Fyrsti í Sónar – Örvar án múm og raddlaus rappari

Það er alltaf eftirvænting í lofti á fyrsta degis Sónars og ég hóf kvöldið á því að sjá eitt besta live-band á Íslandi í dag, Hatara. Hatari taka tónleikana sína alvarlega og eru innblásnir af leikhúsi og gjörningalist. Tónlistin er pönkað iðnaðarelektró og söngvararnir tveir klæðast búningum sem daðra við fasíska fagurfræði. Það var feikilegur kraftur í þeim og til halds og trausts höfðu þeir nútímadansara með gasgrímur. Textarnir eru svo kapítuli út af fyrir sig, ljóðrænn níhílismi af bestu sort. „Ómagar sameinist/bak í bak og dansið“ skipuðu Hatari og áhorfendur hlýddu sem í leiðslu.

 

Næst á svið í Silfurbergi var kanadíska rapppían Tommy Genesis sem góður rómur hafði verið gerður að. Það verður bara segjast eins og er, hún var arfaslök. Hana skorti í fyrsta lagi mikilvægasta eiginleika rappara: rödd. Hún var andstutt og það var alltaf sami ryðminn í flæðinu sem varð þreyttur eftir hálft lag. Ég flúði því af hólmi niður í Kaldalón til að sjá Örvar úr múm spila sólóefni í fyrsta skiptið, og sá svo sannarlega ekki eftir því. Örvar var einn fyrir framan massíft græjuborð og söng í gegnum vókóder. Eitt lagið minnti mig á Jan Hammer, annað á Air upp á sitt besta og stundum var heilmikið Boards of Canada í töktunum. Þetta var dásamlega melódískt og ofgnótt af fallegum synþalínum, og mig hlakkar til að heyra þetta á plötu. Besta atriði kvöldsins var komið í sarpinn.

 

GKR stendur alltaf fyrir sínu og hann hoppskoppaði um sviðið í Silfurbergi eins og honum einum er lagið. Berlínski tekknópresturinn úr Berghain, Ben Klock, stóð síðan fyrir suddalegu og myrku partýi í bílakjallaranum og dúndraði ísköldi naumhyggjutekknói í mannskapinn sem dansaði út í hið óendanlega. Vatican Shadow átti síðasta settið í sitjandi salnum, Kaldalóni, og fékk alla upp úr sætunum með tilraunakenndri rafgeggjun. Ég náði svo síðustu 20 mínútunum af FM Belfast sem tóku maraþon útgáfu af Underwear og splæstu inn í það köflum úr Killing in the Name of og Fight for your right to party. It goes without saying svo að confetti kom við sögu og tryllingurinn var áþreifanlegur og óþreyjufullur. Frábæru fyrsta kvöldi af Sónar var hérmeð lokið þar sem uppgötvun kvöldsins og það sem upp úr stað var: Örvar í múm er líka frábær einn og ekki í múm.

Davíð Roach Gunnarsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *