa sig

Daft Punk hafa lofað því að sjá sjálfir um að endurhljóðblanda lög af plötu sinni Random Access Memories sem kom út 20. maí síðast liðinn og nú hefur fyrsta rímixið í seríunni litið dagsins ljós. Það er  smáskífan Get Lucky sem hefur tröllriðið útvarpstækjum og dansgólfum landsmanna undanfarna mánuði. Rímixið er ekki róttæk endurgerð en þeir teygja lagið upp í rúmlega 10 mínútur og bæta við rafrænni takti og pumpandi bassatrommu. Auk þess láta þeir rödd Pharrel Williams kallast á við sínar eigin róbótaraddir í miklum mæli. Hlustið á lagið hér á Spotify tónlistarveitunni.

Tónleikar helgarinnar

Nú sem aðrar helgar er straum.is með heildarsýn á tónleika helgarinnar sem að þessu sinni er í lengri kantinum útaf þjóðhátíðardegi Íslands.

Föstudagur 14. júní

Ensími aflýstu hljómleikum sínum á tónlistarhamförunum Keflavík Music Festival síðustu helgi og ætla þess vegna að halda sárabótartónleika í kvöld klukkan 17:30 í Hljóðfærahúsi Reykjavíkur í Síðumúla 20. Aðgangur er ókeypis og ekkert aldurstakmark.

Laugardagur 15. júní

Baráttutónleikar gegn niðurrifi tónleikastaðarins Nasa verða haldnir á Austurvelli klukkan 14:00. Listamennirnir sem koma fram eru: Ágústa Eva, Daníel Ágúst, Ellen Kristjáns, Högni Egilsson, Páll Óskar, Ragga Gísla, Raggi Bjarna og Valgeir Guðjónsson, Bryndís Halla Gylfadóttir, Eyþór Gunnarsson, Guðmundur Pétursson, Pétur Grétarsson, Róbert Þórhallsson og Sigrún Eðvaldsdóttir. Þá flytja Áshildur Haraldsdóttir frá Torfusamtökunum, Biggi Veira úr GusGus og Ragnar Kjartansson myndlistar- og tónlistarmaður ávörp.

Fyrsta árlega hjólreiðakeppni Kex Hostels og Kría Cycles hefst kl. 15. Stuttu áður mun Borgarstjóri vor, Jón Gnarr, vígja nýjan almenningsgarð í Vitahverfinu en garðurinn hefur fengið nafnið VItagarður. Eftir keppnina verður boðið upp á tónlist í garðinum þegar hljómsveitirnar Grísalappalísa og Bloodgroup koma þar fram.

Rafsveitin Bloodgroup slær upp hljómleikum á Faktorý. Sveitin sendi frá sér sína þriðju breiðskífu fyrr á þessu ári sem hefur fengið einróma lof gagnrýnenda. Tónleikarnir eru á efri hæð staðarins sem opnar klukkan 22:00 en tónleikarnir hefjast klukkutíma síðar og aðgangseyrir er 1500 krónur.

Skúli mennski telur í blússandi blúsa, búgílög og nokkur vel valin aukalög ásamt Þungri byrði á Café Rosenberg. Hljómsveit skúla skipa Hjörtur Stephensen á gítar, Matthías Hemstock á trommur, Tómas Jónsson á rhodes-orgel, Valdimar Olgeirsson á bassa og Þorleifur Gaukur Davíðsson á munnhörpu. Aðgangseyrir er 1500 krónur.

Sunnudagur 16. júní

Ojba Rasta, Caterpillarmen, Babies og Love and Fog ætla sér að trylla allan þann lýð sem mætir á 30 ára afmælistónleika Rásar 2 og Gamla Gauksins sem fara fram á áðurnefndum Gauk. Aðgangseyrir er 1500 krónur, húsið opnar klukkan 22:00 og fyrir þá sem ekki eiga heimangengt verður þeim varpað út beint á Rás 2.

Artwork úr hinni virtu dubstep hljómsveit Magnetic Man þeytir skífum á Faktorý ásamt landsliði íslenskra plötusnúða, svo sem Ewok, Kára og Bensol. Aðgangur er ókeypis og dansinn byrjar að duna um miðnæturbil.

