Tónleikar vikunnar 28. maí-1. júní

Miðvikudagur 28. maí

 

Himnaför Jesú Krists verður fagnað af krafti á skemmtistaðnum Húrra þar sem hljómsveitin Grísalappalísa mun pönka til að danss en sveitin ætlar að flytja lög af væntanlegri plötu sinni, Rökréttu Framhaldi, sem kemur út 17. júní. Sveitin sendi frá sér tónlistarmyndband við lagið ABC í síðustu viku en það hefur farið sem eldur um sinu netheima. Lísu til halds og traust verða tvær af fremstu rokksveitum borgarinnar, hinir háværu og hættulegu Pink Street Boys og Kælan Mikla mun leika sinn kynngimagnaða ljóðapönksseið einsog þeim er einum lagið. Þar sem dagurinn eftir er uppstigningadagur þarf bærinn ekki að loka fyrr en miðja nótt og mun Óli Dóri því trylla lýðinn eftir rokkveisluna miklu. Það er frítt inn í veisluna og tónleikarnir hefjast klukkan 22:00.

 

Tónlistarkonan Jenn Kelly sem er frá Oakland í Kaliforníu kemur fram á tónleikum á Dillon. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.

 

Fimmtudagur 29. maí

 

Hljómsveitin Mosi Music leikur fyrir gesti Loft Hostel. Hljómsveitin leikur blöndu af raf- og lífrænni tónlist og tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

 

Föstudagur 30. maí

 

Tónlistarmaðurinn KRAKKBOT heldur útgáfutónleika á Húrra fyrir plötuna Amateur of the Year – Crammed with Cock, sem kemur út á kassettu á vegum Lady Boy Records útgáfunnar. Ásamt honum koma fram hljómsveitirnar dj flugvél og geimskip og Pyrodulia. Gleðin hefst stundvíslega klukkan 22:00 og aðgangseyrir er 500 krónur.

 

Kippi Kanínus leikur á hljómleikum í Mengi í samstarfi við Listahátíð Reykjavíkur. Kippi Kaninus er annað sjálf listamannsins Guðmundar Vignis Karlssonar. Sú var tíð að hann starfaði einn undir því nafni en nú er svo komið að Kippi Kaninus er hljómsveit sem telur sjö meðlimi. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Hljómsveitin Kvika kemur fram á Dillon, hefst 22:00 og aðgangur ókeypis.

 

Laugardagur 31. maí

 

Bandaríski tónlistarmaðurinn Arto Lindsay kemur fram í Mengi á vegum Listahátíðar Reykjavíkur. Lindsay var einn af lykilmönnum í hinni svokölluðu „no wave“ stefnu sem lét á sér kræla í New York borg í kjölfar pönksins. Á tónleikunum mun Arto Lindsay flytja eigið efni sem er nokkurs konar blanda af tilraunakenndum gítarspuna í sambland við viðkvæmari og munaðarfulla tóna ættaða frá Brasilíu. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 5000 krónur.

 

Söngkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir og Bjarni M. Sigurðarson leiða saman hesta sína á tónleikum á Dillon en dúettinn vinnur að plötu sem er væntanleg á þessu ári. Tónleikarnir hefjast 22:00 og aðgangseyrir er 500 krónur.

 

Sunnudagur 1. júní

 

Arto Lindsay kemur aftur fram í Mengi, en á þessum seinni tónleikum mun hann spinna tónlist í félagi við íslenska spunatónlistarmenn. Hver útkoman verður er ómögulegt að segja til um en víst er að það verður áhugavert enda ekki á hverjum degi sem að listamaður sem haft jafn djúpstæð áhrif menningarlíf heillar kynslóðar kemur fram á Íslandi.

Nýtt lag með Quarashi

Hin aldna rappsveit Quarashi voru rétt í þessu að gefa frá sér fyrsta nýja lag sitt í næstum áratug. Lagið er þrungið vísunum í upphafsár sveitarinnar, bæði í hljóm og texta. Til að ná sína upprunalega „sándi“ voru grafnar upp upptökugræjur sem voru í notkun á upphafsárum 10. áratugarins. Sveitin starfaði frá árunum 1996 til 2005 en hún hyggur á stærri útgáfu síðar á árinu. Hlustið á lagið Rock On hér fyrir neðan.

