Tónleikadagskráin 11.-13. apríl

Helgin hefst snemma að venju á straum.is sem af einskærri góðmennsku og útsjónarsemi leiðbeinir lesendum sínum um það helsta í tónleikalandslagi helgarinnar.

Fimmtudagur 11. apríl

Grísalappalísa, Oyama og Nolo boða til hljómleika á skemmtistaðnum Volta. Grísalappalísa er ný viðbót í tónlistarflóru höfuðborgarsvæðisins en forsprakki hennar, Gunnar Ragnarsson, var áður söngvari Jakobínurínu. Sveitin gaf út sitt fyrsta lag, Lóan er komin, á dögunum sem er ólgandi pönkfönkaður nýbylgjusmellur af bestu gerð. Fyrsta breiðskífa þeirra kemur út von bráðar á vegum 12 tóna og lofar sveitin því að hún muni valda miklum usla í tilfinningalífi landans. Tilraunapoppsveitin Nolo gaf nýverið frá sér EP plötuna Human á bandcamp og ómstríðu óhljóðabelgirnir í Oyama hafa verið iðnir við kolann í tónleikahaldi undanfarið. Þá lofa tónleikahaldarar að leynigestur muni koma fram og eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að skýra frá því hver hann er. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og kostar einn þúsara inn.

 

Ólöf Arnalds ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og heldur útgáfutónleika fyrir sína nýjustu plötu, Sudden Elevation, í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu. Platan var tekin upp á tveimur vikum haustið 2011 í sumarbústað í Hvalfirðinum en Skúli Sverrisson stjórnaði upptökum. Húsið opnar klukkan 21:00, tónleikarnir hefjast 21:30 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Wireless tónleikasería tónlistarveitunnar Gogoyoko heldur áfram í kvöld þegar Borko stígur á stokk á Kex Hostel. Hann kemur fram ásamt einvalaliði hljóðfæraleikara en á næstunni heldur hann í tónleikaferð um Evrópu og ætti því að vera í keppnisformi á kexinu. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og 1500 krónur veita aðgöngu að gleðinni.

 

Snorri Helgason hefur undanfarin tvö ár komið fram með Mr. Sillu, Guðmundi Óskari úr Hjaltalín og Magnúsi Elíasen trommara (sem er í of mörgum hljómsveitum til að ég muni þær) á tónleikum en þau hafa nú stigið skrefið til fulls og stofnað The Snorri Helgason Band. Þau eru nú að vinna í sinni fyrstu plötu undir því nafni og ætla að prufukeyra nýja efnið á Faktorý. Einnig koma fram Mr Silla og Pétur Ben sem hlaut einróma lof fyrir sína nýjustu plötu, God’s Lonely Man. Tónleikarnir hefjast 22:00 og það kostar 1000 krónur inn.

Föstudagur 12. apríl

Á Kex Hostel verður slegið upp tónleikum í tilefni af því að 83 dagar eru til festivalsins á Rauðasandi. Fjórar hljómsveitir sem munu spila á hátíðinni ætla að taka forskot á sæluna en þær eru: Boogie Trouble, Nolo, Hljómsveitt og Hymnalaya. Aðgangur er ókeypis og jafnframt munu þeir fyrstu þyrstu til að mæta fá ókeypis glaðning í gleri en herlegheitin hefjast 20:30. Þá munu aðstandendur Rauðsandsfestivalsins kynna fyrirkomulag hátíðarinnar og miðasölu.

 

Undiraldan heldur sínu striki í Hörpunni en á föstudaginn koma fram Vök, sigursveit músíktilrauna, og tónlistar- og myndlistarkonan Berglind Ágústsdóttir. Tónleikarnir hefjast stundvíslega 17:30 og aðgangur er sem fyrr ókeypis en vakin skal athygli á því að í þetta skiptið eru tónleikarnir haldnir á Kolabrautinni á fjórðu hæð hússins, en ekki í Kaldalónssalnum.

 

Leaves, Stafrænn Hákon og Monotown slá upp tónleikaveislu á Volta en í tilkynningu frá þeim kemur fram að á viðburðinum verði kafað djúpt ofan í hyldýpi og áður óþekktar tíðnir kannaðar. Þá séu Leaves með nýtt efni í bígerð og að nýjasta plata Stafræns Hákons hafi verið tekin upp með höfuðið í hanskahólfi Massey Ferguson gröfu. Hvort að grafan verði með á sviðinu á Volta kemur ekki fram en þetta hljómar óneitanlega spennandi. Húsið opnar 21:00 og miðaverð er 1500 krónur.

 

Rvk Soundsystem láta engan bilbug á sér finna og halda áfram með fastakvöld sín á Faktorý þar sem þeir leika reggí, dancehall og dub fyrir dansþyrsta eyjarskeggja. Gestasnúður kvöldsins er Dj Cyppie og gestir eru hvattir til að brenna niður Babýlon og dansa af sér skónna. Að venju er senan í hliðarsal Faktorý, plötusnúðarnir hefja gleðina rétt fyrir miðnætti og aðgangseyrir er ekki til staðar.

