Spennandi erlent á Sónar

Fimmta Sónarhátíðin í Reykjavík hefst í dag en ógrynni hljómsveita, rafgeggjara og plötusnúða munu trylla lýðinn í fjórum mismunandi sölum Hörpu um helgina. Hér á eftir fara þau erlendu atriði sem Straumur telur ástæðu til að fólk leggi lykkju á leið sína til að sjá.

Nadia Rose

Þessi unga breska rappynja hefur attitúd í gámavís og flæðir eins og Amazon á regntímabilinu. Eftir stórvelheppnað mynd við lagið Skwod er hún sentímetrum frá heimsfrægð.

 

Sleigh Bells

Noise-poppbandið Sleigh Bells hafa skilið eftir sig frábær lög og plötur og enginn ætti að missa af þeim í Norðurljósasalnum á föstudagskvöldinu. Ritstjórn Straums getur staðfest að það verður enginn svikinn af tónleikum með þeim en á Hróarskeldu 2014 lék söngkonan Alexis Krauss á als oddi í tryllingslegri sviðsframkomu og bókstaflega labbaði á áhorfendum.

 

Marie Davidson

Kanadíska ljóðskáldið og elektrókonan Marie Davidson er listamaður af guðs náð og átti eitt besta lag síðasta árs, Naive To The Bone. Hún spilar á miðnætti í Kaldalóni og enginn raftónlistarunnandi með snefil af sjálfsvirðingu ætti að láta það fram hjá sér fara.

 

Moderat

Berlínsku ofurtekknóhetjurnar í Modarat léku á stórfenglegum tónleikum á Airwaves í listasafninu fyrir örfáum árum og við höfum enga trú á öðru en að þeir muni endurtaka leikinn þegar þeir loka föstudagskvöldinu í Silfurbergi.

 

Forest Swords

Bretinn Matthew Barnes sem gengur undir listamannsnafninu Forest Swords framleiðir tilraunatónlist sem víkkar bæði hugi og hlustir áheyrenda sinna. Hann spilar í Norðurljósum á föstudagskvöldinu og er líklegur til að taka viðstadda með sér í ferðalag um ókannaðar lendur mannshugans.

 

BEA1991

Hin hollenska listakona BEA1991, sem hefur meðal annars starfað með Blood Orange, framleiðir ævintýralegt rafpopp þar sem andríki drýpur af hverjum takti. Hún kemur fram í Kaldalóni á laugardagskvöldinu og lofar sínu allra besta.

 

Giggs

Grjótstinni Grime-rapparinn Giggs hefur hægt en örugglega brotið sér leið á toppinn í senu þar sem samkeppnin er næstum jafn hörð og hann. Ekki fyrir viðkvæma. Norðurljós. Laugardagur.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *