Tónleikar helgarinnar 10. – 12. mars 2016

Fimmtudagur 10. mars

Þjóðlagatónlistarhátíðin Reykjavík Folk Festival verður haldin í Gym og Tónik salnum í Kex Hostel við Skúlagötu dagana 10.-12. mars 2016.

20:00 Elín Ey

21:00 Valdimar & Örn Eldjárn

22:00 Sóley

Tónlistarmaðurinn Indriði kemur fram á Loft Hostel ásamt Arnari Sig. Það er ókeypis inn og hefjast tónleikarnir klukkan 20:30.

Hljómsveitin Wesen kemur fram á Hlemmur Square. Það er frítt inn og hefjast tónleikarnir klukkan 21:00.

Föstudagur 11. mars

Þjóðlagatónlistarhátíðin Reykjavík Folk Festival heldur áfram í Gym og Tónik salnum Kex Hostel:

20:00 Ellen Kristjáns & Eyþór

21:00 Ragga Gröndal

22:00 Bangoura Band

Bíó Paradís og útvarpsþátturinn Straumur kynna: B Movie: Lust & Sound in West Berlin (1979-1989) föstudaginn 11. mars klukkan 20:00. Mynd um listir, tónlist og óreiðu í hinu Villta Vestri Berlínar á níunda áratugnum, en borgin var svo sannarlega suðupottur fyrir jaðar- og popp menningu á þeim tíma.

Annar hluti tónleikaseríunnar HMM:X. fer fram á Gauknum klukkan 21:00. HMM:X verður haldið mánaðarlega á helstu tónleikastöðum Reykjavíkur og aðgangseyrir alltaf 1000 krónur. Í kvöld koma fram: Kælan Mikla : Kvöl : Hatari : Necro Bros

House-tónlistar útgáfan Lagaffe Tales heldur sitt þrettánda label-kvöld á Kaffibarinum. Austuríski tónlistarmaðurinn Moony Me kemur fram en hann gaf nýlega út tveggja laga smáskífu hjá útgáfunni að nafni Fountain Grooves. Kvöldið hefst klukkan 22:00 og það er frítt inn.

Laugardagur 12. mars

Þjóðlagatónlistarhátíðin Reykjavík Folk Festival heldur áfram í Gym og Tónik salnum Kex Hostel:

20:00 Ingunn Huld

21:00 Skuggamyndir frá Býsans

22:00 Högn Egilsson

Alþýðusamband Íslands verður 100 ára 12. mars 2016 og býður af því tilefni til sannkallaðra stórtónleika í Eldborgarsal Hörpu. Frábærir listamenn munu koma fram til að fagna þessum tímamótum: Retro Stefson, Mannakorn, Valdimar, Hundur í óskilum, Mammút og Lúðrasveit Verkalýðsins. Kynnar verða þeir Hannes og Smári aka Halldóra Geirharðsdóttir og Ólafía Hrönn Jónsdóttir. Miðar verða afhentir á tix.is og harpa.is. Húsið opnar kl. 19:30 og tónleikarnir hefjast kl. 20:00

Straumur 7. mars 2016

Í Straumi í kvöld verður fjallað um nýtt efni frá Kendrick Lamar, Poliça, M83, Health, Flume og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld klukkan 23:00 á X-inu 977.

1) Do It, Try It – M83
2) One More – Weaves
3) Well But Strangely Hung Man – Sonny & The Sunsets
4) J.B.Y. – David August
5) Never Be Like You (Disclosure remix) – Flume
6) I’m In Control (The Magician remix) – Aluna George
7) Someway – Poliça
8) Fish – Poliça
9) untitled 03 | 05.28.2013. – Kendrick Lamar
10) untitled 08 | 09.06.2014. – Kendrick Lamar
11) You Are The Sunshine Of My Life – Jack White & The Electric Mayhem
12) Things Are Moving – Angry Angles
13) Nobody’s Baby – Sheer Mag
14) Your Best American Girl – Mitski

