Nýju Daft Punk plötunnar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu og var um daginn settur útgáfudagur á gripinn, 21. maí. Þá var jafnframt tilkynnt um titilinn sem er Random Access Memories og umslag plötunnar. Nú hafa Daft Punk liðar sett á netið viðtal við upptökustjórann fræga Giorgio Moroder um samstarfið við þá á plötunni, hægt er að horfa á viðtalið hér fyrir neðan.
Nú hefur verið staðfest að tónlistarhátíðin All Tomorrows Parties verði haldin á varnarliðssvæðinu í Reykjanesbæ þann 28. og 29. júní næstkomandi. Áður hefur komið fram að viðræður við aðstandendur hátíðarinnar stæðu yfir en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins munu 6-7 erlendar sveitir koma fram, þar á meðal hljómsveitin Deerhoof. Í tilkynningu frá aðstandendum í dag kemur þó ekkert slíkt fram, aðeins að full dagskrá hátíðarinnar verði kynnt þann 16. þessa mánaðar eða eftir 2 vikur. Hátíðin var fyrst haldin árið 2000 í Bretlandi en hefur síðan fært út í kvíarnar undanfarin ár og meðal annars átt útibú á Spáni, Ástralíu, Japan og Bandaríkjunum og ávallt lagt áherslu á óháða og framsækna tónlistarmenn. Íslenska hátíðin mun fara fram í fyrrum herstöð Bandaríkjamanna, Ásbrú, en þar verða tvö svið þar sem hljómsveitir koma fram og eitt kvikmyndahús sem mun sýna tónlistartengdar myndir meðan á hátíðinni stendur. Nánari upplýsingar og miðasölu má finna á heimasíðu hátíðarinnar.
Nýtt myndband við lagið She said með hljómsveitinni Retro Stefson var frumsýnt í dag. Í því má meðal annars sjá bræðurna Unnstein Manuel og Loga Pedro klædda upp sem dragdrottningar og hóp manna með svínagrímur að breikdansa inn á barnum Harlem. Myndbandinu var leikstýrt af Einari Baldvin Arasyni og framleitt af Pegasus. En sjón er texta ríkari, horfið á myndbandið hér fyrir neðan.
Hinn skemmtanaglaði gleðirokkari Andrew W.K. mun í maí halda á stað í tónleikaferðalag ásamt hljómsveit Marky Ramone fyrrum trommara Ramones. Andrew W.K. mun þar syngja fræg Ramones lög með Marky Ramone’s Blitzkrieg. Marky Ramone var annar trommari Ramones og trommaði með sveitinni frá 1978 til 1983 og 1987 til 1996. Hér fyrir neðan má sjá lista yfir tónleika Marky Ramone’s Blitzkrieg á þessu ári og myndband af Marky spila ásamt Ramones á loka tónleikum þeirra árið 1996.
05-03 New York, NY – Santos Party House
05-09 Novi Sad, Serbia – TRG Slobode
05-10 Rome, Italy – Crossroads Live
05-11 Zaragoza, Spain – Actitude Rock Festival
05-12 Valencia, Spain – Rock City
05-14 St. Petersburg, Russia – ClubZal
05-15 Ekaterimburg, Russia – Tele-Club
05-16 Moscow, Russia – 16 Tons
06-30 Helsinki, Finland – The Circus
07-05 Barcelona, Spain – Sala Razzmatazz
07-07 Attica, Greece – Rockwave Festival
07-19 Altes Lager, Germany – Motorcycle Jamboree
10-02 Washington, DC – 9:30 Club
10-03 New York, NY – Irving Plaza
10-04 Boston, MA – Paradise
10-06 Philadelphia, PA – Theatre of Living Arts
10-08 Chicago, IL – Metro
10-10 Seattle, WA – Neumo’s
10-12 San Francisco, CA – Independent
10-15 Los Angeles, CA – Henry Fonda Theatre
10-23 London, England – Electric Ballroom
10-24 Manchester, England – Academy
10-25 Glasgow, Scotland – Garage
Hljómsveitin Grísalappalísa var stofnuð árið 2012 af Gunnari Ragnarssyni og Sigurði Möller Sívertsen úr hinni sálugu Jakobínurínu, Bergi Thomas Anderson úr Oyama, Alberti Finnbogasyni og Tuma Árnasyni úr The Heavy Experience ásamt Baldri Baldurssyni sem semur og syngur ásamt Gunnari metnaðarfulla texta á íslensku. Sveitin gaf út í vikunni sitt fyrsta lag Lóan Er Komin á gogoyoko. Hljómsveitin gefur út sína fyrstu plötu Ali seinna í vor. Grísalappalísa heldur tónleika næsta fimmtudag þann 4. apríl á Kex Hostel þar sem sveitin mun stíga á stokk kl. 21.00 og leika efni af væntanlegri plötu. Hlustið á Lóan Er Komin hér fyrir neðan.
9. júlí í fyrra gaf hljómsveitin Dirty Projectors út sína sjöttu plötu Swing Lo Magellan og endaði hún í 6. sæti yfir bestu plötur ársins hér í Straumi. Joe Goddard úr Hot Chip endurhljóðblandaði lagið The Soialites af plötunni nýlega með frábærum árangri. Lagið verður skemmtilega upplífgandi í höndum Goddard og hægt er að hlýða á afraksturinn hér fyrir neðan.
Í dag staðfestu aðstandendur Sónar-Hátíðarinnar að hún verði haldin í annað sinn í Reykjavík á næsta ári. Hátíðin mun fara fram í Hörpunni dagana 13. til 15. febrúar og verður bætt við tveimur auka sviðum á gangi tónlistarhússins auk þess sem sérstakir tónleikar verða haldnir í Eldborgarsalnum. Ekkert hefur enn verið gefið upp um listamenn sem munu koma fram. Fyrsta Sónar-hátíðin í Reykjavík var haldin í febrúar á þessu ári en umfjöllun Straum.is um hana er hægt að kynna sér hér.
Partíþokan verður haldin á Faktory. Siggi Frændi opnar dyrnar klukkan 21.00 og setur einhverja dúndrandi snilld á fóninn til að hita upp salinn. Hann tekur við greiðslukortum og aðgangseyrir er 2000 krónur. Klukkan 22.00 stígur hinn óviðjafnanlegi Jónas Sigurðsson á svið ásamt hljómsveit, dúndurþétt að vanda. Klukkan 22.50 er röðin komin að strandamanninum Birni Kristjánssyni og strákunum í Borko. Það er svo um Klukkan 23.40 að Sin Fang hefur að trylla lýðinn með eitursvölum nýbylgjuballöðum. Prins Póló stígur á svið 30 mínútum eftir miðnætti og slær botninn í dagskránna með Tipp Topp, Niðrá strönd og fleiri mjaðmaæfingum. Kynnir kvöldsins er útvarpsmaðurinn, bóksalinn, og trommarinn Kristján Freyr Halldórsson og það borgar sig að taka vel eftir því hann kemur til með að draga úr happdrætti Partíþokunnar um miðbik kvöldsins. Við gefum ekkert upp um verðlaunin hér, en þau eru ekki af þessum heimi svo ekki sé meira sagt.
Fimmtudagur 28. mars
Volta:Stephen Steinbrink, einnig þekktur sem The French Quarter, er fjölhæfur lagahöfundur, hljóðfæraleikari og sjónlistamaður frá Arizona. Hann spilar ásamt Snorra Helgasyni og Just Another Snake Cult á Volta á skírdag. Tónleikarnir hefjast kl. 21 og er aðgangseyrir 500 kr.
Á Dillon verður haldið annað Desibel kvöldið þar sem heiðraðir eru listamenn sem sérhæfa sig í noise, drone, industrial, crust, hardcore punk eða dark ambient tónlist. Sveitirnar World Narcosis og Skelkur Í Bringu munu koma og spila. Tónleikarnir hefjast klukkan 22 og er ókeypis inn.
Föstudagur 29. mars
Black metal böndin Ash Borer og Fell Voices koma fram á Gamla Gauknum á föstudeginum langa eftir miðnætti. Með þeim verða böndin Azoic og NYIÞ. 1000 kr inn.
Laugardagur 30. mars
Á Gamla Gauknum munu hljómsveitirnar Cosmic Call og Waveland halda tónleika ásamt tónlistarmanninum Jón Þór. Frítt er inn og hefjast tónleikarnir stundvíslega klukkan 22:30.
Í fyrsta sinn verður Páskagleði haldin í Listasafni Reykjavíkur. Á tónleikunum koma fram listamenn sem allir eiga það sameiginlegt að spila tónlist sem einkennist af gleði og það á heldur betur við um páskana. Fram koma; Ásgeir Trausti, Sísý Ey, Þórunn Antonía, DJ Margeir og Daníel Ágúst. Gleðin hefst klukkan 20 og kostar 4900 kr inn.
Myndband við fyrstu smáskífuna af fjórðu plötu hljómsveitarinnar Yeah Yeah Yeahs var frumsýnt fyrr í dag. Myndbandið er við lagið Sacrilege, sem inniheldur gospelkór og verður að finna á plötunni Mosquito sem kemur út 16. apríl næstkomandi á vegum Interscope. David Sitek úr hljómsveitinni TV On The Radio stjórnaði upptökum með hjálp frá Nick Launay. Horfið á myndbandið hér fyrir neðan.
Nýju Daft Punk plötunnar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu en nú hefur loksins verið settur útgáfudagur á gripinn, 21. maí. Þá var jafnframt tilkynnt um titilinn sem er Random Access Memories og umslag plötunnar má sjá í fréttamyndinni. Þá kemur fram að á plötunni eru 13 lög og hversu löng þau eru, en fyrir áhugasama má geta þess að lengsta lag hennar er níu mínútur og fjórar sekúndur en hið stysta rúmlega fjórar og hálf mínúta. Við upptökur skífunnar nutu þeir aðstoðar Nile Rodgers, Giorgio Moroder og Panda Bear en enn hefur ekkert lag af henni heyrst. Ef hljóðbúturinn sem fylgdi auglýsingu fyrir plötuna er lýsandi fyrir hana má þó ljóst vera að hún er ákveðið afturhvarf til hljómsins sem einkenndi sveitina á skífunni Discovery frá árinu 2002. Meðfylgjandi fyrir neðan er auglýsingin fyrir plötuna auk myndbands við lagið Digital Love af plötunni Discovery.
Uppfært 23. mars 2013: Önnur auglýsing með hljóðbúti frá Daft Punk var birt í síðasta þætti af Saturday Night Life skemmtiþættinum. Hlustið hér fyrir neðan.