Stórskotahríð á skilningarvitin á seinna kvöldi Sónar

Ég byrjaði seinna kvöldið á Sónar með tónleikum Sykurs í Norðurljósasalnum. Dúndrandi elektró-poppið sem pumpaðist út úr hljóðkerfinu kikkstartaði blóðrásinni í gang og útlimirnir byrjuðu ósjálfrátt að kippast til, stundum kallað að dansa. Agnes söngkona sveitarinnar er síðan náttúrafl út af fyrir sig og ein allra kraftmesta rödd og frontkona landsins. Hún er jafnvíg á söng og rapp og með sjarma og sviðsframkomu í gámavís. Það sem hún leggur svo í hárgreiðslu og föt er síðan listaverk út af fyrir sig. Það er meira skúlptúr heldur en outfit, í anda dívna eins Grace Jones og Lady Gaga. Þegar þau enduðu á Reykjavík og allur salurinn söng með og hoppaði í takt.

 Armageddon fyrir flogaveika

Næst á dagskrá voru gömlu tekknóbrýnin í Underworld. Þrátt fyrir að vera orðnir í kringum sextugt var engin ellimerki að sjá á sviðinu í Silfurbergi þetta kvöld. Það er ástæða fyrir því að þeir fylla fótboltaleikvanga af fólki, raftónlistin þeirra er kraftmikil, lífræn og full af orku. Sjóið þeirra er svo á einhverju allt öðru leveli. Þetta var eins og armageddon fyrir flogaveika, heimsstyrjöld háð með leysibyssum, snjóflóð af strobeljósum, sannkölluð stórskotahríð á skilningarvitum úr öllum áttum.

 

Það var erfitt að fylgja eftir Underworld en bresku rappynnjunni Nadiu Rosa fórst það mjög vel úr hendi. Hún hristi fram úr erminni hvern grime-bangerinn á fætur öðrum og fór svaðilförum á sviðinu í dansi, töffaratöktum og almennri útgeislun. Með henni í för voru þrjár hype-píur skástrik dansarar skátrik plötusnældur þannig það var allftaf hreyfing og flæði í atriðinu. Það var ungæðislegur kraftur sem flæddi í stríðum straumum um Norðurljósasalinn og orkan var áþreyfanleg í slögurum eins og Skwod.

 

Eftir Nadiu hélt ég aftur í Silfurberg að sjá Bjarka. Nafnið lætur ekki mikið yfir sér og hann er mun þekktari á heimsmælikvarða en heimavelli, er gefinn út af tekknótæfunni Ninu Kravitz og mjög alþjóðlega þekktur í þeirri kreðsu. Hann hefur undanfarið troðfyllt tónlistarhús, næturklúbba og hátíðarsvið um heim allan, þar á meðal tekknókirkjuna Berghain í Berlín. Þetta eru fyrstu stóru tónleikarnir hans á Íslandi og það var öllu til tjaldað.

Gúrkutekknó

Ef það væru gefin Eddu og/eða íslensku tónlistarverðlaun fyrir leikmynd á tónleikum þá ætti sá sem ber ábyrgðina á sviðnu hans Bjarka þau fyllilega skilið. Það voru þrjár gínur með sjónvarpsskjái í hausastað, reykur, leiserar og rúmlega tveggja metra hár maður í algalla sem væflaðist og ráfdansaði um sviðið. Annar maður í algalla tók myndbönd, kastaði gúrkum af sviðinu og hljóp hringi í kringum salinn. Tónlistin var grjótljónhart tekknó þar sem hver einasta bassatromma nísti inn að beini. Ég hafði bara hlustað á eitt lag með Bjarka áður en starði og hlustaði heillaður allan tímann. Þetta var besta atriði hátíðarinnar og skyldi mig eftir með öll skynfærin gapandi af lotningu.