Á efri hæð Faktorý verða tónleikar til styrktar Regnbogabörnum, samtökum sem berjast gegn einelti. Fram koma Fm Belfast, Prins Póló, Úlfur Úlfur, Kjurr og sigursveit músíktilrauna, Vök. Aðgangseyrir er 1500 krónur og rennur óskiptur til Regnbogabarna.

Laugardagur 13. apríl

Á Bar 11 verður haldið ROKKFEST 2013 þar sem sex þekktar og minna þekktar rokksveitir koma fram. Á fb-síðu viðburðarins kemur fram að nóg sé komið af poppi og metal og Rokkfestið sé fyrsta skrefið í yfirvofandi upprisu rokksins. Þær sveitir sem hafa boðað koma sína eru Mammút, Sindri Eldon & The Ways, Japanese Super Shift and the Future Band, Dorian Gray, Treisí og Casio Fatso. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

Hljómsveitirnar Knife Fights og Spy Kids 3D munu koma og spila tryllt indí pönk fyrir rokkþyrsta geðsjúklinga á Dillon.

Það verður þungur laugardagur í Lucky Records plötubúðinni á Rauðarárstígnum en þar munu harðkjarnasveitirnar Muck, In The Company of Men og Klikk leika fyrir slammi en hljómleikarnir hefjast klukkan 15:00. Aðgangur er ókeypis en straumur mælir með því að fólk styrki þessa stórgóðu plötubúð með vínilkaupum.

 

Á  Rósenberg verða tónleikar með Krístjáni Hrannari, Smára Tarf og Þoku. Kristján mun spila lög af fyrstu sólóplötu sinni sem kemur út í sumar. Leikar hefjast kl 21:00 og það kostar 1500 krónur inn

Á Gamla Gauknum munu leiða saman hesta sína hljómsveitirnar Momentum og Kontinuum. Sérstakir gestir verður hljómsveitin We Made God. Tónleikarnir hefjast kl 23:00 en húsið opnar 21:00. Aðgangseyrir eru 1500 kr.

Alltaf fer ég vestur

Straumur var í fríi yfir páskahelgina en hann sat þó ekki auðum höndum því ritstjórnin eins og hún leggur sig (en hún telur tvær manneskjur) lagði land undir fót og fór vestur á Aldrei fór ég suður hátíðina á Ísafirði. Þetta er í þriðja skiptið í röð sem undirritaður sækir hátíðina heim og ég get staðfest að það er ekki hægt á eyða páskunum á betri stað. Veðrið skartaði sínu blíðasta á leiðinni þegar sikk sakkað var í gegnum þrönga og spegilslétta firði Vestfjarðakjálkans og stoppað var í náttúrulaug á leiðinni. Fimmtudagskvöldið var tekið tiltölulega rólega en við sóttum þó tónleika á öldurhúsinu Krúsinni, sem lítur út að innan eins og barinn í myndinni Shining. Blúsaða búgí-ið hans Skúla Mennska var viðeigandi inn í gamaldags salnum og hljómsveitin Fears bauð upp á hefðbundið gítardrifið indírokk. Þetta var þó einungis laufléttur forréttur að þeirri þriggja rétta tónleikaveislu sem beið okkar.

Rifin MugiRödd

Það var stofnandi AFS, Mugison, sem að setti hátíðina klukkan sex á þessum langa föstudegi og ég hljóp á harðaspretti niður í tónleikaskemmuna til að missa ekki af honum. Mugison á Ísafirði um páskana er náttúrulega heimavallarstemmning eins og KR í Frostaskjóli eða Liverpool á Anfield. Þegar ég nálgaðist svæðið heyrði ég reffilega orgelriffið úr Mugiboogie óma út yfir fjörðinn. Á hátíð sem þessari þar sem tími á hljómsveit er knappur og spilað er fyrir hipstera, heimamenn, ömmur og barnabörn er mikilvægt að lagavalið sameini alla þessa ólíku hópa það kann Mugison upp á hár. Hver einasta sál í skemmunni „Stakk af“ með honum út í spegilsléttan Skutulsfjörðinn og sungu viðlagið hástöfum með. Hann endaði á ansi rokkaðri útgáfu af smellnum Murr Murr og hrá sandpappírsrödd hans reif í hljóðhimnur áhorfenda.

Öskrað á athygli

Að spila á eftir Mugison er ekki auðvelt en söngkonan Lára Rúnars leisti það farsællega úr hendi með fagmannlegu popprokki, ljúfum söng og frábæru bandi. Þvínæst var röðin komin að Athygli sem samanstóð af fjórum unglingspiltum frá Vestfjarðakjálkanum. Þeim leiddist svo sannarlega ekki athyglin og nutu sín hins ýtrasta á sviðinu og bílskúrsrokkuðu af lífs og sálarkröftum. Eitt það skemmtilegasta við hátíðina og gerir hana jafn einstaka og raun ber vitni er einmitt breiddin og uppröðun í hljómsveitavali. Hvergi annars staðar sér maður nýjustu hip hljómsveit Reykjavíkur spila á milli bílskúrsbands frá Bolungarvík og rótgróinnar sveitaballahljómsveitar.

Siglt undir fölsku flaggi

Þvínæst var röðin komin að Blind Bargain sem voru þéttspilandi gítarrokkband með básúnuleikara innbyrðis. Ég hafði sérstaklega gaman að blúsuðum gítarleik og textum, og hjó eftir brotum eins og „Svefndrukkinn og ringlaður, hann siglir undir fölsku flaggi.“ Hljómsveitin Ylja fylgdi á eftir en hún spilaði áferðarfallegt þjóðlagapopp undir miklum áhrifum frá folkbylgju sjöunda áratugarins. Samsöngur söngkvennanna harmóníseraði fallega og slidegítar og bongótrommur gáfu lögunum vissan eyðimerkurkeim. Þá voru kjarnyrtir textar um útilegur á Íslandi einstaklega viðeigandi á hátíð sem þessari.

Vopnaður kynnir

Þegar hér er komið við sögu er kannski rétt að kynna kynni hátíðarinnar, Pétur Magg, sem er jafnframt eitt helsta skemmtiatriði hennar. Kraftmeiri kynni hefur undirritaður aldrei séð á tónlistarhátíð og það skiptir engu máli hvaða band er næst á svið, innlifunin og öskrin eru slík að það er alltaf eins og Rolling Stones séu næstir á dagskrá. Þá hélt hann iðulega á risastóru trésverði og sveiflaði því í allar áttir milli þess sem hann kom með tilkynningar á borð við að bannað væri að reykja í skemmunni og að tiltekin bíll væri fyrir og þyrfti að fjarlægja. En í þetta skiptið sagði hann frá því að grunnskólakennari frá Drangnesi, einnig þekktur sem Borkó, væri næstur á dagskrá. Sá mætti með heljarinnar band og byrjaði á sínu vinsælasta lagi, Born to be Free, og hélt góðum dampi í settinu með vönduðu og grípandi gáfumannapoppi. Borkó hefur gott nef fyrir frumlegum útsetningum og hugvitssamlegir blásturskaflar vöktu athygli mína.

Skemman fríkar úti og inni

Skúli Mennski er fyrir löngu orðin goðsögn á þessum slóðum og fastagestur á hátíðinni. Þessi knái blúsari og pulsusali lét engan ósnortinn með viskílegnum drykkjusöng sínum um Dag Drykkjumann. Hljómsveitin hans var líka lífleg og oft brast á með dylan-legum munnhörpusólóum og öðru gúmmelaði. Ragga Gísla og Fjallabræður leiddu saman hesta sína í næsta atriði en þá hafði slíkur mannfjöldi safnast saman í skemmunni að ekki var nokkur leið fyrir mig að troðast inn í hana aftur eftir stutta klósettferð á milli banda. Það kom þó ekki að sök því skemman er opin í annan endann og fátt er íslenskara en grýlu- og stuðmannasmellir undir berum himni við undirleik karlakórs. Ég fann hreinlega fánalitina myndast í kinnunum þegar þau hófu leik og áhorfendur ætluðu að missa vitað í lokalaginu Sísí og reyndu hvað þeir gátu að yfirgnæfa Röggu og kórinn með eigin söng.

Bubbi mætir loksins vestur

Það var nokkuð erfitt fyrir indípopparana í Sing Fang að stíga á svið á eftir sturluninni sem átti sér stað í síðasta lagi Röggu en hægt og bítandi náði hann þó salnum á sitt band og var kominn á blússandi siglingu í laginu Sunbeam undir lokin. Það eru mikil tíðindi að Bubbi Morthens spili loks á hátíðinni sem kennd er við lag hans. Undirritaður er ekki mesti aðdáandi á landinu en á þessum tímapunkti á þessum stað skemmti ég mér alveg einstaklega vel þegar Bubbi renndi í gegnum nokkra af sínum óteljandi slögurum og tók að sjálfsögðu Aldrei fór ég Suður. Hann endaði á Fjöllin hafa vakað og ég er nokk viss um að snævi þaktir tindarnir sem gnæfðu yfir firðinum hafi verið glaðvakandi. Ég stóð meira segja sjálfan mig að því að syngja með nokkrum sinnum.

Leður, læti og sólgleraugu

Langi Seli og skuggarnir mættu löðrandi í leðri, sólgleraugum og almennum töffaraskap og sönnuðu að rokkabillíið er alls ekki dautt úr öllum æðum. Stafrænn Hákon voru næstir og spiluðu melódískt indírokk og hlóðu risastórra múrsteinsveggji með ómstríðum gítarhávaða og feedbakki. Valdimar byrjuðu með látum og héldu þeim áfram út í nóttina og lokuðu kvöldinu með sínum lager af blásturshljóðfærum. Þá var haldið áfram út í ævintýri næturinnar en þau eru vart birtingarhæf á jafn virðulegum vefmiðli og straum.is gefur sig út fyrir að vera.

Belle, Boards og morgunbjór

Ég vaknaði á laugardeginum við trítilóða timburmenn sem börðu mig í hausinn en hristi þá fljótt af mér með lautarferð í góða veðrinu. Morgunmatur og morgunbjór, i-pod með Belle and Sebastian og Boards of Canada og heiðskýrt útsýni yfir kajakræðara á firðinum. Bættu við sundferð í Bolungarvík og þú ert kominn með uppskrift að fullkomnum þynnkudegi á Ísafjarðarpáskum. Á þriðja degi í djammi þarf maður samt smá tíma til að gera sig sætan og því var ég ekki mættur fyrr en um hálfníuleitið seinna kvöldið þar sem ég sá Fears spila í annað skipti. Þeir eru sérdeilis þétt spilandi band en mér fannst vanta einhverja brún í tónlistina sjálfa, eitthvað sem aðskilur þá frá svipuðum breskum og bandarískum gítarrokksveitum.

Ég var alveg fáránlega hress

Áður en Pétur Magg kynnti Monotown á svið kom hann með skilaboð frá æðri máttarvöldum um að fólk skyldi ganga hægt um gleðinnar dyr. Monotown fygldu ráðum hans með hæglátu og útpældu indípoppi með smekklegum hljómborðsleik. Prins Póló létu hins vegar varnarorð Péturs Magg sem vind um eyrun þjóta og komu á harðaspretti inn um téðar gleðidyr og sáu, heyrðu, lyktuðu og sigruðu þetta kvöldið. Spilagleðin var óþrjótandi og spilamennskan einhvern veginn þétt, en á sama tíma losaraleg og afslöppuð. Mér finnst alltaf sjarmerandi að sjá Kristján tromma standandi og Borkó var síðan mættur prinsinum til halds og trausts og fór hamförum á ýmsum raftólum og kúabjöllum. Þau tóku öll mín uppáhaldslög og hressleikinn lak af hverri einustu nótu.

Siggi Hlö með athyglisbrest

Dolby er víst lókal ballband sem sérhæfir sig í mjög sérstöku tónlistarformi; syrpum (medley) af 80’s slögurum. Þetta var eins og hljómsveitarlegt ígildi dj-setts hjá Sigga Hlö ef hann myndi bara spila 20 sekúndur úr hverju lagi. Viðlag á eftir viðlagi úr Eye of the Tiger, Living on a Prayer, Hold the Line, Þrisvar í viku og svo framvegis og framvegis. Þau voru síðan öll klædd bleikum bolum og þetta var allavega eitthvað annað, þó það sé kannski dálítið stór biti að innbyrða 80 80’s smelli á 20 mínútum. Oyama eru eitt af hraðast rísandi nýstyrnum í Reykjavíkursenunni og rokkuðu skemmuna í ræmur þetta kvöld. Raddir Úlfs og Júlíu kölluðust á við marglaga veggi af ómstríðum gítaróhljóðum frá Kára sem á köflum hömpaði hátalarastæðurnar í æstum feedbakk-dansi.

Titrandi kamrar – Reif í skemmuna

Á þessum tímapunkti neyddist ég til að hlaupa á klósett til að losna við vökva en á meðan hófu Samaris að spila og kamrasamstæðan nötraði öll undan hyldjúpum bassanum. Jófríður söngkona var í essinu sínu og sýndi all Bjarkarlega takta í sviðsframkomu og í síðasta laginu umbreyttist dubstep takturinn yfir í æsilegt drum’n’bass og skemman breyttist í reif. Ojba Rasta héldu upp merkjum reggísins á hátíðinni og gerðu það með miklum sóma. Teitur er orðinn vel sjóaður í sviðsframkomu, nánast eins og Axl Rose Íslands, og fór í kostum í Hreppstjóranum. Fólk faðmaðist og söng með í Baldursbrá þegar tær og ósnortin gleði sveif yfir vötnum og firðinum.

Hamingjan var þar

Það er ekki til betri tónlistarmaður en Jónas Sig til að loka hátíð eins og Aldrei fór ég Suður og til að gulltryggja frábært sett fékk hann Lúðrasveit Ísafjarðar til liðs við sig. Strax í fyrsta lagi greip hann salinn og hélt honum þéttingsfast í hendi sér þar til yfir lauk. Hann er sterkur persónuleiki á sviði og marserandi brasskaflar lúðrasveitarinnar smellpössuðu við lögin hans. Lúðrasveitin kom sérstaklega sterk inn í Baráttusöng uppreisnarklansins á skítadreifurunum en á þeim tímapunkti greip ég í alla sem stóðu nálægt mér og hoppaði í hringi þar til ég varð ringlaður. Síðasta lagið, Hamingjan er hér, hefði ekki getað verið meira viðeigandi –og nú ætla ég að gerast væminn- því hún var vissulega akkúrat þarna í skemmunni á Ísafirði þetta kvöld. Heilsteypt og óbeisluð hamingjan var sem rauður þráður í gegnum bæði kvöldin og fólst í samspili góðrar tónlistar, félagsskaps, ölvunar, samkenndar, veðurs, magnaðrar staðsetningar og sennilega ótal annarra þátta sem erfitt er að festa fingur á. En hún var þarna, og tilfinningin var nánast áþreifanleg. Hamingjunni var síðan haldið gangandi á skemmtistaðnum Húsinu þar sem ritstjórn Straums þeytti skífum fyrir dansi langt fram eftir nóttu.

