Straumur 27. janúar 2014

Í Straumi í kvöld heyrum við nýtt efni frá Mac Demarco, Tycho, White Hinterland, Metronomy og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld á slaginu 23:00 á X-inu 977!

Straumur 27. janúar 2014 by Straumur on Mixcloud

1) Pearls – Cashmere Cat
2) Wedding Bells – Cashmere Cat
3) Montana – Tycho
4) Love Letters – Metronomy
5) Passing Out Pieces – Mac Demarco
6) Ring The Bell – White Hinterland
7) Kong – The Notwist
8) I’m Not Part Of Me – Cloud Nothings
9) Coffee – Sylvan Esso
10) You Stressin – Bishop Nehru
11) Snake Bile Wine (Trevino remix) – Simian Moblie Disco
12) Love Sublime (Duke Dumont remix) – Tensnake
13) Too True To Be Good – Dum Dum Girls
14) Trouble Is My Name – Dum Dum Girls
15) Skyldekki heimur – Gímaldin
16) Jokerman – Built To Spill

All tomorrows Parties – Öðruvísi tónleikahátíð

Mynd: Fyrrum flugskýlið og núverandi kvikmyndaverið Atlantic Studios verður aðal tónleikastaðurinn.

All Tomorrows Parties tónlistarhátíðin verður haldin í fyrsta skipti á Íslandi helgina 28.-29. júní næstkomandi á varnarliðssvæðinu í Keflavík. Á mánudag var tilkynnt að Nick Cave and the Bad Seeds yrðu stærsta atriði hátíðarinnar en aðrir í erlendu deildinni eru meðal annars Deerhoof, The Notwist, Thee Oh Sees og The Fall. All Tomorrows Parties er óvenjuleg tónlistarhátíð að ýmsu leiti en hún hefur alltaf lagt áherslu á sjálfstæða og óháða tónlistarmenn. Venjan er að velja virtan tónlistarmann eða hljómsveit sem aðalnúmer hennar sem gegnir einnig því hlutverki að velja aðra tónlistarmenn til að spila. Hér á landi var dagskráin þetta árið þó valin af stjórnendum hátíðarinnar auk aðstandenda hér á landi, en á næsta ári er áætlað að fá tónlistarmann sem dagskrárstjóra eins og á aðalhátíðinni í Englandi.

Vannýttar byggingar

Tómas Young sem ber hitann og þungann af framkvæmd hátíðarinnar hér á landi segir að hugmyndin hafi kviknað árið 2011. Þá hefðu hann og aðrir innfæddir tónlistarbransamenn af Suðurnesjum verið boðaðir til fundar um hvernig nýta mætti byggingarnar á varnarliðssvæðinu í eitthvað tónlistartengt. Hann hafi strax komið auga á möguleika Atlantic Studios, gamals flugskýlis, sem undanfarið hafði verið nýtt sem kvikmyndatökuver og þess vegna með fullkomnum hljómburði. Tómas sagði í samtali við Straum að hugmyndin hafi fyrst verið að halda hátíð í anda ATP í febrúar 2012, og hafði m.a. í hyggju að fá MGMT til að spila en samningar hafi ekki náðst á endanum. „Þá datt mér í hug, fyrst hátíðin átti á annað borð að vera í anda ATP, því ekki að hafa samband við hátíðina sjálfa til að spyrja út í samstarf.“ Þeir tóku vel í hugmyndina og komu hingað til lands í ágúst í fyrra til að skoða aðstæður og heilluðust af flugskýlinu, offíseraklúbbnum og bíóinu. Þá fór öll skipulagning á blússandi siglingu og stuttu fyrir áramót var búið að tryggja Nick Cave & The Bad Seeds á hátíðina og fljótlega eftir það voru tímasetningar og fleiri sveitir bókaðar.

