Aldrei fór ég suður 2014 listi

Tíu ára afmælishátíð Aldrei fór ég suður fer fram á Ísafirði dagana 18. og 19. apríl næstkomandi. Umstillingarnefnd hátíðarinnar tilkynnti fyrr í dag listamennina sem koma fram í ár.

★ Cell7
★ Contalgen Funeral
★ Dj. Flugvél og geimskip
★ Dusty Miller
★ Glymskrattinn
★ Grísalappalísa
★ Helgi Björnsson og stórsveit Vestfjarða
★ Hemúllinn
★ Hermigervill
★ Highlands
★ Kaleo
★ Kött grá pjé
★ Lína Langsokkur
★ Lón
★ Mammút
★ Markús and the Diversion Sessions
★ Maus
★ Retro Stefson
★ Rhythmatic
★ Rúnar Þórisson
★ Sigurvegarar músíktilrauna 2014 (að því gefnu að þeir vilji koma)
★ Snorri Helgason
★ Sólstafir
★ Tilbury
★ Þórunn Arna Kristjánsdóttir og búgíband Skúla mennska

Lag og plata frá Jack White

Jack White tilkynnti í dag að von væri á nýrri breiðskífu frá kappanum sem mun heita Lazaretto en hans fyrsta sólóskífa, Blunderbuss, kom út árið 2012. Við sama tilefni afhjúpaði hann eitt laga plötunnar, High Ball Stepper, sem er þó ekki fyrsta smáskífan, en það er án söngs. Platan kemur út þann 9. júní næstkomandi en von er á fyrstu smáskífunni síðar í apríl. Þrátt fyrir að vera ósungið sver lagið sig í ætt við það besta sem hefur komið frá honum og White Stripes, töffaraleg og djúpblúsuð sveifla með miklum gítarfimleikum þar sem bjögunin er keyrð í botn. Þá eru einhvers konar indíánaóp í því líka sem minna talsvert á vestrameistarann Ennio Morricone. Hlustið á lagið hér fyrir neðan.

Straumur 31. mars 2014

Í Straumi í kvöld kíkjum við væntanlegar plötur frá Todd Terje og Mac DeMarco. Auk þess sem við skoðum nýtt efni frá Darkside, Gus Gus, Wye Oak og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld á slaginu 23:00 á X-inu 977.

Straumur 31. mars 2014 by Straumur on Mixcloud

1) Alfonso Muskedunder – Todd Terje
2) Crossfade – Gus Gus
3) Preben Goes to Acapulco – Todd Terje
4) Swing Star (Part 1) – Todd Terje
5) Swing Star (Part 2) – Todd Terje
6) Water Fountain – tUnE-yArDs
7) Digital Witness (Darkside remix) – St. Vincent
8) Salad Days – Mac DeMarco
9) Let Her Go – Mac DeMarco
10) Goodbye Weekend – Mac DeMarco
11) Heartless – Sean Nicholas Savage
12) Specters – kimono
13) All I Got – RAC
14) Before – Wye Oak
15) Bein’ Around (Lemonheads cover) – Courtney Barnett

Hlustaðu á nýja GusGus lagið

Rétt í þessu var nýjasta smáskífa GusGus að detta á internetið. Lagið heitir Crossfade en það hefur heyrst á tónleikum með sveitinni undanfarið rúmt ár. Lagið er ljúfsár og taktfastur óður til danstónlistar og DJ-menningar, hlaðinn nostalgíu og fögnuði. Það verður á breiðskífu með sveitinni sem er væntanleg síðar á árinu. Síðasta plata GusGus, Arabian Horse, kom út árið 2011 og hlaut einróma lof gagnrýnenda, grúskara og meginþorra almennings. Hlustið á lagið hér fyrir neðan.

Tónleikahelgin 27. – 29. mars 2014

Fimmtudagur 27. mars 2014

Systurnar í SamSam halda tónleika á Rosenberg. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl.20.30 og er miðaverð 1500 krónur.

Markús and Diversion Sessions & Per: Segulsvið koma fram á Café Ray Liotta við Hverfisgötu 26. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

Á Bravó fer fram Heiladans númer 33. G. Larsen / Snooze Infinity / Epic Rain / It Is Magic koma fram og byrjar dansinn á slaginu 21. Ókeypis inn.

Hljómsveitirnar Bob, Strigaskór nr. 42 og The Cocksuckerband halda tónleika á Gauk á Stöng. Tónleikarnir hefjast klukkan 21 og það kostar 1000 kr. inn.

Urban Lumber frumsýna nýtt myndband á Hressó og halda tónleika strax á eftir. Myndbandið verður sýnt klukkan 23:00 og það er frítt inn. Mosi sér um upphitun.

 

 

Föstudagur 28. mars 2014

Reykjavíkurdætur og Dj Flugvélar og geimskip koma fram á tónleikum Undiröldunnar klukkan 17:30 Í Hörpu. Ókeypis aðgangur

Kaleo spila á tónleikum á Dillon. Það kostar 500 kr inn og hefjast tónleikarnir klukkan 22:00

 

 

 

Laugardagur 29. mars 2014

Hlustið á Bryan Ferry með Todd Terje

Norski geimdiskóboltinn Todd Terje gerði nýverið lagið Johnny And Mary aðgengilegt,  en í því nýtur hann aðstoðar flauelsbarkans og fyrrum Roxy Music söngvarans Bryan Ferry. Lagið er ábreiða af lagi enska söngvarans Robert Palmer og verður á væntanlegri breiðskífu Todd Terje, It’s Album Time, sem kemur út 8. apríl. Terje hefur þó áður unnið með Bryan Ferry en hann hefur endurhljóðblandað lögin Love is the Drug, Don’t Stop the Dance og Alphaville með Roxy Music. Hlustið á lagið hér fyrir neðan ásamt Delorean Dynamite sem einnig verður á plötunni. Þá látum við endurhljóðblöndun Todd Terje af Love is the Drug fylgja í kaupbæti.


Neutral Milk Hotel spila í Hörpu

Hin goðsagnakennda bandaríska indísveit Neutral Milk Hotel er væntanleg til landsins í sumar og mun leika á tónleikum í Silfurbergssal Hörpu þann 20. ágúst. Hljómsveitin er frægust fyrir plötuna In an Aeroplane over the Sea sem kom út árið 1998 en stuttu eftir úgáfu hennar lagðist hún í langan dvala og er fyrst núna að koma saman aftur. Miðasala á tónleikana hefst 5. apríl á harpa.is en upphitun verður tilkynnt þegar nær dregur. Hlustið á upphafslag In an Aeroplane over the Sea hér fyrir neðan.

Rafmagnsstóllinn: Úlfur í Oyama

Á dögunum áskotnaðist ritstjórn Straums forláta stóll úr yfirgefnu fangelsi í Texas. Þetta gerðarlega húsgagn væri synd á láta liggja ónotað og þess vegna kynnum við til leiks nýjan lið á síðunni; Rafmagnsstólinn! Í hverri viku fáum við tónlistarmann til að setjast í stólinn, bindum hann niður og hleypum á hann 2400 volta straumi þannig hann grillist vel og vandlega. Í fyrstu leiðir þetta til þvag- og saurmissis en að lokum endar raflostið með því að listamennirnir segja okkur frá sínum dýpstu órum og leyndarmálum, sem við munum svo birta samviskusamlega hér á síðunni.

Að þessu sinni var það Úlfur Alexander Einarsson sem þenur raddböndin með rokksveitinni Oyama sem settist í rafmagnsstólinn, en hann hefur verið önnum kafinn undanfarnar vikur við upptökur á fyrstu breiðskífu Oyama sem er væntanleg næsta haust. Milli ofaskenndra kippa náði hann að hreyta út úr sér eftirfarandi svörum:

 

Hvað er það besta við að vera tónlistarmaður?
Gellur.

 

En versta?
Gellur.

 

Hvaða tónlistarmann/hljómsveit myndirðu mest vilja hita upp fyrir?
Neutral Milk Hotel.

 

Hvað er besta tónlist sem þú hefur uppgötvað á árinu?
Skúli Sverris.

 

Hvað er uppáhalds kvikmyndatónskáldið þitt?
Ég hef ekki hlustað mikið á kvikmyndatónlist, en ég þyrfti eiginlega að gera meira af því. Það er svo mikið af áhugaverðu dóti sem verður til þegar verið er að semja tónlist sem á að passa við bíómynd, aðrar áherslur í gangi. En ég elska Ennio Morricone.

 

Hvað er uppáhalds tímabilið þitt í tónlistarsögunni?
80’s nýbylgja. Mikið af uppáhalds hljómsveitum mínum og áhrifavöldum uppáhalds hljómsveita minna urðu til á þessu tímabili.

 

Hvað er 5 mest spiluðu lögin og í iTunes-inu þinu?
Sjitt, tölvan mín var að koma úr viðgerð og allt svona dót er horfið. En ég ætla að giska á að Sheila með Atlas Sound hafi verið mest spilaða lagið í iTunes hjá mér.

 

En plötur?
Ég ætla að giska á Bitches is Lord með Adrian Orange og síðan Microcastle og Halcyon Digest með Deerhunter hafi verið einhverstaðar á toppnum.

 

Hvað eru bestu tónleikar sem þú hefur séð nýlega?
Nick Cave á ATP seinasta sumar. Það voru mest intense tónleikar sem að ég hef séð.

 

Uppáhalds plötuumslag?
Deceit með This Heat er í miklu uppáhaldi.

 

Þekkirðu Jakob Frímann?
Nei. En ég var á fundi um daginn þar sem hann var líka og hann var í frakka.

 

Hvaða tónlistarmönnum lífs eða liðnum værirðu helst til í að taka
jam-session með?
Dave Longstreth. Hann er ruglaður. Eða Boredoms, það væri örugglega geðveikt.

 

Ef þú mættir velja einn rappara til að vinna með, hver væri það?
Kanye West. Hann er svo intense og svo ótrúlega steiktur og klár á sama tíma.

 

Ef þú gætir unnið með hvaða upptökustjóra sem er, hver myndi það vera?
Rick Rubin.

 

Hvaða plata fer á á rúntinum?
Roughness and Toghness með Graveslime.

 

Hvað var síðasta tónlist sem þú keyptir?
MBV með My Bloody Valentine.

 

Hvað er neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í á tónleikum?
Einu sinni spilaði tveggja manna pönkbandið mitt Fist Fokkers á tónleikum á Grand Rokk með einhverjum hljómsveitum sem við þekktum ekkert. Á þeim tónleikum klappaði enginn á milli laga hjá okkur. Það var magnað.

 

Hvað lætur þú á fóninn í fyrirpartínu á laugardagskvöldi?
Fantómas.

 

Enn í eftirpartínu?
The Weeknd.

 

Uppáhalds borgin þín?
Ég hef aldrei tengt neitt sérstaklega við einhverja borg áður, en ég fór til Amsterdam um daginn og mér fannst það sjúklega næs borg.

 

Nú voruð þið í Oyama að taka upp ykkar fyrstu breiðskífu. Hvaða 5 orð lýsa
ferlinu best?
Svefn. Óvissa. Hiti. Einbeitning. Ánægja.

 

Nú vinnur hljómsveitin þín innan tónlistarstefnu sem kennd er við skógláp, gangið þið almennt í flottum skóm og skiptir það máli við sköpunina?
Við erum öll vel skóuð, annars hef ég ekki mikla skóðun á þessu máli.

Tónleikahelgin 19.-22. mars

 

Miðvikudagur 19. mars

 

Jordan Dykstra, Blewharp og Grímur koma fram á Gauk á Stöng. Jordan Dykstra er bandarískur fiðluleikari sem hefur unnið með listamönnum á borð við Dirty Projectors, Gus Van Sant og Atlas Sound. Blewharp er söngvaskáld frá Bandaríkjunum sem býr í Frakklandi sem blandar saman djassi og þjóðlagatónlist. Grímur hefur svo látið að sér kveða í akústísku senunni á Íslandi undanfarið. Húsið opnar 21:00 og tónleikarnir hefjast klukkutíma síðar en það er ókeypis inn.

