Tónleikahelgin 3.-5. apríl

 

Fimmtudagur 3. apríl

 

Mono Town fagnar útgáfu frumburðar síns „In The Eye Of The Storm“ með veglegum tónleikum í Gamla Bíói. Sveitin mun koma fram með strengjasveit og kór en tónlistarmaðurinn Júníus Meyvant hitar upp. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og aðgangseyrir er 2900 krónur.

 

Bergur Thomas Anderson kemur fram á tónleikum í Mengi við Óðinsgötu. Bergur hefur getið sér gott orð sem bassaleikari með sveitum eins og Grísalappalísu, Oyama og Sudden Weather Change en hann hefur ekki komið fram einn síns liðs í þónokkurn tíma. Hann sækir efnivið í minningar, draumaóra, frjálsan spuna og einkennist flutningurinn af samtali sem stöðugt er í þróun. Gestum er því boðið í ský sem vex um sig og hverfur þegar á er litið. Aðgangseyrir er 2000 krónur og tónleikarnir hefjast klukkan 21:00.

 

Í Grafarvogskirkju verður fyrsta kvöldið af þremur þar sem Megas flytur lög sín við Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Með Megasi verður einvalalið tónlistarfólks úr ýmsum áttum; Moses Hightower, CAPUT-hópurinn, Magga Stína, stór rokksveit, strengjasveit og þrír kórar. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og aðgangseyrir er 3.900 krónur.

 

Hemúllinn stundar samfélagsrýni af hörðust sort á Dillon í tilefni af því að aprílmánuður er nýhafinn. Stungið verður á kýlum og landlæg spilling upprætt með tölvupönki. Herlegheitin hefjast klukkan 22:00 og aðgangur er ókeypis.

 

Föstudagur 4. apríl

 

Rappkonukvöld verður haldið á Harlem en þar munu Reykjavíkurdætur koma fram í sameiningu og frumflytja nýtt lag. Þá munu meðlimir þeirra einnig flytja eigið efni, sóló og í pörum, en Sunna Ben þeytir skífum á milli atriða. Kvöldið hefst klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

 

Soizic Lebrat kemur fram í mengi og flytur verk sitt Blue Solo. Lebrat er franskur sellóleikari sem hefur leikið ‘Bleu Solo’ verkið á fjölda listahátíða frá því hún frumflutti það á Nexmap – Binary City hátíðinni í San Francisco listahátíðinni 2010. Flutningurinn hefst klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Skúli mennski ætlar að mæta örlögum sínum á Café Rosenberg. Með honum verða góðir menn og óhætt að segja að enginn verði illa svikinn af því að mæta og leggja við hlustir. Hefst klukkan 22:00.

 

Eyðimerkurrokkararnir í Brain Police koma fram á tónleikum á Dillon. Leikar hefjast 22:00 og 500 krónur veita aðgang að þeim.

 

Elín Helena og Muck koma fram á Bar 11. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.

 

Laugardagur 5. apríl

 

Úrslitakvöld Músíktilrauna fer fram í Norðurljósasal Hörpu. Viðburðurinn hefst klukkan 17:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur.

 

DÓH tríóið kemur fram í Mengi við Óðinsgötu. Það er samansett af Helga Rúnari Heiðarssyni á saxófón, Daníel Helgasyni á gítar og Óskari Kjartanssyni á trommur sem allir er nýútskrifaðir úr Tónlistaskóla FÍH. Hljómsveitin hefur fengið mikið lof fyrir tónleika sína þar sem mikið er lagt uppúr dínamík, allt frá hvíslandi tónum upp í orkumikla spennu. Tríóið leikur lög úr ýmsum áttum, m.a. frumsamið efni þar sem spilagleði og spuni fær að njóta sín. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Það verða þungarokkstónleikar á Gauk á Stöng en fram koma Momentum, Angist, Malignant Mist og Future Figment. Þetta hefst klukkan 22:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur.

Þeir Pétur Ben og Rúnar Þórisson koma fram á tónleikum á Bar 11 ásamt gestum. Tónleikarnir hefjast klukkan 23:00 og það er ókeypis inn.

Spennumælir: It’s Album Time með Todd Terje

Norsarinn Todd Terje hefur í yfir áratug verið einn af fánaberum hinnar svokölluðu geimdiskó-senu ásamt samlöndum sínum Lindstrom og Prins Thomas. Sá geiri keyrir mikið á samruna diskótónlistar og bernskuára raftónlistarinnar, retrófútúrisma með áherslu á  rómantíska framtíðarsýn 7. og 8. áratugarins á tækniframfarir og geimferðir. Hugsið um kokteilboð í skýjaborginni úr Empire Strikes Back, diskótek í Deep Space Nine geimstöðinni, grafíkina á Moon Safari plötunni og búningahönnun og leikmynd Barbarellu.

 

Hann hefur getið sér gott orð fyrir ep-plötur og smáskífur á borð við Eurodans, Ragysh, Here come the Arps og nú síðast Inspector Norse sem tröllreið öllum dansgólfum sem fætur á festi sumarið 2012. Þá liggja eftir hann tugir ef ekki á annað hundrað endurhljóðblandanir, bæði af gömlum diskósmellum og nýrri listamönnum. En þrátt fyrir langan feril hefur hann aldrei áður reynt við breiðskífuformið fyrr en nú, á plötu sem ber hinn sjálfsmeðvitaða og galsafulla titil It’s Album Time … with Todd Terje.

Ástæðan fyrir þessum langa biðtíma er augljóslega ekki skortur á efni heldur að hann vildi vanda til verka og árangurinn er auðheyrður. Þetta er ekki samansafn af smáskífum heldur breiðskífa með stóru B- og R-i og áherslu á breidd. Hún hefur upphaf, miðju, endi og útpældar brýr og uppbyggingar þar á milli. Á plötunni er Terje er með annan fótinn á ströndinni en hinn út í geimi. En svo er hann líka með fullt af aukafótum sem hlaupa um dansgólf, kokteilboð, kvikmyndir, karnívöl og bara hvert sem þeim og Terje sýnist. Hann er tónlistarmaður með húmor fyrir sjálfum sér – en hann tekur húmorinn alvarlega og af barnslegri einlægni frekar en útjaskaðri kaldhæðni.

 

Upphafs- og titillagið er eins og tónlistin áður en tjaldið fellur og sýningin byrjar, upptaktur sem er ætlað að skapa eftirvæntingu. Leisure Suit Preben er fágaður lounge-djass með kosmískum undirtónum og Alfonso Muskedunder er 70’s spæjarafönk af bestu sort sem hljómar eins og eitthvað úr smiðju argentínska kvikmyndatónskáldsins Lalo Schifrin. Delorean Dynamite flýgur með þig upp fyrir gufuhvolfið og í fullkomnum heimi væri Strandbar þematónlist Ibiza frekar en David Guetta.

Terje sannar á plötunni að hann er algjört sándséní og hljóðheimurinn er hreint út sagt virtúósó. Þar dansa sembalar samba við sílófóna og bongótrommur bjóða léttfönkuðum gíturum upp í villtan vals. Í honum má líka finna píanó, strengi og örugglega tugi fermetra af effektarekkum sem líma alla þessa mismunandi parta saman. En hryggjarstykkið er samt hljóðgervlarnir sem eru undirliggjandi og alltumlykjandi og Todd Terje er yfirburðarmaður í þeirri deild. Hljómurinn stundum bjartur og tær eins og lækir í vorleysingum eða ægidjúpur bassi úr botni Kyrrahafsins. Synþarnir  hljóma sitt á hvað eins og geimskip í flugtaki, ölduniður eða geislabyssur, allt eftir því hvaða andrúmslofti lagið kallar eftir. Sólóið í Preben goes to Acapulco á eftir að framkalla bros út að eyrnasneplum og glott upp að hársverði hjá öllum með púls sem á það hlýða.

Um miðbik plötunnar róar hann hana niður með hægasta tempóinu og eina sungna laginu, Johnny and Mary, sem Bryan Ferry ljær rödd sína og aldraðan elegans. Það líður þó ekki á löngu áður en hann keyrir allt í gang aftur og Swing Star Pt. 1 og 2 eru crescendó-ið yfir í lokahluta verksins. Oh Joy er sjö mínútna lúxusútsýnisferð um fjarlægar vetrarbrautir og innan þess má finna kjarnað þykkni af Giorgio Moroder, Vangelis, Jean Michel Jarre og Yellow Magic Orchestra. Lotningarfullur virðingarvottur við synþameistara fortíðarinnar og það lag á plötunni sem er mest í anda I Feel Space, flagggeimskips senunnar sem Lindstrom lagði úr höfn með fyrir ríflega tíu árum síðan.