Tónleikar í fullri lengd

Eitt af því sem aðgreinir ATP frá öðrum festivölum er að flestar hljómsveitirnar spila tónleika „Í fullri lengd“, það er um og yfir klukkutíma prógramm og Nick Cave & The Bad Seeds munu spila í heilar 90-120 mínútur, þar á meðal smelli frá öllum ferlinum. Auk þess er dagskránni raðað þannig að með einbeittum vilja og kraftmiklum gangi ættu áhugasamir að komast yfir að sjá allar hljómsveitir hátíðarinnar. Tónleikar verða á tveimur sviðum, Atlantic Studios, sem tekur um 4000 manns, og hinum svokallaða offíseraklúbbi sem er stórglæsilegur gamaldags ballstaður en örstutt labb er þar á milli. Tónleikar hefjast milli 6 og 7 bæði kvöldin og standa yfir til um 2 eftir miðnætti. Hægt er að kaupa gistirými fyrir um 200 manns á hátíðarsvæðinu en fyrir drykkfellda Reykvíkinga er þó vert að vekja athygli á því að flugrútan gengur frá Keflavík alla nóttina. Þannig að skortur á gistingu, bíl eða edrúmennsku ætti ekki stöðva neinn í tónlistarveislunni.

Tónlist, bíó og takkaskór

Hátíðin mjög aðdáendavæn og leitast við að afmál skil á milli aðdáenda og tónlistarmanna, ekkert VIP svæði er fyrir tónlistarmenn sem fylgjast með tónleikum öðrum en sínum eigin meðal almennra hátíðargesta. Fyrir utan tónleika er einnig margs konar dægradvöl í kringum hátíðina og þar ber helst að nefna kvikmyndasýningar í hinu stórglæsilega Andrews Theater. Þær hefjast fyrr um daginn og áætlað er að hljómsveitir hátíðarinnar velji myndirnar á föstudeginum en leikstjórinn Jim Jarmuch sjái um kvikmyndaval á laugardeginum. Þá verður popppunkts keppni í boði Dr Gunna og einnig stendur til að halda fótboltamót þar sem hljómsveitir keppa hvor við aðra og aðdáendur sína. Nánari upplýsingar um hátíðina og miðfyrirkomulag má finna á vefsíðu hennar.

Nick Cave and the Bad Seeds aðalnúmerið á All tomorrow’s parties

Nick Cave mun verða aðalnúmerið á tónlistarhátíðinni All Tomorrows Parties sem verður haldin á varnarliðssvæðinu í Reykjanesbæ þann 28. og 29. júní næstkomandi. Nick Cave spilaði síðast á Íslandi árið 2006 en hljómsveitin hans, The Bad Seeds, kom síðast fram á Íslandi árið 1986 þegar Nick Cave heimsótti Ísland í fyrsta sinn.

Tónlistardagskrá hátíðarinnar verður ekki af verri endanum en auk Nick Cave & The Bad Seeds munu eftirtaldar hljómsveitir koma fram:

CHELSEA LIGHT MOVING (með forsprakka Sonic Youth, Thurston Moore í fararbroddi)
THE FALL
THE NOTWIST
THEE OH SEES
DEERHOOF
MÚM
HAM
DEAD SKELETONS
MUGISON
SQÜRL (með leikstjórann Jim Jarmusch fremstan í flokki)
AMIINA
VALGEIR SIGURÐSSON
GHOSTIGITAL
PUZZLE MUTESON
ÆLA
KIMONO
APPARAT ORGAN QUARTET
HJALTALÍN
SNORRI HELGASON

Auk tónlistardagskrár verður í boði kvikmyndadagskrá í Andrews Theather sem Jim Jarmusch mun meðal annarra sjá um og Popppunktur í boði Dr. Gunna.

Hátíðin var fyrst haldin árið 2000 í Bretlandi en hefur síðan fært út í kvíarnar undanfarin ár og meðal annars átt útibú á Spáni, Ástralíu, Japan og Bandaríkjunum og ávallt lagt áherslu á óháða og framsækna tónlistarmenn. Íslenska hátíðin mun fara fram í fyrrum herstöð Bandaríkjamanna, Ásbrú, en þar verða tvö svið þar sem hljómsveitir koma fram og eitt kvikmyndahús sem mun sýna tónlistartengdar myndir meðan á hátíðinni stendur. Nánari upplýsingar og miðasölu má finna á heimasíðu hátíðarinnar.