Tónleikar helgarinnar

Þessa síðustu helgi júlímánaðar er margt á döfinni í hljómleikahaldi á höfuðborgarsvæðinu og verður hér farið yfir helstu atriði sem endranær.

Miðvikudagur 24. júlí

Hljómsveitirnar Amiina og Sin Fang halda tónleika í Fríkirkjunni í Reykjavík klukkan 20:30. Báðar hljómsveitir hafa sent frá sér nýtt efni á árinu og hafa verið iðnar við tónleikahald erlendis, en ekki komið mikið fram á Íslandi. Aðgangseyrir er 2500.

Tónleikar til heiðurs alþjóðlega tungumálsins Esperantó verða haldnir á Gamla gauknum. Fram koma Sindri Eldon & The Ways og harmonikkuleikarinn Kimo sem spilar ska tónlist og syngur á esperantó. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

Bam Margera úr Jackass og Viva La Bam ásamt hljómsveitinni CKY kynna F***KFACE UNSTOPPABLE en þeir munu halda tónleika og ýmis uppátæki á Spot í Kópavogi. Vitleysingurinn Brandon Novak úr Jackass og Viva La Bam kemur einnig fram og hin frábæra íslenska hljómsveit Morðingjarnir munu taka sín bestu lög og sjá um að trylla lýðinn. Gleðskapurinn hefst klukkan 20:00 og aðgangseyrir er 4900 krónur.

Kvennarappkvöld verður haldið á 11-unni og hefst það klukkan 21:00.  Þar verður rappað, stappað, ljóðaslammað, sungið, spilað, bítboxað, spunnið, klappað og allur andskotinn að sögn skipuleggjanda. Fram kemur heill kvennaskari: Alvia Miakoda Islandia, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Þórdís Nadia Semichat, Solveig Pálsdóttir, Kolfinna Nikulásdóttir, Anna Tara Andrésdóttir, Katrín Helga Andrésdóttir, Agnes Björgvinsdóttir, La La Bitches!, Tinna Sverrisdóttir og fleiri nettar. Aðgangur eru ókeypis.

Fimmtudagur 25. júlí

Úr dimmum skúmaskotum Kópavogs, þar sem ungir pönkarar og vandræðaunglingar héngu áður fyrr mun nú aftur óma framandi tónlist. Hljóðgjörningafélagið HULK hefur hóað saman tónlistamönnum úr ýmsum áttum til að fylla undirgöngin undir Hamraborg (við Digranesveg) aftur af óhljóðum. Fram koma Rafmagnús, Mudd Mobb, Krakkbott og DJ Flugvél og geimskip. Ólætin hefjast klukkan 19:00 og standa fram eftir kvöldi og eru fríkeypis öllum sem mæta.

Fríða Dís Guðmundsdóttir spilar og syngur draumkennda tóna á ókeypis pikknikk tónleikum kl. 17:00 í gróðurhúsi Norræna hússins. Fríða Dís flytur efni af væntanlegri sóló plötu sinni en hún hefur starfað um árabil með hljómsveitunum Klassart og Eldum. Pikknikk tónleikarnir eru hluti af órafmagnaðri Pikknikk tónleikaröð sem haldin er á fimmtudögum í sumar. Veitingar eru seldar í afgreiðslu Norræna hússins og bornar fram í pikknikk körfum.

Íslandselskhuginn John Grant kemur fram á tveimur tónleikum á Faktorý sem eru á sínum lokametrum fyrir yfirvofandi lokun í Ágúst. Uppselt er á tónleikana sem hefjast klukkan 22:00 en vegna mikilla eftirspurnar var bætt við öðrum tónleikum klukkan 19:30 sem enn eru til miðar á en aðgangseyrir er 3000 krónur. Grant sendi frá sér sýna aðra breiðskífu „Pale Green Ghosts“ fyrr á þessu ári og hefur hún fengið góða dóma hjá flestum helstu tónlistartímaritum heims.

Slegið verður upp Næntís Veizlu á barnum Harlem en skipuleggjendur hennar vilja koma eftirfarandi á framfæri: „Nú er kominn tími til að rifja upp gullna öld, öld þar sem menn voru ennþá viðkvæmir og misskildir og konur voru ennþá of kúl fyrir skólann sem þær voru ekki í. Já, ég er að tala um tíunda áratug síðustu aldar, áratug Doc Martens, köflóttra skyrtna og hettupeysna bundna um mittið.“  Á kvöldinu koma fram Dýrðin, Treisí, Sindri  Eldon & The Ways og svo mun Sindri Eldon þeyta skífum þar til opnunartíma þrýtur. Veislan byrjar 21:00, öllum er boðið og það er ókeypis inn.

Fjölsveitahópurinn Tónleikur heldur áfram að troða upp á Loft Hostel. Að þessu sinni stíga á stokk Ragnar Árni, val kyrja, Tinna Katrín, Pocket, Brynja, Ósk, FrankRaven og Johnny and the Rest. Leikar hefjast 20:30 og allir geta notið þeirra óháð efnahags.

Heiladanskvöld númer 26 verður haldið á hinum nýopnaða Bravó við laugaveg 22 og þar verður framsækinni raftónlist komið á framfæri sem endranær. Í þetta skipti munu DJ Dorrit, Atom Max, Radio Karlsson og Árni² leiða heilafrumur viðstaddra í trylltum dansi en ókeypis er inn á viðburðinn. Dansinn byrjar að duna klukkan 21:00.

Föstudagur 26. júlí

Hljómsveitin Grísalappalísa efnir til tónleika í plötubúðinni og höfuðstöðvunum 12 Tónum á Skólavörðustíg. Grísalappalísa hefur undanfarin misseri verið að gera garðinn frægan fyrir hnífskarpan flutning sinn og ólætin í söngvaranum honum Gunnari. Plata þeirra, ALI, kom út 10. júlí síðastliðin og hefur fengið einróma lof og hylli þjóðar og gagnrýnanda. Lætin byrja klukkan 18:00.

Hljómsveitirnar Agent Fresco, Mammút og Benny Crespo’s Gang kveðja Faktorý með tónleikum eins og margar af helstu sveitum landsins hafa gert undanfarið. Efri hæð opnar 22:00, tónleikar hefjast 23:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur.

Laugardagur 27. júlí

Hljómsveitirnar RIF og Kjarr leiða saman hesta sína og blása til allsherjar sumargleði á Rósinberg. Lagið Sól í sinni með RIF hefur verið að sörfa ljósvakann í sumar við góðann orðstýr en strákarnir eru nú að sjóða saman í sína fyrstu breiðskífu. Kjarr gaf út plötu samnefnda sveitinni fyrir tveimur árum síðan en hefur enn ekki flutt efnið fyrir okkur íslendinga, þar má finna smelli eins og Beðið eftir sumrinu og Quanum leap. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00.

Sunnudagur 28. júlí

Snorri Helgason heldur tónleika ásamt hljómsveit í Gljúfrasteini í Mosfellsbæ. Hann hefur spilamennsku stundvíslega klukkan 16:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur.

 

 

 

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *