Á næsta ári er væntanleg ný plata frá vélbyssukjaftinum og flippsveitarmeðlimnum Busta Rhymes, Extinction Level Event 2, sem er framhald af hinni geysivinsælu skífu með óþjála titilinn E.L.E. (Extinction Level Event): The Final World Front. Sú frábæra plata kom út 1998 og innhélt slagara á borð við Gimme Some More og What’s It Gonna Be?! Ýmsir rapparar hafa í gegnum tíðina gert eins konar framhöld af sínum frægustu plötum -oft mörgum árum seinna- svo sem Raekwon með Cuban Linx pt. 2, Dr. Dre með Chronic 2001, Jay-Z með Blueprint 2 og 3, og nú síðast Eminem með Marshall Mathers 2 sem kom út í þessari viku.
Fyrsta smáskífan af Extinction Level Event 2, Twerk It, kom út í júní og er eins og nafnið gefur til kynna óður til rassadansins alræmda sem Mily Cyrus hefur undanfarið vakið mikla athygli fyrir. Lagið er með hægum og fútúrískum takti og gestaversi frá Nicki Minaj, en í því ber lítið á ljóshröðu flæðinu sem rapparinn er hvað þekktastur fyrir. Það kveður hins vegar við allt annan tón í laginu Thank You sem kom út á dögunum. Undirspilið er byggt á óldskúl diskófönki og Busta nýtur aðstoðar síns gamla félaga Q-Tip, auk þess sem Lil Wayne og Kanye West líta inn og kasta kveðju. Busta Rhymes og Q-Tip eru í fantaformi og rappa á ógnarhraða af miklu áreynsluleysi í lagi sem minnir um margt á hin svokölluðu gullaldarár rappsins um miðjan 10. áratug síðustu aldar.
Busta Rhymes og Q-Tip eiga sér langa sögu en það var einmitt í lagi með sveit hins síðarnefnda, A Tribe Called Quest, sem að Busta Rhymes vakti fyrst athygli. Það var með ódauðlegu gestaversi sem hreinlega slátraði partýslagaranum Scenario, af plötunni Low End Theory frá 1991. Þá má geta þess að einnig er von á nýrri plötu, The Last Zulu, frá Q-Tip á næsta ári. Hlustið á Thank You, Twerk It og Scenario hér fyrir neðan og horfið á dramatískt kynningarmyndband fyrir Extinction Level Event 2.
Davíð Roach Gunnarsson
E.LE. 2 Trailer from Dazed One on Vimeo.