Nick Cave and the Bad Seeds aðalnúmerið á All tomorrow’s parties

Nick Cave mun verða aðalnúmerið á tónlistarhátíðinni All Tomorrows Parties sem verður haldin á varnarliðssvæðinu í Reykjanesbæ þann 28. og 29. júní næstkomandi. Nick Cave spilaði síðast á Íslandi árið 2006 en hljómsveitin hans, The Bad Seeds, kom síðast fram á Íslandi árið 1986 þegar Nick Cave heimsótti Ísland í fyrsta sinn.

Tónlistardagskrá hátíðarinnar verður ekki af verri endanum en auk Nick Cave & The Bad Seeds munu eftirtaldar hljómsveitir koma fram:

CHELSEA LIGHT MOVING (með forsprakka Sonic Youth, Thurston Moore í fararbroddi)
THE FALL
THE NOTWIST
THEE OH SEES
DEERHOOF
MÚM
HAM
DEAD SKELETONS
MUGISON
SQÜRL (með leikstjórann Jim Jarmusch fremstan í flokki)
AMIINA
VALGEIR SIGURÐSSON
GHOSTIGITAL
PUZZLE MUTESON
ÆLA
KIMONO
APPARAT ORGAN QUARTET
HJALTALÍN
SNORRI HELGASON

Auk tónlistardagskrár verður í boði kvikmyndadagskrá í Andrews Theather sem Jim Jarmusch mun meðal annarra sjá um og Popppunktur í boði Dr. Gunna.

Hátíðin var fyrst haldin árið 2000 í Bretlandi en hefur síðan fært út í kvíarnar undanfarin ár og meðal annars átt útibú á Spáni, Ástralíu, Japan og Bandaríkjunum og ávallt lagt áherslu á óháða og framsækna tónlistarmenn. Íslenska hátíðin mun fara fram í fyrrum herstöð Bandaríkjamanna, Ásbrú, en þar verða tvö svið þar sem hljómsveitir koma fram og eitt kvikmyndahús sem mun sýna tónlistartengdar myndir meðan á hátíðinni stendur. Nánari upplýsingar og miðasölu má finna á heimasíðu hátíðarinnar.