Tónleikar helgina 25.- 28. apríl

Fimmtudagur 25. apríl

Erlend Oye úr Kings of Convenience mun troða upp á afmæli Slippbarsins.

 

 

Föstudagur 26. apríl

Kristján Hrannar flytur lög af væntanlegri plötu sinni Anno 2013 á Stúdentakjallaranum. Aðgangur ókeypis og tónleikarnir hefjast klukkan 16:00.

Ásgeir Trausti heldur tónleika á efri hæð Faktorý ásamt Pétri Ben. Efri hæð opnar kl. 22 og hefjast tónleikarnir kl. 23:00. Miðaverð er 2500 kr.

 

Skúli mennski spilar ásamt Þungri byrði á Rósenberg. Það kostar 1500 krónur inn og tónleikar hefjast klukkan 22:00.

Skelkur í Bringu heldur tónleika á Kaffibarnum og spila lög af væntanlegri plötu. Krystal Carma hitar upp með ýmisum gjörningum. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.

 

 

 

Laugardagur 27. apríl

Morgan Kane og Axeorder halda ókeypis tónleika á Dillon sem hefjast klukkan 22:00.

Tónleikar með Retrobot, Kjurr, Vök og Just Another Snake Cult á Gamla Gauknum. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það kostar 1000 krónur inn.

Hjálmar spila á efri hæðinni á Faktorý laugardagskvöldið. Miðaverð: 2000 kr. Efri hæð opnar kl. 22:00.

 

 

 

Sunnudagur 28. apríl

Tónleikar með órafmagnaða blústríóinu Debess Blues Station frá Færeyjum á Cafe Haiti. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og það er aðgangur 1000 krónur.

Föstudagskvöldið á Airwaves

Mynd: Sigurður Ástgeirsson

 

Á þriðja í Airwaves er hátíðin og veðrið farið að taka sinn toll. Ég reif mig þó upp úr sófanum til að sjá Útidúr spila í Hafnarhúsinu klukkan níu. Þar voru fáir mættir en dramatíkin var engu að síður keyrð í botn og kammerpoppið fór vel í þá sem voru farnir á stað. Apparat Organ Quartet voru í orgasmísku orgelstuði í Silfurbergssal Hörpu og höfðu með sér fjórar stelpur í 80’s fötum með gosbrunna í hárinu sem að sungu í nokkrum lögum og lífguðu upp á tónleikana. Á eftir þeim spilaði kanadíska indíbandið Half Moon Run fyrir meðalfullum sal og tónlistin var vönduð en afar venjuleg. Indípopp eins og það gerist mest óspennandi og meðalmennskan var í hávegum höfð.

Dómsdagsdöbb

Næstir á svið í Silfurbergi voru Hjálmar ásamt finnska gúrúinum Jimi Tenor. Ég hef séð Hjálma spila hundrað sinnum áður en þetta var eitthvað annað. Jimi Tenor var klæddur í pallíettuslopp og með Prins Valíant hárgreiðslu og var dáleiðandi sem frontmaður. Hann söng, spilaði á saxafón og hljóðgervil og var yfirgengilega svalur. Tónlistin var reggí og döbb en talsvert dekkri en maður á að venjast frá Hjálmum. „Dat was Doom,“ sagði Tenórinn eftir eitt lagið og hafði mikið til síns máls, þetta var nokkurs konar drungalegt dómsdagsdöbb. Hjálmarnir voru líka í yfirstærð og höfðu með sér fimm blásturshljóðfæraleikara og Sigtrygg Baldursson á áslætti sem beitti stálkeðjum á bongótrommurnar sínar. Það verður svo sannarlega spennandi að heyra plötuna sem er væntanleg frá þessum áhugaverðu listamönnum og þetta var skemmtilegasta atriðið sem ég hef orðið vitni að á Airwaves hingað til.

Reykjavíkurnætur

Næst á svið í Silfurbergi voru Fm Belfast sem ég náði þremur og hálfu lagi með. Þau hafa engu gleymt og keyrðu stemmninguna í Silfurbergi upp í hæstu hæðir. Tónlistin er svo sem ekki flókin en þau kunna upp á hár að spila á áhorfendur og rafræna gleðipoppið þeirra kveikti svo sannarlega í þeim þetta kvöld. Þvínæst hélt ég á Þýska Barinn til að sjá Reykjavík! og fékk næstum því Bóas, söngvara sveitarinnar, í hausinn þegar ég var nýkominn inn. Hann stagedive-aði eins og óður maður og eyddi meiri tíma út í salnum meðal fólksins en uppi á sviðinu og Reykjavíkurrokkið æsti mig upp fyrir ævintýri næturinnar.

