Secret Solstice – Evrópsk útihátíð í hjarta Reykjavíkur

Mynd: Óli Dóri

Secret Solstice hátíðin var haldin í annað skipti síðustu helgi og tókst í flesta staði feikivel upp. Þegar ég mætti á föstudagskvöldinu var ástralska sveitin Flight Facilities að hlaupa í gegnum grípandi rafpopp-sett og mannhafið hoppaði og skoppaði í fullkominni harmóníu. Það var strax ljóst að hér var eitthvað einstakt í gangi, andinn á hátíðinni var ólíkur öðru sem ég hef upplifað á Íslandi. Veðrið lék við alla sína fingur og hamslaus gleði og hedónismi lá í loftinu og fólkinu.

 

Ég hélt leið minni áfram á Gimli sviðið þar sem Hermigervill sveiflaði rauða hárinu sínu í takt við hnausþykkt tekknóið sem hann framleiddi. Retro Stefson komu beint í kjölfar hans og héldu áhorfendum uppteknum með mikið af nýju efni en enduðu á vel þekktum slögurum sem komu krádinu á mikla hreyfingu.

 

 Innvortis stuð – Hel frestað

 

Mitt innra stuð var hægt en örugglega að byggjast upp og þegar ég labbaði yfir á Gus Gus gerðist eitthvað og ég varð einn með tónlistinni, fólkinu og samvitundinni. Biggi Veira og Daníel Ágúst voru að taka mitt uppáhalds Gus Gus lag, David, þegar ég dýfði mér í mannhafið og dansaði í áttina að sviðinu. Fljótlega gekk Högni í lið með honum og samsöngur þeirra í Crossfade og Deep In Love var með endemum munúðarfullur.

 

Þá var leiðinni heitið á gömlu bresku kempurnar í Nightmares on Wax. Plöturnar þeirra Carbout Soul og Smokers Delight voru á repeat hjá mér á ákveðnu tímabili lífs míns og ég var ansi spenntur að sjá hvað þeir höfðu upp á að bjóða. Þeir voru með blöndu af DJ og lifandi hljóðfærum og röppuðu yfir mörg sín frægustu lög með góðum árangri. Eftir það kíkti ég aðeins inn í Hel en stoppaði stutt til að spara mig fyrir restina af helginni. En það leit vel út og ég hugsaði I’ll be back þegar ég fór.

 

Dagur 2 – GP > Busta Rhymes

 

Gísli Pálmi er fenamón. Ég veit aldrei hvað mér finnst raunverulega um hann og hvað mér á að finnast um hann eða hvort að aðrir fíli hann af einlægni eða kaldhæðni. Fyrir mér er það hluti af aðdráttaraflinu. En akkúrat þarna þegar djúpsjávarbassinn nuddaði á mér innyflin og GP spígsporaði um sviðið eins og hani á kódeini með sjálfsálitið skrúfað í botn gat ég ekki annað en tekið minn táknræna hatt ofan í lotningu. Myndskreytingar á bak við hann eiga síðan skilið einhvers konar hönnunarverðlaun glæpamanna.

 

Þá var röðin komin að leiðinlegasta leikriti hátíðarinnar; Beðið eftir Busta. Leynigesturinn lét bíða eftir sér í þrjú korter meðan að Tiny og GP skiptust á að setja á Biggie lög úr símunum sínum og öskra með því, frekar vandræðalegt allt saman. Þegar Busta sjálfur mætti tók ekki mikið betra við, athyglisbresturinn var ótæmandi í endalausum medlys eða syrpum. Það er einfaldlega glæpur gegn hip hoppi að spila bara 45 sekúndur af Woo Hah og fara svo í annað. Þá var hann alltaf að hætta í miðju lagi og búast við að áhorfendur gætu þulið restina af textanum úr lagi sem kom út um, eða eftir, megnið af þeim fæddist. Ég sá Busta Rhymes fyrir um fjórum árum og þá var hann í rokna stuði en það verður bara að segjast eins og er; þetta var hundlélegt.

 

 Hercules í helvíti

 

Hercules & Love Affair voru hins vegar þrusu þéttir, hommahouse eins og það gerist allra best. Einn í dragi og restin eins og miklu meira hip og nútímalegri útgáfa af Village People. Söngvararnir báðir fáránlega góðir og dúnmjúkt diskóið ómaði meðan dannsinn dunaði fyrir framan sviðið. Foreign Beggars fluttu dubstep og grime skotið hip hop en breiður var vegurinn sem lá inn í Hel.

10348364_1620402171510969_4756834002203072884_n

Mynd: Sig Vicious

Þarna var ég loksins tilbúinn í djúpu laugina sem að Hel (skautahöllin) var þessa helgi. Niðadimmt myrkur fyrir utan neon geislabaug sem sveif yfir sviðinu fyrir ofan plötusnúðinn. Hrátt, rökkurt, industrial og ofursvalt. Þar sem takturinn fleytir þér burt frá raunveruleikanum og hver bassatromma ber þig lengra og lengra inn í leiðsluástand. Hvert einasta slag eins og sameiginlegur hjartsláttur þúsunda dansandi sála. Engin skil milli líkama og anda og allir jafnir fyrir myrkrinu og taktinum. Þar sem enginn er dæmdur og nautnin er taumlaus. Ég rankaði við mér klukkan 4 þegar ljósin voru kveikt og tími til að fara heim en óskaði þess að vera í Berlín þar sem transinn heldur áfram fram á næsta dag. Þetta var ansi nálægt því.

 

Dagur þrjú – Allt á einu sviði

 

Ég fórnaði „Eru ekki allir sexy“ Helga fyrir reggípartýi í Laugardalslaug þar sem RVK Soundsystem léku fyrir sundi. Mætti svo eiturferskur á gamla sálarhundinn Charles Bradley klukkan fjögur sem voru með betri tónleikum hátíðarinnar. Hann er um sjötugt og röddin og svipurinn eru alltaf eins og hann sé að bresta í grát af ástríðu. Sálartónlist af gamla skólanum um ást, guð og kærleika með pottþéttasta bandi helgarinnar. Hann sjálfur lék á alls oddi í dansi og kastaði míkarafónstadífinum til og frá um sviðið og skipti meirað segja einu sinni um föt.

 

Wailers voru einfaldir en skilvirkir og koveruðu alla helstu slagara Marley heitins af rokna öryggi og ástin var alls staðar og djass-sígarettur mynduðu hamingjuský í himninum. Ég færði mig aðeins frá og dáðist að Mo úr öruggri fjarlægt meðan ég slakaði á og sparkaði í Hackey Sack með vinum mínum. En var mættur galvaskur fremst aftur fyrir listaverkið sem FKA Twigs er. Ég nota orðið gyðja eða díva ekki frjálslega en kemst ekki hjá því hér. Í lillafjólubláum samfesting sveif hún um sviðið með engilfagra rödd og hreyfingar á við sjö íslenska dansflokka samanlagt. Frámunalega framsæknir taktar framreiddir á fágætan hátt. Trip Hip í annarri vídd og tívolí fyrir augun. Keysaraynja raftónlistar nútímans er fædd og nafn hennar er FKA Twigs.

IMG_8854

Mynd: Óli Dóri

Ruckusinn mættur

 

Eina sem var eftir var þá Wu Tang og væntingar höfðu verið trappaðar duglega niður eftir hip hop vonbrigði gærdagsins og ótal spurningamerki um hversu margir klíkumeðlimir myndu mæta. Ég spottaði Ghostface, Raekwon og GZA sem ollu mér alls ekki vonbrigðum. Hvort þeir þrír sem eftir stóðu voru U-God, Cappadonna, Masta Killa eða random hype-menn varðar mig ekkert um en hersingin stóð svo sannarlega fyrir sínu á sviðinu. Þeir keyrðu í gegnum mörg af bestu lögunum á 36 Chambers og GZA var frábær í nokkrum lögum af Liquid Swords, einni af mínum uppáhalds hip hop plötum. Kannski var það afleiðing af effektívri væntingarstjórnun en ég skemmti mér stórvel yfir klíkunni.

 

Þá var það bara að mjólka síðustu dropana úr Hel á yfirdrætti tímans. Ég er ekki frá því að það hafi verið smá tekknó í blóðinu frá því kvöldið áður því það byrjuðu ósjálfráðir kippir í líkamanum um leið og ég steig inn í myrkrið. Ég óskaði þess heitast að helgin myndi aldrei enda í þann mund sem að síðasta bassatromman sló sitt slag og ljós raunveruleikans og vikunnar kviknuðu. Ég vil enda þetta á nokkrum handahófskenndum hugleiðingum um hátíðina í engri sérstakri röð:

 

Þegar sólin byrjar að skína á reggítónleikana: Hamingjan ríkir þar hömlulaus.

 

Að varðveita innra barnið í sér með því að fara í fallturninn. Útsýnið úr honum yfir laugardalinn þegar sólin tindrar hæst á lofti. Þetta tvennt verður ekki metið til fjár.

 

Mér hefur aldrei liði jafn mikið í útlöndum á Íslandi og á þessari hátíð. Þó það séu ekki jafn mikið af stórum nöfnum í gangi þá var andinn og væbið ekki ósvipað hátíðum eins og Hróarskeldu og Primavera.

 

Það var aragrúi djass-sígarettna reyktar út um allt án þess að neinn skipti sér af. Kúdos á lögregluna fyrir að sjá í gegnum fingur sér með það.

 

Það er mikill kraftur í þessari kynslóð. Hún er einu aldursbili fyrir neðan mig og ég þykist ekki skilja hana. En hún smitaði mig af óbeislaðri orku og geipilegu frjálslyndi.

 

Breiður er vegurinn sem liggur í Hel.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Tónleikahelgin 11.-13. júní

Fimmtudagur 11. júní

 

Sóley fagnar útkomu plötunnar Ask the Deep með útgáfutónleikum í Fríkirkjunni í Reykjavík. Húsið opnar 20:00, tónleikarnir hefjast halftime síðar og aðgangseyrir er 2500 krónur.

 

Magnús Tryggvason Elíassen leiðir hóp slagverksleikara í spunastund í Mengi. Aðgangseyrir er 2000 krónur og byrjar 21:00.

 

Stærðfræði harðkjarnasveitin In The Company Of Men spilar á Dillon. Ókeypis inn og byrjar 22:00.

 

Föstudagur 12. Júní

 

Það verður garðpartý á Hverfisgötu 88. Ojba Rasta og Sturla Atlas koma fram.

 

TV Smith sem var í bresku pönksveitinn Adverts spilar á Dillon og Caterpillarmen hita upp. Ókeypis inn og byrjar 22:00.

 

Hollenska proggsveitin Focus leikur í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Tónleikarnir byrja klukkan 22:00 og aðgangseyrir er 8900 krónur.

 

Jo Berger Myhri og Óbó spila í Mengi. Byrja 21:00 og kostar 2000 inn.

 

Laugardagur 13. júní

 

Straumur stendur fyrir sýningu á heimildarmyndinni Finding Fela í Bíó Paradís klukkan 20:00. Myndin fjallar um lífshlaup afróbít frumkvöðulsins Fela Kuti en að sýningu lokinni mun hljómsveitin Bangoura Band leika afróbít fyrir dansi.

 

Snorri Ásmundsson verður með tónleika/gjörningakvöld í Mengi. Byrjar 21:00 og aðgangseyrir 2000.

 

Reggísveitin Barr spilar á Dillon, byrjar 22:00 og ókeypis inn.

 

Breiðholtfestival fer fram í breiðholti yfir daginn frá 13:00-22:00. Það má finna allt um það hér.

