Plöturýni: Aphex Twin – Syro

Síðast liðin tvö ár hafa verið ár hinna stóru kombakka; Daft Punk, David Bowie, Boards of Canada, Mazzy Star, The Knife og My Bloody Valentine hafa gefið út plötur eftir margra ára eða jafnvel áratuga þögn. Það liggur því beint við að meistari hinnar svonefndu gáfumannaraftónlistar(IDM), Richard D. James eða Aphex Twin, bætist í þennan fríða flokk með sinni fyrstu alvöru breiðskífu síðan Drukqs kom út árið 2001. Hann var gríðarlega afkastamikill á 10. áratugnum og jafnfær á undurfallegar melódíur og tryllingslegar taktpælingar og óhljóðalist.

 

Á Syro er það melódíska hlið Aphex Twin sem skín í gegn þrátt fyrir að fagurfræði plötunnar myndi seint teljast hefðbundin. Í upphafslaginu minipops 67, sem var jafnframt fyrsta smáskífan, má heyra níðþungan og margbrotinn takt í bland við draugalegar raddir, bjagaða píanóhljóma og ægifögur synþahljóð í súpu sem gæti ekki hafa verið framreidd af neinum öðrum en séní-inu sjálfu. Það er eins og Alberto Balsam, Windowlicker og Iz-Uz í hárréttum hlutföllum.

Aphex hristir fram úr erminni ofgnótt af melódíum á plötunni; laglínur og stef sem ómerkilegri listamenn hefðu byggt heilu lögin á, treður hann fimm eða sex fyrir í einu og sama laginu. Oft eru undir-, mið- og yfirmelódíur í gangi á sama tíma. Bassa-, milli- og hátíðnirnar dansa hringi í kringum hvor aðra og nótur og taktslög skoppa hvert af öðru. Tempóin á plötunni ná alveg frá hægu hip hop-i yfir í æsilegt drum ‘n’ bass og það eru alltaf flöktandi varíasjónir í taktinum og óvænt slög, nokkurs konar spunakennd djazz-nálgun á trommuforritun.

 

produk 29 [101] er hægfljótandi ambíent hip hop sem minnir talsvert á skosku lærisvæna hans í Boards of Canada nema bara flóknara og kaflaskiptara. Um miðbik plötunnar í CIRCLONT6A eykur hann svo tempóið upp í ríflega 140 slög á mínútu í lagi sem tekst að vera melankólískt og gáskafullt á sama tíma en fyrst og fremst á stöðugri hreyfingu. Það svo yfirfullt af laglínum, taktbreytingum og hljóðum að ég þurfti að hlusta á það strax aftur til reyna að inntaka herlegheitin. Í því má meðal annars heyra bjagaðar satanískar raddir og synþasánd sem hljómar eins og ég myndi ímynda mér vélmenni að prumpa.

Í titillaginu er svo sóðalega fönkí synþi sem hljómar eins og bassalína úr Rick James lagi síuð í gegnum óteljandi vélar úr hljóðveri Aphex. s950tx16wasr10 er feikihratt drum’n’bass stykki þar sem hann grípur traustataki gamla góða Amen-bítið og teygir það og beygir í allar mögulegar áttir. Hann róar hlustendur svo niður í síðasta laginu sem er lágstemmt nýklassískt verk í anda Philip Glass, gullfallegt mínímalískt píanómótíf við undirleik fuglasöngs.

 

Það er einhver léttleikandi galsi og gredda sem svífur yfir vötnum skífunnar, maður fær á tilfinninguna að Aphex njóti þess fram í fingurgómana að snúa aftur úr þessari sjálfskipuðu útlegð sinni. Yfir plötunni gnæfir andlit Richard D. James, glottandi út að eyrum eins og prakkarinn sem hann er, segjandi með svipnum: „Hana, ég á lager af þessu stöffi, verið bara ánægð með það sem ég hendi í ykkur“.

Tónlistin á plötunni hefði ekki getað komið frá neinum öðrum en Aphex Twin og er í þeim skilningi engin róttæk stílbreyting frá hans fyrra efni heldur meira útpæld eiming á aðgengilegri hluta fyrri verka hans. En þegar stíllinn er það róttækur og einstakur að engum hefur tekist að herma eftir honum væri kannski það eina róttæka sem Richard D. James gæti gert í þessari stöðu að gera venjulega tónlist. Það vill enginn og ég bið Aphex Twin velkominn aftur. Það er gott að koma heim til pabba.

9/10

Davíð Roach Gunnarsson

Ný Smáskífa frá Kendrick Lamar

Rapparinn Kendrick Lamar sendi í dag frá sér fyrstu smáskífuna af væntanlegri breiðskífu, lag sem heitir einfaldlega i. Rapphundar um heim allan bíða með mikilli eftirvæntingu eftir enn ónefndri plötu Lamar en plata hans good kid, m.A.A.d city var ofarlega á listum helstu tímarita yfir bestu plötur ársins 2012. Hlustið á lagið i hér fyrir neðan.

Tónleikahelgin 18.-20. september

Fimtudagur 18 september

Intro Beats spilar á tónleikum fönkþáttarins á Boston. Tónleikarnir hefjast 22:00 og frítt er inn.

 

Hljómsveitirnar Hinemoa, Kvika og Rósa frænka halda tónleika á húrra. Fjörið hefst 21:00 og aðgangseyrir er litlar 500 krónur.

 

Ólafur Arnalds spilar í Norðurljósasal Hörpu. Aðgangseyrir er 3900 krónur og Ólafur hefur leik 20:30.

 

Josephine Foster og Gyða Valtýsdóttir munu spila saman dúett í Mengi. Aðgangseyrir er 2000 krónur og tónleikarnir hefjast 21:00.

 

Tónleikar til heiðurs Jeff Buckley verða haldnir á Gauknum. Einvalalið hljóðfæraleika og söngvara mun flytja plötuna Grace í heild sinni en miðverð er 2500 krónur í forsölu og 3000 við hurð. Tónleikarnir byrja 21:00.

 

Föstudagur 19. september

 

Breska reggípoppsveitin UB40 spilar á tónleikum í Eldborgarsal Hörpu. Örfáir miðar eru eftir á tónleikana en miðaverð er frá 8900 til 14500 eftir sætum.

 

Hljómsveitin Plastic Gods kemur fram á Húrra og mun spila drun/noise sett sem unnið er saman úr þeim heimi druns sem bandið þekkir ásamt raftónlistar-áhrifum. Einnig koma fram tónlistarmennirnir AMFJ, Döpur og Ultra Orthodox. Hávaðinn byrjar 22:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur.

 

Raftónlistarmennirnir Futuregrapher, dj. flugvél og geimskip og chris sea munu leiða saman hesta sína á hljómleikum í Mengi. Veislan hefst 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Hljómsveitin Alchemia spilar á Dillon og hefur leik 23:00 og það er ókeypis inn.

 

Laugardagur 20. september

 

FM Belfast munu trylla allan viðstaddan lýð á Húrra. Tryllingurinn hefst upp úr 22:00 og 2000 krónur veita aðgang að honum.

 

Boogie Trouble heldur tónleika með miklum elegans á Kex Hostel. Aðgangur er með öllu ókeypis og dansinn byrjar að duna 21:00.

 

Tónlistarmennirnir Snorri Helgason og Magnús Trygvason Eliassen leiða saman hesta sína á tónleikum í Mengi. Þeir hefja leik 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Svokallað Jack Live kvöld verður haldið á Gauknum en fram koma Kontinuum, Caterpillarmen ,Godchilla, Future Figment og Ottóman. Húsið opnar 21:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur.

Airwaves dagsrkáin kynnt

Nú rétt í þessu var full dagskrá fyrir Iceland Airwaves hátíðina kynnt en hana má nálgast með því að smella hér. Hátíðin er haldin í 16. skipti í ár og fer fram dagana 5.-9. nóvember en um 220 sveitir munu koma fram, þar af 67 erlendar. Þar má nefna sveitir eins og Flaming Lips, The Knife, The War on Drugs, Caribou, Samaris, Unknown Mortal Orchestra, Future Islands, Anna Calvi, How To Dress Well, Sin Fang, Hozier, Sóley, FM Belfast, Jungle, Klangkarussell, La Femme, Mammút, Kelela, Radical Face, Mugison, Eskmo, Valdimar, East India Youth, Árstíðir, Jaakko Eino Kalevi, Prins Póló, Agent Fresco, Ballet School, Ezra Furman, Lay Low, Kwabs, Son Lux, Tomas Barfod, The Vintage Caravan og Vök.

Tónleikar helgarinnar 4.-6. september

Fimmtudagur 4. september

 

Óregla og Bangoura Bandið koma fram á Gauknum. Tónleikarnir hefjast 22:00 og 1000 krónur veita aðgang að gleðinni.

 

Föstudagur 5. september

 

GusGus efna til útgáfutónleika fyrir nýjustu breiðskífu sína, Mexico, í Listasafni Reykjavíkur. Mexico kom út í vor og hefur hlotið prýðisdóma víðast hvar og er ein besta íslenska plata þess sem liðið er af árinu að mati Straums. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 5000 krónur.

 

Hljómsveitin Hjaltalín sem samið hefur tónlist við kvikmyndina Days of Gray munu flytja tónlist sína live undir sýningu myndarinnar í Kaldalónssal Hörpu. Kvikmyndatónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 3900 krónur.

