Innipúkinn – Festival í borg

Mynd: Þórir Bogason

Kvöld 1

 

Hátíðin Innipúkinn fór fyrst fram árið 2002 sem einhvers konar svar miðbæjarins við Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, og hefur svo verið haldin næstum því ár hvert síðan þá. Í ár fór hátíðin fram á samliggjandi skemmtistöðunum Húrra og Gauknum og til að undirstrika hátíðarbraginn var götunni fyrir framan þá lokað og settar grastorfur og bekkir fyrir framan. Aðaltónleikarnir mætti segja að hafi verið á Húrra þar sem var blönduð dagskrá, en á Gauknum var fókus á sérstaka tónlistarafkima á hverju kvöldi, hart rokk á föstudegi, raftónlist á laugardeginum og rapp á síðasta kvöldinu.

 

Dj Flugvél og Geimskip var að koma sér fyrir þegar ég mætti á Húrra og krúttlegið hljómborðspoppið fór vel í áhorfendur sem fjölgaði ótt í salnum eftir því sem leið á tónleikana. Ég yfirgaf þó Geimskipið til að tónlistarlega andstæðu þess, Pink Street Boys sem spiluðu á Gauknum. Þar voru öllu færri en þemað á Gauknum þetta kvöldið var rokk í harðari kantinum. Pink Street Boys spiluðu harða, hraða og fasta blöndu af pönki og garage-rokki sem reif í hljóðhimnuna á yfirgengilegum hljóðstyrk. Þetta var hreint og tært rokk og ekki vottur af hipster-pósi sem var ansi hressandi, en ég þoldi samt ekki við mikið lengur en 20 mínútur því mér þykir of vænt um heyrnina mína.

 

Arabískir skalar og gjafir jarðar

 

Plötusnúðurinn KGB var næstur á svið með rokkverkefni sitt sem hann kallar Justman. Hann hafði innlimað ryþmapar Boogie Trouble og Teit úr Ojba Rasta og spilaði nokkuð lágstemmt indígítarpopp nokkuð í anda sveita eins og Pavement. Eitt lagið skar sig þó úr en í því byggði hann á arabískum tónskölum sem var afskaplega vel heppnað. Borko mætti til leiks í félagsskap raftónlistarmannsins Futuregrapher og framleiddi tilraunakennt rafpopp. Þvínæst fóru fjölmenningarnir í Orphic Oxtra á svið og héldu upp balkanskri brúðkaupsstemmningu næsta hálftímann eða svo, áður en reggístórsveitin Ojba Rasta tók við.

 

Ojba Rasta eru óðum að fylla upp í reggítómið sem Hjálmar skyldu eftir sig og stóðu sig með mikilli prýði þetta kvöld, ekki síst í lögunum Gjafir Jarðar og Hreppstjórinn. Heilt yfir var kvöldið mjög vel heppnað og grastorfunar og bekkirnir fyrir framan Húrra mynduðu skemmtilega hátíðarstemmningu þar sem fólk sat, reykti og spjallaði á milli atriða.

 

Kvöld 2

 

Ég byrjaði laugardagskvöldið á rafdúettinum Good Moon Dear, sem spiluðu á Gauknum. Það er Guðmundur Ingi Úlfarsson sem er heilinn á bak við verkefnið en honum til halds og trausts hefur hann trommuleikarann Ívar Pétur úr sveitunum Miri og FM Belfast. Tónlistin stígur einstigi á milli Hip Hop og House og byggir að stórum hluta á hljóðbútum sem eru teygðir og skældir í allar áttir, og minnir mig stundum á taktmeistarann Prefuse 73. Þetta var djassað og spunakennt og greinileg kemestría á milli félaganna á sviðinu.

 

Þvínæst náði ég í skottið á hljómsveitinni Kvöl sem spilaði einhvers konar dauft bergmál af Joy Division, frambærilegt en nokkuð óeftirminnilegt. Low Roar hefur vaxið og dafnað frá því hann vakti fyrst athygli með kassagítardrifnu singer-songwriter poppi, og hefur nú stækkað við sig með gítarleikara, trommara og sérstakan græjumeistara sem spilar bæði á hljómborð, og fokkar í hljóðum hinna í rauntíma. Þá söng Mr. Silla með honum í nokkrum lögum og var stórgóð. Sum af bestu lögunum minna nokkuð á raftónlistartímabil Radiohead, og er það vel.