 

Ég þurfti 15 mínútur af fersku lofti og sígarettureyk til að jafna mig eftir helgeggjunina sem var Bjarki, en síðan var Sónarferðalaginu haldið áfram niður í bílakjallarann þar sem Yamaho og Cassie spiluðu back to back sett. Það byggðist upp með stigmagnaðri sturlun og villtum dansi og setti fullkominn lokapunkt á hátíðina. Ég hlakka til á næsta ári.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Tekknótryllingur, geimdiskó og kynfærameiðsli

 

Sónar var ýtt úr vör í gær og á sjötta aldursárinu en engan bilbug að sjá á hátíðinni. Harpan var full af útlendingum og flottum neonljósaskúlptúrum hafði verið plantað á víð og dreif til að auka á festivalstemmninguna.

 

Ég byrjaði föstudagskvöldið á móðurskipi íslenskrar danstónlistar, Gusgus. Það er ein af mínum allra uppáhalds íslensku hljómsveitum sem ég hef skrifað svo mikið um að ég er að renna út af myndlíkingum og lýsingarorðum til að nota um tónleikana þeirra. Ég hef ekki tölu á þeim Gusgus-tónleikum sem ég hef farið í meira en áratug og aldrei hefur mér leiðst. Daníel Ágúst og Biggi Veira lögðu mikla áherslu sína nýjustu plötu, Lies Are More Flexible, á tónleikum sínum í Silfurbergi, og léku fimm lög af henni. Þeir byrjuðu á „Featherlight“, fyrstu smáskífunni, sem að mínu mati er strax eftir sex mánaða tilveru komið í kanónuna af klassískum Gusguslögum, tímalaus raftónlist sem er aldrei út úr kú á dansgólfinu.

Dansinn hámarkaður

Stundum segir fólk að raftónlist flutt live sé bara einhver með Apple tölvu að ýta á play, það að vera satt í einstaka tilvikum en langt frá sannleikanum á tónleikum Gusgus. Þó þú sjáir kannski ekki beint hvað Biggi Veira er að gera á bakvið græjustæðuna sína þá heyrirðu það og finnur. Hann teygir á lögunum, leyfir hverju hljóði að fá sitt andrými, tvíkar þau til með uppbyggingum og taktsprengingum til að sníða þau að salnum og ná fram hámarksdansi. Hápunkturinn var þó „Add This Song“, í útgáfu sem ég hef ekki heyrt áður. Það var langt forspil áður en Daníel Ágúst hóp upp raustina og óvænt og groddaleg bassalína kom í kjölfar viðlagsins. Ljós og hljóð var til fyrirmyndar og Silfurberg er óðum að verða heimavöllur Gusgus á Íslandi.

 

Næst hélt ég yfir í Norðurljósasalinn til að sjá norska geimdiskógeggjarann Lindstrøm. Hann lék á als oddi í arpeggíum og sci-fi-laglínum sem flutu yfir salnum í sporbaug um eyrun mín. Ég hef verið aðdáandi hans lengi og missti nokkra líkamsvessa þegar hann tók sinn helsta „hittara“, lagið sem vakti fyrst athygli á honum, I Feel Space.

 Afmælisbarnið meiddi sig í typpinu

Næst á dagskrá var afmælisbarnið og Detroit-rapparinn Danny Brown sem var aðalnúmer kvöldsins hjá mér. Hann er einn mest spennandi rappari sem hefur komið fram undanfarin ár. Hann er með algjörlega einstaka rödd, ýlfrar og geltir út snjöllum myndlíkingum, skrýtnum sögum og klámfengnum húmor með hvellri hátíðnirödd yfir tilraunakenndum tryllingstöktum. Hann fór á mörgum kostum þetta kvöld og virtist gríðarlega ánægður í eigin skinni á sviðinu í Silfurbergi en hann varð 37 ára þennan dag, og auðvitað söng allur salurinn afmælissönginn fyrir þennan frábæra listamann.

 

Hann er performer á heimsmælikvarða og tætti af sér peysu, derhúfu, og skó eftir því sem leið á tónleikana, sem hann dúndraði jafnóðum út í salinn –einhvers konar öfug afmælisgjöf frá honum til þeirra heppnu áhorfenda sem náðu að grípa. Hann tók flest þau lög sem mig langaði til að heyra og allur salurinn tók undir í slögurum eins og „Dip“, „Grown Up“ og „Aint it Funny“.

 

Hann var stútfullur af sjarma og sviðsorku, hoppaði út um allt svið, fór í kolnhnís og snerist eins og skopparakringla, en í hamaganginum náði hann því miður einhvern veginn að meiða sig í kynfærunum, sem hann sagði ástæðu þess að hann hætti spila – sem var þú um það bil þegar hann átti að hætta samkvæmt áætlun. Ég vona innilega að hann jafni sig í typpinu sem fyrst, en hann getur allavega huggað sig við það hann heillaði heilan sal upp úr skónum við atganginn sem leiddi til meiðslanna.

A post shared by Óli Dóri (@olidori) on

Eftir Danny Brown var aðeins ein leið í stöðunni; Niður. Í bílakjallarann sem á Sónar breytist í alvöru berlínskan tekknóklúbb, þann eina sinnar tegundar á landinu. Þar dansaði fólk sig inn í nóttina við pumpandi ryþma bassatrommurnar á hverju slagi, þar sem taumlaus nautnahyggja réð ríkjum og fölskvalaus gleði skein úr hverju andliti.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Mynd: Facebooksíða Sónar

 

Lindstrøm á Sónar Reykjavík

Nú rétt í þessu var tilkynnt um að norski geimdiskó-gúrúinn Lindstrøm spili á næstu Sónar hátíð í Reykjavík en hún verður haldin í Hörpu 16-17. mars á næsta ári. Lindstrøm sem heitir fullur nafni Hans-Peter Lindstrøm gaf út plötuna It’s Alright Between Us as It Is fyrr á þessu ári.

Danny Brown á Sónar Reykjavík 2018

Bandaríski rapparinn Danny Brown og hin upprennandi grime stjarna Nadia Rose frá London eru meðal þeirra sem staðfest eru að komi fram á Sónar Reykjavík hátíðinni í mars. Meðal innlendra listamanna sem nú eru kynntir til leiks er ein stærsta útflutningsvara íslenskrar tónlistar síðastliðið ár, Bjarki, sem fyrst kom fram í bílakjallara hátíðarinnar fyrir tveim árum og hefur síðan troðfyllt tónlistarhús og hátíðarsvið um heim allan. Hann kemur að þessu sinni fram á öðru af stóru sviðunum í Hörpu.

Aðstandendur hátíðarinnar eru sérstaklega stoltir yfir því að fá tónlistarkonuna Jlin, sem er að vekja gríðarlega athygli fyrir breiðskífuna Black Origami, til Íslands – og að hin eindæmum hæfileikaríka Eva808 muni loks stíga á stokk á tónlistarhátíð í heimalandi sínu. Koma tónlistarkonunnar og plötusnúðsins Lena Willikens á Sónar Reykjavík er einnig mikill fengur fyrir íslenska tónlistaráhangendur, sem og koma Bad Gyal sem oft hefur verið titluð spænska Rihanna. Ekki má heldur gleyma íslenska tónlistarmanninum Volruptus sem ekkert hefur komið fram hérlendis eftir að hann sprakk út í kjölfar útgáfna sinna hjá plötufyrirtækjunum bbbbbb og Trip.

Í kjölfar einstaklega vel heppnað samstarfs Exos og breska tónlistarmannsins Blawan á Sónar Reykjavík í fyrra (Exos b2b Blawan) hafa aðstanendur hátíðarinnar unnið að því því að halda áfram með viðlíka samstarfsgrundvöll innlendra og erlendra listamanna og plötusnúða. Í ár mun hin íslenska Yamaho og breska Cassy koma fram saman í bílakjallara Hörpu sem Yamaho b2b Cassy. Þá mun vinsælasta dúó landsins, JóiPé x Króli, hljómsveitin Vök og Högni, sem nýlega gaf út sína fyrstu sóló breiðskífu hjá Erased Tapes, einnig koma fram á Sónar Reykjavík 2018. Sannkölluð listahátíð framundan í Reykjavík.

Sónar Reykjavík fer fram í Hörpu dagana 16. og 17. mars 2018. Alls verður boðið upp á tónleika rúmlega 50 hjómsveita og listamanna á hátíðinni á fjórum sviðum, m.a. í sitjandi umhverfi Kaldalóns og bílakjallara hússins sem breytt verður í næturklúbb.

Listamenn sem nú eru kynntir til leiks eru:
Danny Brown (US)
Nadia Rose (UK)
Bjarki (IS)
Jlin (US)
Lena Willikens (DE)
Högni (IS)
Cassy b2b Yamaho (UK / IS)
Bad Gyal (ES)
Volruptus (IS)
JóiPé x Króli (IS)
Eva808 (IS)
Vök (IS)

Miðasala á hátíðina er hafin og fer fram á midi.is.

Sónar – heill hellingur af gleði í Hörpu

Föstudagskvöldið byrjaði í skóginum, með tónleikum breska listamannsins Forest Swords í Norðurljósasalnum. Þeir voru tveir á sviðinu, annar við tölvu og apparöt og hinn lék undir á bassa. Þetta var trippy raftónlist með alls konar skrýtnum hljóðum og heimstónlistaráhrifum, indverskum sítörum og afrískum áslætti. Allt í allt, áhugavert.

 

Það var síðan áframhaldandi útivistarstemmning í Norðurljósasalnum því á tónleikum Sin Fang var söngvarinn Sindri Már inni í litlu kúlutjaldi sem var staðsett á miðju sviðinu. Hann var þar með kameru og andliti hans varpað á risatjald á sviðinu, sem skapaði skrýtna – á svona Blair Witch Project-legan hátt – stemmningu. Þetta var áhugavert í byrjun en gimmikkí og þreytt eftir þrjú lög, og ég hefði viljað sjá hann stíga út úr tjaldinu á endanum.

 Nýtt Gusgus og massívir magnarar

Þá var haldið yfir á Gusgus sem voru að koma fram í fyrsta skipti (eftir því sem ég best veit?) eftir að Högni sagði skilið við sveitina. Þeir tóku ýtt efni sem hljómaði prýðisvel, voru með rosalega flott lazer-show og renndu meirað segja í gamla slagarann David, þó að Urður hafi verið fjarri góðu gamni.

 

Þvínæst héldum við á hávaðapoppbandið Sleigh Bells í Norðurljósasalnum. Tveir gítararleikarar voru fyrir framan risastóra veggi af magnarastæðum og framkölluðu risastór riff meðan söngkonan Alisson Krauss lék á alls oddi. Kvöldið endaði svo á berlínsku rafhetjunum í Moderat sem léku melódískt tekknó af fádæma krafti og fágun.

Djassaður Dilla 

Á laugardeginum byrjaði ég á því að sjá íslenska rafrökkurbandið aYia. Þau voru klædd í svartar hettupeysur og spiluðu dimmt og tilraunakennt trip hop. Næst á svið í Silfurbergi var heiðursbandið Dillalude. Það er tileinkað tónlist bandaríska taktsmiðsins J Dilla og félagarnir léku djassaðan spuna yfir takta meistarans af einstakri smekkvísi og lipurð.

 

Alva Islandia hélt uppi nafni sínu sem “Bubblegum Bitch” og drefði tyggjói um allan Norðurljósasalinn og bleik og japönsk Hello Kitty fagurfræði var allt um lykjandi. Kött Grá Pjé rokkaði Silfurberg með bumbuna út eins og honum einum er lagið en leið okkar lá niður í Kaldalón að sjá hina kanadísku Marie Davidson. Það var eitt allra besta atriði hátíðarinnar og Marie bauð upp á ískrandi analog tekknó og rafpopp, þannig það var ekki sitjandi sála í Kaldalóni. Eftir þetta var Fatboy Slim hálfgerð vonbrigði. En Sónar-hátíðin stóð fyllilega fyrir sínu þetta árið og ég er strax farinn að hlakka til næstu.