Tunnur af töffaraskap

Eftir að hafa hlaðið nikótíni og áfengi í blóðrásina fór ég aftur inn á Þýska Barinn og varð vitni að rokksveitinni Dream Central Station. Hún er hugafóstur Hallbergs Daða Hallbergssonar og í þetta skipti naut hann aðstoðar Henriks úr Singapore Sling á gítar og plötusnúðsins Kristins Gunnars Blöndals á hljómborði. Þrátt fyrir að það hafi verið farið að síga á seinni hluta kvöldsins og ekkert sérstaklega margir í salnum náðu þau að heilla mig með unaðslegum samsöng, rifnum rafmagnsgítarriffum og tunnum af töffaraskap.

 

Davíð Roach Gunnarsson

 

Áhugavert á Airwaves – Seinni hluti

Django Django

Skoska hljómsveitin Django Django er tilnefnd til hinna virtu Mercury verðlauna í ár fyrir sína fyrstu plötu sem er samnefnd hljómsveitinni. Þar er á ferðinni ein af bestu plötu ársins þar sem sækadelía, þjóðlagatónlist og synþapopp mætast í afar bragðmikilli súpu. Django Django spila í Silfurbergssal Hörpu á miðnætti á laugardaginn.

Shabazz Palaces

Shabazz Palaces er skipuð bandaríska rapparanum Ishmael Butler og tónlistarmanninum Tendai ‘Baba’ Maraire. Ishmael þessi kallaði sig einu sinni Butterfly og var helsta sprautan á bak við hina dáðu og djössuðu hip hop sveit Digable Planets í upphafi tíunda áratugarins. Hann er ennþá að rappa en að þessu sinni er tónlistin tilraunakenndari og textarnir pólitískari. Fyrsta breiðskífa þeirra, Black Up, var gefin út af Sub Pop útgáfunni í fyrra og hlaut frábæra dóma gagnrýnenda. Shabazz Palaces koma fram á Þýska Barnum á miðnætti á fimmtudagskvöldinu.

Just Another Snake Cult

Lo-Fi skrýtipoppsveitin Just Another Snake Cult er einstaklingsverkefni Þóris Heydal en hann gaf út hina frábæru og fjölbreyttu plötu Dionysian Season árið 2010. Fyrr þessu ári gerðist hann svo li-fo að hann gaf út ep plötu í formi kasettu, Birds carried your song through the night, sem hefur að geyma draumkennt hljóðgerflapopp. Just Another Snake Cult koma fram klukkan 20:00 á Gamla Gauknum á föstudaginn.

 

Apparat Organ Quartet 

Orgelkvartettinn er fyrir löngu orðinn að stofnun í íslensku tónlistarlífi með tveimur plötum af rafrokkaðri orgeltónlist, meitlaðri sviðsframkomu og útpældri fagurfræði. Þeir spila þó ekki oft á tónleikum svo Airwaves er kærkomið tækifæri til að berja þessa snyrtilegu organista augum. Apparat stíga á stokk klukkan 22:10 í Silfurbergi á föstudagskvöldið.

Doldrums

Montrealbúinn Airick Woodhead hefur vakið mikla athygli undanfarið fyrir tónlist sem hann gefur út undir nafninu Doldrums. Kaótískt og brotakennt hávaðapopp hans ætti að vera ferskur andblær á Airwaves hátíðinni í ár en hann kemur fram klukkan 00:20 á fimmtudagskvöldinu í Iðnó.

Phantogram

Bandarísk indí-sveit sem hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir hugmyndaríkt popp og stóran hljóðheim. Stíga á svið í Listasafni Reykjavíkur klukkan 21:00 á fimmtudagskvöldið.

Hjálmar og Jimi Tenor

Reggísveitina Hjálma þarf ekki að kynna þar sem hún hefur verið með vinsælustu sveitum landsins undanfarin ár. Að undanförnu hafa þeir þó verið að vinna að plötu með finnska raftónlistarséníinu Jimi Tenor sem hefur spilað ótal sinnum á Íslandi, síðast í ágúst, og m.a. unnið með Gus Gus. Það eina sem hefur heyrst af samstarfinu er lagið fyrir neðan og verður spennandi að heyra meira. Hjálmarnir og tenórinn stíga á svíð á miðnætti í Silfurbergi á föstudagskvöldinu.

Theesatisfaction

Hip hop sveit frá Seattle skipuð rapparanum Stasiu “Stas” Iron og söngkonunni Catherine “Cat” Harris-White. Þær voru uppgvötaðar eftir að hafa verið gestir á Black Up plötu Shabazz Palaces og fyrsta breiðskífa þeirra var gefin út af Sub Pop útgáfunni á þessu ári. Þær koma fram á undan Shabazz Palaces klukkan 23:00 á Þýska barnum á fimmtudagskvöldið.

Ojba Rasta

Þessi mannmarga reggísveit hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir sína fyrstu breiðskífu sem kom út fyrir skemmstu og hafa fylgt henni eftir með miklu tónleikahaldi. Ojba Rasta spila klukkan 21:40 í Silfurbergi í kvöld.

 

Davíð Roach Gunnarsson