 

Kría Brekkan spilar á tónleikum í Mengi. Kría Brekkan er Kristín Anna Valtýsdóttir; tónlistarkona, gjörningarlistamaður, lambaljósmóðir, stjörnuspekingur, myndlistar-og handverkskona, hænsna- og bílabóndi, hugmyndaarkítekt og áhugamanneskja um tengsl manneskjunnar við stokka, steina, sólkerfið sjálft, segulsvið þess og aðdráttarafl alls hvort heldur sem er eður ei. Hún mun leika og syngja frumsamin píanólög og tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Dimma og Nykur efna til þungarokksveislu á Gauknum sem hefst 22:00 og það kostar 1500 krónur inn.

 

Laugardagur 6. september

 

Uni Stefson og Young Karin leiða saman hesta sína á Kex Hostel. Uni Stefson er sólóverkefni Unnsteins Manuels Stefánssonar, söngvara Retro Stefson. Young Karin er samstarfsverkefni Loga Pedro og Karin Sveinsdóttur og kom sú sveit fyrst fram á sjónarsviðið undir nafninu Highlands árið 2013. Logi er eins margir vita bróðir Unnsteins og einnig meðlimur í Retro Stefson. Tónlist Uni Stefson og Young Karin er á margan hátt settlegri og jafnvel dramatískari en hljómsveit þeirra bræðra. Fyrsta smáskífa Uni Stefson leit dagsins ljós fyrir skömmu og heitir „Engin Grætur“ og var samin fyrr á árinu af Unnsteini í Berlín. Það fyrsta sem heyrðist frá Young Karin var smáskífan „Hearts“ og spannar hljóðheimur þeirra allt frá hip hop til listræns rafpopps.Tónleikarnir hefjast á slaginu 21:00 og það er ókeypis inn.

 

Rappkvennaherinn Reykjavíkurdætur kemur fram á Dillon en tónleikarnir hefjast stundvíslega 23:00 og það kostar 500 kall inn.

 

Tónlistarmaðurinn Loji kemur fram í Mengi. Loji er frá Reykjavík og spilar einnig tónlist undir eigin nafni. Hann hefur spilað með tveimur vinum sínum þeim Grím & Jóni síðan 2013 og saman spila þeir draumkennda popptónlist um lífið, vini og alheiminn. Tónleikarnir byrja 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

Nýtt lag með Aphex Twin

Fyrsta lagið af nýjustu plötu Aphex Twin sem er beðið með mikilli eftirvæntingu um allan heim var að detta á netið. Lagið ber hinn þjála titil Minipops 67 [120.2][Source Field Mix] og er löðrandi í fingraförum rafmeistarans sem hefur greinilega engu gleymt. Aphex Twin gaf út síðustu breiðskífu sína, Drukqs, árið 2001 þannig að aðdáendur eru orðnir langeygðir eftir Syro sem kemur út þann 23. september. Minipops 67 er með níðþungum og brotnum takti í bland við draugalegar raddið og bjagaða píanóhljóma og hefði ekki getað komið frá neinum öðrum en sjení-inu sjálfu. Hlustið á lagið hér fyrir neðan.

Tónleikar helgarinnar – Menningarnótt

Föstudagur 22. ágúst
Cosmic Berry og RÊVE koma fram á tónleikum á Mengi. Cosmic Berry er frá París og syngur og spilar rafmagnaða og órafmagnaða tónlist með lykkjum og töktum. Lög hennar byggja upp hljóðheim sem kannar hógværar kenndir og litlar agnir úr daglegu lífi. RÊVE  blandar órafmögnuðum einingum, sambærilegum hljóðum og afskræmingum til að skapa fínofna draumaheima sem lenda í óveðri. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Það er Sci-Fe Metal Doom kvöld á Dillon og hljómsveitirnar Ring of Gyges og Slor koma fram. Byrjar 22:00 og ókeypis inn.

 

Laugardagur 23. ágúst – Menningarnótt

 

Vegna Menningarnætur og óheyrilegs fjölda tónleika um daginn og kvöldið munum við einungis stikla á því stærsta af þeim tónleikum sem við erum hvað spenntastir fyrir. Áhugasamir geta nálgast dagskrá yfir alla tónleika dagsins hér, með því að velja flokkinn tónlist. Það er ókeypis inn á allt hér fyrir neðan, nema við tökum annað sérstaklega fram.

