Erlendu sveitirnar á ATP

Það hefur varla farið framhjá tónlistaraðdáendum og lesendum þessarar síðu að fyrsta útgáfa All Tomorrow’s Parties tónlistarhátíðarinnar verður haldin á varnarliðssvæðinu í Keflavík eftir tvo daga. Hátíðin er orðin þekkt vörumerki í tónlistarheiminum og er um margt ólík öðrum festivölum sem er hægt að finna í tugatali í bæði Evrópu og Bandaríkjunum á hverju sumri. Sérstaða hennar felst einna helst í vinalegu andrúmslofti, þar sem allar hljómsveitir gista á svæðinu þar sem hátíðin er haldin og leitast er við að má út landamæri milli almennra gesta og tónlistarmannanna, og er þess vegna ekkert VIP svæði á hátíðinni. Annað sem hátíðin sker sig úr fyrir er að allar hljómsveitirnar spila tónleika því sem næst í fullri lengd, en ekki þessi hálftíma til 45 mínútna „festival-slot“ eins og á venjulegum hátíðum.

Þá leggur ATP mikið upp úr annars konar dægradvöl á meðan hátíðinni stendur og má þar nefna kvikmyndasýningar í Andrews Theater þar sem Jim Jarmusch og Tilda Swinton velja kvikmyndir, fótboltaleiki á milli hljómsveita á aðdáenda, og popppunktskeppni sem Dr Gunni mun halda. Að lokum má nefna að matur verður seldur á hátíðarsvæðinu svo gestir þurfa í raun ekki að leita neitt annað á meðan hátíðinni stendur. Enn er hægt að kaupa bæði helgar- og dagpassa á hátíðina á midi.is og straum.is hvetur lesendur sína til að láta þessa einstöku upplifun ekki framhjá sér fara. Fulla dagskrá hátíðarinnar má finna hér og margar af bestu hljómsveitum Íslands koma fram. Hér að neðan er hins vegar stutt kynning og tóndæmi á þeim erlendu hljómsveitum sem munu stíga á stokk.

Nick Cave & The Bad Seeds

Nick Cave er algjör óþarfi að kynna en við gerum það bara samt. Hann hefur í hátt í þrjá áratugi framleitt hágæða rokk, pönk og myrkar ballöður, með Birthday Party og Grinderman, undir eigin nafni með og án Slæmu Fræjanna, en sú frægasta sveit hans verður einmitt með honum í för á All Tomorrow’s Parties. Um tónleika fárra núlifandi listamanna hefur undirritaður heyrt ausið jafn miklu lofi og Nick Cave en hann hefur spilað þrisvar áður á Íslandi. Hér að neðan má heyra útgáfu hans af hinu frábæra Velvet Underground lagi sem ATP hátíðin tekur nafn sitt frá.

Thee Oh Sees

Thee Oh Sees er sækadelik sýrurokkssveit frá San Fransisco og hefur orð á sér að vera ein besta tónleikasveit heims um þessar mundir. Sveitin spilar í Atlantic Studios klukkan 00:15 á föstudagskvöldinu á undan íslensku rokkrisunum í Ham. Lagið Flood’s New Light er frábært lag sem krystallar kraftinn í bandinu.

SQÜRL

Leikstjórinn Jim Jarmusch hefur alltaf haft gott eyra fyrir töffaralegri músík til að setja í bíómyndirnar sínar og hefur í þeim tilgangi meðal annars leitað til RZA úr Wu Tang í Ghost Dog og Neil Young í Dead Man. Hann er nú kominn með sína eigin hljómsveit og sándið er alveg jafn svalt og myndirnar hans, töffaralegt og útúrfözzað gítarsurg. Þetta er rokktónlist sem tekur aldrei niður sólgleraugun.

The Notwist
Þýska indíbandið The Notwist hefur í hátt í 20 ár verið eitt helsta flaggskip Morr-útgáfunnar sem einnig hefur gefið út íslensku sveitirnar Múm og Sing Fang. Sveitin leikur skemmtilega fléttu af indírokki með rafáhrifum sem má heyra glöggt í laginu One With The Freaks af plötu þeirra Neon Golden frá 2002.

Deerhoof

Deerhoof hefur ferðast um lendur óhlóðarokks, indí og hugvíkkandi strauma á tveggja áratuga ferli og enginn hefur getað séð fyrir hvert hljómsveitin fer næst. Þeir sóttu Ísland heima á Iceland Airwaves hátíðina árið 2007 og þóttu tónleikarnir sérdeilis vel heppnaðir.

Chelsea Light Moving

Eftir að upp úr slitnaði hjá Sonic Yoth hjónakornunum tók Thurston Moore sig til og stofnaði nýtt band, Chelsea Light Moving. Þar heldur hann áfram þar sem frá var horfið með Sonic Youth, í því að misþyrma rafmagnsgíturum af öllum stærðum og gerðum og framleiða úrvalshávaða með melódískum þræði. Á fyrstu plötu sveitarinnar sem kom út í byrjun árs er talsverðra áhrifa að gæta frá pönki og harðkjarnatónlist.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *