Tónleikadagskrá helgarinnar 8 – 9. mars

Af nógu er að taka í tónleikadagskrá helgarinnar og Straumur hefur tekið saman það helsta sem er á boðstólum þessa aðra helgi marsmánuðar.

Föstudagur 8. mars

Rokksveitin Dream Central Station heldur útgáfutónleika fyrir sína fyrstu plötu sem er samnefnd sveitinni á Volta í kvöld. Plata sveitarinnar sem kom út í haust hefur fengið góða dóma gagnrýnenda og var meðal annars valin fimmta besta íslenska plata ársins á straum.is. Um upphitun sjá melódíska noiserokkararnir í Oyama og lo-fi-grallararnir í Nolo. Aðgangseyrir er 1000 krónur eða 2000 krónur og þá fylgir frumburður sveitarinnar með. Hurðin opnar klukkan 22:00 og tónleikarnir hefjast klukkutíma síðar. Hallberg Daði, forsprakki Dream Central Station, mun síðan þeyta skífum ásamt Dj Pilsner að tónleikunum loknum.

 

Low Roar treður upp ásamt hljómsveit á Dillon klukkan 22:00 í kvöld. Low Roar hófst sem einstaklingsverkefni Ryan Karazija en fyrstu plötu hans var afskaplega vel tekið og vakti meðal annars athygli tónlistartímaritsins NME. Tónlist Low Roar er lágstemmd, sveimandi og þrungin tilfinningu en á tónleikunum mun hann flytja nýtt efni í bland við gamalt en á næstunni hefjast upptökur á nýrri plötu listamannsins. Aðgangur er ókeypis fyrir alla sem hafa náð áfengiskaupaaldri.

 

Folk-hátíð í Reykjavík er í fullum gangi á Kex-hostelinu um helgina en á föstudagskvöldinu koma fram Elín Ey, Árstíðir, Valgeir Guðjónsson og Þjóðlagasveit höfuðborgarinnar. Aðgangseyrir er 3000 krónur og tónleikarnir hefjast klukkan 8.

Laugardagur 9. mars

Raftónlistarmaðurinn Kippi Kanínus og hljómsveitin GP! munu leiða saman hesta sína í tónleikum á Faktorý. Kippi Kanínus hefur fengist við tilraunakennda raftónlist í 12 ár en á tónleikunum kemur hann fram ásamt hljómsveit sem inniheldur meðal annars Magnús Elíasen á trommur, Pétur Ben á Selló og gítar og Sigtrygg Baldursson á slagverk. GP! er ekki rapparinn Gísli Pálmi heldur hljómsveit Guðmundar Pétursson sem hefur um áratugaskeið verið einn fremsti gítarleikari þjóðarinnar. Á tónleikum ferðast sveitin um lendur þaulskipulags spuna undir áhrifum frá síðrokki, kaut-blús og glam-jazzi. Tónleikarnir hefjast á slaginu 11 og kostar einn Brynjólf Sveinsson (1000) inn.

 

Hljómsveitin Leaves var að ljúka við sína fjórðu hljóðverðsplötu og munu frumflytja nýtt efni á tónleikum á Bar 11. Aðgangur virðist vera ókeypis.

 

Folk hátíðin heldur áfram á laugardagskvöldinu en þá stíga á stokk Pétur Ben, Benni Hemm Hemm, Ólöf Arnalds og Magnús og Jóhann. Tónleikarnir hefjast sem fyrr klukkan 8 og aðgangseyrir er 3000 krónur.

 

TriAngular eru klúbbakvöld sem áður hafa verið haldin á Jacobsen og Faktorý en hafa nú flutt sig um set og verða í fyrsta skiptið á Volta á laugadagskvöldið. Þema kvöldanna er að fá þrjá þungavigtarmenn í klúbbatónlist í hvert skipti til að galdra fram dansvæna tóna og táldraga mannskapinn í tryllingslegan transdans. Í þetta skiptið munu þeir BenSol, CasaNova og Hendrik sjá um það hlutverk. Húsið opnar klukkan 23:00, dansinn dunar til 4:30 og það kostar einn rauðan seðil inn.

Tónleikar um helgina: 1.- 2. mars 2013

 

 

Af nóg er að taka fyrir  tónleikaþyrsta um helgina:

 

Föstudagur 1. mars: 

 

– Hljómsveitirnar Babies, Boogie Trouble og Nolo leiða saman hesta sína á tónleikastaðnum Faktorý. Öllum þeim sem vilja virkilega dansa sig af stað inn í helgina og óminnishegran er bent á að mæta stundvíslega og greiða aðgangseyri kr. 1000 við hurðina. Þeim sem mæta er lofað rúmum helgarskammti af gleði, dansi og glaumi. Efri hæðin á Fakotrý opnar kl. 22:00 og tónleikar byrja klukkan 23:00.

– Hin mannmarga reggísveit Ojba Rasta mun halda ókeypis tónleika á Hressó en sveitin mun stíga á svið um 23:00.

– Hljómsveitin Oyama heldur einnig ókeypis tónleika á Bar 11. Húsið opnar 21:00 og tónleikarnir hefjast 22:30

– Útgáfutónleikar Péturs Ben fara fram í Bæjarbíó Hafnafirði.  Miðaverð er 2500 krónur og hefjast tónleikar stundvíslega kl 21.00. Pétur Ben gaf á dögunum út sína aðra sóló plötu God’s lonely man og hefur hún hlotið einróma lof gagnrýnenda auk þess sem hún var hlaut verðlaun Kraums og var tilnefnd til íslensku tónlistarverðlaunanna.  Strengjakvartettinn Amiina leikur með þeim á þessum einu tónleikum og hljómsveitin The Heavy Experience leikur á undan en þeir gáfu einmitt út plötuna Slowscope á síðasta ári. 

– Skúli Mennski ásamt hljómsveitinni Þungri Byrði mun halda tónleika á  Dillon og taka nokkur vel valin lög. Þeir hefjast klukkan 22:00 og það er frítt inn.

– Fyrsta útgáfan frá nýju plötufyrirtæki, Lady Boy Records, leit nýverið dagsins ljós, en hana er hægt að fá í afar sérstöku formi – sem gamaldags kassettu. Forsprakkar útgáfunnar fagna áfanganum með veglegri tónlistarveislu á Volta, þar sem fram koma margir af fremstu raftónlistarmönnum þjóðarinnar, þar á meðal Futuregrapher, Quadruplos, Bix, Krummi, ThizOne og margir fleiri. 500 kr. inn. Hefst kl. 21.

Laugardagur 2. mars

 

– Kviksynði #5

Kviksynði kvöldin hafa undanfarin misseri fest sig í sessi sem helstu techno-tónlistar kvöld Reykjavíkur. Fram koma að þessu sinni Captain Fufanu, Bypass, Ewok og Árni Vector. Hefst kl. 23. 500 kr. inn fyrir kl. 1 og 1000 kr. eftir það.

– Hljómsveitin Bloodgroup mun spila á tónleikum á Bar 11 og frumflytja efni af sinni þriðju plötu Tracing Echoes. Húsið opnar klukkan 21:00 og aðgangur er ókeypis.

– Bræðrabandið NOISE er nú að leggja lokahönd á upptökur og hljóðblöndun af fjórðu  plötu bandsins sem lítur dagsins ljós í sumar og ætla af því tilefni að frumflytja nokkur lög af nýju plötunni á Dillon kl.23:00

The Welfare Poets í Reykjavík

Annað kvöld mun bandaríska hip-hop hljómsveitin The Welfare Poets halda tónleika á Gamla Gauknum í Reykjavík. Tónleikarnir hefjast Kl 22:00 en auk The Welfare Poets koma fram; Ghostigital, Art Of Listening, RVK Soundsystem og 7berg. Aðgangseyrir er 2000 kr.

The Welfare Poets á rætur sínar að rekja til Puerto Rico og Cornell háskólans í New York þar sem hljómsveitin byrjaði. Meðlimir hljómsveitarinnar hafa  í um fimmtán ár verið ötulir talsmenn gegn kúgun, mismunun og ójafnrétti í heiminum með tónlist sinni. Þeir hafa dvalið hér á landi síðan snemma í desember og  komið fram á fyrirlestrum, staðið fyrir vinnusmiðjum og tekið þátt í umræðum um mannréttindi flóttafólks hér á landi. Hér fyrir neðan er hægt að sjá brot af tónleikum The Welfare Poets í New York haustið 2009.

Major Lazer í Kaupmannahöfn – tónleikadómur

Fyrir þá sem ekki vita er ”Major Lazer” hugarfóstur DJ/pródúseranna Diplo og Switch, sem kynntust eftir samstarf þeirra og M.I.A. Sá síðarnefndi yfirgaf þó”projectið” seint á seinasta ári sökum listræns ágreinings og í stað hans kom inn DJ/pródúserinn Jillionaire.

Með á sviðinu á Store Vega voru 2 hermannaklæddir dansarar sem og einn vel upp hýpaður Mc sem kunni svo sannarlega að stýra fólki í party-gírinn líkt og um  strengjabrúður væru að ræða.

Þegar einungis 10 mínútur  voru liðnar af settinu klæddi Diplo sig í uppblásna plastkúlu og danaði ofan á áhorfendum  í  dágóða stund. Þegar Majorinn var á 5 eða 6 lagi var keyrslan orðin gríðaleg og hélt hann fólki á tánum frá upphafi til enda. Af þeim klúbba kvöldum sem ég hef verið á Íslandi eða annarsstaðar í evrópu, hef ég aldrei upplifað jafn mikinn bassa á einu kvöldi, það má með sanni segja að gríðalega danzveisla hafi átt sér stað.

Mér fannst það einkenna svolítið tónleikana að Diplo kláraði ekki helming laga sinna. Fyrstu 40 mínúturnar spilaði hann lagabúta frá 0:30-1:30 mínútur sem ég persónulega sé sem frekar stóran mínus, þar sem flest af þessum lögum eru heldur góð danzilög ein og sér, en fólkið í salnum var greinilega ekki sammála mér.

Á Major Lazer tónleikum ríkir engin ein tónlistarstefna, kraftmikil dancehall tónlist í bland við taktfast tæknó sem og fusion reggae, hip hop, house og fleira. Diplo veigraði sér heldur ekki við því að remix-a aðra listamenn og gerði það mjög vel á köflum, helst ber þar að nefna Beastie Boy’s hittarann ”Intergalactic”, ”Day and Nite” með Kid Cudi, ”One Love” með Bob Marley og síðazt en ekki sízt Snoop Dogg smellinn ”Drop it like it’s hot” nema hvað að í Major Lazer útgáfunni syngur Snoop textann eitthvað á þessa leið; ”Major Lazer’s in the crip ’ma, drop it like it´s hot”. ”Úr að ofan, úr að ofan, allir úr”, glumdi í strengjabrúðuleikaranum knáa sem svo sannarlega var ekki að gera þetta í fyrsta sinn.

Allir sem einn héldu vel blautum bolunum á lofti og þeyttu þeim hring eftir hring. Það má með sanni segja að Diplo og félagar kunni einstakt lag á fólki og verður það ekki af þeim tekið, ókrýndur konungur partýs-ins um ókomna tíð. Þegar upp er staðið heppnaðist kvöldið mjög vel, fólk skemmti sér eins og það bezt gat, en það vantaði helminginn af lögunum sem var synd!

 Hjalti Heiðar Jónsson

Miðasala á Dirty Beaches

Miðasala á tónleika kanadísku hljómsveitarinnar Dirty Beaches  hefst á morgun á www.midi.is og www.harpa.is. Tónleikarnir fara fram í Kaldalóni í Hörpu þann 4. september næstkomandi og mun hljómsveitin Singapore Sling (ásamt Sparkle Poison) einnig koma fram. Tónleikarnir eru liður í tónleikaröðinni Stop over series sem er samstarfsverkefni Kimi Records og Hörpu, og er studd af Icelandair, Reyka, Gogoyoko og Kex Hosteli. Hægt er að hlusta á lagið Lord Knows Best af plötu Dirty Beaches – Badlands frá því í fyrra hér fyrir neðan.