Fyrrum hljómborðsleikari Of Monsters and Men með nýtt band

Árni Guðjónsson hljómborðsleikari sem yfirgaf hljómsveitina Of Monsters and Men síðasta haust hefur nú stofnað rafpopphljómsveitina Blóðberg. Hljómsveitin hefur seinustu þrjá mánuði unnið að sex laga smáskífu þar sem sungið er bæði á íslensku og ensku. Upptökur fóru fram í Hljómi á Seltjarnarnesi og upptökustjórn var í höndum Páls Orra Péturssonar.

Meðlimir hljómsveitarinnar eru Valborg Ólafsdóttir (söngur), Árni Guðjónsson (hljómborð,synthar), Helgi Kristjánsson (slagverk, rafgítar og synthar), Hjörvar Hans Bragason (synthabassi, rafbassi) og Orri Guðmundsson (raftrommur).

Þau hafa komið víða við á sínum tónlistarferli og hafa leikið með hljómsveitum á borð við Lovely Lion, Ásgeiri Trausta, Ylju, Orphic Oxtra, Útidúr, Fjallabræður, Vicky og Of Monsters and Men.

Hlustið á fyrstu smáskífu Blóðberg – Óskir hér fyrir neðan. Á upptöku lagsins leikur Hrafnkell Gauti Sigurðsson á rafgítar en hann er þekktastur fyrir leik sinn í hljómsveitum á borð við Ojba rasta og Berndsen.

Tónleikar helgarinnar

Straum.is er snemma í því að þessu sinni að taka saman tónleika helgarinnar vegna þess að miðvikudagskvöldið er óvenju öflugt í tónleikahaldi í þessari viku. Lesið, njótið og mætið.

Miðvikudagur 10 júlí

Síðustu daga Faktorý nálgast nú óðum og undanfarið hafa ýmsir þekktir tónlistarmenn kvatt þennan ástkæra tónleikastað með því sem þeir kunna best, að halda hljómleika. Í kvöld munu Sin Fang og Pascal Pinion segja bless við Faktorý en tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur.

Hin aldna söngdíva Dionne Warwick syngur á stórtónleikum í Eldborgarsal Hörpu. Hana er óþarfi að kynna en ennþá eru til miðar á midi.is

Breski plötusnúðurinn Mixmaster Morris sem kominn er hingað til lands til að leika á Extrem Chill hátíðinni á Hellissandi mun þeyta skífum í plötubúðinni Lucky Records frá 16 til 19 í dag.

Grísalappalísa heldur útgáfugleðskap á Kex Hostel sem hefst klukkan 20:00. Glænýtt tónlistarmyndband verður frumsýnt og veigar verða í boði, auk þess sem reggísveitin Amaba Dama stígur á stokk. Aðgangur er ókeypis.

Fimmtudagur 11. júlí

Samaris halda útgáfutónleika á Volta af því tilefni að EP-plöturnar Hljómar Þú og Stofnar falla hafa nú verið gefnar út saman í einum pakka, en þær voru uppseldar og þess vegna ófáanlegar. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur, eða 2500 og þá fylgir geisladiskurinn með. Einnig koma fram Yagya og Dj Yamaho.

Skúli Mennski er nýkominn í bæinn eftir vel heppnaða tónleikaferð um landsbyggðina og til að fagna því slær hann upp uppskeruhátíð á Rósenberg. Þar munu Skúli mennski og Robert the Roommate tefla fram sínu allra besta eftir túrinn. Herlegheitin hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 1500.

Fjöllistahópurinn Tónleikur kemur fram á Loft Hostel. Leikurinn og leikarnir hefjast klukkan 20:30 og aðgangseyrir er enginn eins og venjulega.

Þetta kvöldið verða það rapparar sem sjá um að kveðja Faktorý þegar Forgotten Lores, Heimir BjéJoð (úr Skyttunum), B-Ruff og nýstirnið Kött Grá Pé leiða saman hesta sína og rímur. Dyrnar opnast 21:00, rappleikarnir hefjast klukkutíma síðar og það kostar 1500 inn, en stór bjór fylgir fyrir þá 150 fyrstu sem kaupa sig inn.

Klukkan 20:00 mun áhöfnin á Húna sigla til Reykjavíkur og halda risatónleika í Gömlu höfninni í Reykjavík. Sem fyrr ætlar áhöfnin að styrkja björgunarsveitirnar í landinu með því að gefa alla vinnu sína og rennur aðgangseyrir beint til björgunarsveitanna í Reykjavík. Téður eyrir er 1500 krónur en ókeypis er einn fyrir börn 12 ára og yngri.

Hljómsveitin Ylja spilar hugljúfa folk tónlist í gróðurhúsi Norræna hússins á ókeypis Pikknikk tónleikum klukkan 17:00.

Föstudagur 12. júlí

Hljómsveitin Bárujárn og tónlistarmaðurinn Jón Þór leiða saman bikkjur sínar og glamra á gaddavíra á Hressó í kvöld. Brimbrettarokksveitin Bárujárn gaf nýverið út sína fyrstu breiðskífu og fyrsta plata Jón Þórs, Sérðu mig í Lit, fékk góðar viðtökur þegar hún kom út seint á síðasta ári. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:30 og það er ókeypis inn en hægt verður að kaupa plötur af listamönnunum á staðnum.

Tónleikarnir Upp rís úr rafinu, sem helgaðir eru akústískri raftónlist, verða haldnir í Kaldalóni Hörpu klukkan 20:00. Þar munu tónskáldin Árni Guðjónsson, Bergrún Snæbjörnsdóttir, Finnur Karlsson, Gunnar Gunnsteinsson, Halldór Smárason og Haukur Þór Harðarson temja skepnur rafsins hver á sinn hátt svo þær leiki um skyn áheyrandans ýmist í samhljómi með akústískum hljóðfærum eða syngjandi einar síns liðs. Aðgangseyrir er 1500 krónur.

Að lokum er vert að minnast á tvær frábærar en mjög ólíkar tónlistarhátíðir sem hefjast báðar á föstudeginum, Raftónlistarveisluna Extreme Chill á Hellissandi á Snæfellsnesi og svo þungarokkshátíðin Eistnaflug sem haldin er á Neskaupstað. Hátíðirnar standa fram á sunnudag.

Laugardagur 13. júlí

Listamenn af Rauðasandi Festival 2013 ætla að þakka fyrir sig með tónleikum á Gamla Gauknum en fram koma Nolo, Babies, Amaba Dama og Hljómsveitt. Ballið hefst klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.

Síðasta fastakvöld RVK Soundsystem verður haldið á Faktory í hliðarsalnum og hefst það að venju á slaginu miðnætti.

Útgáfupartý Grísalappalísu

Fyrsta plata reykvísku sveitarinnar Grísalappalísu kemur út í dag og ber hún heitið Ali. Platan er ferskur andblær í íslenska tónlistarsenu, hrærigrautur af fönkuðu pönki, nýbylgju og súrkáli með íslenskum textum sem eiga meira skylt við ljóð en hefðbundna rokktexta. Í tilefni af útgáfunni verður haldið teiti á KEX Hostel klukkan 20:00 í kvöld en þá verður frumsýnt myndband við lagið Hver er ég? Léttar veigar verða í boði og hljómsveitirnar Amaba Dama og Létt á bárunni leika fyrir dansi og gleði.

Listahátíð á Stöðvarfirði

Pólar festival er tveggja daga lista- og frumkvöðlahátíð sem verður haldin á Stöðvarfirði næstu helgi. Hátíðin er haldin í samvinnu við Maður er manns gaman, sjálfbæra þorpshátíð sem hefur verið starfrækt á Stöðvarfirði undanfarin ár.

Pólar byggir á hugmyndafræði sem mætti þýða á íslensku sem hæfileikasamfélag (e. skillsharing).  Ætlunin er að  ná saman fólki úr ólíkum áttum og margvíslegum skapandi greinum til þess að deila reynslu sinni og þekkingu og rannsaka nýja möguleika í samvinnu, sköpun og framleiðslu. Dagskráin felst í stuttum og fjölbreyttum námskeiðum, fyrirlestrum og ýmsum listviðburðum.

Á laugardeginum verður svo slegið upp heljarinnar tónleikum þar sem diskóboltarnir í Boogie Trouble og lo-fi grallararnir í Just Another Snake Cult stíga á stokk ásamt trip hop sveitinni Urban Lumber.

Sampha sendir frá sér lag

Tónlistarmaðurinn Sampha hefur nú sent frá sér lagið „Without“ og er þetta er eitt af fyrstu lögunum sem hann gefur út aðeins undir sínu nafni. Sampha hefur unnið sér inn gott orð sem hægri hönd Aaron Jerome í SBTRKT  auk þess að hafa unnið náið með Jessie Ware og nýlega að lagi með Drake.
29. júlí mun Sampha  senda frá sér 6 laga EP-plötu undir titlinum Dual sem unnin er í samstarfi við útgáfufyrirtækið Young Turks og mun platan innihalda „Without“ auk 5 annara laga.

Straumur 8. júlí 2013

Í Straumi í kvöld heyrum nýtt efni með I Break Horses, AlunaGeorge, Postiljonen, Grísalappalísu, Plúseinum og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld á slaginu 23:00 á X-inu 977.

Straumur 8. júlí 2013 by Straumur on Mixcloud

1) ATM Jam (ft. Pharrell Williams) – Azealia Banks
2) Denial – I Break Horses
3) Bad Idea – AlunaGeorge
4) Reach Out Feel – Debukas
5) Slip – Baauer
6) Empire – Plúseinn
7) Plastic Panorma – Postiljonen
8) Atlantis – Postiljonen
9) Hver er ég? – Grísalappalísa
10) Kraut Í g – Grísalappalísa
11) All Is Well – Ras G & The Afrikan Space Program
12) Holy Grail (ft. Justin Timberlake) – Jay Z
13) Cape Town (Panama Remix) – Clubfeet
14) Be All Be Easy – Woods

POSTILJONEN gefa út lag og plata á leiðinni

Skandinavíska tríóið POSTILJONEN hefur sent frá sér lagið „Atlantis“ af væntanlegum frumburði þeirra Skyer sem kemur út 22. júlí. Hljómsveitin saman stendur af norsku söngkonunni Miu Bøe og fjölhæfu tónlistarmönnunum Daniel Sjörs og Joel Nyström sem koma frá Svíðþjóð. Skyer einkennist af ljúfu draumkenndu rafpoppi og ekki skemma saxafón sólóin og sumarlegir ambiant tónar fyrir sem minna helst á hljómsveitirnar M83 og Air. Mia Bøe bindur lögin vel saman með heillandi dularfullri rödd  sem gerir POSTILJONEN að seiðandi tónum sem vert er að gefa hlustun.
Þó enn séu rúmar tvær vikur í útgáfu Skyer er platan aðgengileg á Spotify og hægt er að gæða sér á henni í heild sinni þar.

Seinna kvöldið á ATP

Þegar ég mætti Atlantic Studios seinna kvöldið var eitursvali silfurrefurinn Jim Jarmuch á sviðinu með hljómsveit sinni Squrl. Lýsingin var myrk og ekki mikið um hreyfingu á sviðinu og tónlistin var hægfljótandi surgrokk í ætt við hljómsveitir eins og Galaxy 500. Þetta var ágætlega gert hjá þeim en samt var eins og vantaði einhvern frumleikaneista. Það verður líka að segjast eins og er að Jarmusch-inn er ekkert sérstakur söngvari. Sönglausu lögin voru best og stundum tókust þau á loft í töffaralegum fídbakk og fuzz köflum. Jarmuch er allavega talsvert betri á baki við kvikmyndatökuvélina en hljóðnemann.

Guð mætir á svið

Eftir að Squrl höfðu lokið sér af tók við rúmlega klukkutíma bið eftir manninum sem flestir voru komnir að sjá. Geði var blandað, hamborgurum sporðrennt og sígarettur reyktar á meðan að það tók að fjölga talsvert á hátíðarsvæðinu þegar líða dró nær tónleikunum. Það var greinilegt að Hellirinn trekkti að því talsvert meira af fólki var inni í Atlantic Studios rétt fyrir tónleikana en á kvöldinu áður. Þegar hljómsveitin var að koma sér fyrir var stigmagnandi eftirvænting í loftinu sem sprakk síðan út þegar Cave stormaði inn á sviðið, það var gærdeginum ljósara að einhvers konar guð var kominn í húsið. Cave spígsporaði um sviðið klæddur eins og ítalskur flagari í támjóum skóm, fjólublárri silkiskyrtu með svartlitað hárið sleikt beint aftur.

Hann byrjaði á tveimur lögum af sinni nýjustu plötu, Push The Sky Away. Flutningur sveitarinnar í Jubilee Street var óaðfinnanlegur, meðan Cave stjórnaði salnum eins og babtískur predikari. Alveg þangað til hann datt af sviðinu í lokakafla lagsins eins og þú hefur sjálfsagt lesið á hundrað vefmiðlum og horft á youtube myndbandið af tvisvar. Það sem mér fannst merkilegast var að hljómsveitin hélt áfram að rokka eins ekkert hefði í skorist og Cave stökk síðan aftur inn á sviðið mínútu síðar og byrjaði að hamra píanóið.

Kraftur á við Kárahnjúkavirkjun

Sérstaklega var gaman að fylgjast með Warren Ellis sem er með hártísku eins og rétttrúnaðargyðingur og fatastíl á við smekklegan heimilisleysingja. Hann þjösnaðist á fiðlu, gítar og þverflautu og reglulega henti hann fiðluboganum sínum upp í loftið eftir æsileg sóló. Það virtist vera starfsmaður hjá hljómsveitinni hvers helsta hlutverk var að hlaupa og ná í bogann aftur.

Sveitin spilaði í næstum tvo tíma, nýtt og gamalt efni í bland, og prógrammið innihélt marga af hans helstu slögurum eins og Weeping Song, Mercy Seat og Stagger Lee. Þetta eru listamenn og skemmtikraftar á heimsmælikvarða og krafturinn í Cave og slæmu fræjunum hans á þessum tónleikum hefði geta knúið heila Kárahnjúkavirkjun. Eftir að þeir löbbuðu út af sviðinu ærðustu áhorfendur í feikilegum fagnaðarlátum og ég hef sjaldan séð crowd  jafn ákveðið í uppklapp. Hljómsveitin lét vinna vel fyrir sér en komu loks aftur og tóku Red Right Hand. Eftir tónleikana var einróma samkomulag meðal allra sem ég talaði við að þetta hefðu verið stórfenglegir tónleikar og jafnvel þeir sem höfðu séð Cave oft áður voru sammála um að hann hefði aldrei verið betri.

Jane Fonda á bassa

Hjaltalín voru ekki öfundsverð að fylgja þessu eftir en gáfu sig öll í það og máttu vel við sitt una. Þau léku aðallega efni af sinni nýjustu og að mínu mati bestu plötu, Enter 4. Lágstemmd elektróníkin og nýklassískir strengir höfðu dáleiðandi áhrif og Högni og Sigríður Thorlacious harmóneruðu sem aldrei fyrr. Deer Hoof voru næst á dagskrá og skiluðu frábærlega sýrðu gítarrokki af mikilli innlifun. Söngkona og bassaleikari sveitarinnar fór á kostum og tók meðal annars dansspor sem minntu á Jane Fonda leikfimiæfingar. Eitt af skemmtilegum smáatriðum sem gera hátíðina sérstaka var að inni í Atlantic Studios var boðið upp á nudd sem ég skellti mér á og að horfa á heimsklassa rokktónleika meðan verið er að nudda mann er reynsla sem gleymist seint.

Súrkálsrokkuð trúarathöfn

Sonic Youth guðinn Thurston Moore tók sviðið næstur með sveit sinni Chelsea Light Moving og lék á alls oddi. Það var boðið upp á hávaða, gítarhjakk, og surg og allt saman hrátt, hratt og pönkað. Moore tileinkaði lög Pussy Riot, Roky Eriksson úr 13th floor elevators og skáldinu William Borroughs og virðist ekkert vera að tapa orkunni með aldrinum. Síðasta sveit kvöldsins var síðan ofurtöffararnir í Dead Skeletons. Við upphaf tónleikanna var listamaðurinn og leiðtoginn Jón Sæmundur að mála mynd af hauskápu á tréplötu og færðist allur í aukanna eftir því sem tónlistin þyngdist. Tónlist þeirra er drungaleg og svöl með vænum skammti af súrkálsrokki og drone-i. Þau dreifðu reykelsi út í sal og komu nánast fram eins og költ og tónleikarnir báru keim af trúarathöfn. Mjög hugvíkkandi reynsla og góður endir á frábæru kvöldi.

All Tomorrow’s Parties fór í alla staði mjög vel fram og skipuleggjendur eiga lof skilið fyrir framtakið. Umhverfið í kringum tónleikasvæðið var mjög skemmtilegt og stemmningin einstök. Það voru svona smáatriði eins og að boðið væri upp á nudd inni í Atlantic Studios, búlluborgara á svæðinu fyrir utan og óvæntir og pönkaðir tónleikar heimamannanna í Ælu á laugardeginum sem gerðu herslumuninn. Hljóð og lýsing á tónleikunum var til fyrirmyndar og tímasetningar á hljómsveitum í dagskrá stóðust alltaf. Það hefði þó verið skemmtilegt að sjá aðeins betri mætingu, sérstaklega á föstudeginum en það kom ekki að sök og vonandi verður hátíðin að árlegum viðburði í framtíðinni.

Davíð Roach Gunnarsson

Jamie T snýr aftur með reitt pönk

Ekkert hefur heyrst né spurst til breska tónlistarmannsins Jamie T síðan hann gaf út aðra plötu sína King & Queens árið 2009 fyrir utan smá daður þegar hann söng inn á lagið „Wrongful Suspicions“ um áramótin með pönkaranum Tim Armstrong úr hljómsveitinni Rancid. Jamie sem stundum hefur verið kallaður „one man Arctic Monkey“ er fjölbreyttur þegar kemur að tónsmíðum og er honum fátt heilagt en hann er helst titlaður sem hip-hop indí flytjandi. Hann sló í gegn með frumburði sínum Panic Prevention árið 2007 og var fyrir vikið tilnefndur til Mercury verðlaunanna auk þess að slá út mönnum eins og Jarvis Cocker og Thom York þegar hann vann til verðlauna sem besti sóló flytjandinn á NME verðlaununum árið 2007.
Hjólin virðast aftur vera farinn að snúast á ný hjá Jamie T og hefur Tribes leppurinn Johnny Lloyd sagt að hann sé þessa dagana að aðstoða Jamie við gerð nýrrar plötu. „ Ég er að spila með Jamie og hann er að klára nýja plötu. Þetta er frábært efni, mjög hægt og reitt pönk.“ Sagði Lloyd í samtali við NME.

Einstakt partý í Ásbrú – Fyrsta kvöld ATP

Fyrsta All Tomorrow’s Parties tónlistarhátíðin hér á landi er merkilegur viðburður í íslensku tónlistarlífi en hátíðin er þekkt fyrir einstakt andrúmsloft og metnaðarfulla dagskrá með áherslu á óháða tónlistarmenn. Stemmningin var vinaleg þegar ég mætti á svæðið eylítið seint og inni í Atlantic Studios skemmunni var Mugison að rokka úr sér lungun í lokalaginu. Veðrið skartaði blíðu og á planinu fyrir utan var hægt að kaupa sér mat og góð tónlist ómaði úr hátalarakerfinu.

Velkomin aftur

Múm voru næst að koma sér fyrir á sviðinu en tónleikar með þeim hér á landi eru fágæti sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Það kom mér skemmtilega á óvart að Gyða Valtýsdóttir, sem hætti í sveitinni fyrir meira en 10 árum síðan, var með þeim á sviðinu og söng við hlið Mr. Sillu ásamt því að spila á selló. Þá muldraði og kyrjaði Örvar í gegnum skrýtinn míkrafón og raddirnar þrjár hlupu hringi í kringum hvor aðra. Þau tóku meðal annars nýtt lag sem var drungalegt rafpopp í anda Bat For Lashes þar sem Gyða fór náttúruhamförum á sellóinu.

Á ‘etta og má’etta


Næstur á svið var aldraði nýbylgjufauskurinn Mark E. Smith, leiðtogi og einræðisherra hljómsveitarinnar The Fall. Þetta var með skrýtnari tónleikaupplifunum sem undirritaður hefur upplifað en skoðanir áhorfenda skiptust í andstæða póla um ágæti hennar. Smith ráfaði rallhálfur um sviðið og tuggði tyggjó af miklum móð milli þess sem hann spýtti textunum slefmæltur og drafandi út úr sér með óskiljanlegum Cockney hreim. Hljómsveitin hans var eins og vel smurð cadilac vél og dúndraði út groddaralegu póstpönki en Smith gerði hins vegar allt sem í hans valdi stóð til að angra þau.

Hann sparkaði niður trommumækum, glamraði á hljómborð, hækkaði og lækkaði í hljóðfærum á víxl og stundum bara ýtti hann við greyi hljóðfæraleikurunum. Hann virðist fara með hljómsveitina eftir „Ég á’etta, ég má’etta“ hugmyndafræði. Svo ekki sé minnst á að hann lítur út eins og Gollum og lét á köflum eins og sauðdrukkinn predikari. Hljómsveitin virtist gera sér fyllilega grein fyrir stöðu sinni í bandinu sem þrælar og voru ótrúlega þolinmóð gagnvart þessari fautalegu framkomu. Ég er kannski svona illa innrættur en ég hafði bara nokkuð gaman að sjónarspilinu. Þetta var allavega eitthvað sem maður sér ekki á hverjum degi.

Leðjan langt frá botninum
Botnleðja hafa engu gleymt og rokkuðu af sér punginn fyrir nostalgíuþyrsta áhorfendur í skemmunni. Þeir renndu í gegnum marga af sínum helstu slögurum ásamt nokkrum nýjum lögum, meðal annars því seinasta, sem hljómaði eins og handboltasigursöngur þar sem þeir nutu aðstoðar kórs. Áhorfendur tóku hins vegar best við sér í lögunum af Drullumalli og ætluðu þá bókstaflega að ærast. Í einu laginu kom síðan plötusnúðurinn og fyrrum meðlimurinn Kristinn Gunnar Blöndal og refsaði hljóðgervlinum sínum eins og rauðhærðu stjúpbarni, og hreinlega nýddist á pitchbend hjólinu af fádæma krafti.

Sýrulegnir byssumenn frá San Fransisco
The Oh Sees er sérkennilegur kvartett frá San Fransisco sem spila afar hressilega blöndu af sækadelic og garage rokki. Leiðtogi hennar, John Dwyer, lítur út eins og „surfer dude“ og hefur mjög sérstakan stíl á gítarnum, heldur honum hátt uppi á brjóstkassanum og mundar hann eins og riffill. Oft brast á með villtum spunaköflum þar sem mörgum gítarstrengjum var misþyrmt í ofsafengnu sýrusulli. Dwyer var hinn reffilegasti á sviðinu og hrækti á gólfið meðan trommuleikarinn var sem andsetinn í tryllingslegum sólóum. Þetta var svo sannarlega skynörvandi reynsla og bestu tónleikarnir þetta kvöldið.

Stórskotahríð á hljóðhimnur

Ég var svo eftir mig eftir Oh Sees að Ham bliknuðu nokkuð í samanburðinum en skiluðu þó sínu á skilvirkan og harðnákvæman hátt eins og þeirra er von og vísa. Það var nokkuð farið að fækka í skemmunni þegar annar borgarfulltrúi kvöldsins, Einar Örn, steig á svið ásamt Ghostigital flokknum. Óhljóðadrifið tekknó-ið sem þeir framleiða er ekki allra en ég kann vel að meta svona árás á hljóðhimnurnar. Abstrakt ljóð Einars Arnars hafa verið áhugaverð síðan hann var í Purrkinum en línur eins og „Ég er með hugmynd. Hún er svo stór að mig verkjar í heilann,“ gætu þó líst tilfinningum þeirra sem minnstar mætur hafa á hljómsveitinni.

Fyrsta kvöld hátíðarinnar var í flestalla staði stórvel heppnað; hljómsveitirnar voru góðar, sándið frábært og andrúmsloftið inni og úti alveg einstaklega afslappað og ólíkt öðrum tónlistarhátíðum sem undirritaður hefur sótt. Það var ekki vesen eða leiðindi á nokkrum manni, en þeim mun meira um bros og almennilegheit og gæslan hafði greinilega ekki mikið að gera. Atlantic Studios hentar greinilega einstaklega vel til tónleikahalds og það er vonandi að hún verði nýtt betur til slíks í framtíðinni. Fylgist vel á með á straum.is því umfjöllun um seinna kvöld hátíðarinnar er væntanleg á morgun.

Davíð Roach Gunnarsson