Fyrsti í Sónar – Örvar án múm og raddlaus rappari

Það er alltaf eftirvænting í lofti á fyrsta degis Sónars og ég hóf kvöldið á því að sjá eitt besta live-band á Íslandi í dag, Hatara. Hatari taka tónleikana sína alvarlega og eru innblásnir af leikhúsi og gjörningalist. Tónlistin er pönkað iðnaðarelektró og söngvararnir tveir klæðast búningum sem daðra við fasíska fagurfræði. Það var feikilegur kraftur í þeim og til halds og trausts höfðu þeir nútímadansara með gasgrímur. Textarnir eru svo kapítuli út af fyrir sig, ljóðrænn níhílismi af bestu sort. „Ómagar sameinist/bak í bak og dansið“ skipuðu Hatari og áhorfendur hlýddu sem í leiðslu.

 

Næst á svið í Silfurbergi var kanadíska rapppían Tommy Genesis sem góður rómur hafði verið gerður að. Það verður bara segjast eins og er, hún var arfaslök. Hana skorti í fyrsta lagi mikilvægasta eiginleika rappara: rödd. Hún var andstutt og það var alltaf sami ryðminn í flæðinu sem varð þreyttur eftir hálft lag. Ég flúði því af hólmi niður í Kaldalón til að sjá Örvar úr múm spila sólóefni í fyrsta skiptið, og sá svo sannarlega ekki eftir því. Örvar var einn fyrir framan massíft græjuborð og söng í gegnum vókóder. Eitt lagið minnti mig á Jan Hammer, annað á Air upp á sitt besta og stundum var heilmikið Boards of Canada í töktunum. Þetta var dásamlega melódískt og ofgnótt af fallegum synþalínum, og mig hlakkar til að heyra þetta á plötu. Besta atriði kvöldsins var komið í sarpinn.

 

GKR stendur alltaf fyrir sínu og hann hoppskoppaði um sviðið í Silfurbergi eins og honum einum er lagið. Berlínski tekknópresturinn úr Berghain, Ben Klock, stóð síðan fyrir suddalegu og myrku partýi í bílakjallaranum og dúndraði ísköldi naumhyggjutekknói í mannskapinn sem dansaði út í hið óendanlega. Vatican Shadow átti síðasta settið í sitjandi salnum, Kaldalóni, og fékk alla upp úr sætunum með tilraunakenndri rafgeggjun. Ég náði svo síðustu 20 mínútunum af FM Belfast sem tóku maraþon útgáfu af Underwear og splæstu inn í það köflum úr Killing in the Name of og Fight for your right to party. It goes without saying svo að confetti kom við sögu og tryllingurinn var áþreifanlegur og óþreyjufullur. Frábæru fyrsta kvöldi af Sónar var hérmeð lokið þar sem uppgötvun kvöldsins og það sem upp úr stað var: Örvar í múm er líka frábær einn og ekki í múm.

Davíð Roach Gunnarsson

Straumur 13. febrúar 2017

Í Straumi í kvöld kennir margra grasa. Í fyrri hluta þáttarins verður farið yfir nýtt efni með listamönnum á borð TQD, Hercules & Love Affair, Superorganism, Dirty Projectors og fleirum. Seinni hluti þáttarins verður svo tileinkaður Sónar Reykjavík tónlistarhátíðinni sem fram fer í Hörpu um næstu helgi. Straumur með Óla Dóra á slaginu 23:00 á X-inu 977 í kvöld. 

1) Controller (ft. Faris Badwan) – Herclules & Love Affair
2) Something For you M.I.N.D. – Superorganism
3) Cool Your Heart (feat. D∆WN) – Dirty Projectors
4) Vibsing Ting – TQD
5) Freeway Crush (Nutrition remix) – Ruby Haunt
6) What Time Is It In Portland? – Bonny Doon
7) Infinity Guitars – Sleigh Bells
8) Naive To The Bone – Marie Davidson
9) Skwod – Nadia Rose
10) Whippin Excursion – Giggs
11) Finder (Hope) – Ninetoes Vs Fatboy Slim
12) Milk – Moderate
13) Filthy Beliiever – BEA1991
14) The Weight Of Gold – Forest Swords