 

Streymið Tomorrow’s Harvest klukkan 20:00

Hægt verður að hlusta á streymi af Tomorrow’s Harvest, nýjustu plötu Boards of Canada, á youtube síðu sveitarinnar nú klukkan 8 í kvöld. Hægt verður að hlusta á plötuna aðeins í þetta eina skipti þannig að aðdáendur þurfa setjast við tölvurnar klukkan 8 til að ná henni frá byrjun. Í síðustu viku var haldið hlustunarpartý fyrir plötuna í skemmtigarði í miðri Arizona eyðimörkinni og fyrir um tveimur vikum sendu Boards-liðar frá sér myndband við fyrsta lagið af plötunni, Reach For The Dead, sem hægt er að horfa á hér fyrir neðan. Tomorrow’s Harvest kemur út þann 10. júní næstkomandi og er beðið með mikilli eftirvæntingu af æstum aðdáendahóp sveitarinnar.

Tónleikahelgin 30. maí til 1. júní

Í hinu vikulega helgaryfirliti straum.is er stiklað á stóru og smáu í tónleikahaldi á höfuðborgarsvæðinu.

Fimmtudagur 30. maí

Þjóðlagasveitin Ylja sem hefur verið að gera það gott á rás 2 undanfarnar vikur með ábreiðu af Daft Punk smellinum Get Lucky leikur á tónleikum í Loft-hostel í Bankastræti. Bandið hefur leik klukkan 21:00 og aðgangur er ókeypis.

Á Volta verða ókeypis hljómleikar með Dj. Flugvél og Geimskip, Knife Fights, Kælunni miklu og Spy Kids 3D. Gleðin hefst klukkan 21:00.

Nýaldarsveitin Per:Segulsvið mun leika næfurþunnar zumba möntrur fyrir gesti á Bunk Bar. Per er að eigin sögn eitt stórkostlegasta tónleikaband íslandssögunnar og vísar í tónleika í Reiðhöllinni fyrir einhverjum árum máli sínu til stuðnings. Þar hafi þakið sprungið af höllini og 6 hrossum verið fórnað í þágu listsköpunar. Um sannleiksgildi sögunnar mun straum.is ekki dæma en tónleikarnir á Bunk Bar hefjast klukkan 21:00.

Á Dillon verður haldið fjórða kvöldið í Desibil tónleikaröðinni þar sem lögð er áhersla á noise, drone, industrial, crust, hardcore punk og dark ambient tónlist. Fyrir óinnvígða mætti segja að tónlistin einblíni á hljóðtíðnir, hávaða, bjögun og öfgakennda nálgun á tónlist. Að þessu sinni munu Harry Knuckles og Godchilla stíga á stokk og sjá um óhljóðasköpun. Kvöldin eru hugsuð fyrir fólk með opna huga og ævintýragjarnar hljóðhimnur og eru haldin síðasta fimmtudagskvöld hvers mánaðar. Hljómleikurinn hefst klukkan 9 og aðgangur er ókeypis.

Plötusnúðasamsteypan RVK Soundsystem stendur fyrir dansiballi á Dollý þar sem reggí, döbb og dancehall verður í hávegum haft. Það stendur yfir frá 21:00 til lokunar og aðgangur ókeypis.

Föstudagur 31. maí

Dj Flugvél og Geimskip verður aftur á ferðinni á föstudagskvöldinu en í þetta skipti á Hemma og Valda ásamt Helga Mortal Kombat og Krakkbot. Tónleikarnir hefjast 22:00 og aðstandendur þeirra lofa gestum tónlist fyrir alla, tölvuhljóðum, hlýju veðri, nýjum heimi og ókeypis aðgangi.

Laugardagur 1. júní

Í tilefni af 70 ára opnunarafmæli Sundhallar Hafnarfjarðar og hafnfirsku menningarhátíðinni Bjartir Dagar verður slegið upp tónleikum á pottasvæði sundlaugarinnar. Þeir hefjast klukkan 14:00 og aðgangur er ókeypis en eftirfarandi hljómsveitir koma fram:

Vök
Margrét Rán Magnúsdóttir og Andri Már Enoksson skipa Dúettinn Vök sem er sigurvegari nýliðinna Músíktilrauna. Tónlist þeirra er best lýst sem eiturljúfri raftónlist með melódískum söng.

Fox Train Safari
Fox Train Safari, sendir frá sér sína fyrstu breiðskífu með haustinu. Þar verður að finna funk, soul og R&B. Hljómsveitin ætlar að spila tónlist í takt við veðurblíðuna sem lofað er á laugardaginn.

Magnús Leifur
Magnús sem var áður í Hafnfirsku hljómsveitinni Úlpu vinnur nú að sinni fyrstu plötu sem einyrki en áætluð útgáfa á henni er nú í sumar. Á tónleikunum í sundhöllinni mun hann koma fram ásamt hljómsveit.

Sveinn Guðmundsson
Sveinn hefur nýlokið upptökum á sinni fyrstu plötu “Fyrir herra Spock, MacGyver og mig” sem kemur út í sumar. Þetta verður í fyrsta sinn sem Sveinn leikur lög af plötunni sem er rólyndis gítarmúsík með póstmódernískum og sjálfspeglandi textum.

Sólbjört leikur á Gong
Sólbjört Guðmundsdóttir er kundalini jógakennari eftir forskrift Yogi Bhajan. Sérstakt áhugsvið hennar innan þess er jóga hljóðs og samskipta (Naad jóga). Gong hefur verið notað í árþúsundir við andlega iðkun en hlustun róar og styrkir taugakerfi manneskjunnar og veitir djúpa slökun og frið.

Lord Pusswhip rímixar Oyama

Pródúsantinn Lord Pusswhip hefur nú endurhljóðblandað lagið Sleep eftir ómstríðu skóglápsrokksveitina Oyama. Lagið er af I Wanna, fyrstu Ep-plötu sveitarinnar. Í meðförum Lord Pusswhip er gítarveggjum  lagsins skipt út fyrir draumkenndan sveim og trommuheila með helling af bergmáli er skellt undir herlegheitin. Hlustið á endurhljóðblöndunina hér fyrir neðan.

Lag og myndband frá Boards of Canada

Rafsveitin Boards of Canada hefur nú sett á Soundcloud síðu sína lagið sem var frumflutt með myndbandi á húsvegg í Tókýó í gær. Það er hið fyrsta sem heyrist af Tomorrow’s Harvest, breiðskífu þeirra sem kemur út þann 10. júní. Lagið sem nefnist Reach For the Dead er prýðisgott og ber öll helstu höfundareinkenni sveitarinnar. Það hefst á gullfallegum og hægfljótandi ambíent-synthum sem eru þó alltaf lítllega bjagaðir af suði og skruðningum. Þegar líður á lagið fara svo trommurnar að sækja í sig veðrið með harðari og hraðari takti og agressívari hljóðgerfla-arpeggíum. Það er í senn hugljúft og ógnvekjandi á þennan ólýsanlega hátt sem skosku bræðrunum hefur tekist að fullkomna. Hlustið á lagið hér fyrir neðan og hér má lesa söguna af stórfurðulegri auglýsingarherferð fyrir væntanlega plötu.

Uppfært: Nú hefur einnig verið sett á netið ægifagurt myndband við lagið sem einnig má horfa á hér fyrir neðan. Þess má geta að þetta er einungis annað myndbandið sem hefur verið opinberlega gert af Boards of Canada.

Boards of Canada sýna nýtt myndband í Tókýo

Boards of Canada halda áfram að koma aðdáendum sínum á óvart en skemmst er að minnast afar óhefðbundinnar auglýsingarherferðar fyrir nýjustu plötu dúettsins. Í gær birtist færsla á facebook-síðu sveitarinnar sem innihélt einungis götunúmer í Tókýó, dagsetninguna 22. maí og tímasetninguna 12 á miðnætti. Á þessum stað í Tókýó var varpað myndbandi á húsvegg fyrir stundu sem virðist vera tónlistarmyndband við nýtt lag frá sveitinni. Horfið á myndbönd af vettvanginum hér fyrir neðan en hljóðgæðin í því efra eru betri en tónlistarmyndbandið nýtur sín betur í því neðra. Þar fyrir neðan má sjá stiklu og auglýsingu fyrir væntanlega plötu skoska rafbræðradúettsins, Tomorrow’s Harvest, sem kemur út á vegum Warp útgáfunnar 10. júní næstkomandi.