 

Latínsextett Tómasar R. Og Ojba Rasta halda tónleika í Kaldalónssal Hörpu. Latínsveit kontrabassaleikarans Tómasar R. Einarssonar leikur efnisskrá á lögum á nýjum geisladiski Tómasar, Bassanótt, sem kom út s.l. haust. Ojba Rasta hafa verið að gera það gott undanfarið ár með líflegu reggíi með íslenskum textum. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og miðaverð er 3000 krónur, en 2000 fyrir nema og eldri borgara og miðasala er á midi.is og harpa.is.

 

Fimmtudagur 20. mars

 

Hin nýstofnaða sveit Highlands sem inniheldur Loga Pedro Stefánsson bassaleikara Retro Stefson og söngkonuna Karin Sveinsdóttur spilar á Funkþáttarkvöldi á Boston. Tónleikarnir hefjast 22:00 og aðgangur er ókeypis.

 

Steindór Grétar Kristinsson leikur á tónleikum í Mengi. Steindór Grétar er raftónskáld og meðlimur raftónlistabandsins Einóma (Touching Bass, Vertical Form, LMALC, Shipwreck). Tónleikar Steindórs verða í samstarfi við listakonuna Lilju Birgisdóttur og sviðs- og búningahönnuðinn Eleni Podara þar sem lifandi raftónlist blandast rödd og sjónrænum þáttum sem eru lauslega byggðir á verkunum Vertical on Flow eftir Steindór og Vessel orchestra eftir Lilju. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Morðingjarnir, Strigaskór nr. 42, For a Minor Reflection og Smári Tarfur koma fram á styrktartónleikum fyrir Kristin Arinbjörn Guðmundsson á Gauk á Stöng. Aðgangseyrir er 1000 krónur og tónleikarnir hefjast 22:00.

 

Þjóðlagaskotna rokksveitin Bellstop spilar á Hlemmur Square Hostelinu. Tónleikarnir hefjast 20:00 og það er ókeypis inn.

 

Pungsig og Black Desert Sun koma fram á Dillon og stíga á svið 22:00 og það er ókeypis inn.

 

Föstudagur 21. mars

 

Margrét Hrafnsdóttir söngkona og Þórarinn Sigurbergsson gítarleikari koma fram á tónleikum í Mengi. Þau munu leika m.a. lög eftir Petr Eben og John Dowland en lögin á efnisskránni spanna yfir 400 ár og margbreytileikinn eftir því, frá heitum ástarljóðum til dökkrar og drungalegrar dauðaþrár. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Laugardagur 22. mars

 

Good Moon Deer koma fram í Mengi. Good Moon Deer er tónlistarsjálf grafíska hönnuðarins Guðmundar Inga Úlfarssonar sem hófst með smávægilegu svefnherbergisgutli en í samkrulli með vininum og trommaranum Ívari Pétri Kjartanssyni (FM Belfast, Benni Hemm Hemm & Miri) hefur það tekið á sig áþreifanlegri mynd. Tónlistinni hefur verið lýst sem djass fyrir stafræna öld en á tónleikum Good Moon Deer má búast við framúrstefnulegum og geðklofnum smölunarbútum í bland við þunga trommutaktar og margvíslega, lifandi sjónræna skreytingar.

 

Rafsveitin Samaris sem mikið suð hefur verið í kringum kemur fram á tónleikum á Dillon en þeir hefjast 22:00 og aðgangseyrir er 500 krónur.

 

Frost, Different Turns og Morgan Kane koma fram á rokktónleikum á Gauk á Stöng. Aðgangseyrir er 1500 krónur og leikar hefjast 22:00.

Ný smáskífa með tUnE-yArDs

Fyrsta smáskífan af þriðju breiðskífu tUnE-yArDs hefur nú litið dagsins ljós og kallast lagið Water Fountain. Það er söngkonan Merrill Garbus sem fer fyrir verkefninu en hún tilkynnti öllum að óvörum fyrir tveimur vikum að breiðskífan Nikki Nack myndi koma út þann 6. maí næstkomandi. Í fréttamyndinni má sjá umslag plötunnar og hlustið á Water Fountain hér fyrir neðan.