Einstakt partý í Ásbrú – Fyrsta kvöld ATP

Fyrsta All Tomorrow’s Parties tónlistarhátíðin hér á landi er merkilegur viðburður í íslensku tónlistarlífi en hátíðin er þekkt fyrir einstakt andrúmsloft og metnaðarfulla dagskrá með áherslu á óháða tónlistarmenn. Stemmningin var vinaleg þegar ég mætti á svæðið eylítið seint og inni í Atlantic Studios skemmunni var Mugison að rokka úr sér lungun í lokalaginu. Veðrið skartaði blíðu og á planinu fyrir utan var hægt að kaupa sér mat og góð tónlist ómaði úr hátalarakerfinu.

Velkomin aftur

Múm voru næst að koma sér fyrir á sviðinu en tónleikar með þeim hér á landi eru fágæti sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Það kom mér skemmtilega á óvart að Gyða Valtýsdóttir, sem hætti í sveitinni fyrir meira en 10 árum síðan, var með þeim á sviðinu og söng við hlið Mr. Sillu ásamt því að spila á selló. Þá muldraði og kyrjaði Örvar í gegnum skrýtinn míkrafón og raddirnar þrjár hlupu hringi í kringum hvor aðra. Þau tóku meðal annars nýtt lag sem var drungalegt rafpopp í anda Bat For Lashes þar sem Gyða fór náttúruhamförum á sellóinu.

Á ‘etta og má’etta


Næstur á svið var aldraði nýbylgjufauskurinn Mark E. Smith, leiðtogi og einræðisherra hljómsveitarinnar The Fall. Þetta var með skrýtnari tónleikaupplifunum sem undirritaður hefur upplifað en skoðanir áhorfenda skiptust í andstæða póla um ágæti hennar. Smith ráfaði rallhálfur um sviðið og tuggði tyggjó af miklum móð milli þess sem hann spýtti textunum slefmæltur og drafandi út úr sér með óskiljanlegum Cockney hreim. Hljómsveitin hans var eins og vel smurð cadilac vél og dúndraði út groddaralegu póstpönki en Smith gerði hins vegar allt sem í hans valdi stóð til að angra þau.

Hann sparkaði niður trommumækum, glamraði á hljómborð, hækkaði og lækkaði í hljóðfærum á víxl og stundum bara ýtti hann við greyi hljóðfæraleikurunum. Hann virðist fara með hljómsveitina eftir „Ég á’etta, ég má’etta“ hugmyndafræði. Svo ekki sé minnst á að hann lítur út eins og Gollum og lét á köflum eins og sauðdrukkinn predikari. Hljómsveitin virtist gera sér fyllilega grein fyrir stöðu sinni í bandinu sem þrælar og voru ótrúlega þolinmóð gagnvart þessari fautalegu framkomu. Ég er kannski svona illa innrættur en ég hafði bara nokkuð gaman að sjónarspilinu. Þetta var allavega eitthvað sem maður sér ekki á hverjum degi.

Leðjan langt frá botninum
Botnleðja hafa engu gleymt og rokkuðu af sér punginn fyrir nostalgíuþyrsta áhorfendur í skemmunni. Þeir renndu í gegnum marga af sínum helstu slögurum ásamt nokkrum nýjum lögum, meðal annars því seinasta, sem hljómaði eins og handboltasigursöngur þar sem þeir nutu aðstoðar kórs. Áhorfendur tóku hins vegar best við sér í lögunum af Drullumalli og ætluðu þá bókstaflega að ærast. Í einu laginu kom síðan plötusnúðurinn og fyrrum meðlimurinn Kristinn Gunnar Blöndal og refsaði hljóðgervlinum sínum eins og rauðhærðu stjúpbarni, og hreinlega nýddist á pitchbend hjólinu af fádæma krafti.

Sýrulegnir byssumenn frá San Fransisco
The Oh Sees er sérkennilegur kvartett frá San Fransisco sem spila afar hressilega blöndu af sækadelic og garage rokki. Leiðtogi hennar, John Dwyer, lítur út eins og „surfer dude“ og hefur mjög sérstakan stíl á gítarnum, heldur honum hátt uppi á brjóstkassanum og mundar hann eins og riffill. Oft brast á með villtum spunaköflum þar sem mörgum gítarstrengjum var misþyrmt í ofsafengnu sýrusulli. Dwyer var hinn reffilegasti á sviðinu og hrækti á gólfið meðan trommuleikarinn var sem andsetinn í tryllingslegum sólóum. Þetta var svo sannarlega skynörvandi reynsla og bestu tónleikarnir þetta kvöldið.

