Alltaf fer ég vestur

Straumur var í fríi yfir páskahelgina en hann sat þó ekki auðum höndum því ritstjórnin eins og hún leggur sig (en hún telur tvær manneskjur) lagði land undir fót og fór vestur á Aldrei fór ég suður hátíðina á Ísafirði. Þetta er í þriðja skiptið í röð sem undirritaður sækir hátíðina heim og ég get staðfest að það er ekki hægt á eyða páskunum á betri stað. Veðrið skartaði sínu blíðasta á leiðinni þegar sikk sakkað var í gegnum þrönga og spegilslétta firði Vestfjarðakjálkans og stoppað var í náttúrulaug á leiðinni. Fimmtudagskvöldið var tekið tiltölulega rólega en við sóttum þó tónleika á öldurhúsinu Krúsinni, sem lítur út að innan eins og barinn í myndinni Shining. Blúsaða búgí-ið hans Skúla Mennska var viðeigandi inn í gamaldags salnum og hljómsveitin Fears bauð upp á hefðbundið gítardrifið indírokk. Þetta var þó einungis laufléttur forréttur að þeirri þriggja rétta tónleikaveislu sem beið okkar.

Rifin MugiRödd

Það var stofnandi AFS, Mugison, sem að setti hátíðina klukkan sex á þessum langa föstudegi og ég hljóp á harðaspretti niður í tónleikaskemmuna til að missa ekki af honum. Mugison á Ísafirði um páskana er náttúrulega heimavallarstemmning eins og KR í Frostaskjóli eða Liverpool á Anfield. Þegar ég nálgaðist svæðið heyrði ég reffilega orgelriffið úr Mugiboogie óma út yfir fjörðinn. Á hátíð sem þessari þar sem tími á hljómsveit er knappur og spilað er fyrir hipstera, heimamenn, ömmur og barnabörn er mikilvægt að lagavalið sameini alla þessa ólíku hópa það kann Mugison upp á hár. Hver einasta sál í skemmunni „Stakk af“ með honum út í spegilsléttan Skutulsfjörðinn og sungu viðlagið hástöfum með. Hann endaði á ansi rokkaðri útgáfu af smellnum Murr Murr og hrá sandpappírsrödd hans reif í hljóðhimnur áhorfenda.

Öskrað á athygli

Að spila á eftir Mugison er ekki auðvelt en söngkonan Lára Rúnars leisti það farsællega úr hendi með fagmannlegu popprokki, ljúfum söng og frábæru bandi. Þvínæst var röðin komin að Athygli sem samanstóð af fjórum unglingspiltum frá Vestfjarðakjálkanum. Þeim leiddist svo sannarlega ekki athyglin og nutu sín hins ýtrasta á sviðinu og bílskúrsrokkuðu af lífs og sálarkröftum. Eitt það skemmtilegasta við hátíðina og gerir hana jafn einstaka og raun ber vitni er einmitt breiddin og uppröðun í hljómsveitavali. Hvergi annars staðar sér maður nýjustu hip hljómsveit Reykjavíkur spila á milli bílskúrsbands frá Bolungarvík og rótgróinnar sveitaballahljómsveitar.

Siglt undir fölsku flaggi

Þvínæst var röðin komin að Blind Bargain sem voru þéttspilandi gítarrokkband með básúnuleikara innbyrðis. Ég hafði sérstaklega gaman að blúsuðum gítarleik og textum, og hjó eftir brotum eins og „Svefndrukkinn og ringlaður, hann siglir undir fölsku flaggi.“ Hljómsveitin Ylja fylgdi á eftir en hún spilaði áferðarfallegt þjóðlagapopp undir miklum áhrifum frá folkbylgju sjöunda áratugarins. Samsöngur söngkvennanna harmóníseraði fallega og slidegítar og bongótrommur gáfu lögunum vissan eyðimerkurkeim. Þá voru kjarnyrtir textar um útilegur á Íslandi einstaklega viðeigandi á hátíð sem þessari.

Vopnaður kynnir

Þegar hér er komið við sögu er kannski rétt að kynna kynni hátíðarinnar, Pétur Magg, sem er jafnframt eitt helsta skemmtiatriði hennar. Kraftmeiri kynni hefur undirritaður aldrei séð á tónlistarhátíð og það skiptir engu máli hvaða band er næst á svið, innlifunin og öskrin eru slík að það er alltaf eins og Rolling Stones séu næstir á dagskrá. Þá hélt hann iðulega á risastóru trésverði og sveiflaði því í allar áttir milli þess sem hann kom með tilkynningar á borð við að bannað væri að reykja í skemmunni og að tiltekin bíll væri fyrir og þyrfti að fjarlægja. En í þetta skiptið sagði hann frá því að grunnskólakennari frá Drangnesi, einnig þekktur sem Borkó, væri næstur á dagskrá. Sá mætti með heljarinnar band og byrjaði á sínu vinsælasta lagi, Born to be Free, og hélt góðum dampi í settinu með vönduðu og grípandi gáfumannapoppi. Borkó hefur gott nef fyrir frumlegum útsetningum og hugvitssamlegir blásturskaflar vöktu athygli mína.

Skemman fríkar úti og inni

Skúli Mennski er fyrir löngu orðin goðsögn á þessum slóðum og fastagestur á hátíðinni. Þessi knái blúsari og pulsusali lét engan ósnortinn með viskílegnum drykkjusöng sínum um Dag Drykkjumann. Hljómsveitin hans var líka lífleg og oft brast á með dylan-legum munnhörpusólóum og öðru gúmmelaði. Ragga Gísla og Fjallabræður leiddu saman hesta sína í næsta atriði en þá hafði slíkur mannfjöldi safnast saman í skemmunni að ekki var nokkur leið fyrir mig að troðast inn í hana aftur eftir stutta klósettferð á milli banda. Það kom þó ekki að sök því skemman er opin í annan endann og fátt er íslenskara en grýlu- og stuðmannasmellir undir berum himni við undirleik karlakórs. Ég fann hreinlega fánalitina myndast í kinnunum þegar þau hófu leik og áhorfendur ætluðu að missa vitað í lokalaginu Sísí og reyndu hvað þeir gátu að yfirgnæfa Röggu og kórinn með eigin söng.

Bubbi mætir loksins vestur

Það var nokkuð erfitt fyrir indípopparana í Sing Fang að stíga á svið á eftir sturluninni sem átti sér stað í síðasta lagi Röggu en hægt og bítandi náði hann þó salnum á sitt band og var kominn á blússandi siglingu í laginu Sunbeam undir lokin. Það eru mikil tíðindi að Bubbi Morthens spili loks á hátíðinni sem kennd er við lag hans. Undirritaður er ekki mesti aðdáandi á landinu en á þessum tímapunkti á þessum stað skemmti ég mér alveg einstaklega vel þegar Bubbi renndi í gegnum nokkra af sínum óteljandi slögurum og tók að sjálfsögðu Aldrei fór ég Suður. Hann endaði á Fjöllin hafa vakað og ég er nokk viss um að snævi þaktir tindarnir sem gnæfðu yfir firðinum hafi verið glaðvakandi. Ég stóð meira segja sjálfan mig að því að syngja með nokkrum sinnum.

Leður, læti og sólgleraugu

Langi Seli og skuggarnir mættu löðrandi í leðri, sólgleraugum og almennum töffaraskap og sönnuðu að rokkabillíið er alls ekki dautt úr öllum æðum. Stafrænn Hákon voru næstir og spiluðu melódískt indírokk og hlóðu risastórra múrsteinsveggji með ómstríðum gítarhávaða og feedbakki. Valdimar byrjuðu með látum og héldu þeim áfram út í nóttina og lokuðu kvöldinu með sínum lager af blásturshljóðfærum. Þá var haldið áfram út í ævintýri næturinnar en þau eru vart birtingarhæf á jafn virðulegum vefmiðli og straum.is gefur sig út fyrir að vera.

Belle, Boards og morgunbjór

Ég vaknaði á laugardeginum við trítilóða timburmenn sem börðu mig í hausinn en hristi þá fljótt af mér með lautarferð í góða veðrinu. Morgunmatur og morgunbjór, i-pod með Belle and Sebastian og Boards of Canada og heiðskýrt útsýni yfir kajakræðara á firðinum. Bættu við sundferð í Bolungarvík og þú ert kominn með uppskrift að fullkomnum þynnkudegi á Ísafjarðarpáskum. Á þriðja degi í djammi þarf maður samt smá tíma til að gera sig sætan og því var ég ekki mættur fyrr en um hálfníuleitið seinna kvöldið þar sem ég sá Fears spila í annað skipti. Þeir eru sérdeilis þétt spilandi band en mér fannst vanta einhverja brún í tónlistina sjálfa, eitthvað sem aðskilur þá frá svipuðum breskum og bandarískum gítarrokksveitum.

Ég var alveg fáránlega hress

Áður en Pétur Magg kynnti Monotown á svið kom hann með skilaboð frá æðri máttarvöldum um að fólk skyldi ganga hægt um gleðinnar dyr. Monotown fygldu ráðum hans með hæglátu og útpældu indípoppi með smekklegum hljómborðsleik. Prins Póló létu hins vegar varnarorð Péturs Magg sem vind um eyrun þjóta og komu á harðaspretti inn um téðar gleðidyr og sáu, heyrðu, lyktuðu og sigruðu þetta kvöldið. Spilagleðin var óþrjótandi og spilamennskan einhvern veginn þétt, en á sama tíma losaraleg og afslöppuð. Mér finnst alltaf sjarmerandi að sjá Kristján tromma standandi og Borkó var síðan mættur prinsinum til halds og trausts og fór hamförum á ýmsum raftólum og kúabjöllum. Þau tóku öll mín uppáhaldslög og hressleikinn lak af hverri einustu nótu.

Siggi Hlö með athyglisbrest

Dolby er víst lókal ballband sem sérhæfir sig í mjög sérstöku tónlistarformi; syrpum (medley) af 80’s slögurum. Þetta var eins og hljómsveitarlegt ígildi dj-setts hjá Sigga Hlö ef hann myndi bara spila 20 sekúndur úr hverju lagi. Viðlag á eftir viðlagi úr Eye of the Tiger, Living on a Prayer, Hold the Line, Þrisvar í viku og svo framvegis og framvegis. Þau voru síðan öll klædd bleikum bolum og þetta var allavega eitthvað annað, þó það sé kannski dálítið stór biti að innbyrða 80 80’s smelli á 20 mínútum. Oyama eru eitt af hraðast rísandi nýstyrnum í Reykjavíkursenunni og rokkuðu skemmuna í ræmur þetta kvöld. Raddir Úlfs og Júlíu kölluðust á við marglaga veggi af ómstríðum gítaróhljóðum frá Kára sem á köflum hömpaði hátalarastæðurnar í æstum feedbakk-dansi.

Titrandi kamrar – Reif í skemmuna

Á þessum tímapunkti neyddist ég til að hlaupa á klósett til að losna við vökva en á meðan hófu Samaris að spila og kamrasamstæðan nötraði öll undan hyldjúpum bassanum. Jófríður söngkona var í essinu sínu og sýndi all Bjarkarlega takta í sviðsframkomu og í síðasta laginu umbreyttist dubstep takturinn yfir í æsilegt drum’n’bass og skemman breyttist í reif. Ojba Rasta héldu upp merkjum reggísins á hátíðinni og gerðu það með miklum sóma. Teitur er orðinn vel sjóaður í sviðsframkomu, nánast eins og Axl Rose Íslands, og fór í kostum í Hreppstjóranum. Fólk faðmaðist og söng með í Baldursbrá þegar tær og ósnortin gleði sveif yfir vötnum og firðinum.

Hamingjan var þar

Það er ekki til betri tónlistarmaður en Jónas Sig til að loka hátíð eins og Aldrei fór ég Suður og til að gulltryggja frábært sett fékk hann Lúðrasveit Ísafjarðar til liðs við sig. Strax í fyrsta lagi greip hann salinn og hélt honum þéttingsfast í hendi sér þar til yfir lauk. Hann er sterkur persónuleiki á sviði og marserandi brasskaflar lúðrasveitarinnar smellpössuðu við lögin hans. Lúðrasveitin kom sérstaklega sterk inn í Baráttusöng uppreisnarklansins á skítadreifurunum en á þeim tímapunkti greip ég í alla sem stóðu nálægt mér og hoppaði í hringi þar til ég varð ringlaður. Síðasta lagið, Hamingjan er hér, hefði ekki getað verið meira viðeigandi –og nú ætla ég að gerast væminn- því hún var vissulega akkúrat þarna í skemmunni á Ísafirði þetta kvöld. Heilsteypt og óbeisluð hamingjan var sem rauður þráður í gegnum bæði kvöldin og fólst í samspili góðrar tónlistar, félagsskaps, ölvunar, samkenndar, veðurs, magnaðrar staðsetningar og sennilega ótal annarra þátta sem erfitt er að festa fingur á. En hún var þarna, og tilfinningin var nánast áþreifanleg. Hamingjunni var síðan haldið gangandi á skemmtistaðnum Húsinu þar sem ritstjórn Straums þeytti skífum fyrir dansi langt fram eftir nóttu.

Þetta kann allt saman að hljóma eins og óþarflega halelújandi lofrulla en ég get bara ekki líst upplifuninni öðruvísi. Ég hvet eindregið alla sem á hanska geta haldið að drífa sig vestur um næstu páska. Ég fer þangað. Alltaf. Þó ég neyðist til að snúa aftur suður í raunveruleikann á endanum.

Davíð Roach Gunnarsson

Aldrei fór ég suður 2013 listi

Tíunda Aldrei fór ég suður hátíðin fer fram á Ísafirði dagana 29. og 30. mars næstkomandi. Umstillingarnefnd hátíðarinnar tilkynnti fyrr í dag listamennina sem koma fram í ár. Sjálfur Bubbi Morthens maðurinn á bak við nafn hátíðarinnar kemur loksins fram á henni, ætli hann taki Aldrei fór ég suður?
    • Abbababb
    • Blind Bargain
    • Borkó
    • Bubbi Morthens
    • Dolby
    • Duro
    • Fears
    • Futuregrapher
    • Hörmung
    • Jónas Sig
    • Langi Seli og skuggarnir
    • Lára Rúnars
    • Monotown
    • Mugison
    • Ojba Rasta
    • Oyama
    • Prinspóló
    • Ragga Gísla og Fjallabræður
    • Rythmatik
    • Samaris
    • Sin Fang
    • Skúli Mennski
    • Sniglabandið
    • Stafrænn Hákon
    • Valdimar
    • Ylja