KEXPort 2015

Tónleikahátíðin KEXPort verður haldin í fjórða skiptið í portinu fyrir aftan KEX Hostel laugardaginn 18. júlí næstkomandi frá tólf á hádegi til miðnættis. Tónleikarnir eru haldnir til heiðurs KEXP í Seattle og munu koma fram tólf tónlistaratriði á jafn mörgum klukkustundum. KEXP er útvarpsstöð sem sótt hefur Ísland árlega allt frá árinu 2009 og hefur unnið óeigingjarnt starf til kynningar íslenskrar tónlistar í Bandaríkjunum og víðar í heiminum.

Hátíðin er haldin í portinu fyrir aftan Kex Hostel og eru þeir opnir almenningi á meðan rúm leyfir. Mikill stemmning er fyrir KEXPort í ár og er óhætt að segja að segja að fjölbreytni tónlistaratriða sé með besta móti.
Myndbandstöku af tónleikunum í ár verður streymt beint í gegnum KEXP.ORG, Kexland.is og MusicReach.tv og er það í fyrsta skiptið sem það verður gert.

Dagskrá tónlistaratriða er efirfarandi:

12:00 Sóley

13:00 Teitur Magnússon

14:00 Kælan Mikla

15:00 Futuregrapher

16:00 Markús and the Diversion Sessions

17:00 Valdimar

18:00 Rökkurró

19:00 Muck

20:00 Gísli Pálmi

21:00 DJ Yamaho

22:00 Agent Fresco

23:00 Emmsje Gauti

Meðal þeirra sem hafa komið fram á KEXPort eru Samúel Jón Samúelsson Big Band, Kiriyama Family, Ghostigital, Low Roar, Sóley, Tilbury, Snorri Helgason, Úlfur Úlfur, Mr. Silla, Sykur, Dimma, Reykjavíkurdætur, Sometime, Kött Grá Pje, MUCK, Kippi Kanínus og Moses Hightower.

Straumur 13. júlí 2015

Í Straumi í kvöld verða teknar fyrir nýjar plötur með Ratatat, Mac DeMarco og Destroyer. Auk þess verða skoðuð ný lög með Thundercat, Maximum Balloon, Ought, Toro Y Moi og fleirum.

Straumur 13. júlí 2015 by Straumur on Mixcloud

1) Countach – Ratatat
2) Nightclub Amnesia – Ratatat
3) I Will Return – Ratatat
4) Them Changes – Thundercat
5) Let It Grow (ft. Karen O Tunde Adebimpe) – Maximum Balloon
6) Beautiful Blue Sky – Ought
7) Just To Put Me Down – Mac DeMarco
8) Another One – Mac DeMarco
9) Pitch Black (ft. Rome Fortune) – Toro Y Moi
10) Swords – M.i.A
11) Vikram – Daphni
12) Times Square – Destroyer
13) Bangkok – Destroyer
14) After Me – Misun

 

Tónleikahelgin 10.-11. júlí

Föstudagur 10. Júlí

 

Kría Brekkan spilar í Mengi. Aðgangseyrir er 2000 krónur og tónleikarnir byrja 21:00.

 

Hljómsveitin Vára spilar á Dillon. Tónleikar byrja 22:30 og aðgangur er ókeypis.

 

Laugardagur 11. Júlí

 

Það verður Hip Hop Jazz Mash kvöld á Gauknum. Skipuleggjendur lofa suddalegum bræðingi rapparanna Class B og Immo við RNB/Jazz söng Önnu Sóleyar ofan á feita jazz bíta Náttmarðar Kvartetts. Aðgangseyrir er 1500 krónur og leikar hefjast 22:00.

 

Orchestral Summer Music & Friends koma fram í Mengi. Aðgangseyrir er 2000 krónur og spilamennska hefst 21:00.

 

Kaleo spila í Gamla Bíói. Tónleikarnir byrja 21:00 og aðgangseyrir er 4990 krónur.

Straumur 6. júlí 2015

Í þættinum í kvöld verður tekin fyrir nýjasta breiðskífa Tame Impala – Currents, auk þess sem fjallað verður um nýtt efni frá Beach House, Wavves, Abra, Media Jeweler, DJ Rashad og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra á slaginu 23:00 í kvöld á X-inu 977.