Tónleikahelgin 27.-31. maí

Miðvikudagur 27. maí

 

Tónlistarmaðurinn Helgi Valur Ágústson fagnar útgáfu sinnar fjórðu plötu, Notes From The Underground, á Húrra. Með honum kemur fram einvalalið hljóðfæraleikara úr hljómsveitum eins og Grísalappalísu, Muck, Oyama og Útidúr. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur.

 

Múm mun koma fram sem dúett Örvars Smárasonar og Gunnars Tynes og leika raftóna af fingrum fram við þýsku kvikmyndina Menschen am Sonntag frá 1930. Sýningin hefst 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Fimmtudagur 28. maí

 

MIRI, Loji og hljómsveitin Eva koma blása til tónleikahalds á Húrra. Þetta verða fyrstu tónleikar MIRI síðan 2012 en tónleikarnir byrja 21:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur.

 

Rokkbandið Pink Street Boys kemur fram á Dillon. Aðgangur er ókeypis og drengirnir byrja um 10 leitið.

 

Danski bassaleikarinn, Richard Andersson, hefur búið í Reykjavík í tæp tvö ár og unnið með fjölda tónlistarmanna úr djassheiminum en hyggur nú á brottför. Til að kveðja íslendinga kemur hann einn fram á tónleikum í Mengi. Tónleikarnir byrja 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Föstudagur 29. maí

 

Diskóbullurnar í Boogie Trouble efna til dansleiks á Húrra. Það er ókeypis inn og ballið byrjar 22:00.

 

Laugardagur 30. Maí

 

Tónskáldið, píanóleikarinn og hljóðinnsetningarlistamaðurinn Maya Dunietz flytur verkið Boom fyrir píanó, rödd, vídeó og rafhljóðfæri. Miðaverð er 3000 krónur og flutningurinn hefst 21:00.

Beach House og Battles á Airwaves

24 nýjar hljómsveitir voru kynntar til leiks á Airwaves hátíðina í ár og þar ber hæst bandaríska draumapoppbandið Beach House, háværu stærðfræðirokkarana í Battles og Sophie og QT sem eru fánaberar hinnar svokölluðu PC-Music stefnu. Hér fyrir neðan má sjá allar hljómsveitir sem var bætt við dagskrána.

QT
SOPHIE
Skepta
Sleaford Mods
Mirel Wagner
Tanya Tagaq
William Tyler
Kero Kero Bonito
Future Brown
Meilyr Jones
Felicita

Brim
Low Roar
Árstíðir
Gísli Pálmi
Futuregrapher
Rythmatik
Axel Flovent
Mysþirmyng
Mani Orrason
Dikta
Vio

Tónleikahelgin 21.-24. maí

Fimmtudagur 21. maí

 

Sveinn Guðmundsson, slowsteps og Four Leaves Left verða með akústíska tónleika á Dillon. Það er frítt inn og tónleikarnir byrja 22:00.

 

Föstudagur 22. maí

 

Pink Street Boys fagna útgáfu plötunnar HITS #1 á kaffistofu nemendagallerýs Listaháskólans á Hverfisgötu. Ásamt þeim koma fram Singapore Sling, russian.girls, Godchilla og Seint. Aðgangseyrir er 1000 krónur og veislan byrjar klukkan 21:00. Þeir sem hyggjast neyta áfengra veiga meðan tónleikunum stendur er bent á að koma með þær að heiman.

 

Hljómsveitin Ylja og tónlistarmaðurinn Teitur Magnússon ásamt hljómsveit blása til tónleikaveislu á Cafe Rósenberg. Aðgangseyrir er 2000 krónur og tónleikarnir byrja klukkan 22:00.

 

Laugardagur 23. maí

 

Tónleikar til styrktar fórnarlömbum jarðskjálftans í Nepal verða á Gamla Gauknum. Fram koma í þessari röð: Meistarar dauðans, Daníel Hjálmtýsson, DJ Smutty Smiff, Art Show/Auction, Greyhound, The 59’s, Q4U, Dikta, Kontinuum og Esja. Aðgangseyrir er 1000 krónur og tónleikarnir byrja 17:00.