Frank Ocean til Íslands í sumar

R&B stórstjarnan Frank Ocean er væntanlegur til landsins og mun spila á tónleikum í Laugardalshöll þann 16. júlí næstkomandi. Platan hans Channel Orange tróndi hátt bæði á vinsældalistum og listum gagnrýnenda á síðasta ári og var meðal annars í öðru sæti á árslista þessarar síðu. Það er skammt stórra högga á milli í innflutningi á erlendum stórstjörnum til eyjunnar þessi misserin en í byrjun vikunnar var tilkynnt um tónleika hinnar sögufrægu diskósveitar Chic. Miðasala á tónleika Frank Ocean hefst 29. maí á miði.is.

 

Tónleikar um Hvítasunnuhelgina

Að fimmtudeginum meðtöldum er þessi helgi fjórir dagar og fyrir utan Eruovision er af nægu að taka í tónleikum og tryllingi þessa helgi.

Fimmtudagur 16. maí

Það verður slegið upp hip hop veislu í óhefðbundnari kantinum á Prikinu en þar munu taktsmiðirnir Marteinn, Lord Pusswhip og Tonmo úr Hip Hop krúinu Mudd Mobb leika listir sínar og tónsmíðar. Gjörningurinn hefst klukkan 21:00 og aðgangseyrir er ekki til staðar.

Hljómsveitirnar Murrk og Óregla troða upp á Volta og í tilkynningu frá þeim er lofað brjáluðu proggi og helluðu fusion. Fyrir áhugamenn um slíkt þá opna dyrnar á Volta klukkan 21:00 og inngöngueyrir er 1000 krónur.

Föstudagur 17. maí

Hin kynþokkafulla ábreiðusveit Babies kemur fram ásamt Boogie Trouble og DMG á Faktorý. Gestum er ráðlagt að taka með sér dansskó, bjórpening og getnaðarvarnir. Gleðidyrnar opnast 22:00 og 1000 krónur kostar að ganga í gegnum þær.

Á Faktorý verða einnig aðrir tónleikar með tilraunakennda þjóðlagasöngvaranum Daniel Higgs frá Baltimore. Honum til halds og trausts verður Just Another Snake Cult en tónleikarnir hefjast 20:00 og aðgangur er ókeypis.

Söngvaskáldið Jón Þór sem gaf út hina prýðilegu plötu Sérðu mig í lit á síðasta ári stígur á stokk á Bar 11 ásamt Knife Fight sem að eigin sögn spila hávært indírokk. Tónleikarnir hefjast 22:00 og eru fríkeypis.

Ný klúbbakvöld, RVK DNB, hefja göngu sína á Volta. Eins og nafnið gefur til kynna verða kvöldin helguð Drum & Bass tónlist og þeir sem snúa skífunum á þessu fyrsta kvöldi verða Agzilla, Plasmic, DJ Andre og Elvar.

Blúsaða djasssveitin Beebee and the bluebirds kemur fram á ókeypis tónleikum á Dillon sem hefjast 22:00.

Laugardagur 18. maí

Eftir Eurovisionpartýið verður boðið upp á rapp og dans á Gauk á Stöng þar sem Úlfur Úlfur, Emmsé Gauti og UMTBS stíga á stokk. Húsið opnar 22:00 og kostar 1000 kall inn.

Sísí Ey, Oculus, Kid Mistik og Sean Danke efna til dansveislu á efri hæð Faktorý sem hefst klukkan 10 og kostar 1000 krónur inn.

Öfgarokksveitin Azoik leikur á hljómleikum á Dillon klukkan 22:00 og ókeypis er inn. Sveitin lofar sprengdum hljóðhimnum og kílóum af flösu fyrir þá sem mæta.

Sunnudagur 19. maí

Elektrórokksveitin RetRoBot sem unnu músíktilraunir á síðasta ári og fönkbandið The Big Band Theory slá upp dansleik á Volta. Ballið hefst klukkan 21:00 og það kostar 500 krónur inn.

Streymið Random Access Memories með Daft Punk

Nú rétt í þessu var platan Random Access Memories með Daft Punk gerð aðgengileg til streymis á iTunes tónlistarversluninni og hægt er að hlusta á hana hér. Platan kemur út næsta föstudag og hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Fyrir þá sem ekki eru með aðgang að iTunes er hægt að nálgast grooveshark playlista hér og væntanlega á ótal öðrum stöðum þegar þessi orð eru komin í birtingu.