Tónleikar vikunnar 28. maí-1. júní

Miðvikudagur 28. maí

 

Himnaför Jesú Krists verður fagnað af krafti á skemmtistaðnum Húrra þar sem hljómsveitin Grísalappalísa mun pönka til að danss en sveitin ætlar að flytja lög af væntanlegri plötu sinni, Rökréttu Framhaldi, sem kemur út 17. júní. Sveitin sendi frá sér tónlistarmyndband við lagið ABC í síðustu viku en það hefur farið sem eldur um sinu netheima. Lísu til halds og traust verða tvær af fremstu rokksveitum borgarinnar, hinir háværu og hættulegu Pink Street Boys og Kælan Mikla mun leika sinn kynngimagnaða ljóðapönksseið einsog þeim er einum lagið. Þar sem dagurinn eftir er uppstigningadagur þarf bærinn ekki að loka fyrr en miðja nótt og mun Óli Dóri því trylla lýðinn eftir rokkveisluna miklu. Það er frítt inn í veisluna og tónleikarnir hefjast klukkan 22:00.

 

Tónlistarkonan Jenn Kelly sem er frá Oakland í Kaliforníu kemur fram á tónleikum á Dillon. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.

 

Fimmtudagur 29. maí

 

Hljómsveitin Mosi Music leikur fyrir gesti Loft Hostel. Hljómsveitin leikur blöndu af raf- og lífrænni tónlist og tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

 

Föstudagur 30. maí

 

Tónlistarmaðurinn KRAKKBOT heldur útgáfutónleika á Húrra fyrir plötuna Amateur of the Year – Crammed with Cock, sem kemur út á kassettu á vegum Lady Boy Records útgáfunnar. Ásamt honum koma fram hljómsveitirnar dj flugvél og geimskip og Pyrodulia. Gleðin hefst stundvíslega klukkan 22:00 og aðgangseyrir er 500 krónur.

 

Kippi Kanínus leikur á hljómleikum í Mengi í samstarfi við Listahátíð Reykjavíkur. Kippi Kaninus er annað sjálf listamannsins Guðmundar Vignis Karlssonar. Sú var tíð að hann starfaði einn undir því nafni en nú er svo komið að Kippi Kaninus er hljómsveit sem telur sjö meðlimi. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Hljómsveitin Kvika kemur fram á Dillon, hefst 22:00 og aðgangur ókeypis.

 

Laugardagur 31. maí

 

Bandaríski tónlistarmaðurinn Arto Lindsay kemur fram í Mengi á vegum Listahátíðar Reykjavíkur. Lindsay var einn af lykilmönnum í hinni svokölluðu „no wave“ stefnu sem lét á sér kræla í New York borg í kjölfar pönksins. Á tónleikunum mun Arto Lindsay flytja eigið efni sem er nokkurs konar blanda af tilraunakenndum gítarspuna í sambland við viðkvæmari og munaðarfulla tóna ættaða frá Brasilíu. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 5000 krónur.

 

Söngkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir og Bjarni M. Sigurðarson leiða saman hesta sína á tónleikum á Dillon en dúettinn vinnur að plötu sem er væntanleg á þessu ári. Tónleikarnir hefjast 22:00 og aðgangseyrir er 500 krónur.

 

Sunnudagur 1. júní

 

Arto Lindsay kemur aftur fram í Mengi, en á þessum seinni tónleikum mun hann spinna tónlist í félagi við íslenska spunatónlistarmenn. Hver útkoman verður er ómögulegt að segja til um en víst er að það verður áhugavert enda ekki á hverjum degi sem að listamaður sem haft jafn djúpstæð áhrif menningarlíf heillar kynslóðar kemur fram á Íslandi.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *