Phédre á Sumarfögnuði Straums í kvöld

Í kvöld munum við í Straumi bjóða lesendum og hlustendum okkar til veislu og hljómleika til að fagna rísandi sól og blússandi sumri. Fögnuðurinn fer fram á Kex Hostel og fram koma kanadíska indíhljómsveitin Phédre, samlandi þeirra Ken Park og íslenska lo-fi bandið Nolo. Tónleikarnir eru haldnir í samstarfi við Joe & The Juice, Kexland og S.U.M.A.R. og hefjast stundvíslega klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

 

Phédre gáfu út sína fyrstu breiðskífu sem er samnefnd sveitinni árið 2012, þar sem þau bræddu saman draumapopp, diskó, póst punk og hip hop í bragðmikla partýsúpu. Við í Straumi völdum lagið In Decay af þeirri skífu sem lag ársins 2012 og lýstum því svo: „Hér er því sem smáborgarar kalla „lægstu hvatir“ fagnað og kjarni lagsins er ósnertur af kristnu siðgæði og músíkölskum mínímalisma. Úrkynjunin drýpur af hverju einasta orði og nótu og það er ekki hægt annað en að hrífast með og leggjast á hnén og tilbiðja gleðskapargyðjuna.“

Einnig kemur fram Ken Park sem er hliðarverkefni eins meðlima Phédre og reykvíska rafsveitin Nolo mun frumflytja nýtt efni, en hún hefur lengi hefur verið í uppáhaldi hjá ritstjórn Straums. Áður en tónleikarnir hefjast eða klukkan 18:00 verður S.U.M.A.R. pop-up matarmarkaður Þar sem matargemlingar verða með sturlaða rétti frá öllum heimshornum á heiðarlegu verði, en helmingur innkomunnar fer í að styrkja Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur.

Á síðasta ári kom síðan út hin feikifína önnur breiðskífa Phédre, Golden Age, og hér má sjá myndband við lagið Sunday Somday. Sjáumst í kvöld!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *