Skiptar skoðanir voru um ágæti Random Access Memories, nýjustu plötu Daft Punk, sem kom út í vor eftir mikla flugeldasýningu af auglýsingum og hæpi. Get Lucky varð þó stærsti smellur sumarsins en nú hefur fyrsta myndbandið af plötunni litið dagsins ljós, við lagið Loose Yourself To Dance. Það er að mati ritstjórn þessa vefs eitt sterkasta lag plötunnar og eins og í Get Lucky njóta vélmennin þar góðs af gítarleik Nile Rodgers og falsettusöng Pharrel Williams. Í myndbandinu er vísað grimmt í glamúrarfleið diskóteka eins og Studio 54 frá ofanverðum 8. áratugnum. Horfið á myndbandið hér fyrir neðan.
Tag: nile rodgers
Chic spila á Íslandi 17. júlí
Diskósúpersveitin Chic sem leidd er af gítarleikaranum Nile Rodgers mun halda tónleika hér á landi í Laugardalshöll þann 17. júlí næstkomandi. Chic var ein helsta sveitin í diskósenu New York borgar á ofanverðum 8. áratugnum og eftir hana liggja ótal smellir eins og Le Freak, Everybody Dance og I Want Your Love. Þá var sveitin ötul í lagasmíðum og upptökum fyrir aðra listamenn eins og Sister Sledge og Diana Ross og sem slík ábyrg fyrir ódauðlegum slögurum eins og We are Family og Upside Down. Nile Rodgers hefur einnig stjórnað upptökum á plötum á borð við Let’s Dance með David Bowie og Like a Virgin með Madonnu. Þá ætti hann að vera hlustendum samtímans kunnugur þar sem hann er í stöðugri útvarps- og dansgólfaspilun um þessar mundir í Daft Punk laginu Get Lucky sem hann fönkar all svaðalega upp með sínum óviðjafnanlega gítarleik. Annar helmingur Chic, hinn frábæri bassaleikari Bernand Edwards, er því miður látinn en koma sveitarinnar ætti þó að vera diskóboltum og grúvhundum mikið fagnaðarefni. Hljómsveitirnar Moses Hightower og Sísí Ey sjá um upphitun á tónleikunum en miðasala hefst á föstudaginn á midi.is. Hlustið á lögin Everybody Dance og Good Times hér fyrir neðan.
Casablancas og Pharrel Williams á nýju Daft Punk?
Nýja Daft Punk platan sem allir diskóboltar og danstónlistarnerðir heimsins bíða eftir eins og endurkomu krists kemur út 21. maí en í dag bárust fregnir af öllum tónlistarmönnum sem leika gestahlutverk á henni. Áður hefur verið sagt frá því að Nile Rodgers og Giorgio Moroder hafi komið að gerð hennar en í dag upplýsti franska vefsíðan konbini.com að Julian Casablancas, söngvari Strokes, syngi í einu lagi og Pharrel Williams í tveimur. Þar kemur einnig fram að Noah Lennox úr Animal Collective syngi eitt lag og gamla House-kempan Todd Edwards, sem einnig söng á Discovery, annað. Þetta hefur þó ekki verið opinberlega staðfest af Daft Punk-liðum en upplýsingarnar koma þó heim og saman við það sem áður hefur komið fram um plötuna. Ef þetta er rétt er svo sannarlega enn meiri ástæða til að vera spenntur, fréttaritari straums er alla vega við það að pissa á sig. Fyrir neðan má skoða allan gestalistann á plötunni sem að kombini sagði frá en titlar laganna eru enn á huldu.
1 – Nile Rodgers (Guitar), Paul Jackson Jr. (Guitar) – 4:34
2 – Instrumental – 5:21
3 – Giorgio Moroder (Synth) – 9:04
4 – Gonzales (Piano) – 3:48
5 – Julian Casablancas (Vocals) – 5:37
6 – Loose yourself to dance – Nile Rodgers (Guitar), Pharrell Williams (Vocals) – 5:53
7 – Paul Williams (Vocals and Lyrics) – 8:18
8 – Nile Rodgers (Guitar), Pharrell Williams (Vocals) – 6:07
9 – Paul Williams (Lyrics) – 4:50
10 – Instrumental – 5:41
11 – Todd Edwards (Vocals) – 4:39
12 – Noah Benjamin Lennox (Panda Bear – Vocals) – 4:11
13 – Dj Falcon – 6:21
Dularfull auglýsing frá Daft Punk
Dularfull auglýsing frá frönsku róbótunum í Daft Punk var birt í síðasta þætti af Saturday Night Life skemmtiþættinum. Í auglýsingunni birtist lógó hljómsveitarinnar og að lokum mynd af dúettinum meðan mjúkt diskófönk ómar undir. Nýjustu plötu sveitarinnar er beðið með mikilli eftirvæntingu en hana unnu þeir meðal annars í samstarfi við Chic-liðann Nile Rodgers og Giorgio Moroder. Enginn útgáfudagur hefur verið settur á plötuna en Nile Rodgers skrifaði á vefsíðu sína fyrir stuttu að hún kæmi út á þessu ári. Hvort að auglýsingin sé fyrirboði plötunnar eða hvort vélmennatvíeykið sé bara að minna á sig veit enginn en áhugasamir geta rýnt í skilaboðin og lesið milli línanna hér að neðan. Heil níu ár eru síðan síðasta hljóðversplata sveitarinnar, Human After All, kom út þannig að aðdáendur eru orðnir nokkuð langeygir eftir framhaldinu.