Airwaves yfirheyrslan – Gunnar í Grísalappalísu

Sá sem situr fyrir svörum í Airwaves yfirheyrslu dagsins er söng- og öskurspíran Gunnar Ragnarsson. Hann var eitt sinn í ungstirnisbandinu Jakobínurínu en þenur nú raddböndin með sveitinni Grísalappalísu, sem hefur vakið mikla athygli á þessu ári fyrir sínu fyrstu breiðskífu og kraftmikla tónleika.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

 

Það var árið 2004 og ég var 15 ára gamall. Móðir mín hafði talað við umsjónarmenn hátíðarinnar til þess að fulltryggja að ég kæmist á hátíðina þar sem ég væri nú góður drengur sem elskaði tónlist og væri ekki til vandræða. Ég fór ásamt Sigurði vini mínum sem var einu ári yngri og það var ekkert vesen fyrir okkur að komast inn á staðina og upplifunin var frábær fyrir okkur, vernduðu úthverfisdrengina. Mér eru eftirminnilegastir tónleikar The Shins á Gauknum en ég var mikill aðdáandi þeirra á þessum tíma enda algjört indípeð í pólóbol á þessu skeiði.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?

 

Það var árið 2005 með hljómsveitinni Jakobínurínu á Grandrokki. Eins og eflaust margir muna varð eiginlega allt vitlaust og þetta kvöld hafði mikil áhrif á næstu ár í lífi okkar. Við fengum svaka athygli og frábæra dóma fyrir sjóvið m.a. frá David Fricke, Rolling Stone skríbenti og fréttaflutningur var í þá átt að við höfðum nánast „unnið“ Airwaves það árið. Við vorum algjör smábörn og atburðarrásin frá því að vera á Shins árið áður og fíla sig sem einhverskonar stjörnu árið eftir var nokkuð lygileg. Ég man óljóst eftir tónleikunum sjálfum nema að stemmningin var alveg frábær, áhorfendur voru allir sem einn með bros á vör og einfaldlega furðu slegnir yfir að sjá okkur smápollana hoppa og skoppa um sviðið. Ég held að spilagleðin hjá okkur á þessum tíma hafa verið svakalega smitandi – enda var þetta ótrúlega skemmtilegt fyrir okkur. Eftir tónleikana vildu allir tala við okkur og hrósa okkur í hástért, manni fannst þetta vera stærra kvöld en Músíktilraunir sem við höfðum unnið um vorið.

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?

 

2005, 2006, 2007 með Jako og nú er Grísalappalísa mætt í ár.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

 

!!! (2007), fannst mér alveg frábært. Við vinirnir tættum í okkur Louden Up Now á sínum tíma en höfðum eiginlega gleymt þeim og vorum svo allt í einu mættir á þetta frábæra djamm hjá þeim nokkrum árum seinni. Frábært live band.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?

 

Jakobínarína 2005 á Grandrokki sem ég lýsti áðan en svo voru tónleikarnir árið eftir á Listasafninu alveg jafn eftirminnilegir, sennilega bestu tónleikarnir okkar. Airwaves verðlaunuðu okkur fyrir frammistöðuna árið áður og gáfu okkur frábært slott á milli Apparat Organ Quartet og Go! Team. Við vorum mjög þéttir eftir stíf tónleikaferðalög og það elskuðu okkur allir í salnum og manni fannst maður vera algjör töffari eftir þetta sjóv. Eftir þessa tónleika spiluðum við sjaldan á Íslandi og mér fannst fólk svolítið missa áhugann á okkur, sem var algjörlega skiljanlegt þar sem við vorum ennþá að spila sama efni og vorum aldrei heima og líka með slatta af gelgjustælum. En Airwaves 2005 og 2006 voru algjörir hápunktur hjá þessari blessuðu hljómsveit.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

 

Ég hef nú reyndar ekkert farið síðan ég spilaði síðast. Vinir mínir kvarta frekar mikið yfir röðunum og það sé kannski of margir miðar seldir. Sömuleiðis að gæðin á erlendu músíköntunum hafi farið dvínandi, en lænöppið í ár er nú sennilega með því besta frá upphafi svo það á ekki lengur við.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

 

Grandrokk/Faktorý, út af tilfinningalegum ástæðum.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

 

Spiluðu Graveslime einhvern tímann á Airwaves? Og jú, öllum tónleikum Megasar & Senuþjófana.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

 

Æfa vel, vera metnaðarfullur og fyrst og fremst að njóta þess að spila.

 

Hverju ertu spenntust/spenntastur fyrir á hátíðinni í ár?
Kraftwerk og off-venue tónleikum Veirumanna. Annars er ég spenntastur fyrir því að komast í Airwaves gír með Grísalappalísu.

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

 

$ böns af monnís mah’r! Stökkpallur og allt það, bla bla. Fyrst og fremst gott partí samt – og ástæða fyrir alla að vera í sínu besta formi.

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit/hljómsveitir?

 

Airwaves 2005 hafði þau áhrif að Jakobínarína fékk fína og dannaða breska umboðsmenn, spiluðu á South by Southwest vorið eftir, og gaf út 7″ hjá Rough Trade. Þetta voru svona bein áhrif af því. Svo signuðu Parlophone okkur seinna meir.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

 

Tveimur, þetta er búið að breytast síðan ég var síðast í geiminu.

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin?

 

2013, þetta verður rafmagnað!

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

 

Krafwerk er algjört uppáhald. Sá þá 2004 í Kaplakrika – með flottari tónleikum sem ég hef farið á.

Listasafnið eða Harpa?

 

Listasafnið, hef aldrei farið á Airwaves í Hörpunni.

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?

 

Með Grísalappalísu, við opnum hátíðína í Listasafninu kl 20 á miðvikudaginn. Svo erum við í 12 tónum á fimmtudeginum, 17.30/18.15 – man ekki. Svo erum við á Gamla Gauknum, kl 21.40 á föstudeginum og fögnum við þynnkunni kl 12.30 í Hörpunni á off-venue tónleikum fyrir utan 12 tóna verzlunina þar. Svo er aldrei að vita nema við komum ykkur á óvart á förnum vegi þegar þið búist alls ekki við því.

 

 

 

Fyrsta plata Haim komin á netið

 

Frumburður systra tríósins Haim hefur verið settur á netið en platan kemur formlega út þann 30. september.  Afrekið nefnist Days Are Gone og hafa nú þegar fjögur lög af plötunni komið út sem smáskífur en í heildina inniheldur hún 11 lög. 70‘s andi svífur yfir plötunni en hljómsveitinni hefur helst verið líkt við Fleetwood Mac og standast þær stöllur vel þann samanburð.

Hlustið hér.

Airwaves yfirheyrslan – Sindri Sin Fang

Airwaves yfirheyrslan er nýr liður á síðunni til að kynna Iceland Airwaves hátíðina og nokkra af þeim íslensku listamönnum sem koma fram á hátíðinni í ár. Fyrstur til yfirheyrslu er Sindri Már Sigfússon sem flestir íslenskir tónlistaráhugamenn ættu að kannast við. Hann er forsprakki tveggja hljómsveita sem hafa spilað oft á Iceland Airwaves á síðustu árum – Seabear og Sin Fang en Sindri mun koma fram með þeirri seinni í Gamla Bió föstudaginn 2. nóvember klukkan 0:50. 

 

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

Ég held að það hafi verið 2001. man ekkert hvað ég sá.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?


Það eru nokkrir.  Á seinustu árum var ég mjög hrifinn af Dirty Projectors og Haushka með samuli í fríkirkjunni var klikkað. Shins (2004) og Rapture (2002) tónleikarnir standa líka uppúr.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves? 

2004 minnir mig áður en við gáfum út fyrstu seabear plötuna. Það var mjög skemmtilegt og kom skemmtilega á óvart hvað það mætti mikið af fólki. Hef spilað á 8 eða 9 hátíðum í það heila en þetta eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem ég hef spilað á.  Þetta var í fyrsta sinn sem við spiluðum með fullri hljómsveit og ég var bara mjög ánægður með að vera að spila yfirhöfuð.

 


Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

Mér finnst hún vera orðin meira pro. Vel farið með mann og svona. Mér finnst þetta ein skemmtilegasta vika ársins.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Ég er mjög hrifinn af Iðnó. Mér fannst líka mjög gaman að spila á Nasa á Airwaves því að það var eiginlega eina skiptið sem maður gat fengið alveg fullt af fólki á Nasa. Svo er ég mjög ánægður með að óperan sé komin inní þetta. 

 


Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

Vorum að spila á sama tíma og Beach House eitt árið, það var leiðinlegt að missa af þeim. Eitt árið þá fórum við á Bandaríkjatúr á fimmtudeginum þannig að við misstum af öllu festivalinu.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár? 

Við vorum að spila með Anna Von Hausswolff um daginn og það var rosalegt. Svo langar mig að sjá Goat, Jon Hopkins, Mariam The Believer og Mykki Blanco. Svo finnst mér fínt að labba bara um og sjá eitthvað sem ég hef ekki hugmynd um hvað er.

 


Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þínar hljómsveitir? 

Hef alveg kynnst einhverju bransafólki í gegnum þessa hátíð og spilað á öðrum hátíðum eftir að einhver sá okkur þarna.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?


7-8 sinnum held ég. Ekkert miðað við Magga trommara (Magnús Tryggvason Eliassen  trommara Sin Fang)

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

Yo La Tengo.

 

Listasafnið eða Harpa?
Bæði.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

Bara skemmta sér og vera ekki að stressa sig of mikið á því að það séu einhverjir útlenskir blaðamenn í krádinu.

 

 

Tónleikar vikunnar

Þriðjudagur 24. september

Bandaríski tónlistarmaðurinn C.J. Boyd spilar á Harlem bar ásamt The Heavy Experience og Þórir Georg. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það kostar 1000 krónur inn.

Tómas R. verður með Latin Jazz á Kex Hostel. Ókeypis inn og jazzinn hefst klukkan 8:30.

Miðvikudagur 27. september

Hjalti Þorkelsson heldur haustveðurstónleika á Rósenberg. Ókeypis inn og tónleikarnir hefjast klukkan 21:00.

Fimmtudagur 26. september

Tilraunakenndir fjáröflunartónleikar á Gamla Gauknum á fimmtudaginn sem óhljóða og jaðarlista félagskapurinn FALK (Fuck Art Let’s Kill) stendur fyrir.  AMFJ og KRAKKKBOT spila og Þóranna aka Trouble og Harry Knuckles hita upp um kvöldið sem hefst klukkan 21:00. Það kostar 1000 krónur inn.

Sindri Eldon kemur fram ásamt The Ways næstkomandi á Dillon. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.

 

Föstudagur 27. september

Hljómsveitin Nolo frumflytur nýtt efni á Kaffibarnum. M-band sér um upphitun og hefjast tónleikarnir klukkan 21:30 og ókeypis er inn.

IfThenRun, 7oi, Nuke Dukem, Steve Sampling og Subminimal koma fram á Heiladans 28 á Bravó.  Fjörið hefst klukkan 20 og er ókeypis inn en Möller Records biðlar til fólks um að styrkja útgáfuna vegna ferðalags hennar til Þýskalands í byrjun október.

 

 

Laugardagur 28. september

Hljómsveitirnar Klikk, Mass og Aria Lamia leiða saman hesta sína á Dillon. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.

 

Moby gerir plötuna Innocents aðgengilega

 

Skallapopparinn Moby kemur til með að gefa út sína elleftu breiðskífu Innocents um næstkomandi mánaðarmót en platan hefur nú þegar verið gerð aðgengileg á netinu.
Moby var ekki einmanna í hljóðverinu við gerð plötunnar og voru það Mark Lanegan, Damien Jurado, Skyler Grey og Wayne Coyne úr The Flaming Lips ásamt fleiri listamönnum sem lögðu hönd á plóg. Upptökustjórinn Mark „Spike“ Stent stjórnaði upptökum á plötunni en hann hefur m.a. unnið með Björk, Muse, Oasis, Massice Attack, Coldplay og svo mætti lengi telja. Útkoman er vönduð svæfandi raftónlist sem fer um víðan völl en kemur líklegast ekki til með heyrast á diskótekum.

Hlustið hér

Tonmo gefur út

Hinn 19 ára gamli reykvíkingur Tómas Davíð sem gengur undir listamannsnafninu Tonmo gaf í síðustu viku út sína fyrstu ep plötu. Platan sem nefnist 1 er 8 laga raftónlistarplata undir áhrifum hip-hop og chillwave sem rennur ljúft í gegn. Tómas samdi og tók upp plötuna þegar hann bjó í Huntington Beach í Kaliforníu fyrr á þessu ári. Hlustið á plötuna á Bandcamp hér fyrir neðan.

Sky Ferreira með nýtt lag

Bandaríska söngkonan Sky Ferreira sendi fyrr í dag frá sér smáskífuna You’re Not The One sem verður að finna á væntanlegri plötu hennar Night Time, My Time sem kemur út 29. október. Ferreira komst í fréttirnar á dögunum þegar hún var handekin ásamt unnusta sínum, Zachary Cole Smith söngvara hljómsveitarinnar DIIV, í New York með 42 skammta af heróíní. Hlustið á hið frábæra lag You’re Not The One hér fyrir neðan.

Straumur 23. september 2013

Í Straumi í kvöld kíkjum við á nýtt efni frá Phédre, Azealia Banks, Sin Fang, Movements, Darkside, Ducktails, Swearin, Tonmo, Tourist og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra á slaginu 23:00 í kvöld á X-inu 977!

Straumur 23. september 2013 by Straumur on Mixcloud

1) Gimme – Beck
2) Together – Tourist
3) Paper Trails – Darkside
4) Ancient Nouveau – Phédre
5) Sunday Someday – Phédre
6) Flyway – Keep Shelly In Athens
7) Nave Music – Ducktails
8) Young Boys (Jónsi remix) – Sin Fang
9) Look at the light (Sin Fang remix) – Sin Fang
10) Watered Down – Swearin’
11) Ocean – Leaves
12) Intro – Tonmo
13) Javana – Tonmo
14) Spirit – Delorean
15) Us – Movement
16) Distant Relative Salute – White Denim
17) Count Contessa – Azealia Banks
18) You For Me – Frankie Rose
19) Question Reason – Frankie Rose
20) Nellie – Dr. Dog

Beliefs spila á Harlem í kvöld

Kanadíska skóglápssveitin Beliefs kemur fram á Harlem í kvöld en tónleikarnir eru fyrsta stoppið á löngum Evróputúr sem er framundan hjá bandinu. Mikið suð hefur verið í kringum sveitina á þessu ári á miðlum eins og Pitchfork, Stereogum, NME og Guardian. Beliefs sækir stíft í arf sveita á borð við My Bloody Valentine og áhugamenn um ómstríða gítarveggi, effektapedala og loftkenndar raddir ættu ekki að láta sig vanta. Um upphitun sjá Re-Pete og The Wolf Machine en tónleikarnir hefjast klukkan 22:00. Aðgangseyrir er 1000 krónur og gestum er bent á að koma með reiðufé því ekki verður posi á staðnum, þrátt fyrir að hraðbanka sé auðvitað að finna í næsta nágrenni við Harlem. Hlustið á lagið Gallows Bird hér fyrir neðan og horfið á myndband við lagið Lilly.