Þetta kann allt saman að hljóma eins og óþarflega halelújandi lofrulla en ég get bara ekki líst upplifuninni öðruvísi. Ég hvet eindregið alla sem á hanska geta haldið að drífa sig vestur um næstu páska. Ég fer þangað. Alltaf. Þó ég neyðist til að snúa aftur suður í raunveruleikann á endanum.

Davíð Roach Gunnarsson

Tónleikar um páskahelgina

Miðvikudagur 27. mars:

Partíþokan verður haldin á Faktory.  Siggi Frændi opnar dyrnar klukkan 21.00 og setur einhverja dúndrandi snilld á fóninn til að hita upp salinn. Hann tekur við greiðslukortum og aðgangseyrir er 2000 krónur. Klukkan 22.00 stígur hinn óviðjafnanlegi Jónas Sigurðsson á svið ásamt hljómsveit, dúndurþétt að vanda. Klukkan 22.50 er röðin komin að strandamanninum Birni Kristjánssyni og strákunum í Borko. Það er svo um Klukkan 23.40 að Sin Fang hefur að trylla lýðinn með eitursvölum nýbylgjuballöðum. Prins Póló stígur  á svið 30 mínútum eftir miðnætti  og slær botninn í dagskránna með Tipp Topp, Niðrá strönd og fleiri mjaðmaæfingum. Kynnir kvöldsins er útvarpsmaðurinn, bóksalinn, og trommarinn Kristján Freyr Halldórsson og það borgar sig að taka vel eftir því hann kemur til með að draga úr happdrætti Partíþokunnar um miðbik kvöldsins. Við gefum ekkert upp um verðlaunin hér, en þau eru ekki af þessum heimi svo ekki sé meira sagt.

Fimmtudagur 28. mars

Volta:  Stephen Steinbrink, einnig þekktur sem The French Quarter, er fjölhæfur lagahöfundur, hljóðfæraleikari og sjónlistamaður frá Arizona. Hann spilar ásamt Snorra Helgasyni og Just Another Snake Cult á Volta á skírdag. Tónleikarnir hefjast kl. 21 og er aðgangseyrir 500 kr.

Á Hemma og Valda munu fimm tónlistarkonur leiða saman hesta sína. Þær eru; Brynjahttps://soundcloud.com/hestur KirstiÓsk (https://soundcloud.com/oskmusic), Tinna Katrín og Þorgerður Jóhanna (https://soundcloud.com/user6539071). Aðgangur er ókeypis og hefst fjörið klukkan 20!

Á Dillon verður haldið annað Desibel kvöldið þar sem heiðraðir eru listamenn sem sérhæfa sig í noise, drone, industrial, crust, hardcore punk eða dark ambient tónlist. Sveitirnar World Narcosis og Skelkur Í Bringu munu koma og spila. Tónleikarnir hefjast klukkan 22 og er ókeypis inn. 

Föstudagur 29. mars 

Black metal böndin Ash Borer og Fell Voices koma fram á Gamla Gauknum á föstudeginum langa eftir miðnætti. Með þeim verða böndin Azoic og NYIÞ. 1000 kr inn. 

Laugardagur 30. mars

Á Gamla Gauknum munu hljómsveitirnar Cosmic Call og Waveland halda tónleika ásamt tónlistarmanninum Jón Þór. Frítt er inn og hefjast tónleikarnir stundvíslega klukkan 22:30.

Í fyrsta sinn verður Páskagleði haldin í Listasafni Reykjavíkur. Á tónleikunum koma fram listamenn sem allir eiga það sameiginlegt að spila tónlist sem einkennist af gleði og það á heldur betur við um páskana. Fram koma; Ásgeir Trausti, Sísý Ey, Þórunn Antonía, DJ Margeir og Daníel Ágúst. Gleðin hefst klukkan 20 og kostar 4900 kr inn.

Aldrei fór ég suður 2013 listi

Tíunda Aldrei fór ég suður hátíðin fer fram á Ísafirði dagana 29. og 30. mars næstkomandi. Umstillingarnefnd hátíðarinnar tilkynnti fyrr í dag listamennina sem koma fram í ár. Sjálfur Bubbi Morthens maðurinn á bak við nafn hátíðarinnar kemur loksins fram á henni, ætli hann taki Aldrei fór ég suður?
    • Abbababb
    • Blind Bargain
    • Borkó
    • Bubbi Morthens
    • Dolby
    • Duro
    • Fears
    • Futuregrapher
    • Hörmung
    • Jónas Sig
    • Langi Seli og skuggarnir
    • Lára Rúnars
    • Monotown
    • Mugison
    • Ojba Rasta
    • Oyama
    • Prinspóló
    • Ragga Gísla og Fjallabræður
    • Rythmatik
    • Samaris
    • Sin Fang
    • Skúli Mennski
    • Sniglabandið
    • Stafrænn Hákon
    • Valdimar
    • Ylja

Fyrstu listamennirnir tilkynntir á Aldrei fór ég Suður

Tíunda Aldrei fór ég suður hátíðin fer fram á Ísafirði dagana 29. og 30. mars næstkomandi. Umstillingarnefnd hátíðarinnar tilkynnti fyrr í kvöld fyrstu listamennina sem koma fram í ár. Þeir eru: Borko, Duro, Futuregrapher, Jónas Sig, Langi Seli, Oyama, Prinspóló og Ylja. Það má lesa nánar um þessa listamenn á vef Aldrei fór ég suður.

Bestu íslensku lög ársins 2012

30) Weekends – Kiriyama Family

      1. 04 Weekends

 

 

29) Grasping For Air – Útidúr

      2. Grasping for Air

 

 

28) Rónablús – Skúli Mennski ásamt Þungri Byrði

      3. 03 Rónablús

 

 

27) Sometimes – Oyama

      4. Sometimes

 

 

26) Thrown (FaltyDL Remix) – Kiasmos

      5. 02 Thrown (FaltyDL Remix)

 

 

25) Born to be Free – Borko

      6. 01 Born to be Free (single version)

 

 

24) Treat Her Kindly – Ólöf Arnalds

      7. 04 TREAT HER KINDLY 24BIT

 

 

23) Gasvinur – Per: Segulsvið

      8. gasvinurmaster

 

22) New Kids / Night Kids – Japanese Super Shift and the Future Band

      9. 04 New Kids_Night Kids

 

 

 

21) Gin og Greip – Boogie Trouble

      10. Gin og greip

 

 

 

20) Sérðu mig í lit? – Jón Þór

 

 

19) God’s Lonely Man – Pétur Ben

 

 

18) Crazy Sun – The Dandelion Seeds


 

17) No Need To Hesitate – Jóhann Kristinsson

      11. No Need to Hesitate

 

 

16) Letter To (…) – Hjaltalín

      12. 06 Letter To (...)

 

 

15) LoveHappiness (feat. RetRoBot) – M-band

      13. LoveHappiness (feat. RetRoBot)

 

 

14) Stofnar falla (Subminimal remix) – Samaris

      14. 06 Stofnar falla (Subminimal remix)

 

 

13) Sumargestur – Ásgeir Trausti

      15. 03 Sumargestur

 

 

12) Everything Got Stolen – Captain Fufanu


 

 

11) Don’t Push Me – Ghostigital With Sensational + Nick Zinner

      16. 02 Don_t Push Me

 

 

10) I’m All On My Own – Dream Central Station

Verkefni Hallbergs Daða Hallbergssonar var ein óvæntasta ánægjan í íslensku tónlistarlífi á árinu sem leið. Hann vinnur hér með hefð sem er nokkuð fastmótuð en nær að hrista af sér skuggann sem Singapore Sling varpar iðulega á þessa senu og skapa sér sérstöðu. All On My Own er angurvær en þó töffaraleg rokkballaða þar sem samsöngur Hallbergs og Elsu Maríu Blöndal kallast á við framúrskarandi gítarleik.

      17. 01 I'm All On My Own

 

 

 

9) Tipp Topp – Prinspóló

Reykvíska stuðhljómsveitin Prins Póló gaf út þetta hressa lag á árinu sem nefnist Tipp Topp og  fjallar um að vera hress og óhress, ástir og afbrýði, og mikilvægi þess að tala saman.  Tipp Topp er fyrsta lagið sem Prins Póló flytur eingöngu á Casio skemmtara. Línan um að detta í slölla inni á Hlölla er eitt það subbulegasta en jafnframt fallegasta sem heyrst hefur á árinu.

 

 

 

8) Way Over Yonder in the Minor Key – Just Another Snake Cult

Lo-Fi skrýtipoppsveitin Just Another Snake Cult er einstaklingsverkefni Þóris Heydal en hann gaf út hina frábæru og fjölbreyttu plötu Dionysian Season árið 2010. Fyrr þessu ári gerðist hann svo li-fo að hann gaf út ep plötu í formi kasettu, Birds carried your song through the night, sem hefur að geyma draumkennt hljóðgerflapopp. Á plötunni er ábreiða af laginu Way Over Yonder In The Minor Key eftir Billy Bragg og Wilco við texta eftir goðsögnina Woody Guthrie.

      18. Way Over Yonder in the Minor Key

 

 

7) Baldursbrá – Ojba Rasta

Að sögn hætti Arnljótur að syngja á unga aldri og byrjaði ekki aftur fyrr en með Ojba Rasta. Það var viturleg ákvörðun hjá honum (að  byrja aftur þ.e.) því Baldursbrá er framúrskarandi lag og ástæðan fyrir því er að stórum hluta söngur Arnljóts. Hann er angurvær og rómantískur en fer samt aldrei yfir í væmni. Lagið er bæði einstaklega íslenskt en hreinræktað döbb á sama tíma og fyrir það afrek fá Ojba Rasta sjöunda sæti listans.

 

 

6) Young Boys – Sin Fang

Sin Fang með Sindra Má Sigfússyni fremstan í flokki sendi frá sér fyrsta lagið af plötunni Flowers sem kemur út 1. febrúar á næsta ári um miðjan desember. Lagið heitir Young Boys og er eitt það besta sem sveitin hefur sent frá sér. Platan sem er þriðja plata Sin Fang var tekin upp af Alex Somers  sem áður hefur unnið með Sigur Rós og Jónsa og sá síðast um upptökustjórn á plötunni  Twosomeness með Pascal Pinion.

      19. 01 Young Boys

 

 

 

5) Ekki Vanmeta – Pascal Pinon

Pascal Pinion sýndu miklar framfarir á sinni annarri plötu og hafa nú bætt lágstemmdri elektróník við hljóðheim sem áður samanstóð helst af kassagíturum og sílafónum. Það er rökrétt framhald hjá stelpunum og Ekki vanmeta mig er líklega besta lag sveitarinnar hingað til.

      20. 01 Ekki Vanmeta

 

 

4) Tenderloin – Tilbury

Hljómsveitin Tilbury spratt fram fullsköpuð eins og skrattinn úr sauðaleggnum með sínu fyrsta lagi, Tenderloin, og skyldi engan undra vinsældir hennar. Óheyrilega vandað og grípandi indípopp með þjóðlagabragði. Dúnmjúkur hljóðheimur og fáheyrilega smekkleg notkun hljóðgerfla eru svo komman yfir í-ið.

 

 

3) Romeo – Nolo

Nolo eru ein duglegasta hljómsveit landsins og þeir gefa reglulega út smá- og stuttskífur á gogoyoko vefnum sem margar fá ekki þá athygli sem þær eiga skilið. Lagið Romeo er eitt það sterkasta sem sveitin hefur lagt nafn sitt við og er löðrandi í lágstemmdri lo-fi gleði og tilraunamennsku.

 

 

2) She Moves Through Air – Pojke

Sindri Már Sigfússon sem hefur verið fremstur í flokki í hljómsveitunum Seabear og Sing Fang hefur nú komið þriðja verkefni sínu á stað sem nefnist Pojke. Sindri gaf út lagið She Move Through Air í október og ljóst er að þriðja heimsklassa verkefni Sindra er orðið að veruleika. Í samtali við Straum fyrr á þessu ári sagðist Sindri hafa ætlað að semja raftónlist þegar hann samdi lögin fyrir Pojke. Sindri er eini lagahöfundurinn til að eiga tvö lög á listanum enda einn allra duglegasti tónlistarmaður Íslands um þessar mundir.

 

 

1) Glow – Retro Stefson

Á samnefndri plötu stigu Retro Stefson út úr skápnum sem fullþroska hljómsveit og hvergi kom það betur í ljós en í fyrstu smáskífunni, Glow. Hér er búið að beisla eylítið ungæðislegan kraftinn sem einkenndi fyrstu tvær skífur sveitarinnar og kjarna hennar helstu styrkleika. Lagið er margslungið en það fyrsta sem grípur mann er dansvænn ryþminn sem er hlaðinn mörgum lögum af áslætti. Versin eru nánast jafn grípandi og viðlagið og uppbyggingin er útpæld til að ná fram hámarksáhrifum á hlustandann. Bakraddir Sigríðar Thorlaciusar negla þetta svo endanlega og fleyta laginu upp í hæstu hæðir.

 

 

Bestu íslensku plötur ársins

 

 

 

1) Ojba Rasta – Ojba Rasta

Hin mannmarga reggísveit Ojba Rasta hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir sína fyrstu breiðskífu sem kom út fyrir skemmstu og hafa fylgt henni eftir með miklu tónleikahaldi. Platan sem er samnefnd sveitinni kom út hjá Records Records og var á meðal þeirra platna sem fengu hin árlegu plötuverðlaun Kraums tónlistarsjóðs. Ojab Rasta er besta íslenska plata ársins hér á straum.is

 

2) Retro Stefson – Retro Stefson

Hljómsveitin Retro Stefson sendi frá sína þriðju breiðskífu í ár. Platan sem er samnefnd sveitinni sýnir talsverðan þroska í lagasmíðum. Minna er um gítara og meira um hljóðgervla en áður enda sá sjálfur Hermigervill um upptökustjórn á  plötunni.

viðtal við Retro Stefson  

      1. airwaves 3 1

 

 

3) Pascal Pinon – Twosomeness

Twosomeness var tekin upp af Alex Somers sem hefur áður unnið með Sin Fang, Úlfi, Jónsa og Sigur Rós. Hljómsveitin er  skipuð tvíburasystrunum Jófríði og Ásthildi Ákadætrum og hefur verið virk frá árinu 2009. Twosomeness inniheldur 12 lög og eru textar fluttir á íslensku, ensku og sænsku.

Ekki vanmeta:  

      2. 01 Ekki Vanmeta

 

 

4) Sin Fang – Half Dreams EP

Sin Fang sendi frá sér þessa frábæru EP plötu til þess að stytta aðdáendum sínum biðina í nýja plötu sem kemur út í febrúar.

 

Viðtal við Sindra úr Sin Fang

      3. Airwaves 2 1 hluti

 

5) Dream Central Station – Dream Central Station

Þau Hallberg Daði Hallbergsson og Elsa María Blöndal eru í fararbroddi innan Dream Central Station og hafa verið að vinna að plötunni undanfarin ár. Hallberg var áður í hljómsveitinni Jakobínarínu og Elsa María í Go-Go Darkness. Öll lög og textar eru eftir Hallberg fyrir utan ábreiðu af laginu Feel so Good með Brian Jonestown Massacre.

 

 

 

6) Pétur Ben – God’s Lonely Man

Önnur plata Péturs Ben er mikið stökk frá hans fyrstu plötu – Wine For My Weakness sem kom út fyrir sex árum síðan. Pétur hefur notað tímann vel til að þróa lagasmíðar sínar og tekur hann áhrif frá ýmsum listamönnum sem hafa verið áberandi síðustu ár, blandar þeim saman og útkoman er eitthvað alveg nýtt.

 

 

7) Hjaltalín – Enter 4

Hljómsveitin Hjaltalín kom öllum að óvörum þegar hún sleppti þessari frábæru plötu frá sér í nóvember. Persónuleg plata sem fylgir á eftir plötunni Terminal frá árinu 2009.

 

 

 

8-9) Japanese Super Shift and the Future Band –  Futatsu

Hljómsveitin Japanese Super Shift and the Future Band inniheldur meðal annars tvo fyrrum meðlimi hljómsveitarinnar Lödu Sport. Skotheld plata undir sterkum áhrifum frá jaðarrokki tíunda áratugsins.

 

Viðtal við Japanese Super Shift and the Future Band

      4. Airwaves 4 2012

 

 

8-9) Jón Þór – Sérðu mig í lit

Tónlistarmaðurinn Jón Þór sem áður gerði garðinn frægan í hljómsveitum á borð við Isidor, Lödu Sport og Dynamo Fog gaf út sína fyrstu sólóplötu í ár. Platan heitir Sérðu mig í lit og er þetta í fyrsta skipti sem Jón Þór syngur á íslensku.

 

 

10) Samaris – Stofnar Falla EP

Önnur EP plata Samaris kom út í ár. Stofnar Falla fylgir á eftir plötunni Hljóma þú sem hljómsveitin sendi frá sér í fyrra. Á plötunni má heyra afbrigði af trip-hoppi tíunda áratugarins í bland við raftónlist nútímans ásamt sterkri rödd Jófríðar Ákadóttur.

Stofnar falla (Subminimal remix): 

      5. 06 Stofnar falla (Subminimal remix)

 

 

11)  Stafrænn Hákon – Prammi

Klump:

      6. 02 Klump

 

 

 

12) Ásgeir Trausti – Dýrð í dauðaþögn

Sumargestur:

      7. 03 Sumargestur

 

 

13) Ghostigital – Division of Culture and Tourism

 

 

14) Tilbury – Exorcise

 

 

15) Borko – Born to be free

Born to be free:

      8. 01 Born to be Free

 

 

16) Moses Hightower – Önnur Mósebók

 

 

17) Nóra – Himinbrim

 

 

18) Futuregrapher – LP

 

 

19) Kiriyama Family – Kiriyama Family

 

 

20) M-Band – EP

LoveHappiness (feat. RetRoBot) 

      9. LoveHappiness (feat. RetRoBot)

Innipúkinn 2012

      1. Innipúki 2

Tónlistarhátíðin Innipúkinn fagnar tíu ára afmæli sínu – og fer fram í ellefta skipti í miðborg Reykjavíkur um Verslunarmannahelgina. Innipúkinn 2012 teygir sig yfir þrjá daga og fer fram föstudags-, laugardags- og sunnudgskvöld dagana 3. – 5. ágúst. Hátíðin fer í ár fram í hinu sögufræga húsnæði Iðnó. Hægt er að nálgast miða á hátíðina á midi.is. Verð fyrir alla dagana er 5500 kr en 3000 fyrir hvert kvöld. Hér fyrir ofan er hægt að hlusta á viðtal við þá Björn Kristjánsson (Borko) og Svavar Pétur Eysteinsson (Prins Póló) skipuleggendur og stofnendur hátíðarinnar.

Dagskrá Innipúkans 2012

Föstudagur:
21:00 – Dr. Gunni
22:00 – Kiriyama Family
23:00 – Borko
23:50 – Auxpan
00:10 – Jónas Sigurðsson
01:00 – Prins póló
02:00 – Mammút

Laugardagur:
21:00 – Just another snake cult
22:00 – Ásgeir Trausti
23:00 – Lay Low
23:50 – Gísli Einarsson
00:10 – Moses Hightower
01:00 – Þú og ég
02:00 – Tilbury

Sunnudagur:
21:00 – Gang Related
22:00 – Sudden Weather Change
23:00 – Muck
23:50 – Shivering Man
00:10 – Ojba Rasta
01:00 – Úlfur Úlfur
02:00 – Oculus

Smáskífa frá Borko

Reykvíski tónlistarmaðurinn Borko sendir í dag frá sér lagið Born to be Free. Lagið er titillag væntanlegrar breiðskífu og verður fáanlegt á tónlistarveitunni Gogoyoko í dag og á öðrum rafrænum tónlistarveitum í kjölfarið. “B-hlið” smáskífunnar inniheldur endurhljóðblöndun af laginu eftir raftónlistarmanninn Hermigervil. Hægt er að hlusta á lagið hér fyrir neðan, auk endurhljóðblöndunnar.

Born to be Free (single version)


Born to be Free (Hermigervill Remix)