 

Helgi Valur, Jón Þór, MC Bjór og Bland og Boogie Trouble koma fram í þessari röð í garðinum við Ingólfsstræti 21a. Helgi Valur hefur leik klukkan 14:30 en tónleikarnir standa yfir til 17:00. Einnig verður boðið upp á vöfflur og kaffi

 

Á Hólmaslóð 2 út á Granda verður mikil tón- og myndlistarveisla þar sem tónlistarmennirnir sem eru með æfingaraðstöðu í húsinu koma fram. Þeir eru eftirfarandi: DEEP PEAK, Grísalappalísa, Útidúr, Just Another Snake Cult, Knife Fights, Kælan Mikla, Lord Pusswhip feat. Countess Malaise , MARKÚS & THE DIVERSION SESSIONS, Nolo, Skelkur í bringu, Wesen, Benson Is Fantastic, DJ Lamp Vader, it is magic. Lifandi tónlist, einstakar uppákomur, stór myndlistarsýning í öllum rýmum og veitingasala verður opin frá 14:00 og frameftir kvöldi. Fjöldi listamanna af yngri kynslóðinni sýna verk sín og koma fram, en þátttakendur hátíðarinnar hafa það sameiginlegt að hafa starfrækt iðju sína á svæðinu undanfarin ár.

 

FALK (Félag Allskonar Lista-manna & -Kvenna) býður á Menningarnótt upp á sjónhljóðræna veislu á Vitatorgi (horni Hverfisgötu og Vitastígs). Dagskráin er eftirfarandi:

17.00 Siggi Ámundar Gjörningur

17:30 AMFJ Hljóðverk

18:00 Blaldur Ultra Truth Gjörningur

18:30 Þóranna Trouble Hljóðverk

19:00 Oberdada von Brutal Hljóð/gjörningur

19:30 Kælan Mikla Hljóð/gjörningur

 

Útgáfan Möller Records stendur fyrir tónleikum á Ingólfstorgi. Rjóminn af íslensku raftónlistarfólki kemur fram undir berum himni, þar á meðal Skurken, Bistro Boy, Steve Sampling, Tanya & Marlon, Snooze Infinity, EinarIndra, Modesart og Hazar. Tónleikarnir hefjast klukkan 18:00 og standa til klukkan 23:00.

 

Goðsagnakennda sörfsveitin Brim er komin saman aftur og mun halda brjálað stuðball í Iðnó. Brim leikur ósungna og hressa sörftónlist af hreinustu gerð og gaf m.a. út plötuna “Hafmeyjur og hanastél” hjá Smekkleysu árið 1996. Ballið byrjar á miðnætti og stendur til 03:00 en sérstakur gestur í hléi er DJ. Flugvél og geimskip. Miðaverð er 2500 krónur og forsala miða er í fullum gangi á midi.is.

 

Boogie Trouble og vinir munu standa fyrir rokna balli á menningarnótt á skemmtistaðnum Húrra, og leika frumsamið efni og vel valda sparislagara fram á rauða nótt. Ballið hefst 23:30.

 

Sunnudagur 24. ágúst

 

Justin Timberlake – Alveg rosalega uppselt.

The Knife á Iceland Airwaves

Rétt í þess var tilkynnt að sænska systkinahljómsveitin The Knife muni koma fram á næstu Iceland Airwaves hátíð í nóvember næstkomandi. Þetta er í fyrsta skipti sem The Knife kemur fram á Íslandi og verða tónleikarnir auk þess þeir síðustu á Shaking The Habitual-tónleikaferðalaginu sem hófst á síðasta ári. Knife hafa verið leiðandi afl í raftónlist í rúmlega áratug og bæði samið ódauðlega poppsmelli eins og Heartbeats en líka reynt á þanmörk formsins í endalausum tilraunum á sinni síðustu plötu, Shaking The Habitual. Óheyrilegur fjöldi listamanna kemur fram á Iceland Airwaves í nóvember og má þar nefna Flaming Lips, The War on Drugs, Caribou, Samaris, Unknown Mortal Orchestra, Future Islands, , La Femme, Mamút og Kelela.

 

Horfið á myndbandið fyrir Full of Fire hér fyrir neðan.

Neutral Milk Hotel í Hörpu í kvöld

Bandaríska indísveitin Neutral Milk Hotel kemur fram í kvöld í Norðurljósasal Hörpu. Sin Fang sjá um upphitun en tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og ennþá eru lausir miðar sem hægt er að nálgast hér. Neutral Milk Hotel gáfu út hina goðsagnakenndu plötu In The Aeroplane Over the Sea árið 1998 og lögðu upp laupanna ári síðar en komu aftur saman til tónleikahalds á síðasta ári. In The Aeroplane Over the Sea nýtur mikillar aðdáunar í kreðsum óháðra tónlistarspekúlanta og var meðal annars valin fjórða besta plata tíunda áratugarins af indíbiblíunni Pitchfork. Þá hefur sveitin haft ómæld áhrif á seinni tíma indísveitir á borð við Arcade Fire og Beirut.