Straumur 6. júlí 2015 by Straumur on Mixcloud

1) The Moment – Tame Impala
2) Past Life – Tame Impala
3) New Person, Same Old Mistakes – Tame Impala
4) Sparks – Beach House
5) Deicide – Crystal Castles
6) Roses Xoxo – Abra
7) How It’s Gonna Go – Wavves X Cloud Nothings
8) No Life For Me – Wavves X Cloud Nothings
9) Autopilot – Media Jeweler
10) CCP2 (ft. DJ Spinn) – DJ Rashad
11) Do You See My Skin Through The Flames – Blood Orange

Fimmtudagskvöldið á All Tomorrow’s Parties

Mynd: Óli Dóri

All Tomorrow’s Parties tónlistarhátíðin var sett með trukki í gær og allsvakalegri dagskrá. Ég mætti í Keflavík um sjöleitið til að sjá Ninja Tune pródúsantinn Bug í Atlantic Studios og hann heiðraði lágu tíðnirnar svo um munar. Hann framleiðir einhvers konar blöndu af reggíton og hip hop og hljómaði dálítið eins og prótótýpan af Major Lazer. Bassadroppin voru eins og kjarnorkusprengjur og heil sveit af lögreglubílasírenum var mætt í síðasta lagið. Sér til halds og traust hafði hann söngkonu og tvo rappara sem peppuðu krádið upp í hæstu hæðir.

 

Byltingin verður ekki borðuð (allavega ekki í morgunmat)

 

Þar næst var komið að blökku byltingarfréttaveitunni Public Enemy. Þeir mættu með sex manna herdeild með sér sem hafði þann helsta starfa að standi vígalegir með krosslagðar hendur eða hnefa upp í loft eftir tilefninu. Chuck D fór í loftköstum um sviðið milli þess að predika yfir mannsöfnuðinum og Flavor Flav fór með hlutverk sitt sem hinn upprunalegi hype-maður af stakri sturlun. Á einum tímapunkti tilkynnti hann að daginn áður hafi hann verið að eignast sitt sjötta barnabarn og áhorfendaskarinn sjúllaðist í fagnaðarlátum. Ég fílaði leikrænu tilburðinu og hersýningar-væbið og það eina sem skemmdi fyrir var hljóðið. Það er ákveðinn glæpur að sjá eina byltingarkenndustu rödd tónlistarsögunnar á sviði en heyra stundum vart orðaskil því henni er drekkt í bassa.

 

Við erum öll hundar

 

Næstu á svið var pönkafinn og leðureðlan Iggy moðerfokking Popp. Hann var ekkert að tvínóna við hlutina heldur dúndraði strax í slagarana I Wanna Be Your Dog, Lust For Life og Passenger. Iggy virðist vera einhvers konar vampíra. Hann hefur litið eins út í 15 ár og hlýtur að hafa selt einhverjum vafasömum sál sína til þess að halda sinni frábæru rödd kominn á þennan aldur og geta hlykkjast svona um sviðið. Þekktur íslenskur söngvari spyr oft hvort það séu ekki allir sexí. Svarið er nei, en Iggy var það svo sannarlega þetta kvöld og miklu meira til. Við vorum öll hundurinn hans.

 

Fánaberar krúttindístefnunnar í Belle And Sebastian voru næst og léku á alls oddi í nýju og gömlu efni. Þau voru með strengjasveit, trompet og allar græjur þannig að lög eins og Summer Is Wasted, I’m a Coockoo og Boy With The Arab Strab hljómuðu frámunalega vel. Sérstaklega fannst mér gaman að heyra eldgamla lagið Dog on Wheels þar sem íslenski trompetleikarinn Eiríkur fór á kostum.

 

Demantar sem glampar á

 

Það var farið að tæmast nokkuð í skemmunni þegar Run The Jewels byrjuðu en það var missir þeirra sem fóru. El-P og Killer Mike eru ferskasta rappdúó undanfarinna ára og kemistrían á milli þeirra var ósvikin og smitandi. Þeir skoppuðu í takt um sviðið, göntuðust og kláruðu línur hvors annars af fádæma krafti, öryggi og áreynsluleysi. Það verður þó að segjast að hljóðið hefði getað verið betra, líkt og á Public Enemy var bassinn full yfirgnæfandi og átti það til að fletja út raddirnar og háu tíðnirnar.

 

Heilt yfir var kvöldið helvel heppnað og það sem stóð upp úr var Afi Pönk, Iggy Pop, sem að sprengdi kúlskalann í loft upp af endalausu öryggi.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Topp 10 erlend atriði á ATP

Tónlistarhátíðin All Tomorrow’s Parties hefst á morgun og í tilefni af því setti Straumur saman lista með þeim tíu erlendu atriðum sem við mælum sérstaklega með. Við hvetjum alla til að leggja land undir fót (í 40 mínútna rútuferð til Ásbrú) og njóta þess mikla tónlistarhlaðborðs sem boðið er upp á um helgina. Á straum.is næstu daga verður svo hægt að lesa umfjöllun um hátíðina.

 

Belle and Sebastian

 

Eitt stærsta indí band allra tíma hefur aldrei klikkað í tvo áratugi þó svo plöturnar séu vissulega misgóðar. Þeir hafa hins vegar sannað sig sem spikfeitt live-band og síðasta plata þeirra inniheldur fádæma funky partýslagara á borð við Party Line. Við sáum þá á Primavera hátíðinni fyrir örstuttu síðan og það kemur enginn svikinn af tónleikum með þeim.

 

The Field

 

Sænski raftónlistarmaðurinn The Field reiðir sig á naumhyggju og endurtekningu sem fer með hlustendur í ferðalag um leiðsluástand. Hljóðheimurinn er byggður úr sekúndubrots hljóðbútum sem er raðað saman af nákvæmni og hugvitssemi sem eiga fáa sína líka.

 

Run The Jewels

 

Run The Jewels er samstarfsverkefni El-P og Killer Mike sem hófst þegar að sá fyrrnefndi pródúseraði plötu fyrir þann síðarnefnda. Meðan á upptökum stóð hófur þeir samstarf í stúdíóinu og ákváðu svo að gefa afraksturinn ókeypis á netinu. Það vatt svo aldeilis upp á sig og var valin ein besta plata ársins sem þeir fylgdu síðan eftir með Run The Jewels 2 sem toppaði marga árslista um síðustu áramót.

 

The Bug

 

Paddan er listamannsnafn hins breska Kevin Martin sem gefur út hjá hinni fornfrægu Ninja Tune útgáfu. Hann blandar saman reggí-i við trip- og hip hop í ómótstæðilega grautarsúpu sem unun er á að hlíða.

 

Iggy Pop

 

Gamli ber að ofan pönkafinn er ennþá í fullu fjöri og ristjórnarmeðlimir straum.is geta borið vitni um að tónleikar hans í Listasafni Reykjavíkur fyrir örfáum árum stóðu fyllilega undir öllum væntingum.

 

Swans

 

Goðsagnakennda no wave hljómsveitin Swans er nú loksins að koma til landsins eftir að fellibylurinn Sandy kom í veg fyrir tónleika þeirra á Airwaves árið 2012. Plata þeirra Be Kind lenti ofarlega á mörgum árslistum yfir bestu plötur 2014 og tónleikar þeirra eru alræmdir fyrir allra handa tæting og trylling.

 

Lighnting Bolt

 

Óhljóðadúettinn Lighting Bolt er frægur fyrir óhefðbundna nálgun á tónleika þar sem þeir spila iðulega niðrá gólfi frekar en uppi á sviðinu. Trommari þeirra Brian Chippendale vann með Björk á plötunni Volta.

 

Public Enemy

 

Svarta fréttaveitan má kannski muna fífil sinn fegurri en Chuck D býr yfir meiri orku en Kárahnjúkavirkjun og Flavor Flav veit svo sannarlega ennþá hvað klukkan slær. Trúið hæpinu og berjið niður valdið.

 

Ice Age

 

Dönsku unglingarnir í Ice Age sóttu Ísland heim á Airwaves í hittí fyrra og trylltu viðstadda með óviðjafnanlegum hávaða og ungæðislegri sviðsframkomu.

 

Mudhoney

 

Mudhoney hafa starfað í þrjá áratugi og voru leiðandi afl í grugg-senunni frá Seattle borg í byrjun tíunda áratugarins.

Fleiri listamenn tilkynntir á Iceland Airwaves 2015

Skipuleggjendur Iceland Airwaves tilkynntu í dag fleiri listamenn sem koma fram á hátíðinni í ár en alls verða þeir um 200 talsins.

Iceland Airwaves-hátíðin verður haldin í sautjánda sinn í ár,
dagana 4. til 8. nóvember og er undirbúningur í fullum gangi. Miðasalan er hafin á heimasíðu Iceland Airwaves .

Listamennirnir sem bætast við eru:

Jme (UK)
Mercury Rev (US)
Endless Dark
Herra Hnetusmjör
Jón Ólafsson & Futuregrapher
Lucy Rose (UK)
kimono
Arca dj set (VE)
Markús & The Diversion Sessions
Reykjavíkurdætur
Weval (NL)
Braids (CA)
russian.girls
SOAK (IE)
Saun & Starr (US)
Soffía Björg
Bernard & Edith (UK)
Emilie & Ogden (CA)
Valdimar
Curtis Harding (US)
B-Ruff
Himbrimi
Kælan Mikla
Rozi Plain (UK)
Berndsen
Aurora (NO)
Kiriyama Family
Caterpillarmen
Kontinuum
CeaseTone
NAH (US)
Borko
Toneron
Kippi Kanínus
Sturla Atlas
Beebee and the bluebirds
In the Company of men
Dr Gunni
Trúboðarnir
TUSK
Lára Rúnars
Úlfur Úlfur
Súrefni
Grísalappalísa
Svartidauði
Þeir bætast í hóp fjölda listamanna sem áður hafa verið tilkynntir eins og Björk, John Grant og Sinfóníuhljómsveit Íslands, Mammút, Vök,
Father John Misty (US) Perfume Genius (US), GusGus, Skepta (UK), Júníus Meyvant, Ariel Pink (US), Bubbi og Dimma, Gísli Pálmi, Sleaford Mods (UK), M-Band, Batida (PT), Hinds (ES), Low Roar, Beach House (US),Fufanu, Teitur Magnússon, East India Youth (UK), Young Karin, Pink Street Boys, Mourn (ES), BC Camplight (UK), Asonat, Yagya, Dikta, The OBGM´s (CA), Tonik Ensemble, Ylja, Weaves (CA), Vök og dj flugvél og geimskip and many more.

Björk í Eldborg, Hörpu, laugardaginn 7.nóvember kl 15:00
Miðum á tónleika Bjarkar verður dreift til miðahafa Iceland Airwaves án endurgjalds föstudaginn 6.nóvember kl. 12 í Hörpu eftir „fyrstur kemur, fyrstur fær“ reglunni. Eitt armband = einn miði á Björk.

John Grant og Sinfó, fimmtudaginn 5.nóvember kl 20:00
Miðum á tónleikana verður dreift til miðahafa Iceland Airwaves án endurgjalds fimmtudaginn 5.nóvember kl. 12 í Hörpu eftir „fyrstur kemur, fyrstur fær“ reglunni.

Útgáfutónleikar Ultraorthodox

FALK hópurinn stendur fyrir útgáfutónleikum raftónlistarmannsins Ultraorthodox á Húrra í kvöld. Það er hliðarsjálf Arnars Más Ólafssonar sem áður plokkaði bassa í þungarokkssveitunum I Adapt, Gavin Portland og Celestine en nú hefur hann skipt út bassanum fyrir tölvuforrit og vélbúnað.

 

Frumraun hans í raftónlistinni, hljóðsnældan Vital Organs, er gefin út af FALK hópnum og inniheldur óm af hörðum málmtöktum, lágtíðni bassa og myrkum hljóðgerflum. Hljóðheimurinn er kaldur, vélrænn og drungalegur og minnir um margt á goðsagnakenndu Warp sveitina Autechre í byrjun tíunda áratugsins.

 

Á útgáfutónleikunum mun LV PIER hita upp salinn með biksvörtum trap töktum og ómstríðni, en FALKlimurinn KRAKKKBOT mun opna kvöldið og setja tóninn fyrir tónleikana. Rafsvallið verður eins og áður sagði á Húrra og hefst 21:00 en aðgangseyrir er 1000 krónur.

Straumur 29. júní 2015 – ATP sérþáttur

Straumur kvöldsins er helgaður ATP hátíðinni sem fram fer í Ásbrú um næstu helgi. Fjallað verður um bönd og listamenn á borð við Run The Jewels, Iceage, Mudhoney, Iggy Pop, The Field, The Bug, Belle and Sebastian og fleiri auk þess sem flutt verður viðtal við Michael Gira forsprakka hljómsveitarinnar The Swans. Straumur með Óla Dóra milli ellefu og tólf á X-inu 977!

Straumur 29. júní 2015 – ATP Iceland by Straumur on Mixcloud

1) Blockbuster Night Part 1 – Run The Jewels
2) Run Tee Jewels – Run The Jewels
3) Fight The Power – Public Enemy
4) Play For Today – Belle & Sebastian
5) Love Will Tear Us Apart – Swans
6) Remember – Iceage
7) Urban Guerilla – Mudhoney
8) Loose – Iggy Pop & The Stooges
9) A Paw In My Face – The Field
10) Void – The Bug
11) THe Modern Age – Chelsea Wolfe

Frumsýning á myndbandinu Stelpur með Jóni Þór!

Tónlistarmaðurinn Jón Þór sem áður gerði garðinn frægan í hljómsveitum á borð við Isidor, Lödu Sport og Dynamo Fog sendi fyrr í kvöld frá sér myndband við lagið Stelpur í leikstjórn Helga Péturs Hannessonar. Myndbandið var tekið upp í Barcelona í febrúar á þessu ári og lögðu þeir Helgi Pétur og Jón Þór upp með að fanga eins konar tímaskekkju af borg sem tekið hefur miklum breytingum undanfarna áratugi. Jón gaf út sína fyrstu sólóplötu árið 2012 og fylgir henni hér eftir með þessu lagi. Lagið er eitt af hressari lögum sem Straumur hefur heyrt á þessu ári og er svo sannarlega sterkur kandítat sem sumarlagið 2015.