Tónleikahelgin 15.-17. maí

Fimmtudagur 15. maí

Trúbatrixan Elín Ey heldur uppi notalegri stemmningu á tónleikum á Loft Hostel. Aðgangur er ókeypis og tónleikarnir hefjast klukkan 21:00.

 

Skúli mennski kemur fram með hljómsveit á hostelinu Hlemmur Square. Þau munu leika nokkra lauflétta blúsa í bland við tregafyllri tóna; lög um ástir og örvæntingu, vonir og þrár. Herlegheitin hefjast klukkan 20:00 og það er ókeypis inn.

 

Hljómsveitirnar VAR og Airelectric munu leiða saman hesta sína á Húrra (gamla Harlem). Gleðin hefst klukkan 21:00 og það er frítt inn.

 

Christoph Schiller heldur tónleika í Mengi við Óðinsgötu. Schiller er fæddur í Stuttgart árið 1963 og hefur haldið píanótónleika og spilað spunatónlist síðan 1987. Hin seinni ár hefur píanóið mátt víkja fyrir litlum sembal sem Christoph hefur þróað nýja tækni fyrir. Christoph hefur að auki unnið og lagt áherslur á verk fyrir raddir. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

 

The Dirty Deal Bluesband stígur á stokk á Dillon klukkan 22:00. Aðgangur er ókeypis.

 

Föstudagur 16. maí

 

Hljómsveitirnar Mammút og Vio koma fram á ókeypis tónleikum á Húrra (gamla Harlem), en hljómsveitirnar eiga það sameiginlegt að hafa unnið Músíktilraunir; Mammút fyrir 10 árum og Vio í ár. Hljómleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 22:00.

 

Tékkneska hljómsveitin ILLE kemur fram í verslun 12 tóna á Skólavörðustíg.
ILLE hefur verið starfandi í nokkur misseri en í fyrra kom út fyrsta plata hljómsveitarinnar, Ve tvý skříni, og fékk hún frábæra dóma í tékknesku pressunni. Í framhaldi af því var ILLE tilnefnd til tékknesku Grammy verðlaunanna sem besta hljómsveitin og besti nýliðinn, auk þess sem Ve tvý skříni var tilnefnd sem plata ársins. Tónlist ILLE má lýsa sem draumkenndu dægurlagapoppi en tónleikarnir hefjast 17:30 og eru ókeypis og öllum opnir.

 

Mánaðarlegur reggae, dub og dancehall viðburður RVK Soundsystem verður haldinn á Paloma. Fögnuðurinn hefst upp úr miðnætti og stendur fram á nótt og það er ókeypis inn.

 

Hljómsveitin My bubba heldur útgáfutónleika fyrir plötuna Goes Abroader í Hannesarholti (Grundarstíg 10) en um upphitun sér Snorri Helgason. My bubba er skipuð hinni sænsku My og hinni íslensku Bubbu og var stofnuð fyrir 5 árum í Kaupmannahöfn þegar þær hittust fyrir helbera tilviljun. Þær hafa komið fram á Iceland Airwaves, Hróarskelduhátíðinni og hitað upp fyrir listamenn á borð við Matthew E. White og Nina Persson. Tónleikarnir hefjast kl. 20:00 og aðgangseyrir er 2500 krónur.

 

Janel Leppin & Anthony Pirog eru rísandi stjörnur í tilraunatónlistargeira höfuðstaðs Bandaríkjanna en þeir munu koma fram á hljómleikum í Mengi. Anthony er fjölhæfur gítarleikari & Janel er klassískt menntaður sellóleikari sem hefur kafað sér ofan í klassíska persneska tónlist, spunatónlist og djass. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Laugardagur 17. maí

 

Það verður heljarinnar hip hop veisla á Húrra(gamla Harlem) en Cell7 kemur fram ásamt live bandi sem er skipað þeim Andra Ólafssyni, Magnúsi Trygvasyni Elissaen og Steingrími Teague. Blackfist mætir með nýtt efni beint frá Stockholm Sverige og Cheddy Carter er nýtt íslenskt hip-hop band sem inniheldur IMMO, Charlie Marlowe og pródúserinn Fonetik Simbol. Þá kemur goðsagnakennda rappsveitin Subterranean fram með upprunalegum meðlimum í fyrsta skipti síðan 1998. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og hægt er að kaupa miða hér.

 

Aðrir tónleikar með tilraunalistamönnunum Janel Leppin & Anthony Pirog verða í Mengi. Tónleikarnir hefjast eins og hinir fyrri klukkan 21:00 og aðgangeyrir er 2000 krónur.

Fleiri listamenn tilkynntir á Airwaves

Skipuleggjendur Iceland Airwaves tilkynntu í dag fleiri listamenn sem koma fram á hátíðinni í ár en alls verða þeir um 200. Hátíðin verður haldin í sextánda sinn í ár, dagana 5. til 9. nóvember, og er undirbúningur í fullum gangi. Miðasalan er hafin á heimasíðu Iceland Airwaves og nú hefur einnig  verið opnað fyrir umsóknir og geta íslenskar hljómsveitir nú sótt um á heimasíðu háíðarinnar.

Þeir listamenn sem nú bætast við dagskrána eru:
FM Belfast
Son Lux (US)
Kwabs (UK)
Árstíðir
Lay Low
Agent Fresco
kimono
Rachel Sermanni (SCO)
Ezra Furman (US)
Jessy Lanza (CA)
Phox (US)
Benny Crespo’s Gang
Kiriyama Family
Íkorni
Strigaskór nr 42
Odonis Odonis (CA)
Tremoro Tarantura (NO)
In the Company of Men
Júníus Meyvant
Elín Helena
HaZar
Krakkkbot
Reptilicus
Stereo Hypnosis
Ambátt
CeaseTone
Reykjavíkurdætur
DADA
Döpur
Inferno 5

Þeir bætast í hóp fjölda listamanna sem áður hafa verið tilkynntir eins og Flaming Lips, The War on Drugs, Caribou, Samaris, Unknown Mortal Orchestra, Future Islands, Jungle, Klangkarussell, La Femme, Mammút, East India Youth, Jaakko Eino Kalevi, Ballet School, Tomas Barfod, The Vintage Caravan og Vök.

Phédre á Sumarfögnuði Straums í kvöld

Í kvöld munum við í Straumi bjóða lesendum og hlustendum okkar til veislu og hljómleika til að fagna rísandi sól og blússandi sumri. Fögnuðurinn fer fram á Kex Hostel og fram koma kanadíska indíhljómsveitin Phédre, samlandi þeirra Ken Park og íslenska lo-fi bandið Nolo. Tónleikarnir eru haldnir í samstarfi við Joe & The Juice, Kexland og S.U.M.A.R. og hefjast stundvíslega klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

 

Phédre gáfu út sína fyrstu breiðskífu sem er samnefnd sveitinni árið 2012, þar sem þau bræddu saman draumapopp, diskó, póst punk og hip hop í bragðmikla partýsúpu. Við í Straumi völdum lagið In Decay af þeirri skífu sem lag ársins 2012 og lýstum því svo: „Hér er því sem smáborgarar kalla „lægstu hvatir“ fagnað og kjarni lagsins er ósnertur af kristnu siðgæði og músíkölskum mínímalisma. Úrkynjunin drýpur af hverju einasta orði og nótu og það er ekki hægt annað en að hrífast með og leggjast á hnén og tilbiðja gleðskapargyðjuna.“

Einnig kemur fram Ken Park sem er hliðarverkefni eins meðlima Phédre og reykvíska rafsveitin Nolo mun frumflytja nýtt efni, en hún hefur lengi hefur verið í uppáhaldi hjá ritstjórn Straums. Áður en tónleikarnir hefjast eða klukkan 18:00 verður S.U.M.A.R. pop-up matarmarkaður Þar sem matargemlingar verða með sturlaða rétti frá öllum heimshornum á heiðarlegu verði, en helmingur innkomunnar fer í að styrkja Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur.