Stórskotahríð á hljóðhimnur

Ég var svo eftir mig eftir Oh Sees að Ham bliknuðu nokkuð í samanburðinum en skiluðu þó sínu á skilvirkan og harðnákvæman hátt eins og þeirra er von og vísa. Það var nokkuð farið að fækka í skemmunni þegar annar borgarfulltrúi kvöldsins, Einar Örn, steig á svið ásamt Ghostigital flokknum. Óhljóðadrifið tekknó-ið sem þeir framleiða er ekki allra en ég kann vel að meta svona árás á hljóðhimnurnar. Abstrakt ljóð Einars Arnars hafa verið áhugaverð síðan hann var í Purrkinum en línur eins og „Ég er með hugmynd. Hún er svo stór að mig verkjar í heilann,“ gætu þó líst tilfinningum þeirra sem minnstar mætur hafa á hljómsveitinni.

Fyrsta kvöld hátíðarinnar var í flestalla staði stórvel heppnað; hljómsveitirnar voru góðar, sándið frábært og andrúmsloftið inni og úti alveg einstaklega afslappað og ólíkt öðrum tónlistarhátíðum sem undirritaður hefur sótt. Það var ekki vesen eða leiðindi á nokkrum manni, en þeim mun meira um bros og almennilegheit og gæslan hafði greinilega ekki mikið að gera. Atlantic Studios hentar greinilega einstaklega vel til tónleikahalds og það er vonandi að hún verði nýtt betur til slíks í framtíðinni. Fylgist vel á með á straum.is því umfjöllun um seinna kvöld hátíðarinnar er væntanleg á morgun.

Davíð Roach Gunnarsson

 

All tomorrows Parties – Öðruvísi tónleikahátíð

Mynd: Fyrrum flugskýlið og núverandi kvikmyndaverið Atlantic Studios verður aðal tónleikastaðurinn.

All Tomorrows Parties tónlistarhátíðin verður haldin í fyrsta skipti á Íslandi helgina 28.-29. júní næstkomandi á varnarliðssvæðinu í Keflavík. Á mánudag var tilkynnt að Nick Cave and the Bad Seeds yrðu stærsta atriði hátíðarinnar en aðrir í erlendu deildinni eru meðal annars Deerhoof, The Notwist, Thee Oh Sees og The Fall. All Tomorrows Parties er óvenjuleg tónlistarhátíð að ýmsu leiti en hún hefur alltaf lagt áherslu á sjálfstæða og óháða tónlistarmenn. Venjan er að velja virtan tónlistarmann eða hljómsveit sem aðalnúmer hennar sem gegnir einnig því hlutverki að velja aðra tónlistarmenn til að spila. Hér á landi var dagskráin þetta árið þó valin af stjórnendum hátíðarinnar auk aðstandenda hér á landi, en á næsta ári er áætlað að fá tónlistarmann sem dagskrárstjóra eins og á aðalhátíðinni í Englandi.

Vannýttar byggingar

Tómas Young sem ber hitann og þungann af framkvæmd hátíðarinnar hér á landi segir að hugmyndin hafi kviknað árið 2011. Þá hefðu hann og aðrir innfæddir tónlistarbransamenn af Suðurnesjum verið boðaðir til fundar um hvernig nýta mætti byggingarnar á varnarliðssvæðinu í eitthvað tónlistartengt. Hann hafi strax komið auga á möguleika Atlantic Studios, gamals flugskýlis, sem undanfarið hafði verið nýtt sem kvikmyndatökuver og þess vegna með fullkomnum hljómburði. Tómas sagði í samtali við Straum að hugmyndin hafi fyrst verið að halda hátíð í anda ATP í febrúar 2012, og hafði m.a. í hyggju að fá MGMT til að spila en samningar hafi ekki náðst á endanum. „Þá datt mér í hug, fyrst hátíðin átti á annað borð að vera í anda ATP, því ekki að hafa samband við hátíðina sjálfa til að spyrja út í samstarf.“ Þeir tóku vel í hugmyndina og komu hingað til lands í ágúst í fyrra til að skoða aðstæður og heilluðust af flugskýlinu, offíseraklúbbnum og bíóinu. Þá fór öll skipulagning á blússandi siglingu og stuttu fyrir áramót var búið að tryggja Nick Cave & The Bad Seeds á hátíðina og fljótlega eftir það voru tímasetningar og fleiri sveitir bókaðar.

Tónleikar í fullri lengd

Eitt af því sem aðgreinir ATP frá öðrum festivölum er að flestar hljómsveitirnar spila tónleika „Í fullri lengd“, það er um og yfir klukkutíma prógramm og Nick Cave & The Bad Seeds munu spila í heilar 90-120 mínútur, þar á meðal smelli frá öllum ferlinum. Auk þess er dagskránni raðað þannig að með einbeittum vilja og kraftmiklum gangi ættu áhugasamir að komast yfir að sjá allar hljómsveitir hátíðarinnar. Tónleikar verða á tveimur sviðum, Atlantic Studios, sem tekur um 4000 manns, og hinum svokallaða offíseraklúbbi sem er stórglæsilegur gamaldags ballstaður en örstutt labb er þar á milli. Tónleikar hefjast milli 6 og 7 bæði kvöldin og standa yfir til um 2 eftir miðnætti. Hægt er að kaupa gistirými fyrir um 200 manns á hátíðarsvæðinu en fyrir drykkfellda Reykvíkinga er þó vert að vekja athygli á því að flugrútan gengur frá Keflavík alla nóttina. Þannig að skortur á gistingu, bíl eða edrúmennsku ætti ekki stöðva neinn í tónlistarveislunni.

Tónlist, bíó og takkaskór

Hátíðin mjög aðdáendavæn og leitast við að afmál skil á milli aðdáenda og tónlistarmanna, ekkert VIP svæði er fyrir tónlistarmenn sem fylgjast með tónleikum öðrum en sínum eigin meðal almennra hátíðargesta. Fyrir utan tónleika er einnig margs konar dægradvöl í kringum hátíðina og þar ber helst að nefna kvikmyndasýningar í hinu stórglæsilega Andrews Theater. Þær hefjast fyrr um daginn og áætlað er að hljómsveitir hátíðarinnar velji myndirnar á föstudeginum en leikstjórinn Jim Jarmuch sjái um kvikmyndaval á laugardeginum. Þá verður popppunkts keppni í boði Dr Gunna og einnig stendur til að halda fótboltamót þar sem hljómsveitir keppa hvor við aðra og aðdáendur sína. Nánari upplýsingar um hátíðina og miðfyrirkomulag má finna á vefsíðu hennar.

Nick Cave and the Bad Seeds aðalnúmerið á All tomorrow’s parties

Nick Cave mun verða aðalnúmerið á tónlistarhátíðinni All Tomorrows Parties sem verður haldin á varnarliðssvæðinu í Reykjanesbæ þann 28. og 29. júní næstkomandi. Nick Cave spilaði síðast á Íslandi árið 2006 en hljómsveitin hans, The Bad Seeds, kom síðast fram á Íslandi árið 1986 þegar Nick Cave heimsótti Ísland í fyrsta sinn.

Tónlistardagskrá hátíðarinnar verður ekki af verri endanum en auk Nick Cave & The Bad Seeds munu eftirtaldar hljómsveitir koma fram:

CHELSEA LIGHT MOVING (með forsprakka Sonic Youth, Thurston Moore í fararbroddi)
THE FALL
THE NOTWIST
THEE OH SEES
DEERHOOF
MÚM
HAM
DEAD SKELETONS
MUGISON
SQÜRL (með leikstjórann Jim Jarmusch fremstan í flokki)
AMIINA
VALGEIR SIGURÐSSON
GHOSTIGITAL
PUZZLE MUTESON
ÆLA
KIMONO
APPARAT ORGAN QUARTET
HJALTALÍN
SNORRI HELGASON

Auk tónlistardagskrár verður í boði kvikmyndadagskrá í Andrews Theather sem Jim Jarmusch mun meðal annarra sjá um og Popppunktur í boði Dr. Gunna.

Hátíðin var fyrst haldin árið 2000 í Bretlandi en hefur síðan fært út í kvíarnar undanfarin ár og meðal annars átt útibú á Spáni, Ástralíu, Japan og Bandaríkjunum og ávallt lagt áherslu á óháða og framsækna tónlistarmenn. Íslenska hátíðin mun fara fram í fyrrum herstöð Bandaríkjamanna, Ásbrú, en þar verða tvö svið þar sem hljómsveitir koma fram og eitt kvikmyndahús sem mun sýna tónlistartengdar myndir meðan á hátíðinni stendur. Nánari upplýsingar og miðasölu má finna á heimasíðu hátíðarinnar.