 

101 Abba

 

Mr. Silla var svo næst á svið með sóló-sett sem var ákaflega fjölbreytt og skemmtilegt. Frá lágstemmdri trip hop elektróník úr tölvunni yfir í Joplin-lega blúsara þar sem hún spilaði undir á rafmagnsgítar, en undurfögur röddin var alltaf í forgrunni. Benni Hemm Hemm hefur ekki verið mjög áberandi undanfarið svo ég var forvitinn að sjá hvað hann hefði upp á að bjóða á Innipúkanum. Það kom svo sannarlega á óvart, en fyrir utan um 10 manna hljómsveit með slatta af blæstri, var um tugur bakraddasöngvara mættur á sviðið, og hersingin spilaði svo einungis Abba lög. Það var eitthvað skemmtilega kaldhæðið við að sjá rjómann af 101 hipsterum leika Abba lög og áhorfendur tóku við sér og dönsuðu svo um munar.

 

Kvöldið endaði svo eins og hið fyrra, með sjóðheitu reggíi, en að þessu sinni voru það Amaba Dama sem léku fyrir dansinum.

 

Kvöld 3

 

Lokakvöldið hjá mér hófst svo á Markús and the Diversion Session sem spiluðu letilegt 90’s slackerrock af miklu en afslöppuðu öryggi. Þá var flutningur Ólafar Arnalds hugljúfur og blíður en eftir hana var skipt um gír. Þá tók harðsvíraða grúvgengið í Boogie Trouble við keflinu en þau nutu þó aðstoðar Ólafar Arnalds á bakröddum. Þau fönkuðu þakið af húsinu í sjóðheitum hrynhita og dansinn dunaði svo um munaði.

 

Þvínæst kom lokaatriði hátíðarinnar, sjálfur meistari Megas steig á svið með sínum helstu lærisveinum, Grísalappalísu. Lísurnar keyrðu í gegnum helstu lög Megasar af rokna krafti meðan meistarinn lék á alls oddi í flutningnum. Þrátt fyrir að líkamlegt atgervi hans bjóði ekki upp á mikla hreyfingu sá Gunnar Ragnarsson um þá deild af miklu öryggi og hann og Baldur tóku svo undir í bakröddum.

 

Alvöru valkostur

 

Þetta er líklega í 13. skiptið sem Innipúkinn er haldinn um Verslunarmannahelgi og það er ljóst að hann lætur engan bilbug á sér finna eftir allan þennan tíma. Það er nauðsynlegt að hafa valkost við útihátíðir fyrir heimakæra borgarbúa og púkinn í ár stóð fyllilega undir því. Þriggja daga dagskráin var fjölbreytt og bauð upp á ýmis atriði sem maður sér ekki á venjulegum tónleikum í Reykjavík, svo sem Megas með Grísalappalísu og Benna Hemm Hemm syngja Abba lög. Þá skapaði grasi skreytt gatan fyrir framan Gaukinn og Húrra alvöru festivals-stemmningu, en þó ekki útihátíðlega.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Grísalappalísa syngur Megas

Reykvíska hljómsveitin Grísalappalísa gefur út 7 tommu vinylplötu á morgun, fimmtudaginn 14. nóvember.  Platan ber nafnið Grísalappalísa syngur Megas en hljómsveitin heiðrar verndara sinn og upprunalega andagift og leggur fram sínar eigin útgáfur af tveim tónsmíðum meistara Megas. Hið fyrra heitir Björg og kom upphaflega út á hljómplötunni Loftmynd árið 1987, en seinna lagið, Ungfrú Reykjavík, kom út á hljómplötunni Hættuleg hljómsveit og glæpakvendið Stella árið 1990.

Í tilefni útgáfunnar, sem hljómsveitin stendur á bak við, mun eiga sér stað útgáfuhóf annað kvöld í plötubúðinni Lucky Records á Rauðarárstíg á milli 20:00 og 22:00. Hljómsveitin býður upp á léttar veigar, áritanir eftir óskum og þeytir skífum.

Platan var tekinn upp á einum degi í æfingahúsnæði hljómsveitarinnar, Járnbraut. Upptökustjóri var Albert Finnbogason, en Finnur Hákonarson sá um hljómjöfnun. Ljósmynd á kápu á Magnús Andersen en umslagsskrift á Tumi Árnason. Einnig má geta að þetta er fyrsta hljóðritun Grísalappalísu sem 7-manna sveitar, en Rúnar Örn Marínóson hóf leik með sveitinni stuttu eftir útgáfu breiðskífunnar ALI. Hér fyrir neðan má heyra lögin.