 

Í Mengi verða flutt sex verk eftir Báru Gísladóttur fyrir klarínettu, kontrabassa, saxafón og rafhljóð. Miðaverð er 3000 krónur og flutningurinn hefst 21:00

 

Sunnudagur 24. maí

 

Hilmar Jensson leikur spunakennd verk í Mengi ásamt bandaríska djasstrommaranum Jim Black og norska bassaleikaranum Jo Berger Myhre. Miðaverð er 2000 krónur og tónleikarnir hefjast 21:00.

Fyrsta plata Good Moon Deer ókeypis

Raftónlistarmaðurinn Good Moon Deer gaf í dag út sína fyrsta breiðskífu. Platan nefnist Dot en hana er hægt að nálgast ókeypis á heimsíðu listamannsins. Good Moon Deer er hugarfóstur Guðmundar Inga Úlfarssonar en hann fremur tilraunakennda raftónlist þar sem hann klippir í sundur og splæsir saman hljóðbútum úr ýmsum áttum. Í tilefni útgáfunnar var einnig í dag frumsýnt myndband við fyrsta lag plötunnar, And, sem var leikstýrt af Hrefnu Sigurðardóttur og Axeli Sigurðssyni. Horfið á myndbandið hér fyrir neðan og hlaðið niður plötunni hér.

Tónleikahelgin 30. apríl – 2. maí

Fimmtudagur 30. Apríl

 

Rokksveitirnar Oyama og Agent Fresco leiða saman hesta sína á Húrra. Tónleikarnir byrja klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

DJ Flugvél og geimskip, Rattofer og Lommi koma fram á Dillon. Gleðin hefst 23:00 og það kostar litlar 500 krónur inn.

 

Júníus Meyvatn kemur fram ásamt hljómsveit á Kex Hostel. Það er frítt inn og herlegheitin hefjast 22:00.

 

Ragnheiður Gröndal og Guðmundur Pétursson spila í Mengi. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Föstudagur 1. Maí

 

Það lítur allt út fyrir það að allir helstu tónlistarmenn taki sér stöðu við hlið verkamanna og verði í fríi 1. Maí.

 

Laugardagur 2. Maí

 

Straumur í samstarfi við Bíó Paradís verður með sérstaka sýningu á heimildamyndinni Kurt Cobain: Montage of Heck í Bíó Paradís klukkan 20:00. Eftir myndina mun svo hin hrynharða rokksveit Pink Street Boys leika fyrir gesti. Leikstjóri myndarinnar Brett Morgen blandar saman sjónlist og tónlist á persónulegan hátt ásamt áður óséðu myndefni, viðtölum við fjölskyldumeðlimi, vini og Courtney Love. Fylgst er með yngri árum Cobain í Aberdeen WA allt fram að frægðartímabilinu en myndin gefur frábæra innsýn inn í líf listamannsins og umhverfi hans. Það tók Morgen 8 ára að gera myndina og lét Love af hendi öll þau gögn sem Cobain skildi eftir sig. Þar á meðal nokkur hundruð hljómsnældur úr einkasafni tónlistarmannsins sem ekki hafði verið farið yfir frá því hann lést.

 

Raftónlistarmaðurinn Mono Lisa heldur útgáfutónleika á Loft Hostel. Ásamt honum koma fram Futuregrapher, Gunnar Jónsson Collider og Daveeth. Tónleikarnir byrja 21:00 og það er ókeypis inn.

 

Soffía Björg kemur fram á tónleikum í Mengi sem byrja 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

Tónleikahelgin 16.-18. apríl

Fimmtudagur 16. apríl

 

Mr. Silla og Kriki spila á Húrra, tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur.

 

Mankan kemur fram á rafspunatónleikum í Mengi. Mankan er verkefni Guðmundar Vignis Karlssona (Kippi Kaninus) og Tómas Manoury en þeir stíga decibiladans þar sem áferð og eiginleikar hljóða og myndefnis er kannað í rauntíma og í samtali milli tveggja heila sem eru harðvíraðir til verksins.

 

 

Föstudagur 17. apríl

 

Just Another Snake Cult og russian.girls koma fram í kjallaranum á Paloma. Miðaverð er 1000 krónur og tónleikarnir byrja 21:45.

 

Nemendur Tónlistarskóla FÍH undir stjórn Eyþórs Gunnarssonar flytja lög tónlistarsnillingsins Stevie Wonder í hátíðarsal skólans að Rauðagerði 27. Tónleikarnir byrja á slaginu 20:00 og hægt er að kaupa miða við hurð á 1500 krónur.

 

Laugardagur 18. apríl

 

Hinn síungi Babies flokkur stendur fyrir balli á Húrra og byrja að telja í um 22:00 og aðgangur er ókeypis.

 

Þungarokksveitin momentum fagnar útgáfu plötu sinnar, ‘The Freak is Alive’, með tónleikum á Gauknum. Einnig koma fram Oni, Future Figment og hin norska Yuma Sun. Aðgangseyrir er 1000 krónur og tónleikarnir byrja 21:00.

 

Á þessum degir er alþjóðlegi plötubúðardagurinn og í tilefni af honum er vegleg dagskrá í Lucky Records:

 

11.00 – 13.00 Mike D.J. Set

 

13.00 – 13.45 Skúli Mennski Live

 

14.00 – 15.00 Extreme Chill D.J Set

 

15.00 – 16.00 Futuregrapher Live

 

16.00 – 17.00 Hermigervill D.J. Set

 

17.00 – 18.30 Housekell D.J. Set

 

18.30 – 19.15 Pink Street Boys Live

 

19.15 – 21.00 Robot Disco D.J. Set

 

Nemendur Tónlistarskóla FÍH undir stjórn Eyþórs Gunnarssonar flytja lög tónlistarsnillingsins Stevie Wonder í hátíðarsal skólans að Rauðagerði 27. Tónleikarnir byrja á slaginu 17:00 og hægt er að kaupa miða við hurð á 1500 krónur.

Tónleikar um páskahelgina 1.-4. apríl

Miðvikudagur 1. apríl

 

Breska draumkennda pop-folk hljómsveitin Grumbling Fur spilar á Húrra og Sin Fang sér um upphitun. Aðgangseyrir er 2500 krónur og tónleikarnir byrja 21:00.

 

Hljómsveitin Hinemoa spilar á Dillon. 500 kall inn og byrjar 22:00.

 

Fimmtudagur 2. apríl

 

Krist,Inanna, betur þekkt sem Kría Brekkan, leikur á tónleikum í Mengi sem byrja 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Mosi Musik spilar á Dillon og byrja 22:00 og það kostar 500 krónur inn.

 

Föstudagur 3. apríl

 

Guðlaugur Kristinn Óttarsson leikur í Mengi. Hann hefur leik 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Electric Space Orchestra og Greyhound spila á Gauknum. Leikar hefjast á miðnætti og það er frítt inn.

 

Laugardagur 4. apríl

 

Jazzsveitin 5000 Jazz Assassins frá Brooklyn spilar á Kex Hostel. Tónleikarnir hefjast 21:00 og það er ókeypis inn.

 

Blúsararnir Johnny and the Rest og Johnny Stronghands leiða saman hesta sína á Dillon. 500 krónur inn og byrjar 22:00.

Wu Tang Clan til Íslands

Rappherdeildin Wu Tang Clan er væntanleg til Íslands í júní í sumar. Ekki er ljóst á þessari stundu hvar þeir troða upp, hverjir hinna mörgu meðlima láti sjá sig og hvar er hægt að nálgast miða. Wu Tang Clan var stofnuð árið 1992 en þeirra fyrsta breiðskífa, Enter The Wu Tang (36 Chambers), var mikil bylting í hljómi, textum og fagurfræði rappsins og sumir segja hljómsveitina hafa mótað heilu kynslóðirnar. Hér fyrir neðan má horfa á myndbandið við lagið M.E.T.H.O.D. M.A.N. af 36 Chambers.