Á síðasta ári kom síðan út hin feikifína önnur breiðskífa Phédre, Golden Age, og hér má sjá myndband við lagið Sunday Somday. Sjáumst í kvöld!

Tónleikahelgin 30. apríl-3. maí

Miðvikudagur 30. apríl

Willy Mason kemur fram á Mengi. Mason er bandarískur tónlistarmaður sem hefur sinnt því starfi sínu meðfram plötuútgáfu og tónleikahaldi síðastliðin 12 ár. Hann hefur starfað með tónlistarmönnum líkt og Chemical Brothers, Lianne La Havas, Isobel Campbell og Mark Lanegan og túrað með Radiohead, Mumford and Sons og fleirum. Á þessum fyrstu tónleikum sínum á Íslandi nýtur Willy fulltingis tónlistarkvennanna Emilíönu Torrini og Mara Carlyle. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

Hljómsveitirnar Ottoman og Dorian Gray spila á Dillon. Leikar hefjast á slaginu 22:30 og það er ókeypis inn.

Fimmtudagur  1. maí

Amiina spila í Mengi við Óðinsgötu. Aðgangseyrir er 2000 krónur og tónleikarnir hefjast klukkan 21:00

Laugardagur 3. maí

Sumarfögnuður Straums, síðunnar sem þú ert að lesa, verður haldinn á Kex Hostel. Kanadíska indíbandið Phédre kemur fram ásamt samlöndum sínum Ken Park og íslensku hljómsveitinni Nolo. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er ókeypis inn og við hvetjum að sjálfsögðu alla lesendur til að mæta og fagna með okkur.

Lay Low spilar á Rosenberg og byrjar að spila 21:30. Aðgangseyrir er 1900 krónur.

Eve Fanfest fer fram í Hörpu. Á tónleikum um kvöldið í Silfurbergi koma fram Ásgeir Trausti, FM Belfast og Z-Trip. Dagskráin hefst klukkan 20:00 og miðaverð er 2990 krónur.

Disclosure á Secret Solstice

Núna rétt í þessu var verið að tilkynna að breski rafbræðradúettinn Disclosure verði á meðal listamanna sem spila á Secret Solstice hátíðinni sem haldin verður í Laugardaglnum 20.-22. júní í sumar. Disclosure náðu feikna vinsældum á síðasta ári með plötu sinni Settle, en við í Straumi völdum hana næstbestu plötu ársins. Einnig var tilkynnt um komu hins virta velska plötusnúðs Jamie Jones á hátíðina en meðal annarra sem koma fram eru Massive Attack, Schoolboy Q, Skream og Ben Pearce.

 

Tónleikahelgin páskana 16.-20 apríl

Miðvikudagur 16. apríl

 

Blúshátíð í Reykjavík er í blússandi gangi en í kvöld koma fram Victor Wainwright og félagar á Hótel Nordica. Victor er ein skærasta stjarnan í blúsheiminum um þessar mundir og var m.a. sæmdur hinum virtu „Pinetop Perkins Piano Player of the Year“ verðlaunum á síðasta ári. Hann kemur fram með gítarleikaranum Nick Black en Blússveit Jonna Ólafs, Spottarnir hans Eggerts feldskera og Johnny and the rest koma einning fram í kvöld. Aðgangseyrir er 4490 krónur og tónleikarnir hefjast klukkan 20:00.

 

Hljómsveitin Mosi kemur fram á Dillon og byrjar að spila 22:30 en aðgangur er ókeypis.

 

Hjaltalín koma fram í Eldborgarsal Hörpu en á þá gleði er því miður uppselt.

 

Fimmtudagur 17. apríl

 

Skattheimta Reglu hins öfuga pýramída fer fram á Paloma. Fram koma Low Roar, Kælan Mikla, Knife Fights og Godchilla. Sérstakir gestir verða Fríyrkjan og ballið byrjar kl 21:00 að viðurlögðum 1000 krónu inngönguskatti.