Síðustu listamennirnir tilkynntir á Sónar Reykjavík

Sónar Reykjavík hefur tilkynnt um síðustu viðbæturnar í dagskrá hátíðarinnar og dagskrá hennar eftir dögum. Alls bætast nú 16 listamenn, hljómsveitir og plötusnúðar við dagskrá þessarar 3 daga tónlistarhátíðar sem fram fer í Hörpu dagana 16., 17. og 18. febrúar.
Meðal þeirra sem nú bætast við dagskrá hátíðarinnar eru; hollenska poppdrottningin BEA1991Palmomen II sem hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir nýbylgjutónlist sína, nýstirnin aYia sem nýlega gáfu út sína fyrstu plötu hjá Bedroom Community, Hatari sem í mánuðinum hlutu Best Live Band in Iceland verðlaun Reykjavik-Grapevine Awards, hip hop bandið Shades of Reykjavik og Berndsen sem gefur út nýja breiðskífu fyrir hatíðina.

Meðal þeirra alþjóðlegu listamanna sem koma fram á Sónar Reykjavík 2017 eru; Fatboy Slim (UK), Moderat (DE), De La Soul (US), Giggs (UK), Sleigh Bells (US), Tommy Genesis (US), Nadia Rose (UK), Ben Klock (DE), Forest Swords (UK), Helena Hauff (DE), BEA1991 (NL), Palmbomen II (NL) Blawan (UK), B.Traits (UK), Sapphire Slows (JP), Pan Daijing (CN), Johan Carøe (DK), JOHN GRVY (ES), Marie Davidson (CA), Vatican Shadow (US), Oddisee (US)
Meðal þeirra íslensku listamanna sem koma fram á Sónar Reykjavík 2017 eru;
GusGusFM BelfastSamarisEmmsjé GautiExos, Aron CanGlowieGKRSing FangBerndsenKött Grá PjeSturla AtlasShades of ReykjavikCyberHatariaYiasxsxsx, Alvia Islandia og Örvar Smárason (múm/FM Belfast) sem kemur fram á sínum fyrstu tónleikum sem sóló-listamaður
Sónar Reykjavík fer fram á fjórum sviðum í Hörpu, m.a. bílakjallara tónlistarhússins sem breytt verður í næturklúbb.

Giggs, Ben Klock og GKR á Sónar

Breski grime-rapparinn Giggs, þýski plötusnúðurinn Ben Klock (sem spilar reglulega í Tekknó-musterinu Berghain í Berlín) og íslenski rapparinn GKR eru meðal nýrra listamanna sem voru tilkynntir á Sónar hátíðina sem fram fer í Hörpu 16.–18. febrúar. Þá einnig tilkynnt um breska rapparann Nadiu Rose, hina íslensku Alva Islandia, plötusnúðinn Frímann og hip hop sveitin Sturla Atlas. Þá mun Berlínski plötusnúðurinn Blawan taka höndum saman með íslenska tekknótröllinu Exos en tvíeykið mun standa fyrir tveggja tíma dagskrá í bílakjallaranum.

Þetta er í fimmta sinn sem Sónar hátíðin fer fram í Hörpu en áður hafði verið tilkynnt að stórkanónur eins og Moderat, Fatboy Slim og De La Soul myndu koma fram.

Fatboy Slim, Moderat og De La Soul á Sónar Reykjavík

Nú rétt í þessu var tilkynnt um fyrstu listamennina sem hafa verið bókaðir á næstu Sónar hátíð – sem fram fer á fjórum sviðum í Hörpu dagana 16.-18. febrúar á næst ári. Meðal þeirra er Fatboy Slim sem mun koma fram á síðasta kvöldi hátíðarinnar á  SonarClub stage,  Moderat og hip hop goðsagnirnar De La Soul, auk Ben Klock, Forest Swords, Tommy Genesis, Helena Hauff og B.Traits.

Þeir íslensku listamenn sem voru einnig tilkynntir eru: Emmsjé Gauti, Aron Can, Kött Grá Pje, FM Belfast, Samaris, Sin Fang, Glowie, Øfjord og sxsxsx.