Straumur 13. janúar 2020

Í Straumi í kvöld minnumst við Jay Reatard sem féll frá á þessum degi fyrir 10 árum. Einnig  verður farið yfir nýtt efni frá TSS, Tame Impala, Squarepusher, Mall Grab, Benna Hemm Hemm, Laser Life og mörgum öðrum frábærum listamönnum. Straumur með Óla Dóra á slaginu 23:00 á X-inu 977.

1) Ain’t Gonna Save Me – Jay Reatard

2) Lost In Yesterday – Tame Impala

3) Musical Monopoly – TSS

4) Love Potion – TSS

5) Teenage Birdsong (Overmono remix) – Four Tet

6) Oberlove – Squarepusher

7) Radical (ft. Totally Enormous Extinct Dinosaurs) – Amstrac

8) I Wanna Be Blind – Turnstile & Mall Grab

9) Yes I Need My Generator – Turnstile & Mall Grab

10) Do You – Knxwledge

11) Davíð 51 – Benni Hemm Hemm

12) Quest – Laser Life

13) Stress – Tycho

14) Always Wanting More – Jay Reatard

Hudson Mohawke og Squarepusher á Sónar

Nú rétt í þessu var tilkynnt um fyrstu listamennina sem hafa verið bókaðir á næstu Sónar hátíð. Hudson Mohawke og Squarepusher báðir koma til með að spila. Næsta hátíð verður haldin Í Hörpu 18.-20. febrúar og sjá má listann hér að neðan:

Hudson Mohawke

Squarepusher

Holly Herndon

Oneothrix Point Never

Rodhad

Recondite

Úlfur Úlfur

Sturla Atlas

AV AV AV

The Black Madonna

Apparat Organ Quartet

Gangly

Skeng

Vaginaboys

Check out the first 14 artists announced for Sónar Reykjavik 2016. 3 days5 stages70 artists and bands+ the northern lights

Posted by Sonar Reykjavík on Thursday, October 15, 2015

Straumur fer í Sónar – Seinni hluti

Ég datt inn í nokkuð tóma Hörpu um sjöleitið til þess að sjá Samaris og það var ljóst að ýmsir voru eftir sig eftir föstudagskvöldið. Nokkur töf varð á tónleikunum en ég náði fyrstu tveimur lögunum sem voru hreint afbragð, dökkt döbstep, og klarinettleikur og söngur stelpnanna til mikillar fyrirmyndar. Þvínæst lá leiðin í Norðurljósasalinn til að sjá goðsögnina Ryuichi Sakamoto sem lék á píanó og Alva Noto sem sá um rafleik. Þetta var lágstemmd og mínímalísk nýklassík með sérlega smekklegum myndböndum varpað á skjá, gott og rólegt veganesti fyrir æsinginn sem var væntanlegur seinna um kvöldið.

Táldregin tilraunadýr

James Blake var líklega stærsta númer helgarinnar og Silfurbergsalurinn var fljótur að fyllast þegar upphaf tónleika hans nálgaðist. Hann kom fram ásamt tveimur meðreiðarsveinum sem spiluðu á trommur, gítar og raftól en sjálfur sá hann um söng og hljóðgervlaleik. Blake er ákaflega smáfríður og strákslegur og kurteis sviðsframkoman bræddi eflaust tugi hjarta á svæðinu. Hann baðst afsökunar á því að nota áhorfendur sem tilraunadýr fyrir ný lög en það var algjör óþarfi því flest hljómuðu þau vel, sum byrjuðu rólega en umbreyttust síðan í kröftuga danssmelli. Hann flutti samt einnig sína helstu slagara og kliður fór um salinn þegar upphafstónarnir úr Limit to your Love og Wilhelm Scream tóku að hljóma. Hann endaði tónleikana á Retrograde, fyrstu smáskífunni af væntanlegri plötu, sem hafði komið út einungis viku áður og salurinn starði agndofa.

Lyftingar og LED-hjálmar

Þvínæst spiluðu Gluteus Maximus, dúett Stephans Stephanssonar og Dj Margeirs, sem hljómar dálítið eins og dekkra hliðarsjálf Gus Gus. Þeir komu þó ekki fram einir heldur höfðu heilt tvíkynja kraftlyftingarlið með sér á sviðinu sem lyftu lóðum í takt við munúðarfulla tónlistina. Næst á dagskrá í Silfurbergi var goðsögnin Tom Jenkinson, Squarpusher, sem var einn helsti fánaberi Warp útgáfunnar á 10. áratugnum. Það var nokkuð langt síðan ég hafði hlustað á meistarann sem tók aðallega efni af sinni nýjustu plötu, en það kom ekki að sök, ég var dáleiddur frá fyrsta takti. Hann var á bakvið græjupúlt með LED skjá framan á, risastór skjár var á bak við hann og á höfðinu bar hann hjálm í ætt við Daft Punk sem einnig hafði LED skjá framan á sér sem náði niður fyrir augu. Hvernig hann sá út um þetta apparat veit ég ekki en hitt var ljóst, það sem áhofendur sáu var show á heimsmælikvarða.

Reif í heilann

Það er erfitt að lýsa tónlistinni en hún hefur verið flokkuð í geira sem er kallaður Intellegent Dance Music (gæti útleggst heiladans á íslensku). Þessi nafngift hefur farið í taugarnar á mér, hún hljómar hrokafull og tilgerðarleg en þarna skyldi ég loks hvað átt er við. Tónlistin var oft of flókin fyrir líkamann til að dansa við en í framheilanum voru taugafrumur í trylltum dansi. Jenkinson er ryðmískur meistari og á það til að brjóta hvern takt niður í frumeindir sínar og endurraða síðan eins og legókubbum með frjálsri aðferð. Þetta var allt saman ótrúlega villt, galið og kaótískt en á sama tíma hárnákvæmt. Grafíkin á öllum þremur skjáum fylgdi síðan tónlistinni ótrúlega vel eftir og ég gapti opinmynntur í þann eina og hálfa klukkutíma sem hann spilaði. Eftir að hann var klappaður upp fór hann frá græjunum á borðinu og tók upp bassa við gríðarleg fagnaðarlæti áhorfenda. Síðasti hluti tónleikanna var spunakennd stigmagnandi sturlun sem ég vonaði að myndi aldrei enda. Eitt myndband segir líklega meira en þau tæplega 300 orð sem ég hef skrifað um herlegheitin og sem betur fer var einhver að nafni Páll Guðjónson sem festi hluta af þessu á filmu, þó það jafnist engan veginn á við að hafa verið viðstaddur.

Mugison á Mirstrument

Eftir að hafa náð andanum eftir Squarepusher hljóp ég yfir í Norðuljósasalinn og náði síðustu lögunum með Mugison sem kom fram ásamt bandi og spilaði á heimasmíðaðan hljóðgervil sem hann kallar Mirstrument. Hann endaði á þekktustu lögunum af Mugimama…, I Want You og Murr Murr sem var gaman að heyra en ég hafði þó vonast til að hann myndi taka eylítið róttækari snúning á lögum sínum en boðið var upp á. Eftir þetta fór ég niður í bílakjallarann og dansaði við Pechanga Boys inn í nóttina.

Hátíðin var í flestalla staði stórvel heppnuð og verður vonandi að árlegum viðburði í Reykjavík þar sem nánast ekkert annað er um að vera í tónlistarlífi borgarinnar á þessum tíma. Hápunkturinn fyrir mig var Squarepusher en Diamond Version á föstudagskvöldinu var ekki langt á eftir og voru uppgötvun helgarinnar.

Davíð Roach Gunnarsson

Spennandi tónar á Sónar – Fyrsti hluti

Sónar-tónlistarhátíðin fer í fram í fyrsta skipti á Íslandi um helgina og er mikill hvalreki fyrir áhugafólk um framsækna tónlist. Yfir 50 tónlistarmenn munu koma fram í Hörpunni á föstudag og laugardag og mun Straumur í dag og næstu daga vekja athygli á þeim listamönnum sem eru sérstaklega spennandi að okkar eigin huglæga en jafnframt óskeikula mati. Þá er vert að geta þess að enn eru til miðar á hátíðina en bætt var við auka miðum eftir að seldist upp í síðustu viku.

Squarepusher

Tónlistarmaðurinn Tom Jenkinsson sem kallar sig oftast Squarepusher hefur í hátt í tvo áratugi verið leiðandi á sviði tilraunakenndrar raftónlistar í heiminum. Nafn hans er oft nefnt í sömu andrá og goðsagnarinnar Aphex Twin en þeir tveir voru helstu vonarstjörnur hinnar virtu Warp útgáfu um miðjan tíunda áratuginn. Hann vakti mikla athygli fyrir sína fyrstu plötu, Feed me Weird Things, sem kom út 1996. Þar mátti finna framsækna raftónlist og flóknar taktpælingar með miklum djass- og fönkáhrifum þar sem bassaleikur Jenkinsson spilaði stóra rullu. Hann hefur síðar þróast í ýmsar áttir yfir ferilinn en hans síðasta plata fékk feiki góða dóma gagnrýnenda. Á tónleikum kemur hann iðulega fram með hátæknihjálm og leikur á bassa ásamt raftækjum og þá notast hann við risaskjái fyrir metnaðarfullar myndskreytingar.

Sísí Ey

Sísí Ey er samstarfsverkefni trúbatrixunnar Elínar Ey og tveggja systra hennar sem sjá um söng og pródúsantsins Oculusar sem framreiðir munúðarfulla og pumpandi húsgrunna fyrir þær til að byggja ofan á. Hópurinn hefur ekki gefið formlega út neitt efni en lög þeirra hafa þó ómað á mörgum fágaðri dansgólfum skemmtistaða Reykjavíkur undanfarin misseri. Alíslensk hústúnlist sem er allt í senn; dansvæn, grípandi og kynþokkafull.

Modeselektor

Modelselektor er dúett Berlínarbúanna Gernot Bronsert og Sebastian Szary sem hafa um árabil framleitt hágæða hávaða af öllu hljóðrófi raftónlistarinnar. Þeir virðast jafnvígir á tekknó, hip hop og gáfumannadanstónlist og hafa getið sér gott orð fyrir frábærar breiðskífur og hugvitssamlegar endurhljóðblandanir fyrir listamenn á borð við Thome Yorke, Björk og Roots Manuva. Þá hafa þeir starfað með landa sínum Apparat undir nafninu Moderat og komu fram á Iceland Airwaves hátíðinni 2010 og pumpuðu þakið af Listasafni Reykjavíkur.

LFO

LFO eru miklir tekknófrumkvöðlar og fyrstu vonarstjörnur Warp útgáfunnar. Breiðskífa þeirra Freaquencies vakti mikla athygli á þeim og komst inn á topp 20 listann í Bretlandi árið 1991. Mark Bell sem er nú eini liðsmaðurinn hefur einnig unnið mikið með Björk.

Alva Noto og Ryuichi Sakamoto

Samstarfverkefni hin þýska Noto og japanska Sakamoto er gífulega metnaðarfull blanda framsækinnar elektróníkur og nútímaklassíkur. Sakamoto var áður forsprakki hinnar goðsagnakenndu Yellow Magic Orchestra, sem var brautryðjandi í rafdrifinni tónlist á 8. áratugnum.