Rúsínan í háfleygum pylsuendanum er svo Inspector Norse sem með sínu hoppandi skoppandi sci-fi diskói gæti fengið hreyfihamlaðan mann til að rísa upp úr hjólastólnum og valhoppa í takt. Það sem einkennir plötuna er tilgerðarlaus og óbeisluð gleði ásamt óskammfeilnum tilvísunum í ótöff tónlistarstefnur sem eru miklu meira hylling en hæðni. Platan er heilsteypt og aðgengileg og á erindi til aragrúa fleiri en venjulegra raftónlistarhausa. Þetta tónlistarár þarf að vera virkilega gott ef að þetta telst ekki með því allra besta sem gerðist á því við lok þess. Todd Terje hefur með þessum fljúgandi diski tekið forystuna í geimkapphlaupinu.

It’s Album Time with Todd Terje: 21 Volt af 24 mögulegum.

Davíð Roach Gunnarsson

Lady Boy Records 004

Útgáfufyrirtækið Lady Boy Records sem stofnað var í fyrra gaf í gær út sína aðra  safnplötu Lady Boy Records 004. Að plötuútgáfunni standa þeir Frímann Ísleifur Frímannsson og Nicolas Kunysz og kom safnplatan út á kassettu í 50 eintökum. Fist Fokkers, AMFJ, Dj. Flugvél og geimskip eiga lög á plötunni ásamt fleirum. Hlustið hér fyrir neðan

Aldrei fór ég suður 2014 listi

Tíu ára afmælishátíð Aldrei fór ég suður fer fram á Ísafirði dagana 18. og 19. apríl næstkomandi. Umstillingarnefnd hátíðarinnar tilkynnti fyrr í dag listamennina sem koma fram í ár.

★ Cell7
★ Contalgen Funeral
★ Dj. Flugvél og geimskip
★ Dusty Miller
★ Glymskrattinn
★ Grísalappalísa
★ Helgi Björnsson og stórsveit Vestfjarða
★ Hemúllinn
★ Hermigervill
★ Highlands
★ Kaleo
★ Kött grá pjé
★ Lína Langsokkur
★ Lón
★ Mammút
★ Markús and the Diversion Sessions
★ Maus
★ Retro Stefson
★ Rhythmatic
★ Rúnar Þórisson
★ Sigurvegarar músíktilrauna 2014 (að því gefnu að þeir vilji koma)
★ Snorri Helgason
★ Sólstafir
★ Tilbury
★ Þórunn Arna Kristjánsdóttir og búgíband Skúla mennska

Lag og plata frá Jack White

Jack White tilkynnti í dag að von væri á nýrri breiðskífu frá kappanum sem mun heita Lazaretto en hans fyrsta sólóskífa, Blunderbuss, kom út árið 2012. Við sama tilefni afhjúpaði hann eitt laga plötunnar, High Ball Stepper, sem er þó ekki fyrsta smáskífan, en það er án söngs. Platan kemur út þann 9. júní næstkomandi en von er á fyrstu smáskífunni síðar í apríl. Þrátt fyrir að vera ósungið sver lagið sig í ætt við það besta sem hefur komið frá honum og White Stripes, töffaraleg og djúpblúsuð sveifla með miklum gítarfimleikum þar sem bjögunin er keyrð í botn. Þá eru einhvers konar indíánaóp í því líka sem minna talsvert á vestrameistarann Ennio Morricone. Hlustið á lagið hér fyrir neðan.

Straumur 31. mars 2014

Í Straumi í kvöld kíkjum við væntanlegar plötur frá Todd Terje og Mac DeMarco. Auk þess sem við skoðum nýtt efni frá Darkside, Gus Gus, Wye Oak og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld á slaginu 23:00 á X-inu 977.

Straumur 31. mars 2014 by Straumur on Mixcloud

1) Alfonso Muskedunder – Todd Terje
2) Crossfade – Gus Gus
3) Preben Goes to Acapulco – Todd Terje
4) Swing Star (Part 1) – Todd Terje
5) Swing Star (Part 2) – Todd Terje
6) Water Fountain – tUnE-yArDs
7) Digital Witness (Darkside remix) – St. Vincent
8) Salad Days – Mac DeMarco
9) Let Her Go – Mac DeMarco
10) Goodbye Weekend – Mac DeMarco
11) Heartless – Sean Nicholas Savage
12) Specters – kimono
13) All I Got – RAC
14) Before – Wye Oak
15) Bein’ Around (Lemonheads cover) – Courtney Barnett

Hlustaðu á nýja GusGus lagið

Rétt í þessu var nýjasta smáskífa GusGus að detta á internetið. Lagið heitir Crossfade en það hefur heyrst á tónleikum með sveitinni undanfarið rúmt ár. Lagið er ljúfsár og taktfastur óður til danstónlistar og DJ-menningar, hlaðinn nostalgíu og fögnuði. Það verður á breiðskífu með sveitinni sem er væntanleg síðar á árinu. Síðasta plata GusGus, Arabian Horse, kom út árið 2011 og hlaut einróma lof gagnrýnenda, grúskara og meginþorra almennings. Hlustið á lagið hér fyrir neðan.

Tónleikahelgin 27. – 29. mars 2014

Fimmtudagur 27. mars 2014

Systurnar í SamSam halda tónleika á Rosenberg. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl.20.30 og er miðaverð 1500 krónur.

Markús and Diversion Sessions & Per: Segulsvið koma fram á Café Ray Liotta við Hverfisgötu 26. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

Á Bravó fer fram Heiladans númer 33. G. Larsen / Snooze Infinity / Epic Rain / It Is Magic koma fram og byrjar dansinn á slaginu 21. Ókeypis inn.

Hljómsveitirnar Bob, Strigaskór nr. 42 og The Cocksuckerband halda tónleika á Gauk á Stöng. Tónleikarnir hefjast klukkan 21 og það kostar 1000 kr. inn.

Urban Lumber frumsýna nýtt myndband á Hressó og halda tónleika strax á eftir. Myndbandið verður sýnt klukkan 23:00 og það er frítt inn. Mosi sér um upphitun.

 

 

Föstudagur 28. mars 2014

Reykjavíkurdætur og Dj Flugvélar og geimskip koma fram á tónleikum Undiröldunnar klukkan 17:30 Í Hörpu. Ókeypis aðgangur

Kaleo spila á tónleikum á Dillon. Það kostar 500 kr inn og hefjast tónleikarnir klukkan 22:00

 

 

 

Laugardagur 29. mars 2014

Hlustið á Bryan Ferry með Todd Terje

Norski geimdiskóboltinn Todd Terje gerði nýverið lagið Johnny And Mary aðgengilegt,  en í því nýtur hann aðstoðar flauelsbarkans og fyrrum Roxy Music söngvarans Bryan Ferry. Lagið er ábreiða af lagi enska söngvarans Robert Palmer og verður á væntanlegri breiðskífu Todd Terje, It’s Album Time, sem kemur út 8. apríl. Terje hefur þó áður unnið með Bryan Ferry en hann hefur endurhljóðblandað lögin Love is the Drug, Don’t Stop the Dance og Alphaville með Roxy Music. Hlustið á lagið hér fyrir neðan ásamt Delorean Dynamite sem einnig verður á plötunni. Þá látum við endurhljóðblöndun Todd Terje af Love is the Drug fylgja í kaupbæti.


Neutral Milk Hotel spila í Hörpu

Hin goðsagnakennda bandaríska indísveit Neutral Milk Hotel er væntanleg til landsins í sumar og mun leika á tónleikum í Silfurbergssal Hörpu þann 20. ágúst. Hljómsveitin er frægust fyrir plötuna In an Aeroplane over the Sea sem kom út árið 1998 en stuttu eftir úgáfu hennar lagðist hún í langan dvala og er fyrst núna að koma saman aftur. Miðasala á tónleikana hefst 5. apríl á harpa.is en upphitun verður tilkynnt þegar nær dregur. Hlustið á upphafslag In an Aeroplane over the Sea hér fyrir neðan.