Die Antwoord á Secret Solstice

Suður-afríska hljómsveitin Die Antwoord mun koma fram á tónlistarhátíðinni Secret Solstice sem fram fer í þriðja sinn í Laugardalnum 16. – 19. júní í sumar. Alls voru 31 ný atriði tilkynnt núna í morgun:

Die Antwoord [ZA] Flatbush Zombies [US] Art Department [CA] St Germain [FR] General Levy [UK] Slow Magic [US] M.O.P [US] Hjaltalín [IS] Stacey Pullen [US] Troyboi [UK] Paranoid London [UK] Gísli Pálmi [IS] Novelist [UK] XXX Rottweiler [IS] Robert Owens [US] Maher Daniel [CA] Reykjavíkurdætur [IS] Jack Magnet [IS] Nitin [CA] Lord Pusswhip & Svarti Laxness [IS] KSF [IS] Alexander Jarl [IS] Fox Train Safari [IS] Geimfarar [IS] Marteinn [IS] ILO [IS] Sonur Sæll [IS] Brother Big [IS] Rob Shields [UK] Balcony Boyz [IS] Will Mills [UK]

Myndbands frumsýning: Antimony

Hljóðgervlapopp-sveitin Antimony var að senda frá sér myndband við lagið Derelicte  í leikstjórn Helga Péturs Hannessonar. Hljómsveitin sem skipuð er þeim Rex Beckett, Sigurði Angantýssyni og Birgir Sigurjóni Birgissyni var tilkynnt í dag ásamt Sigur Rós til þess að spila á Citadel Festival í London í júní. Fyrsta plata Antimony Wild Life kemur svo út á svipuðum tíma.

Texti lagsins, Derelicte sem samin var af Rex og sungin bæði af henni og Birgir á ensku og frönsku, fjallar í stuttu máli um þá einangrun og einmannaleika sem fylgir því að flytja í nýja borg en Rex flutti til Reykjavíkur frá Montreal árið 2009.

mynd: Ryan Ruth

Straumur 29. febrúar 2016

Í Straumi í kvöld verður fjallað um nýtt efni frá Santigold, Jamie Woon, Leon Vynehall, Kero Kero Bonito og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld klukkan 23:00 á X-inu 977.

1) Can’t Get Enough of Myself – Santigold
2) Big Boss Big Time Business – Santigold
3) Rendezvous Girl – Santigold
4) I Love Kanye (T.L.O. preemix) – DJ Premier
5) Kiburu’s – Leon Vynehall
6) Sharpness (Kaytranada edit) – Jamie Woon
7) Lipslap – Kero Kero Bonito
8) Hold Me Closer – Yuck
9) Only Silence – Yuck
10) Perfume – Guerilla Toss
11) Zastroszy – Phédre
12) Hoover – Yung Lean
13) Hello, I’m a Ghost – Wussy
14) Guarantee Jesus – Attic Abasement

Upptakan af þættinum mistókst því miður

Tónleikahelgin 26.-27. febrúar

Föstudagur 26. febrúar

 

Tímaritið Reykjavík Grape stendur fyrir tónleikum á Húrra þar sem Singapore Sling koma fram. Töffararokkið hefst 22:30 og það kostar 2000 krónur inn.

 

Söngkonan, þeremínleikarinn og lagahöfundurinn Hekla Magnúsdóttir fram í Mengi þar sem hún mun syngja og spilar á þeremínið sitt lög af væntanlegri plötu. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Listahópurinn FALK (Fuck Art Lets Kill) stendur fyrir myrkramessu á Dillon. Fram koma Hið Myrka Man, Fredi Sirocco, AMFJ og Döpur. Messan hefst 21:00 og það er ókeypis inn en plötur, kasettur, bolir og skart verður til sölu á staðnum.

 

Laugardagur 27. Febrúar

 

Japanski raftónlistarmaðurinn Daisuke Tanabe kemur fram í Mengi. Tanabe hefur vakið mikla athygli fyrir tónlist sína þar sem saman renna hipp-hopp, raftónlist, djass og þjóðlagatónlist svo úr verður mjög frumleg og sérstæð blanda. Tónleikar hans byrja 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Hljómsveitin Ceasetone verður með frumsýningarpartý og kveðjutónleika á Loft Hostel. Sveitin hyggur á strandhögg í Bandaríkjunum á næstunni og mun meðal annars koma fram á South By Southwest hátíðinni í Austin. Þá verður frumsýnt tónlistarmyndband við lagið Bright Side. Hefst 20:00 og ókeypis inn.

 

Bandaríska harðkjarnasveitin Driftoff kemur fram á Dillon. Great Grief, We Made God og Skerðing hita upp. Fyrsta band fer á svið 21:30 og aðgangseyrir er 500 krónur.

Laugardagskvöld á Sónar

Á þriðja degi Sónarsins var ég mættur í Hörpu klukkan 8 að sjá nýstyrnið Karó í Norðurljósasalnum. Hún söng munúðarfullt og nútímalegt R og B ásamt hljómsveit sem innihélt meðal annars Loga Pedro sem pródúserar hana. Næstur á svið í sama sal var svo einn efnilegasti rappari landsins um þessar mundir, GKR. Hann kom fram klæddur í hvítt frá toppi til táar og lék á alls oddi. Hann rappaði af lífs og sálarkröftum og hoppaði og skoppaði fram og til baka um allt sviðið. Það er ekki vottur af tilgerð í honum og einlægnin og gleðin yfir því að vera á sviðinu þetta kvöld skein úr hverju orði og hreyfingu.

 

Ég hélt mig á sama stað en Sturla Atlas var næstur á svið og þá var aldeilis búið að fjölga í salnum og æskan söng hástöfum með 101 Boys og San Fransisco. Ég náði nokkrum mínútum af settinu hans B-Ruff á Sonarpub sem spilaði hip hop skona raftónlist þar sem rímix af Dead Prez gladdi mig mikið.

 

Hudson droppar

 

Ofurpródúserinn Hudson Mohawke var næstur í Silfurbergi og maxímalista trap-tónlistin hans fékk allan salinn á hreyfingu. Það voru bassadrop, massív ljós og taumlaus gleði. Koreless spilaði tilraunakennda raftónlist sem ég kann ekki að skilgreina í Kaldalóni en hún var tilkomumikil engu að síður.

 

Ég náði nokkrum lögum af settinu hjá Boys Noiz í Silfurbergi sem spilaði gróft elektró sem tók mig aftur til ársins 2007 þegar Justice og svipaðar sveitir voru upp á sitt besta. Upphrópunarmerkin þrjú lokuðu svo kvöldinu með fönkaðri og grúví danstónlist sem fór beint í útlimina.

 

Sérstaða Sónar

 

Fjórða Sónarhátíðin fór einstaklega vel fram og það er mikið gleðiefni fyrir unnendur framsækinnar tónlistar að hún hafi náð að festa sig í sessi í íslensku tópnlistarlífi. Þar sem áður var bara Iceland Airwaves höfum við nú fjórar stórar alþjóðlegar hátíðir á tónlistarárinu sem eru allar ólíkar í fókus og umgjörð. Sónar hefur þar algjöra sem felst í fókus á raftónlist/hiphop, frábæru hljóð og einstökum metnaði í sjónrænni umgjörð tónleika. Á engri íslenskri hátíð hef ég séð jafn flott ljós og vídjóverk og á Sónar, og allir tónleikarnir eru í Hörpu sem er langsamlega besta hús landsins þegar kemur að hljóði. Takk fyrir mig.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Straumur 22. febrúar 2016

Í Straumi í kvöld verður fjallað um nýtt efni Animal Collective, FKA twigs, Little Scream og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld klukkan 23:00 á X-inu 977.

1) FloriDada – Animal Collective
2) The Burglars – Animal Collective
3) Run Run Run (Velvet Underground cover) – Julian Casablancas
4) Sandalar – Prins Póló
5) The Big Big Beat – Azealia Banks
6) Við Notum Eiturlyf – Kef LAVÍK
7) Reminder – Moderat
8) Waves – Kanye West
9) Good To Love – FKA Twigs
10) Love as a Weapon – Little Scream
11) Emotional Rescue – St. Vincent
12) XXX Angel Dust XXX – LSDXOXO
13) Califormula (Taro Remix) – Blackbear
14) I Do – Bat for Lashes

Föstudagskvöld á Sónar

Mynd: Anita Björk. Squarepusher í Silfurbergi.

Ég hóf leikinn á öðrum í Sónar með því að sjá ofursveitina Gangly í Silfurbergi. Raddir Sinda, Úlfs og Jófríðar harmóneruðu með og án átótúns og framsækin trip hop bítin minntu um margt á hljóðheim Bjarkar og FKA Twigs. Á eftir þeim sá ég Tonik spila frábært sett á Sonarpub. Hann stóð fyllilega fyrir sínum án Harðar sem oft syngur með honum. Sándið hans er hlýtt og taktarnir uppfullir af hliðrænu braki og brestum. Þá átti Tumi saxafónleikar frábæra innkomu.

 

Kraftwerk + Rokk + Bach

 

Apparat Organ Quartet fóru á kostum í Silfurbergi. Þeir byrjuðu í rokkaðri keyrslu og héldu fullum dampi þegar fram leið eins og vel smurð dísilvél. Sándinu þeirra og sviðsframkomu mætti lýsa sem Kraftwerk + Rokk + Bach, sem er ansi gott reikningsdæmi. Ég rölti svo yfir í Norðurljósasalinn á Vaginaboys sem voru að vinna með nýtt live setup. Einn hljómborðsleikari og nokkrir gaurar með klúta fyrir andlitunu sem stundum sátu við tölvu eða bara röltu um sviðið. En tónlistin var ægifögur, nokkurs konar vangalög nýrrar kynslóðar. Svo var ótrúlega flottum myndböndum varpað á tjald, þau voru eins og tónlist Vaginaboys væmin, klámfengin og listræn í jöfnum hlutföllum.

 

Næst sá ég svo tónlistarkonuna Holly Herndon sem var mjög sérstök upplifun. Þetta var brotakennd og yfirdrifið agressív raftónlist mörkuð af áunnum athyglisbresti internetkynslóðarinnar. Hún vann mikið með eigin rödd live og klippti, beyglaði og teygði í allar áttir. Þá hafði hún tölvugaur meðferðis sem skrifaði texta á tölvuna í rauntíma sem birtis á tjaldi fyrir aftan þau og vann með mjög framúrstefnulega vídjóverk. Þá náði ég nokkrum lögum með Floating Points sem voru með live band og spiluðu danstónlist með djass- og krautrokkáhrifum.

 

Hljóð- og sjónræn hryðjuverk

 

Þá var röðin komin Oneohtrix Point Never í Norðurljósasalnum en ekkert hafði undirbúið mig fyrir þá upplifun. Þetta var tónlist sem tengir fram hjá sálinni og miðar beint á líkamann. Þú finnur fyrir henni á húðinni. Þetta er list sem er hafin yfir einfaldar skilgreiningar eins og „taktar“ og „melódíur“ og er eiginlega bara einn allsherjar samruni. Svo voru þeir með strobeljós sem voru svo öflug að ég held þau hafi verið kjarnorkuknúin. Ég var á tímabili hræddur um að skemma í mér augun. Oneohtrix Point Never framkvæmdu hljóð- og sjónræn hryðjuverk á skynfærum saklausra áhorfenda þetta kvöld og það var unun að vera fórnarlamb þeirra.

 

Squarepusher kom fram grímuklæddur og flutti sína snældutrylltu tónlist af fádæma öryggi. Hann er meistari taktsins, tekur hann í sundur live eins og legókubba og raðar saman aftur á endalausa frumlega vegu. Eftir uppklappið kom hann svo fram grímulaus og tók upp sitt aðalhljóðfæri, bassann, og grúvaði inn í nóttina. Þá var bara eftir að loka kvöldinu með ferð í bílastæðakjallarann að hlýða á plötusnúðinn Bjarka. Þar var niðamyrkur og steinhart dýflissutekknó í gangi og troðstappaður kjallarinn dansaði inn í eilífðina.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Fimmtudagskvöld á Sónar

Angel Haze í Silfurbergi. Mynd: Brynjar Snær

 

Ég hóf leikinn í myrkrakompunni Sonarlab sem er staðsett í bílastæðakjallara Hörpunnar. Fáir voru mættir um kvöldmatarleytið þegar fyrstu atriðin hófust en plötusnældan Julia Ruslanovna spilaði þokkafullt tekknó sem fengu fyrstu hræður kvöldsins til að hreyfa sig, en dansinn átti eftir að aukast umtalsvert eftir því sem kvöldinu leið fram.

 

Ég náði svo örfáum lögum með Vök í Silfurbergi þar sem stemmningin var myrk og tónlistin í anda the xx og Portishead með vænum skammti af saxafóni á völdum köflum. R’n’B söngvarinn Auður fór á kostum í Kaldalóni og flaut um sviðið með þokkafullum danshreyfingum og seyðandi söng. Hann er líka einn besti pródúser á landinu á sínu sviði og sándið hans minnir um margt á Weeknd, Frank Ocean og það besta sem gerist í þessum geira vestanhafs.

 

Reif í kjallarann

 

Í reifkjallaranum var Yamaho að matreiða hústónlist ofan í mannskapinn en talsvert hafði fjölgað í kjallaranum frá því fyrr um kvöldið og hreyfing komin á liðið. Ég náði svo í skottið á samstarfi Martin Kilvady & Mankan og Íslenska dansflokksins en í lok sýningarinnar fóru dansararnir af sviðunu og dönsuðu á meðal og jafnvel við áhorfendur á gólfinu í Norðurljósasalnum. Good Moon Deer var næstur í sama sal og hann hafði einnig nútímadansara með sér á sviðinu til stuðnings sundurklipptum töktum og annars konar rafsturlun.

 

En ég þurfti frá að hverfa til að sjá eitilhörðu rapppíuna Angel Haze í Silfurbergi. Hún var agnarsmá og mjó en með rödd og flæði á við Dettifoss á góðum leysingardegi. Gólfið nötraði undan bassanum og Angel Haze spítti út úr sér rímum á ógnarhraða og af fádæma krafti og öryggi. Eftir þessa bestu tónleika kvöldsins lá leið okkar enn og aftur í kjallarann þar sem Ellen Allien bauð upp á grjóthart tekknósett með miklum 90’s áhrifum. Ég dansaði í myrkrinu við ómstríðar hljómborðslínur, hvíslandi hæ-hatta, snerla sem slógu mig utan undir og bassadrunur sem fengu eistun til að titra.

 

Pall-íettu Power Ranger

 

Undir lok kvöldsins náði ég nokkrum lögum með Páli Óskari sem var eins og búast mátti við glysflugeldasýning kvöldsins. Hann kom fram í einhvers konar pallíettu Power Rangers galla og hafði sér til fulltingis fjóra dansara í diskókúlualbúningum. Glimrandi glimmerendir á skemmtilegu kvöldi. Í kvöld er það svo Oneohtrix Point Never, Squarepusher, Floating Points og fleiri, fylgist með áframhaldandi fréttum af Sónar á straum.is næstu daga.

 

Davíð Roach Gunnarsson