 

Spunameistararnir Hilmar Jensson og Borgar Magnason leiða saman hesta sína á tónleikum í Mengi og leika verkið „5 senur fyrir gítar og kontrabassa“. Aðgangseyrir er 2000 krónur og tónleikarnir hefjast klukkan 21:00.

 

Blúshátíð heldur áfram á Hotel Nordica en þar munu Egill Ólafsson og gamlir félagar úr Þursaflokknum koma á óvart með blúsuðum Þursalögum. Vinir Dóra 25 eiga svo 25 ára afmælis og munu því verða í sparifötunum og spila alla sína bestu blúsa ásamt blúsdrottningunni Andreu Gylfadóttur og fleiri góðum gestum. Aðgangseyrir er 4490 og tónleikarnir hefjast 20:00.

 

Slor (Ný sveit úr iðjum hljósmveitarinnar Tundra) og Black Desert Sun (ný sveit sem spilar öfga stoner-rokk) koma fram á Dillon. Hefst 22:00 og ókeypis inn.

 

Föstudagur 18. apríl

 

Útgáfan Lady boy Records stendur fyrir tónleikum á Paloma. Fram koma AMFJ, Harry Knuckles, Krakkbot, THIZONE, Nicolas Kunisz, X.O.C., Gravediggers, (/Apacitated) og Sindri Vortex. Forsvarsmenn útgáfunnar munu svo þeyta skífum inn í nóttina að tónleikunum loknum.

 

Dodda Maggý sýnir og flytur ný og eldri verk í Mengi, en sum þeirra hafa ekki verið flutt áður opinberlega á Íslandi. Hún hefur unnið mikið með tónlist í myndlistarsamhengi en sjaldan tekið þátt í lifandi gjörningum en mun nota tækifærið og opna á nýjar gáttir í Mengi. Leikurinn hefst 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Megas heldur áfram yfirferð sinni á passíusálmum Hallgríms Péturssonar en rokkið tekur völdin í lokakaflanum. Síðustu sautján sálmana syngja sem fyrr þau Megas og Magga Stína og nú er það Píslarsveitin, stór rokkhljómsveit skipuð einvala liði tónlistarmanna ásamt strengjakvartett, sem slær botninn í píslarsöguna. Söngfjelagið, 60 manna kór sem Hilmar Örn stjórnar, syngur nýjar útsetningar valinna tónsetjara svo búast má við afar kraftmiklum og fjölbreyttum hátíðartónleikum á föstudaginn langa. Tónleikarnir hefjast 15:00 og aðgangseyrir er 3900 krónur.

 

Laugardagur 19. apríl

 

Hin feikihressa elektrósveit Sykur kemur fram á Dillon. Þau hefja leik 22:00 og aðgangseyrir er 500 krónur.

 

Unnur Sara Eldjárn ætlar að flytja frumsamið efni ásamt sínum uppáhaldslögum eftir aðra á tónleikum í Mengi. Á þessum tónleikum mun hún notast við eigin rödd og gítarundirleik en lögunum hennar mætti lýsa sem draumkenndri popptónlist undir áhrifum frá jazz og þjóðlagatónlist. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

Beðið eftir tUnE-yArDs

Lagið Wait For A Minute með tónlistarkonunni tUnE-yArDs var rétt í þessu sleppt á internetið en það er önnur smáskífan af breiðskífunni Nikki Nack sem kemur út 5. maí á vegum 4AD útgáfunnar. Lagið fylgir í kjölfarið á hinu frábæra Water Fountain sem kom fyrir um mánuði síðan. Nikki Nack er þriðja breiðskífa tUnE-yArDs en önnur plata hennar, Whokill, skoraði hátt á árslistum flestra gagnrýnenda þegar hún kom út árið 2011. Sama ár sótti hún Ísland heim á Iceland Airwaves hátíðina og lék á frábærum tónleikum fyrir stappfullum Nasa salnum. Þessi fyrstu lög sem heyrast af nýju plötunni sverja sig í ætt við fyrri verk tónlistarkonunnar, en hljóðheimurinn er þó ögn stafrænni og slípaðri en áður. Hlustið á Wait For A Minute og Water Fountain hér fyrir neðan.

Tónleikahelgin 3.-5. apríl

 

Fimmtudagur 3. apríl

 

Mono Town fagnar útgáfu frumburðar síns „In The Eye Of The Storm“ með veglegum tónleikum í Gamla Bíói. Sveitin mun koma fram með strengjasveit og kór en tónlistarmaðurinn Júníus Meyvant hitar upp. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og aðgangseyrir er 2900 krónur.

 

Bergur Thomas Anderson kemur fram á tónleikum í Mengi við Óðinsgötu. Bergur hefur getið sér gott orð sem bassaleikari með sveitum eins og Grísalappalísu, Oyama og Sudden Weather Change en hann hefur ekki komið fram einn síns liðs í þónokkurn tíma. Hann sækir efnivið í minningar, draumaóra, frjálsan spuna og einkennist flutningurinn af samtali sem stöðugt er í þróun. Gestum er því boðið í ský sem vex um sig og hverfur þegar á er litið. Aðgangseyrir er 2000 krónur og tónleikarnir hefjast klukkan 21:00.

 

Í Grafarvogskirkju verður fyrsta kvöldið af þremur þar sem Megas flytur lög sín við Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Með Megasi verður einvalalið tónlistarfólks úr ýmsum áttum; Moses Hightower, CAPUT-hópurinn, Magga Stína, stór rokksveit, strengjasveit og þrír kórar. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og aðgangseyrir er 3.900 krónur.

 

Hemúllinn stundar samfélagsrýni af hörðust sort á Dillon í tilefni af því að aprílmánuður er nýhafinn. Stungið verður á kýlum og landlæg spilling upprætt með tölvupönki. Herlegheitin hefjast klukkan 22:00 og aðgangur er ókeypis.

 

Föstudagur 4. apríl

 

Rappkonukvöld verður haldið á Harlem en þar munu Reykjavíkurdætur koma fram í sameiningu og frumflytja nýtt lag. Þá munu meðlimir þeirra einnig flytja eigið efni, sóló og í pörum, en Sunna Ben þeytir skífum á milli atriða. Kvöldið hefst klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

 

Soizic Lebrat kemur fram í mengi og flytur verk sitt Blue Solo. Lebrat er franskur sellóleikari sem hefur leikið ‘Bleu Solo’ verkið á fjölda listahátíða frá því hún frumflutti það á Nexmap – Binary City hátíðinni í San Francisco listahátíðinni 2010. Flutningurinn hefst klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Skúli mennski ætlar að mæta örlögum sínum á Café Rosenberg. Með honum verða góðir menn og óhætt að segja að enginn verði illa svikinn af því að mæta og leggja við hlustir. Hefst klukkan 22:00.

 

Eyðimerkurrokkararnir í Brain Police koma fram á tónleikum á Dillon. Leikar hefjast 22:00 og 500 krónur veita aðgang að þeim.

 

Elín Helena og Muck koma fram á Bar 11. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.

 

Laugardagur 5. apríl

 

Úrslitakvöld Músíktilrauna fer fram í Norðurljósasal Hörpu. Viðburðurinn hefst klukkan 17:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur.

 

DÓH tríóið kemur fram í Mengi við Óðinsgötu. Það er samansett af Helga Rúnari Heiðarssyni á saxófón, Daníel Helgasyni á gítar og Óskari Kjartanssyni á trommur sem allir er nýútskrifaðir úr Tónlistaskóla FÍH. Hljómsveitin hefur fengið mikið lof fyrir tónleika sína þar sem mikið er lagt uppúr dínamík, allt frá hvíslandi tónum upp í orkumikla spennu. Tríóið leikur lög úr ýmsum áttum, m.a. frumsamið efni þar sem spilagleði og spuni fær að njóta sín. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Það verða þungarokkstónleikar á Gauk á Stöng en fram koma Momentum, Angist, Malignant Mist og Future Figment. Þetta hefst klukkan 22:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur.

Þeir Pétur Ben og Rúnar Þórisson koma fram á tónleikum á Bar 11 ásamt gestum. Tónleikarnir hefjast klukkan 23:00 og það er ókeypis inn.